Blaðamannaávarpið

Úr Wikiheimild
Blaðamannaávarpið
Ritstjórar allra helstu dagblaða á Íslandi 1906
Ávarp til Íslendinga

Vegna þess hvernig stjórnmál Íslands horfir nú við, höfum vér undirritaðir stjórnendur íslenzkra blaða komið oss saman um að veita fylgi vort og styðja að því að ákveðin verði staða Íslands gagnvart Danmerkurríki svo sem hér segir:

Ísland skal vera frjálst sambandsland við Danmörk, og skal með sambandslögum, er Ísland tekur óháðan þátt í, kveðið á um það, hver málefni Íslands hljóta eftir ástæðum landsins að vera sameiginleg mál þess og ríkisins. Í öllum öðrum málum skulu Íslendingar vera einráðir með konungi um löggjöf sína og stjórn, og verða þau mál ekki borin upp fyrir konung í ríkisráði Dana.

Á þessum grundvelli viljum vér ganga að nýjum lögum um réttarstöðu Íslands, væntanlega með ráði fyrirhugaðrar millilandanefndar.

En eins og vér álítum brýna nauðsyn þess, að blöð landsins láti nú almenning hér á landi vita það, að vér viljum allir vinna saman að því að búið verði með lögum um þannig lagaða réttarstöðu íslands, eins er það og sannfæring vor, að þeim málstað verði því greiðlegar sigurs auðið, þess eindregnara og almennara sem þjóð vor lætur í ljósi samhuga fylgi sitt við þessa meginstefnu, hvar sem kemur til hennar kasta.

Vér erum á þeim tímamótum, að eining vor út á við í þessu máli er skilyrði velferðar vorrar og þjóðarsóma; og fyrir því viljum vér skora á landsmenn að halda nú fast fram og án ágreinings þessum undirstöðu atriðum hinna væntanlegu nýju sambandslaga.

Löggjafarfulltrúar landsins hafa komið fram sem einn maður erlendis í þessu máli. Blöð Íslands og opinberar raddir almennings þurfa og eiga að koma fram á sama hátt, og vér treystum því, að þjóðin muni öll láta á sér finna, að hún vilji taka í sama streng með hverjum þeim hætti, er henni veitist færi á að lýsa yfir skoðun sinni.

Reykjavík, Bessastöðum og Akureyri, 12. nóv. 1906
Benedikt Sveinsson,
ritstjóri Ingólfs
Björn Jónsson,
ritstjóri Ísafoldar
Einar Hjörleifsson,
ritstjóri Fjallkonunnar
Hannes Þorsteinsson,
ritstjóri Þjóðólfs
Sigurður Hjörleifsson,
ritstjóri Norðurlands
Skúli Thoroddsen,
ritstjóri Þjóðviljans