Dómur Landsdóms í máli nr. 3/2011/IV

Úr Wikiheimild
Dómur Landsdóms í máli nr. 3/2011  (2012) 
Landsdómur
IV
IV

1[breyta]

Í skýrslu, sem ákærði gaf fyrir dómi í upphafi aðalmeðferðar málsins 5. mars 2012, greindi hann frá tilurð samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað, en við stofnun hópsins hafi hann gegnt embætti utanríkisráðherra. Hópnum hafi verið ætlað að vera vettvangur fyrir samskipti, en hann hafi ekki verið stjórnvald eða tekið yfir lögbundið hlutverk stjórnvaldanna sem að honum stóðu. Hópurinn hafi engar heimildir haft samkvæmt lögum og taldi ákærði að störf hans hefðu orðið ómarkvissari hefði hann haft valdheimildir. Þær hafi verið í höndum Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands, sem áttu hlut að hópnum, og hafi hvílt á þeim stofnunum og eftir atvikum forsætisráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu eða viðskiptaráðuneytinu að taka ákvarðanir ef fjármálakerfinu væri hætta búin. Ekki hafi verið sérstaklega ákveðið að hópurinn ætti að taka við fyrirmælum um viðfangsefni sín, en hann hefði væntanlega orðið við slíkum fyrirmælum ef þeim hefði verið beint til hans. Það kunni að hafa verið óheppilegt að hópnum hafi ekki verið ætlað að móta stefnu, en ekki mætti líta fram hjá því að í samkomulaginu um stofnun hópsins hafi verið tekið fram að eigendur og stjórnendur fjármálafyrirtækja ættu að leysa vandamál sín sjálfir og hafi með þessu verið lögð áhersla á að þau gætu ekki vænst þess að skattgreiðendur tækju á sig byrðar vegna vanda í bankakerfinu. Í samráðshópnum hafi verið rætt um að skort hafi á það, sem nefnt hafi verið stefna stjórnvalda, en hafi þar verið ætlast til að greint yrði frá því fyrir fram hversu miklu fé þau væru reiðubúin að verja til að bjarga bönkum þá hafi verið útilokað að taka slíka ákvörðun. Í nágrannalöndum hafi slíkt aldrei verið upplýst fyrr en á síðustu stundu og hafi verið haft hér að leiðarljósi að ekki yrði varið meira fé í því skyni en tryggt væri að myndi skila árangri. Samkvæmt samkomulaginu um stofnun samráðshópsins hafi honum ekki verið ætlað að gera viðbragðsáætlanir vegna fjármálaáfalls. Hann hafi þó í raun gengið lengra í þá átt í störfum sínum og hafi drög að slíkum áætlunum legið fyrir í byrjun október 2008. Að auki hafi hópurinn undirbúið lagafrumvörp, sem hafi komið að miklu gagni þegar á reyndi, en líklega hafi lögfræðingar á vegum Fjármálaeftirlitsins lokið vinnu að frumvarpinu, sem ákærði flutti á Alþingi 6. október 2008 og varð að lögum nr. 125/2008. Stofnunum, sem áttu hlut að hópnum, hafi ekki verið heimilt að skiptast á öllum upplýsingum sem þær bjuggu yfir, og hafi ekki komið til tals að breyta lögum til að liðka fyrir upplýsingaskiptum, enda hafi hópurinn ekki verið myndaður í þeim tilgangi. Engin leynd hafi verið yfir störfum hópsins og yrði að ætla að ráðherrar, sem áttu þar fulltrúa, hafi fengið upplýsingar um þau. Ákærði kvaðst ekki hafa haft ástæðu til efasemda um störf hópsins eftir að hann varð forsætisráðherra 15. júní 2006, en hann hafi borið fullt traust til ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins, sem hafi verið formaður í hópnum, og annarra, sem þar áttu sæti. Hann hafi enga ástæðu haft til að telja nokkuð athugavert við verkstjórn hópsins, en það hafi hann þó ekki kannað sérstaklega. Því hafi heldur ekki verið komið á framfæri við ákærða að vinna samráðshópsins væri ófullnægjandi, en að mati hans hafi hópurinn unnið gott verk. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað til þess að aðrir hópar hafi starfað á vegum stjórnvalda að viðbúnaði vegna fjármálaáfalls að öðru leyti en því að slíkur hópur hafi starfað innan Seðlabanka Íslands. Honum hafi einnig verið kunnugt um samstarf seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins um viðbúnaðaráætlanir, en hann hafi ekki gert sér grein fyrir því hvernig þessar stofnanir tengdu þetta starfi samráðshópsins. Aðspurður vegna ummæla í minnisblaði Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um fund hennar með ákærða „18. eða 19. apríl“ 2008 um „krísunefndina á vegum forsætisráðuneytis“ kvaðst hann telja hana hafa átt þar við samráðshópinn.

Ákærði kvaðst ekki hafa lesið allar fundargerðir samráðshópsins, en hann benti ítrekað á að þær væru ekki staðfestar, heldur hefðu að geyma lýsingu ritara hópsins á fundunum. Hann tók þó fram aðspurður að hann teldi ekkert í þessum fundargerðum hafa komið sér á óvart þegar hann las þær í tengslum við rekstur þessa máls. Ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu hafi á fundum með ákærða gert grein fyrir störfum hópsins þegar tilefni var til og hafi samstarf þeirra verið náið í þessu efni sem öðrum. Þeir hafi rætt saman á hverjum degi, en ekki gat ákærði upplýst nánar hvenær einstök mál, sem tengdust samráðshópnum, hafi borist í tal. Hann vefengdi ekki að hann hafi réttilega verið upplýstur um störf hópsins. Ákærði sagðist hvorki hafa átt fundi með hópnum né sérstaka fundi vegna starfa hans með þeim ráðherrum, sem þar áttu að öðru leyti fulltrúa. Hann kvaðst ekki kannast við öll skjöl, sem liggja fyrir í málinu varðandi störf hópsins. Hann hafi ekki borið sig eftir gögnum frá hópnum og heldur ekki miðlað til annarra þeim skjölum, sem hann fékk, enda hafi allir, sem áttu að hafa vitneskju um störf hópsins, átt fulltrúa þar.

Aðspurður um einstök atriði, sem koma fram í fyrirliggjandi fundargerðum samráðshópsins, kvaðst ákærði ekki hafa fengið sérstakar upplýsingar um að Ingimundur Friðriksson hafi á fundi 15. janúar 2008 kastað fram spurningu um hvernig stjórnvöld myndu bregðast við fjármálaáfalli, sem Ingimundur hafi sagst ekki lengur telja fjarstæðukenndan möguleika. Ákærði kvaðst þó muna vel eftir atburðum um þær mundir, þar á meðal að hann hafi að kvöldi sunnudagsins 13. janúar 2008 átt fund með fjármálaráðherra og bankastjóra Seðlabanka Íslands. Daginn eftir hafi þeir átt þrjá fundi með stjórnendum allra stóru bankanna til að setja sig inn í það, sem þar væri í gangi. Þannig hafi þeir viljað fá upplýsingar um stöðu Glitnis banka hf., en erfiðlega hafi gengið að fjármagna hann. Þá hafi á fundi með Kaupþingi banka hf. verið rætt um kaup hans á hollenska bankanum NIBC, en þau hafi þótt óheppileg, sem stjórnendur fyrrnefnda bankans hafi gert sér grein fyrir, og hafi þau síðan verið stöðvuð eftir öðrum leiðum. Í tengslum við þetta lét ákærði þess getið að hann hafi í febrúar 2008 rætt við fulltrúa Evrópusambandsins um aðild Íslands að samningi um viðbúnað gegn fjármálaáföllum, sem hefði aukið trúverðugleika Íslands og veitt því stuðning, en illu heilli hafi dregist að þetta samstarf kæmist á.

Um tillögur Andrew Gracie frá 29. febrúar 2008, sem fjallað var um á fundum samráðshópsins, tók ákærði fram að hann minntist þess ekki að hafa fengið þær í hendur, en hafa yrði í huga að þar væru dregnar upp sviðsmyndir og ekki gerðir spádómar. Tillögurnar hafi komið hópnum að gagni þegar á leið, enda hafi þar verið að finna atriði, sem ítrekað hafi komið til umræðu. Sum þeirra hafi verið í vinnslu, en önnur hafi verið því marki brennd að örðugt eða ómögulegt hefði verið að koma þeim í framkvæmd. Í tillögunum hafi meðal annars verið rætt um bindiskyldu, en Seðlabanki Íslands hafi breytt reglum um hana til rýmkunar fyrir bankana þannig að hún tæki ekki lengur til innstæðna í erlendum útibúum þeirra, sem ákærði taldi hafa verið rétt á þeim tíma. Þótt eftir á mætti efast um að þetta hafi verið skynsamlegt og jafnvel frekar átt að auka bindiskylduna yrði að gæta að því að slíkt hefði valdið mjög neikvæðum viðbrögðum gagnvart seðlabankanum og stangast að auki á við reglur á evrópska efnahagssvæðinu. Einnig hafi verið unnið að eflingu gjaldeyrisforða seðlabankans, en aðstæður á markaði reynst slíkar að það hafi ekki verið unnt. Þá hefði Alþingi ekki á þessum tíma fallist á að setja bönkunum skorður með lagasetningu.

Í tilefni af umræðu á fundi samráðshópsins 1. apríl 2008 um mikilvægi þess að erlendir innlánsreikningar í íslensku bönkunum yrðu í dótturfélögum fremur en útibúum kvað ákærði ekki hafa verið hugað að þessu á þeim tíma með hliðsjón af stöðu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, en hann minntist þess ekki að það hafi verið borið undir sig fyrr en í ágúst 2008. Það hafi legið fyrir að innstæðurnar væru mjög kvikar í þeim skilningi að eigendur gátu tekið þær út með engum fyrirvara þegar neikvæðar fréttir bárust af stöðu íslensku bankanna, en þær hafi einnig aukist þegar hægðist um. Ákærði sagði að sér hafi ekki verið kunnugt um að rætt hafi verið um að skipa tvo vinnuhópa á fundi samráðshópsins 2. apríl 2008 og minntist þess ekki að tillögur um þetta hafi borist til sín, en hann væri fullviss um að alltaf hafi verið brugðist við tillögum sem bárust. Aðspurður vegna ummæla í fundargerð frá þeim fundi um að ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu hafi sagst hafa skilið „málið ráðherramegin“ á þann hátt að taka ætti á bönkunum þremur og innlánstryggingum kvað ákærði þetta hafa verið niðurstöðuna í umræðum þeirra tveggja. Þetta hafi ekki verið formlegt erindi hans til samráðshópsins, en hann og ráðuneytisstjórinn hafi talið þetta vera stærstu málin, sem fjalla þyrfti um.

Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa á sínum tíma fengið í hendur vinnuskjal um sviðsmyndir fjármálaáfalls, sem samráðshópurinn hafi fjallað um á fundum sínum 10. og 21. apríl 2008. Starfsmenn þeirra stofnana, sem höfðu þessi málefni á sínu borði, hefðu átt að leita til sinna yfirmanna og þeir síðan að leita til ákærða ef grípa hefði átt til aðgerða eins og rætt hafi verið um í vinnuskjalinu, en á þeim tíma hafi slík atriði ekki verið á stefnu stjórnvalda. Þá sagðist ákærði ekki minnast þess að hafa séð skjal með yfirskriftinni „ólystugi matseðillinn“, sem rætt hafi verið um á fundi samráðshópsins 28. apríl 2008, fyrr en eftir hrun íslensku bankanna og gæti hann ekki svarað því hvaða stjórnvöld hefðu átt að taka ákvarðanir um atriðin, sem þar greindi. Um einstök atriði í þessu skjali gat ákærði þess að í athugun hafi verið á þessum tíma að auka möguleika fjármálafyrirtækja á að selja fjármálagerninga til opinberra aðila. Að mati ákærða hafi með öllu verið ótímabært á þessu stigi að taka afstöðu til þess hversu háar innstæður ríkið yrði tilbúið til að ábyrgjast á innlánsreikningum hjá íslensku bönkunum. Þegar upp hafi verið staðið hafi ríkið ábyrgst allar innstæður í innlenda bankakerfinu, enda hefði önnur niðurstaða verið óábyrg, en hefðu stjórnvöld lýst einhverju yfir í þeim efnum á þessum tíma hefði það flýtt fyrir bankahruni. Það sama ætti við um heildarfjárhæð hugsanlegs eiginfjárstuðnings ríkisins við banka, en slíkt væri ekki gefið upp fyrir fram. Á þessum tíma hafi legið fyrir hvaða bankar væru kerfislega mikilvægir og hafi verið ljóst, eftir því sem fært var, hvaða skilyrði yrðu sett fyrir eiginfjárstuðningi, þar á meðal að bankarnir yrðu lífvænlegir eftir að hafa fengið hann. Í því skyni kynni að hafa þurft að beita bankana þvingunum, svo sem til að selja eignir eða sameinast, en ekki hafi staðið til að hlífa hluthöfum. Ákærði kvað stjórnvöld ekki hafa að öðru leyti haft úrræði til að knýja á um samruna banka, sölu eigna eða minnkun efnahagsreikninga þeirra. Vegna samtala við stjórnendur bankanna hafi sér verið kunnugt um að Glitnir banki hf. hafi ætlað að selja eignir í Noregi á árinu 2008, en af því hafi ekki orðið, líklega sökum þess að væntanlegir kaupendur hafi gert sér vonir um að geta keypt þær síðar á lægra verði. Af slíkum samtölum hafi ákærði ályktað að stjórnendur bankanna hafi ekki talið hættu á falli þeirra, en síðar hafi tími einfaldlega ekki gefist til að selja eignir.

Vegna umræðna á fundi samráðshópsins 7. júlí 2008 um að stjórnvöld hefðu ekki stillt stjórnendum bankanna upp við vegg og að hætta væri á að bankakerfið gæti hrunið þá þegar kvað ákærði stjórnvöld ekki hafa á þessum tíma verið tilbúin til að taka afstöðu til þess hvað þau myndu vilja leggja af mörkum. Ákvörðun um þetta hafi verið tekin þegar tillaga kom frá Seðlabanka Íslands í september 2008 vegna vanda Glitnis banka hf. Formanni samráðshópsins hafi ekki þótt tímabært í júlí 2008 að kalla eftir ákvörðun, heldur hafi hópurinn þurft að vinna án þess að fá hana fram, enda hafi vandinn þá ekki verið bráður. Hafi samráðshópurinn verið annarrar skoðunar hefði stofnunum, sem áttu hlut að honum, borið að gera tillögur og leita eftir fundi með ákærða eða í tilviki Fjármálaeftirlitsins með viðskiptaráðherra. Ákærði kvaðst ekki hafa talið aðra hafa verið þeirrar skoðunar, sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins lýsti á fundinum, að bráð hætta væri á að bankakerfið hryndi þá þegar, en eftir þetta hafi ástandið róast um sinn og orðið erfiðara í ágúst. Ekki mætti horfa fram hjá því að á þessum tíma hafi komið fram ýmis jákvæð álit og matsfyrirtæki talið lánshæfi Íslands mjög gott, þótt ekki hafi verið fullyrt að svo yrði til langs tíma. Þá hafi Fjármálaeftirlitið gefið út skýrslur, sem hafi ekki borið með sér ótvíræðar vísbendingar um yfirvofandi hrun. Vegna umræðna á þessum fundi samráðshópsins um að takmarka mætti áhættu með því að færa höfuðstöðvar Kaupþings banka hf. úr landi og flytja innlán í útibúum íslenskra banka erlendis í dótturfélög, svo og að skipa þyrfti aðgerðahóp með öflugum stjórnanda, vísaði ákærði til þess að ásetningur manna hafi staðið til að innlánin yrðu flutt til dótturfélaga, en breska fjármálaeftirlitið hafi á hinn bóginn sett ströng skilyrði fyrir því. Flutningur höfuðstöðva banka til útlanda fyrir lok ársins 2008 hafi verið óraunhæfur, enda hefði fjármálaeftirlit í viðkomandi ríki þá skoðað stöðu bankans og rýnt í eignir hans. Mætti ætla að krafa hefði verið gerð um að eignir bankans yrðu færðar niður í bókum hans og það fært eiginfjárhlutfall hans undir lögbundin mörk, en þar með hefði verið lagður þrýstingur á íslensk stjórnvöld að láta fjármuni fylgja með flutningnum. Aðspurður hvort skort hafi á pólitíska stefnumótun og það hamlað starfi samráðshópsins tók ákærði fram að hópurinn hafi haft skýrt umboð og hefðu þeir, sem að honum stóðu, orðið einhvers varir, sem kallað hefði á viðbrögð ákærða, hefðu þeir átt að gefa honum slíkar ábendingar. Ef til vill hefði verið heppilegt að hann hefði hitt ráðherrana, sem stóðu að baki hópnum, en það hafi hann ekki getað séð þá.

Í tilefni af ummælum í fundargerð frá fundi samráðshópsins 14. júlí 2008 um að ganga yrði frá stefnumörkun hins opinbera kvaðst ákærði líta svo á að þar væri lýst skoðun ritara hópsins. Slík stefnumörkun hafi ekki verið í boði, enda hefði verið óskynsamlegt að lýsa því yfir á þessum tíma að ríkið hygðist leggja bönkunum til háar fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum. Í þessu efni hafi ákærða ekki verið kunnugt um önnur tæk úrræði en einhver þau, sem hefðu falið í sér að skattfé yrði lagt til bankanna.

Ákærði kvaðst ekki hafa vitað annað um störf lögfræðingahóps, sem fjallað var um á fundi samráðshópsins 31. júlí 2008, en að hann ynni að því að semja drög að lagafrumvarpi vegna hugsanlegs fjármálaáfalls. Ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins hafi talið það geta orðið banabita bankanna að umræða færi af stað um stöðu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Um þá stöðu hafi allir vitað, enda hafi mikill uggur gripið um sig hjá breska fjármálaeftirlitinu þegar starfsmönnum þess hafi orðið hún ljós.

Vegna ummæla, sem ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytisins lét falla á fundi samráðshópsins 12. ágúst 2008 um ráðagerð viðskiptaráðherra um stofnun sérstakrar nefndar, kvaðst ákærði telja að um misskilning ráðherrans hafi verið að ræða, enda hafi samráðshópurinn verið rétti vettvangurinn fyrir það starf, sem nefndinni hafi verið ætlað. Ákærði minntist þess ekki að vinna samráðshópsins hafi komið til umræðu á fundum ríkisstjórnarinnar, en af því yrði þó ekki ályktað að ráðherrar hafi ekki vitað um tilvist hans. Sérstök stefna hafi ekki verið mótuð í málaflokknum á vettvangi ríkisstjórnarinnar, en að þessu hafi verið unnið í samráðshópnum. Aðspurður hvort samráðshópnum hafi verið ætlað að móta pólitíska stefnu kvaðst ákærði viðurkenna að fyrirkomulagið, sem starfað hafi verið eftir, hafi boðið upp á að hver benti á annan um ábyrgð á málefninu, en þótt ákveðin frumkvæðisskylda hafi hvílt á sér hafi hún ekki átt við á þessu tímabili.

Ákærði kvaðst telja fund samráðshópsins 16. september 2008 skipta miklu, en hann hafi verið haldinn á mánudegi eftir fall bandaríska fjárfestingarbankans Lehman Brothers. Á þessum tíma hafi enginn gert sér grein fyrir áhrifum þess atburðar á allan fjármálamarkað heimsins. Fjármálaeftirlitið hafi tveimur dögum síðar gefið út yfirlýsingu um að ekki yrði ætlað að þetta hefði áhrif á íslensku bankana. Samráðshópurinn hafi unnið í góðri trú um að ástandið væri viðunandi og ákveðið að funda ekki aftur fyrr en 2. október 2008. Ítarleg frétt hafi birst í fjölmiðli 17. september 2008 um lausafjárstöðu bankanna, þar sem komið hafi fram að þeir væru allir búnir að tryggja lausafjárstöðu sína fram eftir árinu 2009. Ákærði hafi að morgni næsta dags átt fundi með fulltrúum allra bankanna til að fullvissa sig um að þetta væri rétt, enda hefði hann ekki haldið í utanlandsferð til New York skömmu síðar nema tryggt væri að ástandið væri í lagi. Á fundunum hafi komið fram að bankarnir væru að glíma við mótvind eins og önnur gögn bentu til, en staðan hafi á hinn bóginn litið ágætlega út. Engum hafi dottið í hug að bankarnir væru að villa um fyrir stjórnvöldum. Þá hafi í skjali frá Seðlabanka Íslands 19. september 2008 verið farið mjög fögrum orðum um stöðuna. Aðspurður sagði ákærði viðlagaáætlun ekki hafa verið tilbúna þegar hér var komið sögu eftir því, sem hann best vissi, en eflaust hefði mátt ljúka við hana á skömmum tíma.

Ákærði taldi fundargerð samráðshópsins vegna fundar 2. október 2008 bera með sér hvað hópurinn hafi starfað á veikum grunni. Ekki hafi þótt ástæða til að kalla samráðshópinn til starfa um helgina þar á undan þegar tekin var ákvörðun um hlutafjárframlag ríkisins til Glitnis banka hf., enda hafi þá flestir, sem áttu sæti í honum, komið að málinu vegna annarra starfa sinna. Viðskiptaráðherra hafi ekki verið kvaddur til funda um málefni Glitnis banka hf. vegna ákvörðunar formanns Samfylkingarinnar, sem hafi verið tekin á pólitískum forsendum. Iðnaðarráðherra hafi setið fundina sem fulltrúi flokksins í umboði formanns hans og aðstoðarmaður viðskiptaráðherra hafi einnig verið viðstaddur, en ákærði hafi af þessum sökum talið að viðskiptaráðherra yrði látinn fylgjast með, svo sem honum hafi skilist af samtali sínu við formanninn. Áður en ákvörðun um hlutafjárframlag til Glitnis banka hf. var kynnt hafi ákærði átt fund með viðskiptaráðherra, sem hafi stutt hana mjög, en eftir á að hyggja hefði viðskiptaráðherra átt að vera kvaddur til þessara funda. Ákærði kvaðst ekki geta metið hvort tregðu hafi gætt í upplýsingagjöf til viðskiptaráðherra um störf samráðshópsins, en hafa yrði í huga að hann hafi í raun haft þar tvo fulltrúa, ráðuneytisstjóra sinn og forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Þá gat ákærði þess einnig að hann hefði ekki trú á að formaður Samfylkingarinnar hafi sérstaklega leynt upplýsingum um gang mála fyrir viðskiptaráðherra.

Í tengslum við lið 1.4 í ákæru lýsti ákærði því að erfiðleikar, sem íslensku bankarnir áttu við að etja síðari hluta árs 2005 og fyrri hluta 2006, hafi leitt til aðgerða af þeirra hendi, sem hafi átt að styrkja stöðu þeirra, þar á meðal að lengja lánstíma í erlendri lausafjáröflun þeirra. Á þessum tíma hafi Viðskiptaráð fengið hagfræðingana Fred Mischkin og Tryggva Þór Herbertsson til að rita skýrslu um fjármálastöðugleika á Íslandi, sem hafi að mati ákærða upplýst ýmis grundvallaratriði og komið að miklu gagni á þeim tíma. Haustið 2007 hafi hagfræðingarnir Richard Portes og Friðrik Már Baldursson einnig samið skýrslu um þetta efni. Þessir fræðimenn hafi byggt á opinberum gögnum og ekki frekar en starfsmenn stjórnkerfisins getað gert sér grein fyrir að maðkur væri í mysunni í íslenska fjármálakerfinu. Þegar þessir erfiðleikar herjuðu á hafi bankakerfið staðið tæpt, en þeir hafi svo liðið hjá um þær mundir, sem fyrrnefnda skýrslan kom út í maí 2006, og ráðamenn talið stöðu bankanna nokkuð góða eftir það. Í framhaldi af þessum atburðum hafi Landsbanki Íslands hf. og Kaupþing banki hf. byrjað að taka við innlánum í útlöndum og hafi verið rætt um þetta sem nýja stoð undir fjármögnun bankanna. Ekki hafi verið annað að sjá en að hún gengi vel eftir þetta alveg fram í september 2008. Ákærði kvaðst telja að vandkvæðum hafi verið bundið fyrir sig eða aðra í stjórnkerfinu að gera eitthvað á árinu 2008 til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins og hafi skort til þess raunhæf úrræði. Bankarnir hefðu hugsanlega getað selt eignir, en þeir hafi ekki verið í aðstöðu til þess vegna mikilla affalla, sem þá hafi verið á markaði. Þá væri óvíst hvort unnt hefði verið að draga úr stærð bankanna út af kröfum um eigið fé. Fráleitt hefði verið að beita sér fyrir lagasetningu til að draga úr stærð bankakerfisins. Miður sé að ekki hafi á sínum tíma verið settar strangari reglur um fjármálafyrirtæki en gert hafi verið ráð fyrir í lágmarksreglum fyrir evrópska efnahagssvæðið. Uppruna vandamála vegna stærðar bankakerfisins hér á landi og hluta þeirra allar götur síðan mætti rekja til þess að evrópsku reglurnar hafi verið teknar óbreyttar upp í íslensk lög, enda hafi þær ekki gert ráð fyrir því að í svo litlu hagkerfi myndu vaxa úr grasi svo stórar bankastofnanir. Eftir árið 2001 hafi fé flætt um allan heim og íslensku bankarnir tekið mikið að láni, en við aðrar aðstæður hefðu atvik ekki þróast á þennan veg.

Ákærði kvaðst hafa talið að eitthvað þyrfti að gera til að draga úr stærð bankanna, en í þessum efnum hafi Seðlabanki Íslands verið hans lögbundni ráðgjafi. Hann teldi að allt hafi verið gert sem unnt var til að knýja á um að bankarnir drægju sig saman og hafi seðlabankinn beitt þeim áhrifum sem hann bjó yfir. Hafa yrði í huga að bankarnir voru einkafyrirtæki, sem ríkið bar enga ábyrgð á, og hafi þetta því fyrst og fremst verið þeirra eigið verkefni. Stjórnvöld hafi átt mjög alvarlegar viðræður við bankana um þetta málefni, en þeir líklega ekki viljað draga úr stærð sinni og að auki lítið getað gert til þess. Aldrei hafi komið til tals í viðræðum ákærða við stjórnendur bankanna að unnt væri að draga úr stærð þeirra á skömmum tíma og hafi þar ekki verið rætt um sölu eigna þeirra. Honum hafi ekki verið það kunnugt um eignir bankanna að hann gæti sagt til um það hvort kostur hafi verið á að draga úr stærð þeirra. Glitnir banki hf. hafi þó verið langt kominn með sölu á góðum eignum í Noregi í september 2008, sem ekki hafi svo orðið af í tæka tíð fyrir gjalddaga á stórum lánum bankans í október á sama ári. Honum hafi einnig verið kunnugt um að stjórnendum þess banka hafi orðið vel ágengt í ýmsum verkefnum á árinu 2008, sem hafi miðað að því að draga úr stærð hans. Að auki hafi bankarnir leitast við að taka lán með veði í eignum, sem illfært hafi verið að selja á skömmum tíma gegn viðunandi verði, en með sölu á undirverði hefði verið hætta á að eigið fé þeirra brynni upp. Þá hafi væntanlega verið ákvæði í lánssamningum bankanna um heimildir lánardrottna til að gjaldfella kröfur sínar ef mikil breyting yrði á eignum þeirra eða þeir flyttu milli landa. Ákærði kvaðst ekki hafa rætt við stjórnendur bankanna um hugsanlegan flutning aðalstöðva þeirra úr landi að öðru leyti en því að þetta kunni að hafa borist lauslega í tal milli sín og Sigurðar Einarssonar, formanns stjórnar Kaupþings banka hf. Ekki hafi komið fram að þetta mætti gera með hraði, enda hafi verið viðbúið að fjármálaeftirlit í viðkomandi ríki myndi telja sig þurfa að gera úttekt á eignum banka, sem hygðust flytja, og væri ekki líklegt að nokkuð ríki myndi vilja taka við þeim.

Ákærði sagði að formlegt mat hafi ekki verið gert á hættu, sem leiddi af útrás bankakerfisins. Meta hefði þurft hvað bankakerfið væri stórt og hver hámarksskellurinn gæti orðið, en margir óvissuþættir væru í mati sem þessu og jafnframt erfitt að meta getu ríkisins til að standa undir þessari áhættu. Ekki hafi verið reiknað út hvaða áhrif það myndi hafa ef einn viðskiptabankanna þriggja myndi falla, en talið hafi verið að gjaldeyrisvarasjóðurinn gæti staðið undir því. Á þetta hafi reynt þegar Glitnir banki hf. leitaði aðstoðar í september 2008 og hafi stjórnvöld reynt með aðgerðum sínum að leysa vanda þess banka og hugsanlega fría hina bankana falli, sem hafi svo ekki reynst rétt. Einnig hafi verið reynt að koma Kaupþingi banka hf. til liðs 6. október 2008 með stórri lánveitingu, sem ekki hafi borið árangur. Framan af hafi verið talið að bankarnir væru það sjálfstæðir að fall eins þeirra hefði ekki áhrif á hina, en síðan hafi komið fram að þeir væru verulega tengdir vegna hlutabréfakaupa hver í öðrum. Að endingu hafi verið vonast til að unnt yrði að bjarga einum þeirra. Aðspurður kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa óskað eftir tillögu um þessi málefni. Ákærði sagði að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 23. maí 2007 hafi alþjóðleg útrás íslenskra fyrirtækja verið undirstrikuð og fjármálaþjónustan tekin þar sem dæmi. Ríkisstjórnin hafi viljað tryggja að skatttekjur fengjust af þessum fyrirtækjum og tekjum starfsmanna þeirra, svo og að þau sköpuðu atvinnu. Um þetta hafi enginn ágreiningur staðið í þjóðfélaginu, allir hafi talið bankana standa sig vel og engum dottið í hug að þetta gæti farið illa. Ekki hafi verið horfið frá þessari stefnuyfirlýsingu, enda gerðu ríkisstjórnir ekki slíkt. Íslensk stjórnvöld hafi ekki skapað þær aðstæður á erlendum mörkuðum, sem gerðu vöxt íslenska bankakerfisins gerlegan, en hann hafi farið alveg úr böndum á árunum 2007 og 2008. Hann kvað jákvæð ummæli sín um veru bankanna hér landi, sem komu fram í ýmsum ræðum á þeim árum, þurfa að skoðast í ljósi þess að ekki hafi þótt ástæða til að óttast um stöðu þeirra á þessum tíma og æskilegt hafi þótt að hafa þá hér vegna tekna, sem þeir gáfu af sér. Þótt vilji hefði staðið til að þeir flyttu úr landi hefðu þessar ræður ekki verið vettvangur til að fjalla um slíkt.

Ákærði kvað Davíð Oddsson hafa átt fund með sér, utanríkisráðherra og fjármálaráðherra 7. febrúar 2008 og gert grein fyrir ferð fulltrúa Seðlabanka Íslands til London, sem hafi einkum haft þann tilgang að eiga viðræður við erlenda banka og matsfyrirtæki, en í slíkum ferðum hafi meðal annars verið tekin staða á mörkuðum og kannað hvort unnt væri að efna til skuldabréfaútboðs. Á fundinum hafi Davíð lesið upp af handskrifuðu minnisblaði sínu og ákærði reiknað með að það yrði vélritað og afhent sér, sem ekki hafi orðið af. Í minnisblaðinu hafi komið fram lýsing á áhyggjum erlendra bankamanna af stöðu íslensku bankanna. Talað hefði verið vel um Landsbanka Íslands hf., en þeir hafi á hinn bóginn talið fulltrúa Kaupþings banka hf. og Glitnis banka hf. ekki hafa staðið sig vel á kynningarfundum í London. Einnig hefði verið rætt um hugsanlega lántöku íslenska ríkisins og hafi viðhorf til hennar verið misjöfn, enda hafi sumir talið rétt að gera þetta og aðrir að það yrði of dýrt fyrir ríkið. Á þessum fundi hafi vissulega verið ræddir alvarlegir hlutir, en þetta hafi þó ekki verið eina umræðuefnið og fundir einnig verið fleiri. Hann hafi enga sérstöðu haft í samskiptum forsætisráðuneytisins og Seðlabanka Íslands á fyrri helmingi ársins 2008. Þau hafi verið mikil eftir þetta og hefðu forsvarsmenn seðlabankans átt að koma tillögum á framfæri við ákærða ef þeir litu svo á að efni væru til sérstakra ráðstafana. Í tilefni af ummælum Davíðs á fundinum um að færa mætti rök fyrir því að til bóta yrði fyrir íslenskt fjármálakerfi að Kaupþing banki hf. flytti starfsemi sína úr landi kvaðst ákærði telja að þetta hafi verið fyrsta skiptið, sem þetta hafi komið til tals, en ekki hafi verið gerð tillaga til hans um það. Hann hafi síðar komist að því að bankinn hafi gert áætlun um þessa aðgerð, sem yrði mjög tímafrek. Fjármálaráðherra hafi spurt á fundinum hvað væri hægt að gera og hafi komið fram að þegar væri byrjað á því, sem unnt væri, og yrði einungis hægt að efla þá vinnu.

Ákærði kannaðist ekki við að hafa á fyrri stigum séð ódagsett minnisblað frá Landsbanka Íslands hf. til ríkisstjórnarinnar og Seðlabanka Íslands, sem mun vera frá tímabilinu 8. til 10. febrúar 2008, en taldi á hinn bóginn að það sýndi ef til vill að stjórnendur fyrrnefnda bankans hafi gert sér grein fyrir vanda bankakerfisins. Hann hafi vitað af óformlegum viðræðum um sameiningu banka, svo sem rætt væri um í minnisblaðinu, en þær hafi farið fram rétt fyrir páska 2008 og aftur í ágúst á sama ári fyrir atbeina efnahagsráðgjafa ákærða. Komið hafi fram að forráðamenn bankanna hafi ekki verið tilbúnir í slíkar aðgerðir og hafi verið líkast því að þeir teldu þetta ekki aðkallandi. Stjórnvöld hafi eingöngu komið að þessu með samtölum við þá, sem í hlut hafi átt.

Ákærði kvað drög að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem fylgt hafi tölvubréfi til sín frá ráðuneytisstjóranum í forsætisráðuneytinu 10. febrúar 2008, hafa verið gerð vegna óróleikans, sem hafi verið uppi á þeim tíma. Þetta væri ófullgert skjal, þar sem texti væri að hluta innan sviga, og minntist ákærði þess ekki hvað hafi frekar verið gert með það.

Ákærði sagði fund 14. febrúar 2008 með fulltrúum fjármálatækjanna hafa verið haldinn í framhaldi af viðskiptaþingi til að fá upplýsingar frá bönkunum um stöðu mála og athuga hvort nóg væri að gert. Hann taldi ummæli í minnisblaði Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um þennan fund um að bankarnir væru of stórir fyrir íslenskt samfélag ekki styðjast við það, sem beinlínis hafi komið fram á fundinum, en hún hafi eftir þetta beitt sér sem utanríkisráðherra fyrir sendiherrastefnu, þar sem fjallað hafi verið um málefni bankanna. Á fundinum hafi bankarnir lagt mikla áherslu á eflingu gjaldeyrisforðans og það hafi stjórnvöld einnig almennt gert, en þó ekki til að henda honum í sjóinn. Einnig hafi verið rætt á fundinum um gamla kröfu eins bankanna um að fá heimild til að færa reikninga sína í erlendum gjaldmiðli. Umræða á fundinum hafi ekki snúið að því að bankarnir drægju úr stærð sinni.

Ákærði lýsti því að ræða, sem hann flutti á Alþingi 5. mars 2008 í umræðu um Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð, hafi átt rætur að rekja til þess að forveri hans í stóli forsætisráðherra hafi á sínum tíma látið gera skýrslu um þetta efni og hafi þar verið settar fram ýmsar hugmyndir. Ákærði hafi verið gagnrýndur fyrir að hrinda þeim ekki öllum í framkvæmd, en hann hafi aldrei haft sannfæringu fyrir því að Ísland gæti orðið alþjóðleg fjármálamiðstöð svo að neinu næmi.

Undir ákærða voru borin ummæli, sem hann lét falla í ræðu á ársfundi Seðlabanka Íslands 28. mars 2008 um að íslenska ríkið og seðlabankinn gætu hlaupið undir bagga ef upp kæmi alvarleg staða í bankakerfinu, svo og að íslensk stjórnvöld myndu við slíkar aðstæður hiklaust grípa til sömu aðgerða og ábyrg stjórnvöld annars staðar. Ákærði vísaði til þess að ríkið hafi á þessum tíma staðið vel að vígi og hefði eflaust verið unnt að hlaupa undir bagga með bönkunum. Á það hafi reynt í september 2008 þegar ríkið hafi ráðgert að kaupa hlut í Glitni banka hf., en þá hafi þetta verið talið duga til að bjarga hinum bönkunum. Það væri ábyrg hegðun að reyna að koma til aðstoðar ef einhver kostur væri á að bjarga banka frá falli og hætta svo við ef það myndi kosta að peningum væri kastað á glæ.

Ákærði staðfesti að sér hafi verið kynnt bréf aðalbankastjóra Englandsbanka 23. apríl 2008 til formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, svo og að hann hafi vitað að bankastjórnin hafi svarað bréfinu með ósk um að Englandsbanki endurskoðaði afstöðu sína til beiðni seðlabankans um gjaldmiðlaskiptasamning, en þeirri ósk hafi ekki verið svarað. Þetta hafi valdið miklum vonbrigðum, enda hafi ríkið í framhaldinu ætlað að leita eftir stóru erlendu láni. Forsætisráðherra Bretlands hafi á fundi þeirra degi síðar boðist til að ræða við breska bankastjórann um hvort eitthvað væri unnt að gera, en af því hafi ákærði svo ekkert frekar heyrt. Vegna ummæla í bréfi breska bankastjórans um nauðsyn þess að minnka íslenska bankakerfið lýsti ákærði því að heppilegt hefði verið fyrir bankana að selja eignir, en enginn hafi getað bent á hverjar þær væru og hafi ekki verið unnt að draga úr stærð bankakerfisins á þessum tíma. Hann kvað boð, sem Englandsbanki gerði í bréfinu um aðstoð við að draga úr stærð bankakerfisins, ekki hafa verið borið undir sig, en því boði hafi aldrei verið hafnað.

Samkvæmt áðurgreindu minnisblaði um fund ákærða með forsætisráðherra Bretlands 24. apríl 2008 lýsti ákærði því þar að bankarnir væru orðnir nokkuð stórir miðað við íslenskan þjóðarbúskap. Fyrir dómi skýrði ákærði þessi ummæli með vísan til þess að stærð bankanna í samanburði við þjóðarframleiðslu hafi valdið svonefndum hlutfallsvanda, sem hafi þó ekki þurft að vera vandamál fremur en í öðrum löndum, þar sem þannig hátti til, svo lengi sem bankarnir væru varkárir, þeir færu að réttum reglum og ekki væri fjármálakreppa. Ákærði lét þess og getið að hann hafi ekki farið á fundinn til að leita ásjár hjá breska forsætisráðherranum, heldur hafi hann verið í London í öðrum erindagerðum og ákveðið að kanna hvort hann gæti fengið fund með ráðherranum.

Ákærði greindi frá því að fundur sinn og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur með bankastjórn Seðlabanka Íslands 15. maí 2008 hafi verið haldinn í tilefni af því að samkomulag hafi tekist um gjaldmiðlaskiptasamninga bankans við þrjá norræna seðlabanka og hafi þar verið farið yfir efni samninganna, svo og þörfina á öflun frekara lánsfjár til að efla gjaldeyrisvaraforða. Hann kvað yfirlýsingu, sem hann undirritaði ásamt fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og bankastjórn seðlabankans í tengslum við gjaldmiðlaskiptasamningana, hafa verið gerða 16. maí 2008 og gæti hann ekki skýrt út hvers vegna dagsetning hennar hafi verið röng, en hún hafi verið fest á blað í seðlabankanum. Aðspurður kvað hann að betra hefði verið að viðskiptaráðherra ritaði einnig undir þessa yfirlýsingu. Hún hafi verið liður í heildaráætlun um gerð gjaldmiðlaskiptasamninga, sem aðrir seðlabankar hafi síðan hafnað að taka þátt í. Hann hafi tekið fram í símtali, sem hann hafi átt við bankastjóra sænska seðlabankans áður en yfirlýsingin var gerð, að alveg mætti gefa yfirlýsingu þessa efnis, en ekki yrði þó gengið lengra en samstarfsyfirlýsing stjórnarflokkanna kvæði á um. Hann teldi að beiðni norrænu seðlabankanna hafi heldur ekki lotið að því. Ekki hafi verið háð vandkvæðum að gefa þessa yfirlýsingu, enda hafi síðan verið tilkynnt um þetta opinberlega. Þetta hafi verið viljayfirlýsing, sem ekki hafi verið skuldbindandi, og hafi allir gert sér grein fyrir að ekki væri unnt að draga úr stærð bankakerfisins á skömmum tíma. Ákærði kvaðst ekki geta sagt til um það til hvaða valdheimilda Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins hafi verið vísað í ákvæði yfirlýsingarinnar um að slíkum heimildum yrði beitt til að þrýsta á bankana um að draga úr stærð efnahagsreikninga sinna, en þessar stofnanir hafi vissulega ákveðnar valdheimildir. Hann hafi síðan kynnt gjaldmiðlaskiptasamningana á ríkisstjórnarfundi og þar hafi verið mikil ánægja með þá. Eftir þetta hafi verið haldið áfram að þrýsta á bankana. Ekki hafi verið gripið til sérstakra ráðstafana í tilefni af mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 14. apríl 2008, sem vísað var til í yfirlýsingunni, en mikið samstarf hafi verið við sjóðinn á þessum tíma. Í reglubundinni úttekt sjóðsins, sem síðan hafi verið gerð, hafi verið rætt um að framtíðarhorfur í íslensku efnahagslífi væru öfundsverðar og hafi enginn gert því skóna að hér yrði hrun í lok september á því ári.

Ákærði kvaðst ekki hafa haft vitneskju um að Landsbanki Íslands hf. hafi 29. maí 2008 byrjað að bjóða Icesave reikninga í útibúi sínu í Hollandi, þótt rætt hafi verið um það sama dag á fundi samráðshópsins um fjármálastöðugleika og viðbúnað, en að þessu hafi hann komist síðar vegna umfjöllunar í fjölmiðlum. Bankinn hafi tilkynnt Fjármálaeftirlitinu um áform sín og hafið þessa starfsemi í kjölfarið, en hvorki hafi þetta verið borið undir ákærða né rætt við hann hvort ástæða væri til að beita sér gegn þessari starfsemi, sem hann hafi síðar séð að væri meingölluð. Slík afskipti hefðu verið á verksviði Fjármálaeftirlitsins, þótt valdheimildir hafi ekki staðið til að leggja bann við þessu, en eftir á að hyggja hefði það verið eina vitið. Ákærði minntist þess ekki að hafa rætt þetta við forráðamenn Seðlabanka Íslands.

Aðspurður sagðist ákærði ekki vera viss um hvort sér hafi verið sagt nákvæmlega frá fundi, sem bankastjórn Seðlabanka Íslands hafi átt 11. júlí 2008 með formanni stjórnar Kaupþings banka hf. Af hálfu ríkisstjórnarinnar hafi ekkert verið aðhafst í tilefni af því, sem þar kom fram, en frumkvæði að slíku hefði orðið að koma frá Seðlabanka Íslands. Ákærði vísaði til þess að frétt hafi birst í fjölmiðli 17. september 2008 um að bankarnir hefðu þá verið búnir að ljúka við endurfjármögnun sína fyrir það ár og væru langt komnir með það næsta. Hafi alltaf verið gengið út frá því að Glitnir banki hf. gæti staðið við skuldbindingar sínar í október 2008 og að ekki væru aftur gjalddagar á stórum skuldum bankanna fyrr en í mars 2009. Sér hafi ekki verið kunnugt um að erlendar lánalínur bankanna væru með svo miklum fyrirvörum að þær yrðu ekki nothæfar þegar á reyndi eða að annmarkar hafi verið á lausafjárskýrslum frá bönkunum.

Undir ákærða voru borin ýmis önnur gögn en getið hefur verið hér að framan í tengslum við lið 1.4 í ákæru, sem stafa frá Seðlabanka Íslands og varða ýmist viðbúnaðaraðgerðir starfsmanna hans eða fundi þeirra með stjórnendum viðskiptabankanna. Ákærði kvaðst ekki hafa fengið slík gögn í hendur fyrr en í tengslum við mál þetta.

Aðspurður í tengslum við lið 1.5 í ákæru hvort hann hafi aðhafst eitthvað til að flutningur á Icesave reikningum úr útibúi Landsbanka Íslands hf. í London til dótturfélags bankans þar gæti gengið eftir kvaðst ákærði ekki hafa vitað annað en að þeir, sem höfðu þessi verkefni með höndum, væru að sinna málinu. Hann hafi verið viss um að þetta hafi verið gert með virkum hætti og að allt hafi verið gert, sem unnt var, en bankastjórar Seðlabanka Íslands og ráðuneytisstjórarnir í forsætisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu hafi kynnt sér framgang málsins. Fjármálaeftirlitið hafi unnið að þessu meira og minna allt árið 2008 og hafi ákærði vitað að viðskiptaráðuneytið ynni einnig að því. Hvorki hafi Fjármálaeftirlitið né viðskiptaráðherra leitað eftir frekari atbeina hans og hafi ráðherrann heldur ekki lagt tillögur fyrir ákærða um þetta efni. Það hafi verið til umræðu frá því snemma á árinu 2008, en hafi fyrst orðið knýjandi í ágúst. Talið hafi verið um þær mundir, sem samráðshópurinn fundaði um miðjan september 2008, að flytja mætti reikningana fyrir lok ársins og hafi það verið trú ákærða á þeim tíma. Honum hafi verið kunnugt um að þrjár leiðir hafi verið nefndar til að flytja reikningana og hafi einkum verið rætt um að það yrði gert með atbeina dómstóla. Hann hafi gert sér grein fyrir því að hvorki Landsbanki Íslands hf. né Fjármálaeftirlitið gæti ákveðið þetta einhliða og hafi breska fjármálaeftirlitið, FSA, þar mest að segja, en eftir á að hyggja mætti ef til vill efast um að FSA hafi viljað samþykkja að reikningarnir yrðu fluttir til bresks dótturfélags. Kynni að vera að þetta hafi alla tíð verið útilokað, auk þess sem ákvæði í lánssamningum Landsbanka Íslands hf. um heimildir lánardrottna til að gjaldfella kröfur sínar gætu hafa sett þar strik í reikninginn. Á árinu 2008 hafi verið samskipti milli bankans, Fjármálaeftirlitsins og FSA og hafi kröfur þess síðastnefnda orðið harðari eftir því sem á leið. Svo hafi virst sem áhugi Landsbanka Íslands hf. á þessu hafi dvínað, ef til vill vegna þess að ljóst hafi orðið að ekki yrði unnt að nota peninga úr þessum innlánum í starfseminni hér á landi eins og áður hafi verið gert. Bankinn hafi á einhverju stigi lýst því við FSA að flutningur reikninganna væri kominn á langtíma áætlun. Bankinn hafi þá séð fram á erfiðleika, þar sem hann hefði þurft að leggja til mikið fé með reikningunum til dótturfélags. Ákærði kvaðst hafa vitað að háar fjárhæðir hafi legið á Icesave reikningunum og hljóti þær að hafa skipt miklu fyrir fjárhag Landsbanka Íslands hf. Á hinn bóginn hafi reikningarnir verið stórlega varasamir sökum þess hversu kvikir þeir hafi verið. Hættan í tengslum við þá hafi verið til umræðu, en forðast hafi verið að tala um þetta fyrr en á reyndi. Þessu máli hafi verið fylgt eftir eins og hægt var af hálfu íslenskra stjórnvalda, en afskipti ákærða að því hefðu engu breytt og jafnvel verið óviðeigandi. Hafi ákærði talið formann stjórnar Fjármálaeftirlitsins vera best færan til að fást við þetta. Þá hafi viðskiptaráðherra farið til fundar við fjármálaráðherra Bretlands vegna málsins. Ákærði kvaðst ekki geta sagt til um hvort þetta hafi verið fyrstu afskipti viðskiptaráðherra af málinu, en hann taldi það ekki hafa verið rætt í ríkisstjórn. Aðspurður sagði ákærði að ekki hafi komið til tals að ræða í ríkisstjórn um þau skilaboð frá breska fjármálaráðherranum, sem borist hafi 5. september 2008, að hann teldi íslensk stjórnvöld ekki gera sér grein fyrir alvarleika málsins. Hann lét þess að öðru leyti getið að þetta hafi ef til vill verið fyrstu samskipti vegna málsins á ráðherrastigi.

Ákærði sagði hættuna, sem leiddi af þessum reikningum fyrir Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta, hafa komið til umfjöllunar af hálfu ráðherra þegar bréfum breska fjármálaeftirlitsins hafi verið svarað, þar á meðal í ágúst 2008, en fram að því hafi málefni sjóðsins ekki komið til ákvörðunar. Hann minntist þess ekki að sér hafi verið kynnt tvenn drög að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um innstæðutryggingar, sem fjallað hafi verið um á fundi samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað 10. apríl 2008. Hann kvað alla hafa vitað að tryggingarsjóðurinn væri lítils megnugur og teldi hann sérstætt að breska fjármálaeftirlitið hafi ekki gert sér grein fyrir því. Ákærði kvaðst ekki hafa viljað lýsa því yfir að íslenska ríkið ábyrgðist skuldbindingar sjóðsins, enda hafi það ekki borið ábyrgð á þeim, þótt það hafi verið tilbúið til að liðsinna eins og unnt væri. Í þessu sambandi vísaði ákærði til þess að ríkisendurskoðun hafi ítrekað gert athugasemdir út af því að tryggingarsjóðurinn væri á ríkisreikningi, þar sem ríkið bæri ekki ábyrgð á honum. Ákærði sagði að talið hafi verið á þessum tíma að ekki myndi reyna á ábyrgð ríkisins á skuldbindingum tryggingarsjóðsins. Til að forðast að búa til ný vandamál hafi tvívegis verið veitt loðin svör við fyrirspurnum breskra stjórnvalda um þetta efni, þar á meðal í bréfi 20. ágúst 2008, sem hafi verið gert í samstarfi ráðuneytisstjóranna í forsætisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu, fjármálaráðherra og ákærða. Þótt þar hafi verið sagt að ríkisstjórninni væri kunnugt um skuldbindingar íslenska ríkisins varðandi innstæðutryggingar samkvæmt EES-samningnum og það myndi standa við þær yrði að hafa í huga að þessar skuldbindingar hafi engar verið og hafi því ekki verið vísað í bréfinu til ábyrgðar á einhverri lágmarksfjárhæð. Síðara bréfið, sem sent hafi verið til breskra stjórnvalda 5. október 2008 af sama tilefni, hafi verið gert í mjög knappri vörn og mikilli tímapressu og væri ekki víst að það hafi verið lagalega rétt útfært. Þar hafi verið tekið svo til orða að íslensk stjórnvöld myndu styðja við tryggingarsjóðinn, en hvorki hafi verið vilji til að takast á hendur skuldbindingar né svara breskum stjórnvöldum á þann hátt að þau hrykkju í baklás. Aðspurður í tilefni af því, sem fram kom í minnispunktum um fund bankastjóra Seðlabanka Íslands og Landsbanka Íslands hf. 31. júlí 2008 um að formaður bankastjórnar seðlabankans hafi bent starfsmönnum breska fjármálaeftirlitsins á að íslenska ríkið bæri enga ábyrgð vegna innlánstrygginga, kvað ákærði þetta ekki hafa verið borið undir sig.

Ákærði kvaðst hafa frétt af fundi, sem bankastjórar Seðlabanka Íslands hafi átt með bankastjóra Englandsbanka 3. mars 2008, þar sem sá síðastnefndi hafi lýst áhyggjum af því hversu viðkvæmar innstæður á Icesave reikningum væru. Hann hafi á hinn bóginn ekki vitað af fundum, sem bankastjórn seðlabankans hafi átt með bankastjórum Landsbanka Íslands hf. 30. mars og 14. júlí 2008. Ákærði kannaðist við að helsta vandamálið í tengslum við flutning á Icesave reikningunum frá útibúi Landsbanka Íslands hf. til dótturfélags hafi verið krafa breska fjármálaeftirlitsins um að eignir yrðu einnig fluttar til dótturfélagsins og þær hafi þurft að svara til heildarfjárhæðar innstæðnanna. Þessi krafa hafi verið bankanum um megn, en fulltrúar hans hafi á fundum með bankastjórn seðlabankans haldið því fram að breska fjármálaeftirlitið væri að brjóta með þessu gegn samningnum um evrópska efnahagssvæðið. Ákærði kvað hugmynd, sem bankastjórar Landsbanka Íslands hf. hafi borið upp á fundi með bankastjórn seðlabankans 5. ágúst 2008 um fyrirgreiðslu til að flytja Icesave reikningana, ekki hafa verið borna undir sig. Hann sagðist ekki hafa vitað hvað hafi nákvæmlega borið í milli Landsbanka Íslands hf. og breska fjármálaeftirlitsins um skilyrði fyrir flutningi reikninganna á einstökum tímum, en hann hafi þó fengið afrit af bréfi stofnunarinnar til bankans frá 15. ágúst 2008. Seðlabankinn hafi viljað svara því strax, sem þar kom fram um þjóðhagsleg málefni, og vissi ákærði ekki betur en að það hafi verið gert. Eftir þetta hafi Fjármálaeftirlitið gengið í málið og það verið talið í viðráðanlegum farvegi um miðjan september. Rætt hafi verið um að ljúka mætti flutningi reikninganna fyrir lok ársins 2008 og hefði þetta hugsanlega getað tekist ef bandaríski fjárfestingarbankinn Lehman Brothers hefði ekki fallið. Taldi ákærði að aldrei myndi fást svar við því hvort flutningur reikninganna hafi verið raunhæfur á þessum tíma, en það tengdist því þó ekki að málinu hafi ekki verið fylgt eftir í forsætisráðuneytinu.

Í tengslum við 2. lið ákæru kvað ákærði nýmæli í löggjöf hafa verið mikilvægasta stjórnarmálefnið, sem rætt hafi verið um á fundum ríkisstjórnarinnar á árinu 2008, auk ýmissa mála, sem ráðherrar hafi kosið að taka fyrir, og tillagna til Forseta Íslands. Þar hafi einnig verið teknar fyrir skýrslur og kynningar um ýmis málefni, þar á meðal um kjarasamninga og almennt um efnahagshorfur, en á fundunum hafi þetta ekki alltaf verið sérstakir dagskrárliðir, heldur oft komið til umræðu undir liðnum önnur mál. Ríkisstjórnarfundir væru jafnframt vettvangur til að ræða um stjórnmál og fyrir ráðherra til að skiptast á skoðunum, en oft hafi slíkt verið gert fyrir fundi eða eftir að formlegri dagskrá hafi verið lokið. Jafnframt hafi ákveðnar venjur þróast í samsteypustjórnum, en mál væru þá oft undirbúin til afgreiðslu utan ríkisstjórnarfunda og hafi ákærði ekki orðið þess var að einstakir ráðherrar fyndu að því. Sérstaklega aðspurður um hvort sérstök ástæða hefði verið til að ræða við til dæmis samgönguráðherra, iðnaðarráðherra eða umhverfisráðherra um vanda bankanna og hvort brýnt hefði talist að þeir fjölluðu um þessi málefni sagði ákærði að formenn stjórnarflokkanna tækju ákvörðun um hvað ástæða væri til að fjalla um þegar allir væru viðstaddir. Hann kvað mörg dæmi vera um að formenn stjórnarflokka tækju ákveðna málaflokka til sín og ræddu þá án þess að þeir væru ræddir á ríkisstjórnarfundum og vísaði sem dæmi um það til þess að á tilteknu tímabili hafi utanríkismál ekki verið rædd í ríkisstjórn. Í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, sem sat fram á árið 2007, hafi verið náið samráð milli flokkanna og hafi verið reynt að haga samstarfinu þannig við Samfylkinguna. Þetta mál hafi fengið mikla umfjöllun milli sín og utanríkisráðherrans Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og það hafi verið að frumkvæði þeirra beggja. Ákærði kvað þau ekki hafa rætt sérstaklega um samskipti utanríkisráðherra og viðskiptaráðherra og ekki væri unnt að segja að utanríkisráðherra hafi tekið þessi mál beint að sér. Hann hafi ekki velt fyrir sér hvernig þau hefðu þetta eða vitað hvort einhverjar skýringar væru á því að viðskiptaráðherra hafi ekki verið hafður með í ráðum. Ákærði sagðist hafa talið sig geta gengið út frá því að upplýsingar, sem utanríkisráðherra fékk um þessi málefni, bærust áfram til viðskiptaráðherra og hafi aldrei verið ætlunin að leyna upplýsingum fyrir þeim síðastnefnda, sem hafi að mati ákærða unnið vel og af samviskusemi. Eftir á að hyggja teldi ákærði að betra hefði verið að viðskiptaráðherra hefði komið beint að þessum málum, en hann gæti ekki tekið afstöðu til þess hvort utanríkisráðherra hafi ekki sinnt skyldum sínum að þessu leyti.

Ákærði vísaði til þess að um fundargerðir af ríkisstjórnarfundum giltu ákveðnar reglur, en fundargerðir hafi ekki verið færðar fyrr en frá 1964 og þá aðeins bókað um hvað lagt hafi verið fram og hvernig mál hafi verið afgreidd. Ekki hafi endilega verið bókað um málefni, sem tekin hafi verið fyrir undir liðnum önnur mál, en nauðsynlegt væri fyrir ríkisstjórn að geta ræðst við án þess að allt væri bókað. Bókanir á fundum ríkisstjórnarinnar hafi þannig snúið að dagskrártillögum, sem ráðherrar hafi borið upp og lagt eitthvað skriflegt fram um, en þeir hafi látið ritara ríkisstjórnarinnar vita um mál, sem þeir vildu ræða, og þau verið sett á dagskrá. Að öðru leyti hafi á fundunum verið rædd önnur mál, sem ekki væri bókað um. Fundargerðir, sem ritari ríkisstjórnarinnar færði, hafi verið knappar, forsætisráðherra hafi svo farið yfir þær og samþykkt, en að því búnu hafi þær verið sendar öðrum ráðherrum.

Um málefni, sem bera ætti upp á ríkisstjórnarfundum samkvæmt 17. gr. stjórnarskrárinnar, kvaðst ákærði telja að til mikilvægra stjórnarmálefna í merkingu ákvæðisins heyrðu samkvæmt gömlum skilningi tillögur til Forseta Íslands. Ekki segði í ákvæðinu að öll mikilvæg málefni ættu að koma til kasta ríkisstjórnarinnar og væri slíkt háð mati, aðallega forsætisráðherra. Hann vissi ekki betur en að þau vinnubrögð, sem hann hafi viðhaft, væru enn við lýði, þar á meðal að ráðherranefndir sinni ýmsum málum. Ríkisstjórnarfundir væru samráðsvettvangur, þar sem ráðherrar gætu borið upp mál, sem þeir vildu afla fylgis við á þingi, svo sem gert væri til dæmis við undirbúning frumvarps til fjárlaga. Í langan tíma hafi verið starfandi ráðherranefnd um það mál, niðurstaða hennar væri borin upp í ríkisstjórn til afgreiðslu og færi hún svo þaðan sem stjórnarfrumvarp til þingsins, en þetta hafi gefist vel í framkvæmd.

Aðspurður hvort sú hætta, sem steðjaði að íslensku bönkunum á árinu 2008 og þá jafnframt ríkissjóði hafi verið rædd á ríkisstjórnarfundum, sagði ákærði að svo hafi væntanlega ekki verið undir þessum formerkjum, en bankamál hafi þó kannski verið rædd á ríkisstjórnarfundum sem hluti af efnahagsmálaumræðu. Málefnið hafi verið rætt á öðrum fundum. Hann hafi rætt þessi mál mikið við utanríkisráðherra, en einnig við samflokksráðherra sína. Mikið hafi verið spurt um þessi mál innan þingflokka, en þar hafi ekki verið fært að ræða jafn frjálslega, þar sem hætta hafi verið á að slíkt myndi rata í fjölmiðla.

Ákærði kvaðst ekki muna með hvaða hætti hafi verið fjallað á ríkisstjórnarfundi 8. febrúar 2008 um málefni bankakerfisins undir dagskrárlið um þróun efnahagsmála, sem iðnaðarráðherra hafi átt frumkvæði að. Sérstaklega aðspurður sagðist hann telja að hann hafi ekki tekið þar til umræðu atriði, sem rætt hafi verið um á fundi sínum, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra með bankastjórn Seðlabanka Íslands 7. sama mánaðar.

Ákærði mundi ekki eftir tilefni þess að samgönguráðherra hafi tekið upp umræðu á ríkisstjórnarfundi 18. mars 2008 um efnahagsmál. Þá kvaðst hann ekki geta sagt hvort rætt hafi verið um stöðu bankanna í tengslum við umfjöllun um þjóðhagsspá og skýrslu um þjóðarbúskapinn á fundi ríkisstjórnarinnar 15. apríl 2008, enda hafi hann ekki verið viðstaddur þann fund.

Aðspurður um ástæðu þess að yfirlýsing þriggja ráðherra og seðlabankastjóra til bankastjóra seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs frá 16. maí 2008 hafi ekki verið lögð fram á fundi ríkisstjórnarinnar sama dag, þar sem gjaldmiðlaskiptasamningar erlendu bankanna við Seðlabanka Íslands hafi verið kynntir, sagði ákærði yfirlýsinguna ekki hafa verið talda eins mikilvæga og samningarnir. Hafi verið ákveðið að vitneskja um yfirlýsinguna yrði einungis í þröngum hópi og teldi hann því víst að hún hafi ekki verið rædd.

Ákærði kvað ríka ánægju hafa verið á fundi ríkisstjórnarinnar 23. maí 2008 þegar rætt hafi verið um frumvarp fjármálaráðherra til laga um heimild ríkissjóðs til sérstakrar lántöku, enda hafi þótt nauðsynlegt að afla meiri fjár. Aðspurður hvort fjallað hafi verið um stöðu bankanna í tengslum við þetta sagði ákærði að heildarmyndin hafi verið rædd. Hann vakti jafnframt athygli á því að næsti dagskrárliður á sama fundi hafi einnig snúið að efnahagsmálum, en hann hafi varðað markmið í ríkisfjármálum og útgjaldaliði hvers ráðuneytis fyrir sig.

Ákærði kvaðst ekki geta skýrt ástæðu þess að viðskiptaráðherra hafi borið upp tillögu á á fundi ríkisstjórnarinnar 12. ágúst 2008 um skipun nefndar um fjármálastöðugleika. Málið hafi verið rætt á fundinum og því verið frestað, en afstaðan til þess hafi verið sú að ekki væri gott til afspurnar út á markaði að settur væri á laggirnar nýr hópur til viðbótar samráðshópi um fjármálastöðugleika og viðbúnað, auk þess sem skörun hefði þá orðið á verkum hans og nefndarinnar.

Ákærði sagði að ekki hafi verið rætt um stöðu bankanna á fundi ríkisstjórnarinnar 15. ágúst 2008, þar sem frumvarp til fjárlaga hafi verið tekið fyrir. Í þessu sambandi hafi aðeins verið rætt um að styrkja þyrfti Fjármálaeftirlitið.

Ákærði kvaðst telja að á ríkisstjórnarfundi 30. september 2008 hafi í fyrsta sinn á því ári verið rætt um málefni einstaks banka, þegar fjallað var um kaup ríkisins á hlut í Glitni banka hf. Formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands hafi komið á þennan fund til að gera grein fyrir því hvaða áhrif þessi aðgerð hafi haft á mörkuðum, en þau hafi verið neikvæð og ekki í samræmi við það, sem vonast hafi verið til. Á fundinum hafi verið ákveðið að ráðuneytisstjórar forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis og viðskiptaráðuneytis yrðu í neyðarteymi Seðlabanka Íslands og hafi það verið gert svo að ekki yrði unnið að málinu á mörgum stöðum. Að mati ákærða hafi ekki verið ástæða til að virkja samráðshópinn á þessum tíma, enda hafi hlutverki hans í raun verið nær lokið. Að auki hafi þetta allt verið sama fólkið og skipti þá ekki máli undir hvaða hatti það væri.

Í tilefni af gagnrýni viðskiptaráðherra, sem kom fram á fundi ríkisstjórnarinnar 3. október 2008 sökum þess að hann hafi ekki verið hafður með í ráðum um málefni Glitnis banka hf. fyrr en raun varð á, vísaði ákærði til þess, sem áður hafði komið fram í skýrslu hans og getið er um hér að framan. Viðskiptaráðherra hafi verið fjarverandi og ákærði verið í símsambandi við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra 27. og 28. september 2008, en hún hafi ákveðið að iðnaðarráðherra yrði fulltrúi hennar í þessu máli. Iðnaðarráðherra hafi síðan kallað til aðstoðarmann viðskiptaráðherra. Ákærði kvaðst hafa gengið eftir því að haft yrði símsamband við viðskiptaráðherra og honum sagt frá atvikum, en hann hafi síðan komið heim til ákærða snemma næsta morgun ásamt aðstoðarmanni sínum. Betra hefði verið að viðskiptaráðherra hefði verið viðstaddur fundi um þessi mál, en ekki hafi gefist tími til að hugsa um slíkt. Aðspurður hvort þetta hafi verið í fyrsta sinn, sem staða bankanna í heild hafi verið rædd á ríkisstjórnarfundi, kvaðst ákærði telja svo vera, það er að segja undir þeim formerkjum hversu hætt bankarnir væru komnir. Málefni þeirra hafi þó verið rædd innan um önnur efnahagsmál á fundum ríkisstjórnarinnar.

Ákærði kvaðst ekki geta svarað því hvort innstæðutryggingar hafi verið ræddar sérstaklega á fundum ríkisstjórnarinnar áður en þær voru teknar upp á fundi 5. október 2008. Yfirlýsing, sem þar var samþykkt, hafi ekki verið gefin í tengslum við Icesave reikningana, heldur snúið að því að íslenska ríkið myndi tryggja allar innstæður á íslenskum reikningum. Svokölluð neyðarlög hafi ekki verið rædd á þessum ríkisstjórnarfundi, heldur á fundi næsta dag, en á fundinum 5. október hafi verið farið rækilega yfir hvort aðrar leiðir væru færar. Viðskiptaráðherra hafi síðan borið frumvarp til þeirra laga undir ríkisstjórnina á fundi 6. október, enda hafi það verið undirbúið á vettvangi hans stofnana, en ákveðið hafi þó verið að ákærði flytti málið á Alþingi. Fundurinn 6. október 2008 hafi verið fyrsti og eini fundurinn, þar sem neyðarlögin voru rædd. Í frumvarpi til laganna hafi skilað sér lögfræðivinna, sem hafi staðið yfir í langan tíma, og hafi störf samráðshópsins einnig komið þar að gagni.

Í lok skýrslugjafar ákærða 5. mars 2012 var þeirri spurningu beint til hans hvort það væri réttur skilningur að hann hafi rætt málefni bankanna annars vegar við ráðherra síns eigin flokks og hins vegar við utanríkisráðherra að því leyti, sem þau hafi ekki komið til umfjöllunar á fundum ríkisstjórnarinnar. Af þessu tilefni sagði ákærði það rétt að hann hafi rætt þessi mál mikið og ítarlega við utanríkisráðherra og sína flokksmenn í ríkisstjórn, þótt það hafi ekki verið með jafn ítarlegum hætti. Sérstaklega aðspurður um hvort hann hafi rætt vandamál í bankakerfinu við viðskiptaráðherra, hvort sem er í tveggja manna tali eða fámennari hópi, sagði ákærði eftirfarandi: „Sennilega hef ég nú ekki gert það, ekki fyrr en til dæmis þennan morgun þegar hann kom heim til mín. Nei, nei, við ræddum reyndar oft saman en ekkert sérstaklega um þetta.“ Að endingu kvaðst ákærði ekki geta nefnt dæmi um eitthvert tilvik, þar sem þessi mál hafi verið rædd á ríkisstjórnarfundi án þess að bókað hafi verið um það, enda væri ekki hægt að ætlast til þess.

Ákærði gaf aftur skýrslu fyrir dómi 13. mars 2012 eftir að hafa hlýtt á framburð vitna við aðalmeðferð málsins. Þar tók hann fram í byrjun að hann teldi að sér hafi orðið á mismæli í fyrri skýrslu sinni í svari við spurningu um samskipti sín við viðskiptaráðherra. Hann teldi sig hafa sagt þá að þeir hafi ekki rætt um bankamál fyrr en undir lokin, en það væri ekki rétt, enda hafi þeir oft talað saman eins og viðskiptaráðherra og aðrir hafi staðfest fyrir dómi. Hann tók einnig fram að hafi hann ekki tjáð sig nægilega skýrt í fyrri skýrslu sinni um að efnahagsmál, atvinnumál, kjaramál og bankamál hafi margoft verið rædd í ríkisstjórninni og skyldi það áréttað að þetta hafi að sjálfsögðu verið gert.

Ákærði óskaði jafnframt eftir að koma að þeirri athugasemd að skjalið, sem hann undirritaði ásamt fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og bankastjórum Seðlabanka Íslands 16. maí 2008 hafi ekki falið í sér samkomulag, heldur hafi það verið einhliða yfirlýsing á grundvelli samkomulags Seðlabanka Íslands við þrjá norræna seðlabanka um gjaldmiðlaskiptasamninga. Þótt yfirlýsingin hafi ekki sérstaklega verið undirrituð af hálfu Fjármálaeftirlitsins hafi Ingimundur Friðriksson, sem skrifaði undir hana sem seðlabankastjóri, einnig átt sæti í stjórn Fjármálaeftirlitsins. Forstjóri þess hafi og borið fyrir dómi að Ingimundur hafi rætt við sig um þessa yfirlýsingu áður en hún var undirrituð. Loks lét ákærði þess getið að hann hafi ekki talið tilefni til að kalla ríkisstjórnina saman til fundar 27. og 28. september 2008 vegna málefna, sem vörðuðu Glitni banka hf. Nokkrir ráðherrar hafi verið viðstaddir fundi þá daga um þetta mál og hafi þeir náð símsambandi við flesta aðra ráðherra til að afla sér umboðs til að taka ákvarðanir.

2[breyta]

Vitnið Árni M. Mathiesen, sem gegndi embætti fjármálaráðherra frá 27. september 2005 til 1. febrúar 2009, kvaðst fyrir dómi telja örðugt að svara því hvort hætta hafi vofað yfir íslenskum bönkum og þar með ríkissjóði frá febrúar til október 2008 eða frá hvaða tíma hennar hafi gætt. Honum hafi þó allt frá því í janúar 2008 verið ljóst að bankarnir ættu erfitt með lánsfjáröflun og þá aðallega vegna utanaðkomandi aðstæðna. Aðgengi að lausafé á fjármálamörkuðum hafi þá versnað, en starfsemi íslensku bankanna hafi mjög verið háð lánsfjáröflun, einkum frá útlöndum. Skýrslur og upplýsingar hafi bent til að bankarnir stæðu vel, ættu góðar eignir, áhætta þeirra væri dreifð og þeir væru reknir með hagnaði. Vandamálin hafi ekki virst tengjast þeim sjálfum, heldur ytri aðstæðum, enda hafi bankar lent í vandræðum víða annars staðar. Á hinn bóginn hafi farið að glitta í það síðar á árinu 2008 að bankarnir ættu í erfiðleikum vegna sinnar eigin stöðu og innviðir þeirra hafi ekki verið sem skyldi. Hann kvað þetta einkum hafa birst sér í því að Landsbanki Íslands hf. hafi átt erfitt með að ná samkomulagi við bresk stjórnvöld um flutning á Icesave reikningum úr útibúi til dótturfélags. Það hafi leitt hugann að því hvort sú mynd, sem stjórnvöldum hafi verið gefin af stöðu bankans, hafi verið rétt og hver gæti þá verið ástæða þess að vandamál hafi tengst því að flytja eignir með skuldbindingunum til Bretlands.

Um atriði, sem snúa að lið 1.3 í ákæru, bar Árni að í sínum huga hafi hlutverk samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað verið fólgið í miðlun upplýsinga milli þeirra stofnana, sem áttu þar fulltrúa, svo og að samræma hugmyndir um hvernig ætti að takast á við vandamál, sem upp gætu komið. Vinna samráðshópsins hafi einkum snúið að því að fara yfir sviðsmyndir af hugsanlegum atburðum, hvaða kostir væru þá í stöðunni og hvort bæta þyrfti úr einhverju til að geta brugðist við. Hópnum hafi ekki beinlínis verið ætlað að gera aðgerðaáætlun, heldur að stuðla að samráði og samhæfingu stofnana þannig að auðveldara yrði að bregðast við ef eitthvað kæmi upp. Samráðshópurinn hafi einnig unnið að tillögum um breytingar á lögum um Fjármálaeftirlitið, en þær hafi síðar orðið hluti af frumvarpi, sem varð að lögum nr. 125/2008. Hópnum hafi ekki verið falið að gera frumvarp til laga um yfirtöku bankastofnana, en þetta hafi þó verið eitt af því, sem hann hafi unnið að. Slíkar breytingar á lögum hafi ekki verið lagðar til fyrr en raun varð á, enda hafi verið talið að það hefði leitt af sér nýja áhættu að leggja þær til á fyrri stigum. Árni kvaðst telja að viðlagaáætlun hafi legið fyrir af hendi hópsins haustið 2008, en þeir, sem áttu sæti í honum, hafi síðan flestir komið að starfinu, sem fór í hönd við hrun bankanna. Hafi ekki legið fyrir formleg viðlagaáætlun hafi stofnanirnar, sem áttu hlut að samráðshópnum, að minnsta kosti verið samhæfðari en þær hefðu annars verið. Árni kvaðst ekki hafa fengið upplýsingar um öll fundarefni samráðshópsins, heldur fremur um meginatriði þeirra. Hann hafi ekki fengið dagskrár funda samráðshópsins, skýrslur um einstaka fundi eða fundargerðir og heldur ekki gögn frá hópnum. Hann minntist þess ekki að fjallað hafi verið um vinnu samráðshópsins eða gögn frá honum á ríkisstjórnarfundum.

Árni sagðist ekki kannast við tillögur frá Andrew Gracie, sem samráðshópurinn hafi fjallað um á fundi 1. apríl 2008, eða að rætt hafi verið um þær á fundum hans með ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins eða í ríkisstjórn. Hann kvaðst ekki hafa heyrt þessa manns getið fyrr en í síðari hluta september 2008 og þá fyrir tilviljun. Hann kannaðist heldur ekki við vinnuskjal um sviðsmyndir fjármálaáfalls, sem samráðshópurinn hafi fjallað um á fundi 21. apríl 2008, eða skjal með heitinu ólystugi matseðillinn, sem lagt var fram á fundi hópsins 28. sama mánaðar. Hann tók fram af þessu tilefni að vinna af þessum toga hafi ekki átt beint erindi inn á borð hans, enda hafi stofnanir fjármálaráðuneytisins ekki fylgst með því, sem gerðist á fjármálamörkuðum, nema því aðeins að slík atriði kæmust á það stig að þau gætu valdið fjárútlátum úr ríkissjóði. Árni kvað tilkynningu sína 6. maí 2008 um ósk íslenska ríkisins um að gerast aðili að samningi ríkja Evrópusambandsins um viðbúnað gegn fjármálaáföllum hafa að vissu leyti verið hluti af viðbúnaðaráætlun íslenskra stjórnvalda, en jafnframt verið liður í alþjóðlegu samstarfi. Í tilefni af því að þessi tilkynning hafi verið lögð fram á fundi samráðshópsins 9. maí 2008 var Árni spurður hvort honum hafi verið greint frá atriðum varðandi innstæðutryggingar, sem þar hafi verið rætt um, og kvaðst hann ekki minnast slíkra umræðna.

Í tengslum við lið 1.4 í ákæru sagði Árni að rætt hafi verið um aðgerðir til að draga úr stærð bankakerfisins á fundum, sem hann hafi átt ásamt ákærða með fulltrúum bankanna, en þetta hafi ýmist verið fundir með fulltrúum einstakra banka eða sameiginlegir fundir með þeim öllum. Öllum hafi verið ljós þörfin á þessu allt frá árslokum 2007. Hann kvaðst telja að á slíkum fundum hafi tilmælum verið beint til bankanna um að gera það, sem þeir gætu í þessu skyni. Þeim tilmælum hafi verið tekið vel og bankarnir reynt eins og þeir gátu að minnka efnahagsreikninga sína, sem hafi tekist að vissu marki. Í ljós hafi svo komið að hluti af erfiðleikum Glitnis banka hf., sem hafi komið fram í september 2008, hafi stafað af því að tilraunir hans til að gera þetta hafi runnið út í sandinn. Árni kvað ekkert mat hafa verið gert á þeirri áhættu, sem fólst í útrás íslensku bankanna, og teldi hann slíkt mat ekki mundu hafa hjálpað stjórnvöldum mikið þegar holskeflan gekk yfir 2008. Ef mat af þessum toga hefði átt að leiða til viðbragða stjórnvalda hefði þurft að gera það kringum árið 2003 svo að það hefði getað orðið að leiðarljósi, sem máli skipti. Mestu stökkin í stækkun bankanna á árunum 2003 til 2008 hafi orðið á fyrri hluta þess tímabils og hafi hún hvorki verið jöfn né sú sama hjá öllum bönkunum. Árni kannaðist við að á árinu 2008 hafi verið rætt um hættu á því að fall eins bankanna gæti valdið falli þeirra allra. Bankarnir hafi þó jafnan lagt áherslu á að þeir væru ekki allir eins, þótt þeir væru íslenskir. Þeir hafi ekki verið byggðir upp á sama hátt og allt til þess síðasta hafi verið litið svo á að þeir væru ólíkir og ættu ekki í sömu erfiðleikum. Árni minntist þess að hafa átt fund ásamt ákærða með forstjóra Fjármálaeftirlitsins, sem sennilega hafi verið haldinn í mars 2008, og hafi komið þar fram að bankarnir væru taldir sterkir og eignasöfn þeirra í lagi, en þeir ættu í vanda með að fá aðgang að fé. Seðlabanki Íslands hafi gefið út stöðugleikaskýrslu vorið 2008 og aðra skýrslu um haustið, þar sem fjallað hafi verið um ástandið almennt, auk þess sem álagspróf Fjármálaeftirlitsins hafi ekki gefið nokkuð óeðlilegt til kynna. Ekkert hafi komið fram, sem hafi breytt þessum hugmyndum, og hafi því verið dregin sú ályktun að vandi bankanna hafi tengst aðgangi að fé.

Árni kvað stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar 23. maí 2007 hafa falið í sér að atvinnulífinu ætti að búa slíkar aðstæður að fyrirtæki sæju sér hag í því að starfa hér á landi, meðal annars með því að skattar drægju ekki úr samkeppnishæfni við önnur lönd. Í tengslum við fjármálastofnanir hafi menn haft augastað á umsýslu með sjóði, en um slíka starfsemi hafi verið fjallað í skýrslu um Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð. Þetta mætti ekki skilja þannig að stefnt hafi verið að stækkun hefðbundna bankakerfisins, heldur að tekin yrði upp ný starfsemi, sem væri annars eðlis.

Árni greindi frá því að á fyrstu mánuðum ársins 2008 hafi málefni Kaupþings banka hf. einkum snúist um að bjarga honum út úr kaupum á hollenska bankanum NIBC. Um þetta hafi verið rætt á fundum, sem hann hafi verið viðstaddur, og þá jafnvel að Fjármálaeftirlitið yrði að grípa í taumana og gefa einhver fyrirmæli. Hann kvaðst telja að slíkt hafi þó ekki verið gert, heldur hafi nægt að ræða um hugsanleg afskipti til að hætt hafi verið við kaupin.

Árni kvaðst minnast fundar 7. febrúar 2008, þar sem meðal annarra hafi einnig verið ákærði og Davíð Oddsson seðlabankastjóri. Davíð hafi þá nýlega komið úr ferð til London, þar sem hann hafi kannað hug lánastofnana til landsins, en það hafi hann gert í samræmi við samstarfssamning milli fjármálaráðuneytisins og seðlabankans, sem hafi falið í sér að bankinn undirbyggi lántökur fyrir ríkið. Á fundum um þetta hafi komið fram mismunandi afstaða lánastofnana til þess hvort æskilegt væri fyrir ríkið að leita eftir lánsfé á markaði. Sumir hefðu talið að rétt væri að gera það, þar sem í því fælist yfirlýsing um að stjórnvöld væru ekki að gefast upp, en aðrir hefðu talið þetta erfitt, þar sem skuldabréfaútboð gæti mistekist og þess vegna ætti að sæta lagi og gera það síðar. Á fundinum 7. febrúar 2008 hafi einnig fallið ummæli um afstöðu erlendra viðmælenda seðlabankastjórans til íslensku bankanna, starfsemi þeirra og möguleika til að afla sér lánsfjár. Í tilefni af upplýsingum, sem þar hafi komið fram, kvaðst Árni hafa sérstaklega spurt hvað hægt væri að gera. Þeirri spurningu hafi verið svarað á þann veg að stjórnvöld væru þá þegar að gera það, sem unnt væri og máli gæti skipt, og yrði að halda því áfram. Í stórum dráttum hafi verið átt við það að bankarnir héldu áfram að reyna að draga úr stærð sinni og ríkið að stækka gjaldeyrisforðann. Einnig hafi verið getið um áhyggjur erlendis af Icesave reikningum Landsbanka Íslands hf. Hann kvaðst ekki hafa óskað eftir frekari upplýsingum af þessu tilefni, enda hafi þessir hlutir verið á verksviði seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins í samvinnu við bankakerfið.

Árni sagði að efnt hafi verið til fundar, sem ákærði hafi haldið ásamt sér, utanríkisráðherra og viðskiptaráðherra með fulltrúum fjármálafyrirtækja 14. febrúar 2008, til að fara yfir stöðu fyrirtækjanna og kosti þeirra á að afla lánsfjár. Hann minntist þess ekki hvort rætt hafi verið um skuldastöðu bankakerfisins, en fjallað hafi verið um þörfina á endurfjármögnun. Á þessum tíma tíma hafi ekki legið fyrir að gjalddagi stórrar skuldar Glitnis banka hf. haustið 2008 gæti orðið vandamál og hafi frekar verið fjallað á fundinum um stöðuna til lengri tíma en um einstaka gjalddaga, en þeir stærstu hafi þó átt að vera á seinni hluta ársins 2009. Árni minntist þess ekki að fjallað hafi verið á fundinum um mikilvægi þess að íslensk fyrirtæki hefðu höfuðstöðvar sínar hér á landi, svo sem getið var um í yfirliti um umræðuefni á fundinum. Í kjölfar þessa fundar hafi einkum verið lögð áhersla á að stækka gjaldeyrisvarasjóðinn, því það myndi sýna styrk ríkisins sem bakhjarls ef illa færi. Peningar, sem ríkið tæki að láni, yrðu ekki fengnir bönkunum til eigin rekstrar, heldur til að auka traustið þannig að þeir fengju frekar fé að láni sjálfir. Á fundinum hafi ekki verið gefnar yfirlýsingar um að ríkið myndi styðja við bankana á annan hátt en þennan. Árni kannaðist ekki við að atriði, sem talin voru upp í tölvubréfi til hans frá ráðuneytisstjóranum í fjármálaráðuneytinu 14. febrúar 2008 og fengin voru frá Tryggva Pálssyni, hafi verið rædd sérstaklega á þessum fundi, en allt hefði þetta þó komið upp í fjölmörgum samtölum.

Árni taldi engin ný tíðindi hafa falist í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 14. apríl 2008, þar sem meðal annars var bent á að grípa yrði til aðgerða til að bregðast við stærð bankakerfisins. Það hefði þó ekki verið auðvelt að minnka efnahagsreikninga bankanna á þessum tíma, enda hafi markaðir ekki verið góðir fyrir sölu lánasafna og ýmsar aðgerðir hefðu getað leitt til þess að gengið hefði á eigið fé bankanna. Það hafi því verið mjög tvíeggjað hvað gera mætti á stuttum tíma, en einnig mætti efast um að ráðleggingar sem þessar hafi beinst að því að stórar breytingar ættu að verða frá því í apríl fram í september 2008. Stjórnvöld hafi ekki búið yfir úrræðum til að flýta þessu og hefði líklega engu breytt þótt hugað hefði verið að þessu í ársbyrjun 2008, því allt það ár hafi markaðir verið mjög erfiðir að þessu leyti. Á hinn bóginn hafi bankarnir eflaust haft fullan vilja til að gera það, sem þeir gátu í þessari stöðu. Hugmynd um að bankarnir flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi hafi fyrst komið upp síðar á árinu 2008 og taldi Árni þann kost hafa verið í alvarlegri skoðun hjá þeim.

Þó yrði að spyrja hver raunveruleg staða bankanna hafi þá verið, en hefðu þeir reynt að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi mætti ætla að eignasöfn þeirra og eiginfjárstaða hefðu komið til skoðunar í því ríki, sem þeir vildu flytja til, og hefði flutningur ekki komið til greina nema hlutirnir væru í lagi. Árni kvaðst ekki geta svarað nú hver áhrif þess að höfuðstöðvar Kaupþings banka hf. hefðu verið fluttar úr landi hefðu orðið fyrir skatttekjur ríkisins, en þessi banki hafi verið um helmingur alls bankakerfisins og myndi brotthvarf hans hafa haft gríðarleg áhrif á það hversu stóran gjaldeyrisforða seðlabankinn þurfti til að geta talist vera trúverðugur bakhjarl.

Árni kvaðst ekki hafa heyrt fyrr en á síðari stigum af bréfi, sem bankastjóri Englandsbanka ritaði formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands 23. apríl 2008. Honum hafi skilist að þar hafi seðlabankanum verið neitað um lánalínur, en um önnur efnisatriði bréfsins hafi honum ekki verið kunnugt.

Árni sagðist ekki geta svarað því hvers vegna viðskiptaráðherra hafi ekki undirritað yfirlýsingu þriggja ráðherra og bankastjórnar Seðlabanka Íslands 16. maí 2008, sem gerð var í tengslum við gjaldmiðlaskiptasamninga bankans við þrjá norræna seðlabanka. Í samsteypustjórnum skipuðu stjórnarflokkarnir sínu fólki til verka og kvaðst Árni ekki hafa vitað annað en að yfirlýsingin hafi verið gefin í fullu samráði við þær stofnanir og ráðuneyti, sem fjallað var um. Hann hefði sjálfur kosið að félagsmálaráðherra undirritaði þessa yfirlýsingu, því þar hafi verið ákvæði um Íbúðalánasjóð, sem hafi verið það eina sem ekki gekk eftir. Hann hafi aldrei orðið annars var í skiptum við norrænu seðlabankana en að íslensk stjórnvöld hafi staðið við sitt og þeir verið sáttir, en hann hafi átt mikil samskipti við þá haustið 2008. Sagðist Árni ekki hafa heyrt af því á fyrri hluta ársins að erfiðleikar væru í samskiptum formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands og bankastjóra seðlabanka Svíþjóðar, en af því hafi hann á hinn bóginn heyrt síðar frá þeim báðum. Hann hafi ekki orðið þess var að nokkuð væri óeðlilegt í afstöðu erlenda seðlabankastjórans til Íslands.

Árni kvaðst hafa vitað frá hausti 2007 að Landsbanki Íslands hf. hefði í hyggju að bjóða Icesave reikninga í Hollandi, en honum hafi ekki orðið kunnugt um hvenær þessi innlánasöfnun ætti að hefjast fyrr en eftir að hún byrjaði 29. maí 2008. Hann hafi beðið ráðuneytisstjórann í fjármálaráðuneytinu um að flytja bankanum skilaboð um að stefna yrði að því að koma þessari starfsemi í dótturfélög, bæði í Hollandi og Bretlandi, en ekki mundi hann hvenær hann hafi gert þetta. Stjórnvöld hafi ekki talið sig hafa heimildir til að banna þessa starfsemi bankans. Þá hafi Fjármálaeftirlitinu verið ljóst að bankinn þyrfti á þessu fé að halda. Aðspurður hvort athygli hafi ekki beinst að hættu af þessari innlánasöfnun Landsbanka Íslands hf. fyrir Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta þegar umræður um Icesave reikningana hafi komið upp á árunum 2007 til 2008 kvaðst Árni ekki hafa litið svo á, hvorki á þeim tíma né nú, að ríkið bæri ábyrgð á reikningunum, þótt það hafi sýnt sig að betra hefði verið að þessi starfsemi hefði farið fram í dótturfélögum. Þrátt fyrir þessa afstöðu hafi á árinu 2008 ekki verið talið útilokað að kröfur kynnu að verða gerðar á íslenska ríkið ef illa færi og hafi það flækt málið, sérstaklega þegar stjórnvöld hafi reynt að skapa traust. Í tilefni af því að Árni bar samkvæmt gögnum málsins fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að erfitt hafi verið að horfa fram hjá því að á endanum kynni íslenska ríkið að þurfa að greiða kröfur innstæðueigenda í Hollandi og Bretlandi var hann spurður hvort hann hafi rætt þetta við ákærða á þessum tíma og hver afstaða ákærða hefði verið. Árni svaraði því til að rætt hafi verið um hvernig ríkið kynni að þurfa að koma að málum vegna þeirrar óskilgreindu skyldu, sem hvíli á ríkjum og seðlabönkum til að koma bönkum til aðstoðar í erfiðleikum, en enginn viti þó hvar slík ábyrgð hefjist eða endi. Hann kvaðst hafa heyrt á það minnst að Landsbanki Íslands hf. hafi auglýst erlendis að ríkisábyrgð væri á Icesave reikningunum, en sér væri ekki kunnugt um hvort bankinn hafi gert þetta.

Varðandi lið 1.5 í ákæru sagði Árni að á síðari hluta sumars 2008 hafi komið til beinna aðgerða stjórnvalda til að stuðla að flutningi Icesave reikninga úr útibúi Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi til dótturfélags. Bankinn hafi þá leitað til Fjármálaeftirlitsins og síðan viðskiptaráðherra, sem hafi farið til fundar við breska fjármálaráðherrann í byrjun september 2008. Árni kvaðst hafa frétt af þeim fundi með því að borist hafi í tal milli sín og viðskiptaráðherra hvort ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu ætti að vera í íslensku sendinefndinni á fundinum, en þetta kunni að hafa komið upp að tilhlutan ákærða. Hann sæi ekki hvað íslensk stjórnvöld hefðu meira getað gert, enda hafi íslenska ríkið ekki getað sett lög til að þvinga Breta til að taka við starfseminni. Vandamálið hafi snúist um hvernig mætti framkvæma þetta án þess að skaða Landsbanka Íslands hf. og einkum beinst að flutningi eigna til dótturfélags. Erfitt væri að átta sig á hvort í raun hafi skort áhuga hjá bankanum á að láta verða af þessu, en samskipti við bresk stjórnvöld hafi verið mjög skrýtin og mætti efast um heilindi þeirra í samskiptum við þau íslensku.

Árni kvaðst ekki hafa frétt af útstreymi af Icesave reikningum í Bretlandi í mars og apríl 2008 þegar stjórnendur Landsbanka Íslands hf. greindu frá því á fundum með bankastjórn Seðlabanka Íslands, en alltaf hafi þó verið rætt um miklar sveiflur á þessum innstæðureikningum. Ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu hafi vorið 2008 sagt Árna frá því að viðræður Landsbanka Íslands hf. við breska fjármálaeftirlitið gengju illa og væri togast þar á um hversu miklar eignir bankinn ætti að flytja og gæti flutt til dótturfélags, sem hafi átt að taka við Icesave reikningunum. Árni minntist þess ekki að ráðuneytisstjórinn hafi mælst til þess að Árni kæmi að viðræðum um þetta, en þetta mál hafi verið á sviði viðskiptaráðherra og Fjármálaeftirlitsins. Honum var ekki kunnugt um hvort ákærði hafi komið að þessu.

Aðspurður kvaðst Árni hafa tekið þátt í því að semja bréf, sem viðskiptaráðuneytið hafi sent til breska fjármálaráðuneytisins 20. ágúst 2008 vegna innstæðutrygginga. Í bréfinu hafi verið forðast að lýsa yfir ábyrgð íslenska ríkisins á innstæðum, enda hafi það heldur ekki verið afstaðan, en einnig hafi verið reynt að láta í ljós að vilji væri til að gera það, sem hægt væri. Með því hafi verið vísað til þess hlutverks, sem ríki og seðlabankar fari með gagnvart fjármálakerfinu.

Varðandi 2. lið ákæru var Árni spurður hvort málefni bankanna og sú hætta, sem vofði yfir fjármálamarkaðnum, hafi verið rædd á fundum ríkisstjórnarinnar frá því í febrúar til loka september 2008. Hann kvað svo vera þótt efnið hafi ekki verið á dagskrá fundanna. Nánar aðspurður um hvernig þetta hafi verið rætt sagði Árni að af þeim þremur forsætisráðherrum, sem hann hafi setið með í ríkisstjórn, hafi ákærði mest miðlað upplýsingum og rætt um mál við aðra ráðherra. Hann teldi sig geta fullyrt að oft hafi verið rætt um vandann og með reglulegu millibili. Ráðherrar hafi í stórum dráttum vitað um þróun mála, en hann gæti ekki sagt til um hversu mikið hafi verið farið í einstök atriði, enda ætti hann erfitt með að greina milli einstakra funda og þess, sem komið hafi fram á ríkisstjórnarfundum og á fundum ráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Árni kvaðst ekki muna í smáatriðum eftir umræðum um efnahagsmál, sem hafi farið fram á fundum ríkisstjórnarinnar 8. febrúar 2008 að beiðni iðnaðarráðherra og 18. mars 2008 að beiðni samgönguráðherra. Hann teldi þó að efnin, sem þessir ráðherrar hafi óskað eftir að ræða, hafi ekki endilega snúið að stöðu bankanna, en samgönguráðherra hafi til að mynda viljað ræða um stöðu sveitarfélaga og stærð þeirra.

Árni svaraði því ekki hvort rætt hafi verið um yfirlýsingu þriggja ráðherra og bankastjórnar Seðlabanka Íslands til seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs frá 16. maí 2008 þegar gjaldmiðlaskiptasamningar við erlendu bankana voru kynntir á ríkisstjórnarfundi sama dag. Hann gat þess að fréttatilkynning hafi verið gefin út af þessu tilefni, svo og að gjaldmiðlaskiptasamningarnir hafi verið gerðir á milli seðlabankanna.

Árni kvað tillögu viðskiptaráðherra um skipun nefndar um viðbrögð við óróleika á fjármálamarkaði, sem rædd hafi verið á fundi ríkisstjórnarinnar 12. ágúst 2008, hafa snúist um að setja á fót hóp, sem hafi svipað mjög til samráðshópsins um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Hefði þessi tillaga verið samþykkt hefði sú nefnd komið í stað samráðshópsins, en Árni taldi að viðskiptaráðherra hafi örugglega vitað um tilvist þess hóps.

Árni kvaðst ekki geta fullyrt hvort málefni einstaks banka hafi verið rædd á ríkisstjórnarfundum fyrr en 30. september 2008. Hann teldi þó líklegt að atriði í tengslum við Icesave reikninga hafi borið þar á góma, en hann gæti ekki fullyrt það. Aðspurður sagðist hann halda að Davíð Oddsson hafi komið á þennan fund samkvæmt boði ákærða til að geta veitt allri ríkisstjórninni upplýsingar, en ekki mundi hann hvort slíkt hafi áður gerst.

Aðspurður í tilefni af gagnrýni, sem viðskiptaráðherra bar upp á fundi ríkisstjórnarinnar 3. október 2008 sökum þess að hann hafi ekki verið hafður með í ráðum um málefni Glitnis banka hf., kvaðst Árni ekki geta svarað því hvers vegna viðskiptaráðherrann hafi virst vera svo lítið inni í atburðarásinni. Það væri í verkahring flokkanna sjálfra að ákveða hvernig mönnum væri skipað til verka og þannig hafi það einnig verið í fyrri ríkisstjórnum.

Árni sagðist efast um að ekki hafi verið rætt um innstæðutryggingar og lántöku hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á ríkisstjórnarfundum fyrr en 5. október 2008 þegar bókað var um þessi atriði í fyrsta sinn í fundargerð. Um aðdraganda að setningu laga nr. 125/2008 sagði Árni hluti hafa gerst mjög hratt um helgina 4. og 5. október. Seint að kvöldi sunnudagsins hafi ráðherrar átt fund með starfsmönnum bankans J.P. Morgan. Þá hafi orðið ljóst að allt gæti gerst og því ekki seinna vænna að undirbúa lagaheimildir fyrir ríkið til að gera það sem þyrfti ef allt færi á versta veg. Grunnurinn að þessu hafi þegar legið fyrir vegna vinnu í samráðshópnum, en Árni sagðist þó ekki geta tilgreint hvaðan einstakir hlutar frumvarpsins, sem varð að þessum lögum, hafi komið eða á hvaða stigi þeir hafi verið unnir.

3[breyta]

Vitnið Björgvin G. Sigurðsson, sem var viðskiptaráðherra í ríkisstjórn ákærða frá 24. maí 2007 til 1. febrúar 2009, bar fyrir dómi að vitað hafi verið að bankarnir væru stórir miðað við íslenskt efnahagslíf, en ekki hafi verið búist við að bankakerfið myndi falla. Bankarnir hafi verið vel fjármagnaðir og staða þeirra ekki litið illa út af reikningum þeirra að dæma. Það sama hafi komið fram í upplýsingum greiningarfyrirtækja og eftirlitsstofnana. Þó hafi verið vitað að þrengingar á lánsfjármörkuðum gætu leitt til vandræða hjá einstökum fjármálafyrirtækjum og hafi íslensk stjórnvöld eins og öll ábyrg stjórnvöld gert ráð fyrir að ástandið gæti versnað. Talið hafi verið að ef ástandið yrði ekki verra gætu bankarnir staðið þetta af sér, en ekki væri þó útilokað að koma þyrfti einum banka til aðstoðar og jafnvel taka hann yfir. Á þessu tímabili hafi margt gerst í bankakerfum nágrannalandanna og glitt í það að tröllvaxnir atburðir gætu verið fram undan. Þá vísaði Björgvin til þess að það hafi verið sérstakt markmið Jóns Sigurðssonar, sem tók við starfi formanns stjórnar Fjármálaeftirlitsins í janúar 2008, að koma skikki á rekstur bankanna, meðal annars með því að hluti af starfsemi þeirra yrði fluttur í dótturfélög.

Björgvin kvað hlutverk samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað hafa verið skilgreint í samkomulagi um stofnun hans á þann veg að hann hafi verið vettvangur til upplýsingaskipta milli stofnananna, sem þar hafi átt fulltrúa. Vitneskja hafi borist til ráðuneytanna þriggja um hvað þar hafi farið fram í grófum dráttum með því að ráðuneytisstjórarnir, sem sátu í hópnum, hafi gert ráðherrum sínum grein fyrir því. Ráðuneytisstjórinn í viðskiptaráðuneytinu hafi gert honum grein fyrir starfi hópsins á óformlegum fundum. Af þessum sökum hafi hann ekki þurft að kalla eftir neinu frá samráðshópnum. Gögn, sem hafi verið lögð fram við vinnu hópsins, hafi ekki verið afhent ráðherrunum, sem þar áttu fulltrúa. Málefni hópsins hafi ekki verið kynnt honum sérstaklega sem trúnaðarmál, en þau hafi þó alltaf verið með þeim formerkjum. Hann hafnaði því eindregið að upplýsingum hafi verið haldið frá sér og að eitthvað slíkt hafi verið gert sökum þess að hann hafi þótt lausmáll. Þá tók hann fram að forstjóri Fjármálaeftirlitsins hafi ekki verið fulltrúi viðskiptaráðherra í samráðshópnum, enda hafi þetta verið mjög sjálfstæð stofnun. Hann kvaðst ekki hafa átt samtöl við forstjórann á þessum tíma og hafi hann fremur rætt málefni fjármálamarkaðarins við formann stjórnar Fjármálaeftirlitsins. Þá gat hann þess að hann hafi ekki átt í samskiptum við Seðlabanka Íslands.

Björgvin sagðist telja að samráðshópurinn hafi skilað verulegum árangri þegar litið væri til baka, enda hafi vegna starfa hans verið unnt að taka yfirvegaða og fumlausa ákvörðun þegar höggið reið yfir. Samráðshópurinn hafi gert ráð fyrir að hvað eina gæti gerst, en í því hafi á hinn bóginn ekki falist spá um að allt kerfið myndi bregðast. Vinna við gerð frumvarps, sem varð að lögum nr. 125/2008, hafi byrjað 9. maí 2008 þegar forstjóri Fjármálaeftirlitsins hafi komið í viðskiptaráðuneytið með tveggja ára gömul drög að slíku frumvarpi. Í júní og júlí sama ár hafi hópur innan viðskiptaráðuneytisins unnið áfram að þessum drögum, en í honum hafi setið þrír starfsmenn þess, Áslaug Árnadóttir, Kjartan Gunnarsson og Sigríður Rafnar Pétursdóttir, ásamt Rúnari Guðmundssyni frá Fjármálaeftirlitinu. Á grundvelli þessa starfs hafi lagafrumvarpið legið fyrir í tæka tíð og hafi það verið reist á þeirri hugmynd að stofna nýja banka á grundvelli þeirra gömlu, tryggja innstæður í þeim og starfsemi þeirra, en að keppast ekki við að halda þeim gangandi. Þá hafi verið búið að taka ákvörðun um hvernig fara ætti með innlánstryggingar.

Björgvin taldi vinnu samráðshópsins hafa verið markvissa og kannaðist ekki við að komið hafi fram að standa þyrfti að starfinu innan hópsins með öðrum hætti. Ekki hafi komið fram tillaga um að samkomulagi um stofnun hópsins yrði breytt. Miklum gögnum hafi verið safnað saman á vegum samráðshópsins. Leynd hafi ekki beinlínis hvílt yfir starfi hópsins, en ástandið á fjármálamörkuðum hafi á þessum tíma verið mjög viðkvæmt og hefði minnsti orðrómur um að bankarnir væru hugsanlega að stefna í vanda getað valdið falli þeirra. Því hafi verið mikilvægt að hópurinn hafi starfað eins og hann gerði og farið varfærnislega með allt, sem að honum sneri. Undir Björgvin var borið að í framlögðu endurriti af skýrslu, sem hann gaf fyrir rannsóknarnefnd Alþingis, hafi hann sagt að ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu hafi haldið öllum hlutum mjög hjá sér og sýnt ráðuneytisstjórum í viðskiptaráðuneytinu yfirgang. Hann svaraði því til að hópurinn hafi almennt ekki sent gögn frá sér og hafi verið mikilvægt að slíkt yrði ekki gert vegna eðlis starfa hans, til dæmis við vinnu að lagafrumvarpi um innstæðutryggingar. Hann kvaðst aldrei hafa séð aðgerðaáætlun frá hópnum vegna hugsanlegs fjármálahruns og kannaðist ekki við að hafa fengið áætlun frá hópnum, sem taka þyrfti afstöðu til, fyrr en um haustið 2008. Þá hafi verið hægt að fara nokkrar leiðir, en ekki hafi verið unnt að taka ákvörðun um þær fyrr en áfallið kom. Samráðshópnum hafi ekki verið ætlað að taka ákvarðanir, heldur ráðherrunum, sem að honum stóðu, og hafi þær verið teknar í október 2008. Aðspurður hvort hann hafi vitað til þess að aðrir hópar hafi starfað á vegum stjórnvalda um viðbrögð við hugsanlegu fjármálaáfalli sagði hann að einstakar stofnanir hafi haft frjálsar hendur til þess, en í samráðshópnum hafi verið skipst á upplýsingum. Af þeim meiði hafi verið vinnuhópurinn, sem starfaði innan viðskiptaráðuneytisins við samningu frumvarpsins sem varð að lögum nr. 125/2008, en einnig hafi starfað hópur innan fjármálaráðuneytisins, sem hafi lagt drög að ákvæði sem varð 1. gr. þeirra laga. Hann sagði að sér hafi ekki verið kunnugt um störf viðlagahóps, sem starfaði innan Seðlabanka Íslands.

Björgvin kvaðst ekki geta staðfest að sér hafi verið greint frá ummælum, sem höfð voru eftir Ingimundi Friðrikssyni í fundargerð samráðshópsins frá 15. janúar 2008 um að fjármálaáfall væri ekki lengur fjarstæðukenndur möguleiki. Hann sagði einnig að sér hafi ekki verið kunnugt um tillögur, sem Andrew Gracie hafi skilað 29. febrúar 2008 og samráðshópurinn hafi síðan unnið með, en taldi samt öruggt að greint hafi verið frá þessari vinnu í samtölum um fundi hópsins. Aðspurður hvort gripið hafi verið til samhæfðra aðgerða ráðuneytanna, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands eins og hvatt hafi verið til í vinnuskjali á grundvelli tillagna Andrew Gracie, sem lagt var fram á fundi samráðshópsins 1. apríl 2008, svaraði Björgvin því til að það hafi verið gert, sem raunhæft hafi verið að gera. Hann vísaði til þess að unnið hafi verið að frumvarpi, sem varð að lögum nr. 125/2008, á grundvelli þeirra forsendna sem fyrir lágu. Björgvin var spurður um fundargerð samráðshópsins 21. apríl 2008, þar sem kom fram að ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu hafi talið upp næstu skref í viðbúnaðarferlinu. Björgvin kvað viðskiptaráðuneytið hafa tekið þátt í þeirri vinnu, sem getið var í fundargerðinni. Aðspurður um vinnuskjal frá Tryggva Pálssyni, sem lagt var fram á fundi samráðshópsins 7. júlí 2008, þar sem meðal annars hafi verið lýst eftir ákvörðunum stjórnvalda og pólitískri stefnumótun um málefni bankakerfisins, sagðist Björgvin telja að ekki hafi verið kallað eftir slíku úr hópnum, en hópurinn hafi verið vettvangurinn til að draga allar tækar leiðir fram. Hann minntist þess ekki að hafa fengið beiðni um að veita pólitíska leiðsögn í einhverjum málum, sem vörðuðu samráðshópinn, og hafi ekki verið óskað sérstaklega eftir viðhorfum hans til einstakra atriða.

Björgvin kvað tillögu sína um skipun sérstakrar nefndar til að fjalla um málefni fjármálamarkaðarins, sem kynnt var á fundi samráðshópsins 12. ágúst 2008 og rædd á fundi ríkisstjórnarinnar sama dag, hafa átt rætur að rekja til þess að aðstæður á mörkuðum hafi versnað og ráðuneytisstjórinn í viðskiptaráðuneytinu talið að ná þyrfti utan um ákveðna þætti. Hann hafi talið að á grundvelli vinnu slíkrar nefndar hefði mátt taka ákvarðanir um hluta þeirra viðfangsefna, sem unnið hafi verið við í samráðshópnum og snúið sérstaklega að viðskiptaráðuneytinu. Ríkisstjórnin hafi ekki séð ástæðu til að fallast á þessa tillögu, en enginn hafi lagt stein í götu hennar og síst af öllu ákærði.

Aðspurður um fundargerð samráðshópsins 20. ágúst 2008 og hvort á þeim tíma hafi verið komin fram sérstök stefna og viðlagaáætlun stjórnvalda svaraði Björgvin því til að stefnan og viðlagaundirbúningur hafi orðið til á öllu því ári. Ekki hafi verið um að ræða eina áætlun, heldur margar leiðir, sem hafi tekið mið af ýmsum atvikum. Ein leiðin hafi verið sú að hafa tilbúið lagafrumvarp um heimildir fyrir ríkið til að taka yfir völd hluthafafunda í bönkunum og hafi það gengið eftir.

Í tengslum við lið 1.4 í ákæru lýsti Björgvin þeirri skoðun að ekki hafi verið unnt að grípa til aðgerða til að draga úr stærð bankakerfisins á árinu 2008, enda hafi markaðir þá verið frosnir og útsala á eignum bankanna hefði valdið hruni þeirra. Ákærði hafi þó rætt um þetta eins og aðrir ráðherrar og hafi stjórnvöld í raun tekið ákvörðun um að fella ekki bankana á þennan hátt. Á hinn bóginn hafi mátt beita smærri úrræðum, svo sem að efla gjaldeyrisforða seðlabankans. Á árinu 2008 hafi bankarnir leitast við að selja eignir eins og Glitnir banki hf. hafi reynt í Noregi, en þetta hafi ekki gengið vel. Á fyrri stigum hafi stjórnvöld margsinnis þrýst á bankana til að fá þá til að draga úr stærð sinni og hafi það verið gert með samtölum við stjórnendur þeirra. Eins hafi verið reynt að knýja á um að erlend starfsemi bankanna yrði færð úr útibúum í dótturfélög. Engar forsendur hafi verið til að þvinga bankana til að selja eignir, enda hafi þeir viljað gera það, en engum hafi tekist að selja eignir á árangursríkan hátt á þessum tíma. Aðspurður hvort þetta hafi verið rætt á fundum ríkisstjórnarinnar svaraði hann því að vonir hafi staðið til að ástandið myndi batna. Margt hafi verið í undirbúningi, en tími ekki unnist til að ljúka því.

Aðspurður hvort málefni, sem sneru að því að fá bankana til að minnka efnahagsreikninga sína, hafi ekki verið á verksviði viðskiptaráðuneytisins sagði Björgvin að þetta hafi verið samstarfsverkefni Fjármálaeftirlitsins, Seðlabanka Íslands og ráðuneytanna eins og skipun samráðshópsins bar með sér. Honum hafi fundist kerfisbresturinn vera greinilegur á fyrirkomulagi bankastarfsemi samkvæmt samningnum um evrópska efnahagssvæðið, enda hafi bankarnir getað athafnað sig á stórum markaði á grundvelli íslensks starfsleyfis og hafi augljós skekkja verið milli stærðar þeirra og íslenska hagkerfisins. Lausnin á þessu hefði verið að stækka myntsvæðið, sem bankarnir störfuðu á. Þessi hlutfallsvandi hafi ekki verið bundinn við bankakerfið, enda hafi stærð samfélagsins valdið því að alþjóðlegt umhverfi hefði mikil áhrif hér á landi. Óþekkt væri að formleg bönd væru sett á stærð bankakerfis og á þessum tíma hafi verið efast um að slíkt fengi samrýmst stjórnarskrá. Hafi því verið heppilegra að þetta yrði gert í samstarfi við fjármálafyrirtækin. Ekki hafi verið skoðað hvort ráðuneytið gæti beitt sér fyrir breytingu á löggjöf í átt að þeim lágmarkskröfum, sem leiddu af EES-samningnum, enda hafi bankarnir þegar hér var komið sögu löngu verið búnir að ná hámarksstærð og slíkar breytingar hefðu hugsanlega getað fellt bankakerfið. Þetta hafi hann ekki rætt við ákærða.

Björgvin kvaðst hafa litið svo á að það hafi verið í verkahring samráðshópsins um fjármálastöðugleika og viðbúnað að vinna að mati á áhrifum af útrás íslenska bankakerfisins. Um stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar frá 23. maí 2007 sagði hann að ríkisstjórnin hafi stefnt að því að alþjóðleg fyrirtæki í margvíslegum greinum sæju sér hag í að starfa hér og sjá landinu fyrir skatttekjum, störfum og launatekjum til starfsfólks. Það hafi ekki verið stefna stjórnvalda að styðja áframhaldandi vöxt bankakerfisins, en þegar á þeim tíma hafi það verið byrjað að minnka. Hugur stjórnvalda hafi fremur beinst að því að efla fjármálaeftirlit og hafi sú stefna einnig birst í framkvæmd.

Varðandi fund í viðskiptaráðuneytinu 15. janúar 2008 með formanni stjórnar Fjármálaeftirlitsins var Björgvin spurður hvort vandamálum og verkefnum, sem lýst var í minnisblaði um fundinn, hafi verið fylgt eftir af hans hálfu. Svaraði hann því til að þessi vinna hafi farið fram í samráðshópnum.

Björgvin sagði fund sinn, ákærða, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra með fulltrúum fjármálafyrirtækja 14. febrúar 2008 hafa verið haldinn í framhaldi af viðskiptaþingi um vaxandi erfiðleika á alþjóðamörkuðum. Meginatriðið hafi verið að stilla saman strengi og gera stjórnvöldum betur kleift að bregðast við vandamálum. Menn hafi séð óveðursskýin hrannast upp. Þau atriði, sem rædd voru á fundinum, hafi annars verið á sviði Fjármálaeftirlitsins og hafi viðskiptaráðuneytið engar heimildir haft til að ganga í þau verk.

Björgvin kannaðist ekki við að hafa fengið skýrslu, sem fylgdi bréfi framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 14. apríl 2008 til formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, eða að sú skýrsla hafi verið kynnt sér.

Björgvin kvaðst ekki hafa séð yfirlýsingu þriggja ráðherra og bankastjórnar Seðlabanka Íslands til seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs frá 16. maí 2008, sem gefin var í tengslum við gerð gjaldmiðlaskiptasamninga bankanna, fyrr en eftir gerð þessara samninga, sem kynntir voru á ríkisstjórnarfundi sama dag. Hann hafi ekki komið að þessum ráðstöfunum. Engu hafi breytt gagnvart Fjármálaeftirlitinu að hann hafi ekki undirritað yfirlýsinguna, enda væri það sjálfstæð stofnun og hafi honum verið óheimilt að skipta sér af málefnum hennar.

Björgvin sagði að innlánasöfnun Landsbanka Íslands hf. á Icesave reikninga í Hollandi ekki hafa komið inn á sitt borð, enda hafi það mál í raun verið afgreitt með tilkynningu bankans til Fjármálaeftirlitsins. Stofnunin hafi ekki getað komið í veg fyrir innlánasöfnunina nema með því að afturkalla starfsheimildir bankans og þar með fella hann. Björgvin bar að hann hafi rætt um innlánasöfnunina við forstjóra Fjármálaeftirlitsins þegar liðið var á sumarið 2008.

Um lið 1.5 í ákæru sagði Björgvin að flutningur á Icesave reikningum úr útibúi Landsbanka Íslands hf. í London til dótturfélags hafi verið í virku ferli, sem hafi einkum verið milli breska fjármálaeftirlitsins og bankans. Þegar á leið hafi komið upp efasemdir um að breska fjármálaeftirlitið hafi í raun viljað hleypa þessari starfsemi inn í breskt dótturfélag, enda hafi kröfur þess verið mjög óraunhæfar og hefði bankinn fallið ef hann hefði orðið við þeim. Björgvin kvaðst hafa metið það svo að bankinn hafi lagt sig fram um að koma innlánunum í dótturfélag, en hann hafi þó vitað að blendnar tilfinningar hafi verið innan bankans um að gera þetta, enda hefði það takmarkað kosti móðurfélagsins á að nýta innlánin í eigin starfsemi. Hann hafi vitað að ákærði hafi fylgst með málinu og gert það, sem gera þurfti. Hann hafi skynjað það af ákærða að aldrei kæmi til greina að verða við ósk breskra stjórnvalda um að íslenska ríkið léti af hendi fé til að koma þessum flutningi fram. Fundað hafi verið um málið í ágúst 2008 og hafi þá verið vitað um hættuna af þessum reikningum. Björgvin var spurður, í ljósi þess að hann hafi skipað nýjan formann stjórnar Fjármálaeftirlitsins sem hafi ætlað að beita sér fyrir því að Icesave reikningarnir yrðu fluttir í dótturfélag Landsbanka Íslands hf., hvort ekki hafi verið rætt um að þrýsta frekar á bankann til að hrinda þessu í framkvæmd. Björgvin vísaði til þess að bankinn hafi verið búinn að taka ákvörðun um þetta löngu fyrir skipun nýja stjórnarformannsins. Þetta hafi verið í ferli milli breska fjármálaeftirlitins og bankans, en Fjármálaeftirlitið hafi fylgst með þessu. Ekkert hafi kallað á afskipti ákærða af málinu, en það hafi ekki verið fyrr en líða fór á árið að ljóst varð í hvað stefndi.

Björgvin kvað utanríkisráðherra hafa sagt á þingflokksfundi Samfylkingarinnar frá fundi sínum og ákærða með bankastjórn Seðlabanka Íslands, sem líklega hafi verið haldinn 7. febrúar 2008, en um aðra slíka fundi hafi hann ekki heyrt fyrr en síðar. Hann minntist þess ekki hvaða upplýsingar hafi komið fram um þennan tiltekna fund, en þar hafi þó verið rætt um að stækka gjaldeyrisforðann og hafi Alþingi síðan veitt heimild til lántöku í því skyni. Aðspurður um atriði, sem getið var um í minnispunktum Tryggva Pálssonar um fundinn 7. febrúar 2008, þar á meðal að íslensku bankarnir væru í mikilli hættu, svaraði Björgvin því til að á þessum tíma hafi verið rætt um að bregðast þyrfti við ástandi á bankamörkuðum almennt og hvað væri unnt að gera ef það versnaði. Aðspurður hvort hann hafi fengið upplýsingar um fundi bankastjórnar Seðlabanka Íslands með stjórnendum Landsbanka Íslands hf. 25. og 30. mars 2008, þar sem rætt hafi verið um mikið útstreymi af Icesave reikningum í Bretlandi, kvaðst Björgvin ekki kannast við slíkar umræður. Hann kannaðist heldur ekki við að hafa heyrt af fundi ákærða og utanríkisráðherra með bankastjórn seðlabankans 1. apríl 2008, þar sem það sama kom fram, en lét þess getið að hann teldi forstjóra Fjármálaeftirlitsins hafa sagt sér af þessu síðar.

Björgvin sagði fund sinn með breska fjármálaráðherranum 2. september 2008 hafa verið haldinn að frumkvæði íslenskra stjórnvalda. Tilgangurinn hafi verið að knýja á um að breska fjármálaeftirlitið hefði uppi raunhæfari kröfur en komið hafi fram í bréfi þess 15. ágúst sama ár um skilyrði fyrir flutningi Icesave reikninganna í dótturfélag Landsbanka Íslands hf., en um þetta hafi bankinn leitað til stjórnvalda. Björgvin sagðist hafa átt frumkvæði að þessum fundi ásamt aðstoðarmanni sínum og hafi hann rætt þetta við ákærða, sem hafi verið því samþykkur. Ákærði hafi rætt við sig kvöldið áður en haldið var í ferðina til Bretlands og talið mikilvægt að fá því framgengt að reikningarnir yrðu tafarlaust færðir í dótturfélag, en til þess yrði að koma því til leiðar að bresk stjórnvöld gerðu raunhæfar kröfur. Ákærði hafi óskað eftir að ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu færi með á þennan fund og hafi Björgvin talið það hið besta mál. Þetta hafi verið í fyrsta sinn, sem þetta málefni hafi komið inn á borð stjórnmálamanna hér á landi, en fram að því hafi stjórnvöld fylgst með ferlinu og eftirlitsstofnanir átt í samskiptum um það. Hann kvaðst áður hafa átt nokkra fundi með formanni stjórnar Fjármálaeftirlitsins, þar sem Icesave reikningarnir hafi borist í tal, en á fyrri hluta ársins 2008 hafi ekki komið fram beiðni um að hann eða ákærði beittu sér með einhverjum hætti í þessu sambandi, enda hafi ekki verið ástæða til að ætla að málið væri ekki í réttum farvegi. Á þriðja ársfjórðungi 2008 hafi hann fengið upplýsingar um málið í samtölum við ráðuneytisstjórann í viðskiptaráðuneytinu, en það hafi ekki komið eiginlega inn á sitt borð fyrr en í ágúst á því ári. Þá hafi verið rætt um að íslensk stjórnvöld gripu inn í þetta ferli og hafi verið lagt á það ískalt mat, en aldrei hafi komið til greina að ríkið léti af hendi stórfé vegna innlánsreikninga, sem stofnaðir hafi verið erlendis. Vilji stjórnvalda hafi staðið til þess að innstæðurnar yrðu fluttar í dótturfélag í áföngum, en málið hafi strandað á ströngum kröfum breskra stjórnvalda. Björgvin kvaðst ekki hafa fengið tölvubréf frá sendiherra Íslands í London, þar sem fram kom að bresk stjórnvöld hafi orðið fyrir vonbrigðum með fundinn, en þau viðbrögð hafi komið sér á óvart. Það hefði verið þversögn að halda því fram að íslensk stjórnvöld hafi ekki tekið málið alvarlega þegar svo stór sendinefnd var send til fundarins.

Aðspurður um fyrirspurnir breskra stjórnvalda um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta í ágúst 2008 sagði Björgvin að það hafi algerlega verið útilokað að íslenska ríkið tæki á sig ábyrgð ef illa færi. Þessi afstaða sjáist í bréfum til breskra stjórnvalda, þar sem tekið var fram að íslensk stjórnvöld myndu leitast við að uppfylla skuldbindingar sínar, sem hafi þó ekki verið skilgreindar frekar. Svörin hafi ekki mátt vera slík að bresk stjórnvöld brygðust harkalega við og felldu íslenska bankakerfið, en aldrei hafi komið til álita að ríkið tæki yfir skuldbindingar tryggingarsjóðsins. Aðspurður hvort bréf breskra stjórnvalda hafi ekki borið með sér að þau teldu íslenska ríkið bera þjóðréttarlega ábyrgð á skuldbindingum tryggingarsjóðsins kvaðst Björgvin telja bresku stjórnvöldin ekki hafa skilgreint ábyrgðina. Evrópskar reglur um innstæðutryggingar hafi ekki verið sniðnar að kerfishruni og ættu þær því ekki við atvik eins og þau, sem urðu hér haustið 2008. Hann teldi að ekki hafi verið ágreiningur meðal embættismanna um lagalega ábyrgð íslenska ríkisins á skuldbindingum tryggingarsjóðsins, en blæbrigðamunur hafi verið á skoðunum um hvernig stilla ætti málinu upp gagnvart breskum stjórnvöldum. Ráðuneytisstjórar í viðskiptaráðuneytinu hafi ekki talið þessa ábyrgð hvíla á íslenska ríkinu. Hafi einhver ágreiningur verið uppi hafi hann ekki verið meiri en svo að samstaða hafi tekist um hvernig haga ætti svörum við fyrirspurnum breskra stjórnvalda.

Um lið 2 í ákæru bar Björgvin að málefni bankanna hafi oft verið rædd á fundum ríkisstjórnarinnar undir liðnum önnur mál og hafi þar verið gætt varfærni. Aðspurður um orð, sem hann lét falla fyrir rannsóknarnefnd Alþingis samkvæmt framlögðu endurriti af skýrslu hans þar, um að umræður á ríkisstjórnarfundum um stöðu bankanna hafi verið alveg ofboðslega fátæklegar, sagði Björgvin að þar hafi hlutirnir verið teknir úr samhengi. Yfir heildina hafi þetta verið heilmikið rætt, efnahagsmál og bankamál hafi margoft verið til umræðu, en langstærsti liðurinn í þessu hafi tengst umfjöllun um frumvarp til laga um heimild til erlendrar lántöku ríkisins 23. maí 2008. Að auki hafi verið rætt um þjóðhagsspá á ríkisstjórnarfundi 15. apríl 2008, en umræður um hana hafi tengst ýmsu öðru. Hann hafi ekki þurft að óska eftir því að ræða vanda bankanna á ríkisstjórnarfundum, enda hafi hann rætt um þetta við forsætisráðherra og aðra þegar á þurfti að halda. Málefni einstakra banka hafi ekki verið rædd á ríkisstjórnarfundum, heldur hafi umræðan snúið að stöðunni almennt og kerfinu sem slíku. Vegna fundargerðar frá ríkisstjórnarfundi 3. október 2008, þar sem bókað var að Björgvin hafi gagnrýnt að hann hafi ekki verið hafður með í ráðum vegna málefna Glitnis banka hf. fyrr en að kvöldi 28. september sama ár, tók hann fram að ákærði hafi viðurkennt að rétt hefði verið að bera þessi mál undir hann. Aðspurður gat Björgvin ekki bent frekar á hvenær málefni bankanna hafi verið til umræðu á ríkisstjórnarfundum. Hann gat þess að innstæðutryggingar hafi verið ræddar í ríkisstjórn fyrir 5. október 2008, enda hafi hann á fyrri stigum kynnt lagafrumvarp um það efni. Hann kvaðst aldrei hafa séð fundargerðir frá ríkisstjórnarfundum.

Björgvin bar að verklag í ríkisstjórninni hafi verið byggt á áratugahefð um samstarf oddvita tveggja flokka í stjórnarsamstarfi. Samskipti hans við utanríkisráðherra hafi verið „eins og gengur“. Hann hafi ekki átt reglulega fundi með utanríkisráðherra, en ráðherrafundir hafi verið haldnir hjá Samfylkingunni. Hann kvaðst ekki geta svarað því hverju hefði ekki verið komið á framfæri við sig um málefni bankakerfisins, en oft skarist verksvið manna og hafi aðstoðarmaður hans starfað með ýmsum öðrum.

4[breyta]

Vitnið Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem var utanríkisráðherra í ríkisstjórn ákærða frá 24. maí 2007 til 1. febrúar 2009, bar fyrir dómi að bankarnir hafi stækkað gríðarlega frá árinu 2000 fram til 2007. Hún hafi haft áhyggjur af bankakerfinu þegar á árinu 2006 og meðal annars rætt um það í utandagskrárumræðu á Alþingi, þar sem hún hafi vikið orðum að því hvort álagspróf Fjármálaeftirlitsins væru nægilega góð og gæfu skýra mynd af stöðu bankakerfisins, svo og hvort sú stofnun væri nógu öflug. Í umræðunum hafi komið fram að Fjármálaeftirlitið hafi ákveðið að efla álagsprófin. Eftir þetta hafi verið rætt um að bankarnir hefðu tekið til hjá sér og meðal annars dregið úr svonefndum krosseignatengslum. Hún hafi því trúað að bankarnir hafi látið sér erfiðleika á árinu 2006 að kenningu verða. Þótt segja mætti eftir á að hyggja að fráleitt hafi verið að hafa svo stórt bankakerfi í jafn litlu hagkerfi með örmynt, þá hafi það ekki valdið áhyggjum á þessum tíma og hafi engin umræða verið um það fyrir alþingiskosningar 2007. Hún hafi ekki vitað að bankakerfið hafi verið hársbreidd frá því að falla vorið 2006 og að um það hafi verið vitneskja í Seðlabanka Íslands og ríkisstjórn. Áhyggjur hennar af bankakerfinu hafi því ekki kviknað fyrr en um áramót 2007 og 2008 og hafi þær þá tengst hugsanlegri yfirtöku Kaupþings banka hf. á hollenska bankanum NIBC. Stjórnendur Kaupþings banka hf. hafi séð að þetta gæti ekki gengið, en þeir hafi ekki getað komist undan þessu nema fyrir tilstuðlan stjórnvalda. Hún hafi átt fund 15. janúar 2008 með viðskiptaráðherra og Jóni Sigurðssyni, formanni stjórnar Fjármálaeftirlitsins, þar sem þetta hafi meðal annars verið rætt, svo og að Jón teldi að of mikil vensl væru á lánamarkaði. Við þetta hafi aukist áhyggjur hennar af bankakerfinu, en hún hafi litið svo á að þessi mál væru á sérsviði Jóns og að hann myndi beita sér fyrir því að skerpa regluverkið ef þörf væri á.

Að því er varðar lið 1.3 í ákæru sagðist Ingibjörg ekki hafa vitað mikið um samráðshóp um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Henni hafi verið kunnugt um tilvist hans, hverjir áttu fulltrúa í honum og samkomulagið, sem gert var um stofnun hans. Hún hafi litið svo á að verkefni hópsins hafi verið að stilla saman strengi og samhæfa verklag þeirra, sem með einum eða öðrum hætti hefðu aðkomu að fjármálakerfinu, en ekki minntist hún þess að rætt hafi verið um að hópnum væri ætlað að undirbúa lagafrumvarp um yfirtöku ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Hún hafi aldrei haft beina vitneskju um það, sem fór fram innan hópsins, fyrir utan eitt skipti þegar ákærði hafi kallað ráðuneytisstjórann í forsætisráðuneytinu inn á fund þeirra til að greina frá vinnu hópsins. Hún minntist þess hvorki hvenær þetta hafi gerst né um hvað hafi verið fjallað. Hún kvaðst ekki muna eftir því að vinna samráðshópsins eða gögn frá honum hafi verið kynnt á ríkisstjórnarfundum. Eftir á að hyggja væri sérkennilegt að tiltekin gögn, sem hópurinn hafi fjallað um, hafi ekki verið lögð fram í ríkisstjórn, en það kynni að stafa af því að efni þeirra hafi þótt svo viðkvæmt. Hún taldi að meðal annars hefði verið ástæða til að kynna fyrir ríkisstjórn vinnuskjal um úrræði stjórnvalda vegna óróleika á fjármálamörkuðum, sem fjallað var um á fundi samráðshópsins 1. apríl 2008, og vinnuskjal um aðkallandi ákvarðanatöku stjórnvalda vegna hættu á fjármálaáfalli, sem var til umræðu á fundi hópsins 7. júlí 2008. Henni hafi aldrei borist skilaboð frá hópnum um að aðkallandi væri fyrir stjórnvöld að taka ákvarðanir í þessum málum, en hafa yrði í huga að þau hafi ekki átt undir utanríkisráðherra. Aðspurð hvort þetta hafi komið upp í samtölum hennar við ákærða eða fjármálaráðherra kvaðst Ingibjörg hafa fundað oft með ákærða um ýmis mál til að samstilla stjórnarflokkana, meðal annars um hvernig mál yrðu tekin inn í þingið. Ákærði hafi kallað hana til funda 7. febrúar og 1. apríl 2008 með bankastjórn Seðlabanka Íslands, væntanlega til að veita henni innsýn í þessi mál. Hún hafi hins vegar fundað mjög oft með viðskiptaráðherra, meðal annars á þingflokksfundum og ráðherrafundum Samfylkingarinnar.

Aðspurð hvort hún hafi litið svo á að samráðshópurinn ætti að gera aðgerðaáætlun vegna hugsanlegs fjármálaáfalls kvaðst Ingibjörg hafa vitað að hópurinn ætti að samræma aðgerðir þeirra, sem hafi átt hlut að honum. Honum hljóti að hafa verið ætlað að setja upp sviðsmyndir af því, sem gæti gerst í fjármálakerfinu, og kalla eftir ákvörðun viðkomandi ráðherra um það, sem hafi þurft að gera. Hún kvaðst ekki vita til þess að annar hópur hafi fengist við þessi verkefni, en í forsætisráðuneytinu hafi þó verið einhver hópur til að starfa við þetta. Hún hafi ekki vitað til þess hvort viðlagaáætlun hafi legið fyrir þegar fjármálaáfallið dundi yfir, enda hafi hún ekki þekkt til vinnu samráðshópsins.

Aðspurð hvort greindur hafi verið kostnaður ríkisins af því að styðja við bankana ef til fjármálaáfalls kæmi kvað Ingibjörg svo ekki vera, enda hafi enginn talið að bankakerfið væri að falli komið á þessum tíma. Vitað hafi verið um erfiðleika bankanna við öflun lánsfjár, en komið hafi fram að þeir væru búnir að fjármagna sig út árið 2008. Hafi það verið trú manna að bankakerfið stæði styrkum fótum, enda hafi það komið fram hjá matsfyrirtækjum og í skýrslu Seðlabanka Íslands um fjármálstöðugleika í maí 2008. Aðspurð hvort aðrar upplýsingar hafi komið fram á fundum hennar og ákærða með bankastjórn seðlabankans sagði Ingibjörg að þar hafi ekki verið dregin upp dekkri mynd af stöðu bankanna sem slíkra, en á hinn bóginn hafi komið fram að erlend fjármálafyrirtæki hafi ekki viljað eiga neitt við íslensku bankana saman að sælda og hafi formaður bankastjórnar seðlabankans rætt um bankamennina sem skúrka. Aldrei hafi verið lögð fram gögn eða rök fyrir því að bankarnir stæðu illa eða að eiginfjárstaða þeirra væri ekki góð og hafi því afstaðan verið sú að bankarnir stæðu þrátt fyrir þetta styrkum fótum.

Undir Ingibjörgu var borið minnisblað hennar um fund með ákærða 18. eða 19. apríl 2008, þar sem meðal annars var minnst á krísunefnd á vegum forsætisráðuneytisins. Hún kvaðst telja að þessi orð hafi ekki átt við um samráðshópinn, heldur vinnuhóp, sem hafi starfað að þessum málum í forsætisráðuneytinu. Tilefni þessa fundar með ákærða hafi tengst ræðu, sem hann flutti á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins 18. apríl 2008, sem hún hafi verið mjög óánægð með, enda hafi hún talið hann hafa útilokað þar aðild Íslands að Evrópusambandinu. Aðildin hefði að hennar mati getað stuðlað á nánar tiltekinn hátt að lausn þess vanda, sem steðjaði að íslenska bankakerfinu, og hefðu skilaboð um að stefnt væri að inngöngu í Evrópusambandið getað skipt verulegu máli. Hún kvað ummæli í minnisblaði sínu um björgunaraðgerðir hafa snúið að almennum aðgerðum til að draga úr stærð bankakerfisins, svo og ráðstöfunum í seðlabankanum til að styrkja varnir og auka trúverðugleika þeirra, einkum með tilliti til gjaldeyrisvarasjóðs. Á fundinum með ákærða hafi meðal annars verið sérstaklega rætt um aðgerðir til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn, sem Alþingi hafi síðan samþykkt um vorið með setningu laga um lántökuheimild ríkisins, en einnig hafi borist í tal hvað verið væri að gera til að minnka bankakerfið.

Aðspurð hvort hún hafi rætt við viðskiptaráðherra um atriði varðandi stöðu bankakerfisins, sem komið hafi fram á fundum hennar með ákærða og eftir atvikum bankastjórn Seðlabanka Íslands eða öðrum, sagðist Ingibjörg hafa gert það, þótt hún gæti ekki fullyrt að það hafi verið gert í öllum tilvikum. Hún hafi gert grein fyrir fundinum með ákærða og bankastjórninni 7. febrúar 2008 á þingflokksfundum Samfylkingarinnar 11. og 18. sama mánaðar. Að auki hafi hún og ákærði í framhaldi af þessu falið ráðuneytisstjóranum í forsætisráðuneytinu og aðstoðarmanni viðskiptaráðherra að koma með hugmyndir og tillögur um hvað gera mætti og hafi það verið með vitund og vilja viðskiptaráðherra. Hann hafi jafnframt verið á fundi fjögurra ráðherra með fulltrúum fjármálafyrirtækja 14. febrúar 2008 og hafi þau áður farið yfir það, sem komið hafi fram á fundinum 7. sama mánaðar. Öllum hafi mátt vera kunnugt um að hún hafi ásamt ákærða átt fund með bankastjórn seðlabankans 1. apríl 2008, enda hafi þá verið gefin út fréttatilkynning um að tiltekinni utanlandsför þeirra hafi verið frestað vegna fundar með Seðlabanka Íslands og ríkisstjórnarfundar. Þá hafi verið rætt um óróleika á fjármálamörkuðum á fundi ráðherra Samfylkingarinnar 7. apríl 2008. Hún gat þess einnig að aðstoðarmaður viðskiptaráðherra hafi verið meðal sérfræðinga Samfylkingarinnar um efnahagsmál og stöðu ríkisfjármála og hafi hún leitað til hans almennt um þá málaflokka, en samráðshópurinn og verk hans hafi ekki borist í tal milli þeirra.

Í tengslum við lið 1.4 í ákæru bar Ingibjörg að sér hafi verið kunnugt um að unnið væri að því að draga úr stærð bankakerfisins meira eða minna frá vori 2008, en enginn hafi þó litið svo á að þetta væri verkefni forsætisráðuneytisins, heldur hafi Seðlabanki Íslands öðrum fremur haft þau stjórntæki, sem tiltæk hafi verið í þessu skyni. Á fundi hennar og ákærða með bankastjórn seðlabankans 15. apríl 2008 hafi verið rætt um hugsanlega aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og norrænu seðlabankanna, svo og skilyrði sem þeir hafi sett í því sambandi, þar á meðal að seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið beittu þeim tækjum, sem þeir hefðu yfir að ráða, til að draga úr stærð bankakerfisins. Af hálfu seðlabankans hafi komið fram að ekkert væri því til fyrirstöðu að hann gerði það. Almennt hafi verið álitið að ákærði hefði engin önnur úrræði að þessu leyti en fortölur og samtöl við stjórnendur bankanna. Í janúar 2008 hafi allir lagst á árarnar til að koma í veg fyrir að Kaupþing banki hf. keypti hollenska bankann NIBC. Rætt hafi verið um að Glitnir banki hf. ætti eignir, sem unnt væri að selja, og þar hafi verið unnið að því. Á síðari stigum hafi ákærði falið efnahagsráðgjafa sínum að beita sér fyrir sameiningu Glitnis banka hf. og Landsbanka Íslands hf. Þá hafi verið ákveðið sumarið 2008 að beita Íbúðalánasjóði til að draga úr stærð bankakerfisins með því að kaupa íbúðalán af bönkunum, sem hafi þó ekki gengið sem skyldi. Einnig hafi verið rætt að bankarnir færðu starfsemi sína erlendis í dótturfélög. Þessi atriði hafi ekki komið til umræðu í ríkisstjórn með formlegum hætti eða verið á dagskrá ríkisstjórnarfunda, enda teldi hún að enginn hafi þorað að nefna þetta upphátt. Það hafi lamað athafnagetu manna að þeir voru hræddir við að eitthvað yrði sagt eða gert, sem myndi draga úr trausti á bankakerfinu og gæti leitt af sér áhlaup á bankana. Þetta hafi á hinn bóginn oft verið rætt utan dagskrár á ríkisstjórnarfundum, enda hafi ákærði iðulega í upphafi funda gert grein fyrir málum, sem voru á döfinni eða viðkvæm. Aðspurð hvort þar hafi verið rætt um áhættu ríkisins af því að ekki væri tiltækur lánveitandi til þrautavara sagðist Ingibjörg telja að allir hafi gert sér grein fyrir hlutfallsvandanum í bankakerfinu og einnig að þar hafi verið orðsporsvandi. Hún var einnig spurð hvort vandi bankanna hafi verið ræddur með þeim hætti að komið hafi fram að ef einn bankinn félli þá myndu hinir fylgja með og kvaðst hún telja að öllum hafi mátt vera það ljóst. Hún gat þess að rætt hafi verið um þetta á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar 30. mars 2008, þar sem fram hafi komið í máli nafngreinds hagfræðings að það hefði alvarlegar afleiðingar fyrir alla bankana ef einn þeirra rataði í vandræði.

Ingibjörg kvað ummæli í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí 2007 um að stefnt væri að því að útrásarfyrirtæki sæju sér áfram hag í því að hafa höfuðstöðvar hér á landi ekki hafa beinst að því að ríkisstjórnin hefði hug á að íslensku bankarnir héldu áfram að vaxa, en stærð þeirra hafi verið komin til fyrir þennan tíma. Þessum orðum hafi verið beint að alþjóðlegum þjónustufyrirtækjum, sem hún nefndi nokkur dæmi um.

Aðspurð hvort komið hafi fram alvarleg tíðindi á fundi hennar og ákærða með bankastjórn Seðlabanka Íslands 7. febrúar 2008 sagði Ingibjörg að hann hafi ekki verið eins og venjulegur fundur. Um miðbik hans hafi verið eins og seðlabankastjóri tæki hamskipti og hafi hann úthúðað bankamönnum og útrásinni með miklum stóryrðum. Hann hafi verið einn til frásagnar um það, sem komið hafi fram á fundum sínum í London skömmu áður, enda hafi enginn hinna bankastjóranna verið með í för. Hún hefði áður séð seðlabankastjórann í þessum ham og hafi hún tekið því, sem hann sagði, með ákveðnum fyrirvara. Sérstaklega aðspurð um ummæli í framlagðri skýrslu hennar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um að ákveðið vantraust hafi ríkt gagnvart formanni bankastjórnar seðlabankans og það hafi að einhverju leyti tengst því hvernig hann hafi talað um stjórnendur bankanna, taldi Ingibjörg ljóst að í þessum ummælum hafi endurspeglast umræða um einkavæðingu bankanna, að menn hafi verið valdir til að verða eigendur þeirra með tilteknum hætti og að sumir hafi verið formanni bankastjórnarinnar betur þóknanlegir en aðrir. Hafi verið erfitt að átta sig á því hvað væru málefnaleg sjónarmið og persónulegu sjónarmið hans. Hún hafi ekki hafnað hans sjónarmiðum, en tekið þeim með ákveðnum fyrirvara. Eftir fundinn hafi þau ákærði rætt þetta og ákveðið að kanna frekar hvort eitthvað hafi komið fram, sem ástæða væri til að skoða nánar. Þau hafi fengið ráðuneytisstjórann í forsætisráðuneytinu og aðstoðarmann viðskiptaráðherra til ákveðinna verka og einnig kvatt fulltrúa fjármálafyrirtækja til fundar. Þau hafi hins vegar aldrei fengið gögn til staðfestingar því, sem hafi komið fram á fundinum. Ekki hafi verið óskað eftir tillögum frá Seðlabanka Íslands í þessu sambandi, en hún hafi litið svo að það fælist í frumkvæðisskyldu hans að koma á framfæri upplýsingum eða hugmyndum um það, sem ríkisstjórnin ætti að gera í framhaldinu. Ekkert slíkt hafi komið fram. Hún kvað fund sinn og ákærða með bankastjórn seðlabankans 1. apríl 2008 hafa snúið almennt að stöðu fjármálakerfisins, en aðrir fundir með bankastjórninni hafi varðað stækkun gjaldeyrisvaraforðans. Ingibjörg var spurð um fund sinn og ákærða með bankastjórn Seðlabanka Íslands 16. apríl 2008, þar sem fjallað var um viðræður um gjaldmiðlaskiptasamninga við erlenda seðlabanka, og hvort skilyrði, sem norrænir bankar hafi sett í því sambandi, hafi komið til umræðu í ríkisstjórninni. Hún kvað öllum ráðherrum hafa verið ljóst að það þyrfti að vinna að því að minnka bankakerfið. Málefni Íbúðalánasjóðs hefðu verið rædd margsinnis, svo og mikilvægi þess að hann drægi úr lánveitingum. Gjaldeyrisvaraforðinn hafi einnig verið ræddur margsinnis. Þannig hafi allt, sem komið hafi fram á þessum fundi með bankastjórninni, verið ítrekað rætt. Seðlabankinn hafi talið að sér væri ekkert að vanbúnaði að vinna að því að minnka bankakerfið, en það hafi þó verið talið langtímaverkefni. Aðspurð hvort hún hafi upplýst viðskiptaráðherra um það, sem komið hafi fram á fundum með bankastjórn seðlabankans, svaraði Ingibjörg því til að ýmislegt hafi verið rætt óformlega og hafi þessi mál komið til umræðu á ráðherrafundum Samfylkingarinnar, til dæmis 7. apríl 2008.

Ingibjörg kvað fund, sem hún, ákærði, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra efndu til með fulltrúum fjármálafyrirtækja 14. febrúar 2008, hafa verið haldinn í tilefni af fundi sínum og ákærða með bankastjórn Seðlabanka Íslands 7. sama mánaðar til að reyna að fá heildarmynd á stöðunni. Þau hafi áður hvert fyrir sig hitt einstaka bankamenn, sem hafi rætt um að þeirra banki stæði vel en öðru gegndi um aðra banka, og hafi því verið ákveðið að stefna þeim öllum til fundar til að heyra hvað þeir segðu hver andspænis öðrum um fjármálakerfið í heild og vanda þess. Umræðan á fundinum hafi út af fyrir sig verið ágæt og meðal annars komið fram að ekki væri aðeins um orðsporsvanda bankanna að ræða, heldur einnig hlutfallsvanda. Hafi fulltrúum fjármálafyrirtækjanna verið ljóst að draga þyrfti úr stærð bankakerfisins, en á þessum vettvangi hafi ekki verið unnt að leggja það til við bankana að einn þeirra flyttist úr landi. Rætt hafi verið um hvað ríkið gæti gert til að styðja við fjármálakerfið, enda hafi ekki verið annar kostur í stöðunni en að gera allt sem unnt var til að koma í veg fyrir áhlaup á bankana. Í því sambandi hafi umræðan sem fyrr beinst að því hvernig styrkja mætti gjaldeyrisvarasjóðinn og hvort byggja mætti upp einhverjar varnir, sem myndu auka trúverðugleika erlendis. Aðspurð hvort ummæli í yfirliti um umræðuefni fyrir þennan fund, um að nýlegt áhættumat Fjármálaeftirlitsins hafi sýnt að bankarnir stæðu traustum fótum og ættu að standast versnandi ytri aðstæður án þess að eigið fé þeirra færi niður fyrir eðlileg mörk, væru til marks um afstöðu hennar og eftir atvikum ákærða á þessum tíma svaraði Ingibjörg því til að þar hafi verið byggt á því að álagsprófi á bönkunum hafi nýlega verið lokið. Álagsprófin hafi verið endurbætt á árinu 2006 og hafi niðurstöðum þeirra verið trúað, enda hlyti Fjármálaeftirlitið að hafa haft eitthvað frekar í höndunum. Þá benti Ingibjörg á að í yfirliti þessu hafi einnig komið fram að ríkistjórnin teldi engu að síður eðlilegt að vera í viðbragðsstöðu og undirbúa tilteknar aðgerðir. Hún gat þess einnig að á fundinum hafi skýrlega komið fram að minnkun bankakerfisins hafi að mestu leyti verið langtímaverkefni, þótt eitthvað hafi verið unnt að gera á árinu 2008. Einnig hafi komið þar fram að markaðsaðstæður væru erfiðar.

Aðspurð um ástæðu þess að gripið hafi verið til aðgerða til að bæta orðspor íslensku bankanna, svo sem gert hafi verið á sendiherrastefnu 22. febrúar 2008, þegar komnar hafi verið fram áhyggjur af stöðu þeirra vísaði Ingibjörg til þess að sendiherrastefnur væru haldnar með reglulegu millibili. Í þetta sinn hafi verið farið yfir mál með fulltrúum Fjármálaeftirlitsins og fjármálaráðuneytisins, enda hafi verið ljóst að sendiherrar þyrftu að hafa svör tiltæk um íslenska bankakerfið. Ekki hafi verið miðlað upplýsingum frá bönkunum, heldur hafi þær verið reistar á öðrum heimildum. Hefðu sendiherrar svarað fyrirspurnum erlendis með neikvæðum hætti eða ekkert vitað hefði orðið mikill brestur á trúverðugleika.

Ingibjörg kvaðst minnast umræðna um skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 14. apríl 2008, en skýrslan hafi verið send ásamt greinargerð frá Seðlabanka Íslands til breskra og evrópskra banka, þar sem leitað hafi verið eftir lánalínum. Hún taldi að litið hafi verið á skýrsluna sem vottun fyrir erlenda banka frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um hvernig staðan væri hér fyrir lántöku.

Ingibjörg sagðist aðspurð hvorki hafa séð bréf bankastjóra Englandsbanka til formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands frá 23. apríl 2008, þar sem hafnað var að gera gjaldmiðlaskiptasamning við seðlabankann, né hafi henni verið greint frá boði bankastjórans um að beita sér fyrir aðstoð alþjóðasamfélagsins við að gera áætlun til að draga úr stærð íslensku bankanna.

Ingibjörg kvað yfirlýsingu, sem hún undirritaði ásamt ákærða, fjármálaráðherra og bankastjórn Seðlabanka Íslands til þriggja norrænna seðlabanka, hafa verið gerða 16. maí 2008. Hún hafi talið þetta vera pólitíska viljayfirlýsingu um að unnið yrði meðal annars að því að draga úr stærð íslenska bankakerfisins og hafi það verið gert. Hún kvaðst telja orðalag yfirlýsingarinnar um þetta hafa falið í sér að seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið myndu beita þeim tækjum, sem þau hefðu, í þessu skyni. Ítrekað hafi verið rætt um hvernig draga mætti úr stærð bankanna og hafi verið ljóst að ekki væri hlaupið að því, enda hafi eignir þeirra ekki verið auðseljanlegar. Aðspurð um ástæðu þess að viðskiptaráðherra hafi ekki undirritað þessa yfirlýsingu sagði Ingibjörg að það hafi verið verkefni seðlabankans að stuðla að minnkun bankakerfisins, en annað í yfirlýsingunni hafi snúið að póltískum skuldbindingum ríkisstjórnarinnar, meðal annars varðandi Íbúðalánasjóð. Nánar aðspurð um ástæðu þess að yfirlýsingin hafi ekki verið undirrituð af hálfu Fjármálaeftirlitsins, sem hafi þar verið skuldbundið til að vinna að minnkun bankakerfisins ásamt seðlabankanum, úr því að viðskiptaráðherra hafi ekki skrifað undir hana, kvaðst Ingibjörg ekki geta svarað þeirri spurningu.

Ingibjörg sagðist ekki hafa vitað af fyrirhugaðri innlánssöfnun Landsbanka Íslands hf. á Icesave reikninga í Hollandi, sem hófst 29. maí 2008, fyrr en hún frétti af því að þessi starfsemi væri hafin. Hún minntist þess ekki að rætt hafi verið í ríkisstjórn eða milli hennar og annarra ráðherra um að ástæða gæti verið til að beita sér gegn þessu.

Í tengslum við lið 1.5 í ákæru kvaðst Ingibjörg hafa fyrst heyrt þess getið á fundi sínum og ákærða með bankastjórn Seðlabanka Íslands 1. apríl 2008 að til stæði að flytja Icesave reikninga úr útibúi Landsbanka Íslands hf. í London til dótturfélags. Hafi verið rætt um að þetta yrði að gera til þess að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta bæri ekki ábyrgð á innstæðum á reikningunum. Hana minnti að borist hafi í tal á þessum fundi hvort ríkið gæti lagt bankanum til 1.000.000.000 sterlingspund til að liðka fyrir flutningnum og að öllum hafi þótt það fráleitt. Hvorki hafi á þessum fundi né við annað tækifæri komið til umræðu að ríkið gæti borið ábyrgð á skuldbindingum tryggingarsjóðsins eða innstæðum á þessum reikningum. Hún kvaðst að öðru leyti nánast ekkert hafa komið að umræðum um Icesave reikningana og hafi hún ekki þekkt til vinnu, hvorki ákærða né annarra, sem að þeim sneri.

Ingibjörg kvað það hafa komið fram á fundinum með bankastjórn seðlabankans 1. apríl 2008 að mikið fé hafi runnið út af Icesave reikningum undanfarið og hafi að auki verið fjallað um það í fjölmiðlum. Hún hafi ekki talið þetta gefa tilefni til sérstakra aðgerða, enda hafi á þessum tíma verið rætt um að sögusagnir um slæma stöðu íslensku bankanna væru runnar undan rifjum keppinauta þeirra. Hún hafi að öðru leyti gert ráð fyrir því að þetta yrði rætt í samráðshópnum um fjármálastöðugleika og viðbúnað og innan Seðlabanka Íslands.

Ingibjörg kvaðst enga vitneskju hafa haft um fund viðskiptaráðherra með breska fjármálaráðherranum 2. september 2008 áður en fundurinn var haldinn. Þetta hafi hvorki borist í tal við viðskiptaráðherra né aðstoðarmann hans. Þótt ekki hafi verið óvanalegt að ráðherrar færu utan til fundar án vitneskju utanríkisráðherra hefði hún viljað vita af þessum fundi, sérstaklega sökum þess að sendiherra Íslands í London hafi verið kallaður til, en hún kynni ekki skýringar á því að henni hafi ekki verið greint frá þessu. Hún sagðist ekki hafa vitað um bréfaskipti íslenskra og breskra stjórnvalda vegna Icesave reikninganna og heldur ekki um hvað borið hafi í milli í viðræðum um flutning þeirra úr útibúi Landsbanka Íslands hf.

Varðandi lið 2 í ákæru ítrekaði Ingibjörg það, sem áður greinir, að málefni bankanna hafi mikið verið rædd í ríkisstjórn. Sagði hún að þetta hafi verið almennt umræðuefni í samfélaginu, þar sem fjallað hafi verið mikið um skuldatryggingarálag bankanna, erfiðleika þeirra við að fá erlend lán, gjaldeyrisvarasjóðinn og að honum væri ætlað að byggja upp varnir fyrir bankana. Málefni bankanna hafi oft komið óformlega til umræðu í ríkisstjórn og ekki aðeins undir liðnum önnur mál, heldur einnig í tengslum við aðra dagskrárliði. Staða bankanna hafi verið rædd sem vandamál og hafi ríkisstjórnin allt árið 2008 velt fyrir sér málefnum bankanna og vanda þeirra á alþjóðlegum mörkuðum. Hafi verið rætt hvað mætti gera til þess að minnka bankakerfið og hvernig mætti styrkja varnirnar. Hún kvaðst á hinn bóginn telja að aldrei hafi verið rætt á ríkisstjórnarfundi um málefni einstakra banka.

Aðspurð um fund ríkisstjórnarinnar 18. mars 2008, þar sem samgönguráðherra tók upp umræðu um stöðu efnahagsmála, sagði Ingibjörg að ef til vill hefði mátt taka málefni bankanna meira upp með formlegum hætti. Á hinn bóginn hafi starfað sérstakur ríkisfjármálahópur, þar sem tveir ráðherrar frá hvorum stjórnarflokki hafi átt sæti ásamt sérfræðingum frá forsætisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu, og hafi þessi mál verið rædd þar.

Ingibjörg sagðist ekki minnast þess að yfirlýsing þriggja ráðherra og bankastjórnar Seðlabanka Íslands til seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs frá 16. maí 2008 hafi verið kynnt á fundi ríkisstjórnarinnar sama dag, þar sem greint var frá gjaldmiðlaskiptasamningum bankanna. Yfirlýsingin hafi ekki verið lögð fram á fundinum og hafi það líklega verið sökum þess að efni hennar hafi verið talið viðkvæmt. Nánar aðspurð um hvaða efni hafi verið viðkvæmt í yfirlýsingunni sagði hún að það hafi verið annars vegar að seðlabankinn myndi grípa til aðgerða til að draga úr stærð bankakerfisins og hins vegar ákvæði um kjaramál. Hún mundi ekki hvort þessi yfirlýsing hafi borist í tal eða málefni bankanna á ríkisstjórnarfundi 23. sama mánaðar, þar sem lagt var fram frumvarp til laga um heimild til erlendrar lántöku ríkisins.

Ingibjörg kvaðst ekki muna hvers vegna viðskiptaráðherra hafi lagt fyrir fund ríkisstjórnarinnar 12. ágúst 2008 tillögu um skipun nefndar um fjármálastöðugleika, en leiddi getum að því að hann hafi viljað færa stjórn á þessum málum undir viðskiptaráðuneytið.

Aðspurð um gagnrýni, sem viðskiptaráðherra bar upp á fundi ríkisstjórnarinnar 3. október 2008 sökum þess að hann hafi ekki verið hafður með í ráðum um málefni Glitnis banka hf., vísaði Ingibjörg til þess að hún hafi vegna alvarlegra veikinda verið komin á sjúkrahús í New York þegar það mál kom upp. Ákærði hafi sagt henni 26. september 2008 að vandamál væru uppi í bankakerfinu. Tveimur dögum síðar hafi hún frétt að fundir stæðu yfir vegna stöðu bankanna og væri enginn fulltrúi Samfylkingarinnar viðstaddur. Hún hafi því hringt í ákærða, sem hafi sagt henni frá málinu og beðið hana um að senda staðgengil sinn til funda. Hún hafi þessu næst hringt í iðnaðarráðherra vegna reynslu hans af störfum í ríkisstjórn og falið honum þetta verk, en hún hafi þá haft það eitt í huga að koma þessu verkefni í annars hendur. Hún neitaði því að hafa sagt við iðnaðarráðherra að ekki þyrfti að hafa samband við viðskiptaráðherra, en í samtalinu við iðnaðarráðherra hafi hann sagst ekki vita nægilega mikið um bankamál og hafi hún því sent aðstoðarmann viðskiptaráðherra honum til halds og trausts.

Í tilefni af umræðu um innstæðutryggingar á fundi ríkisstjórnarinnar 5. október 2008 var Ingibjörg spurð hvort hún minntist þess að rætt hafi verið um þær á öðrum ríkisstjórnarfundum. Sagði hún að það hafi verið gert og hafi þau mál einnig verið rædd á þingflokksfundi.

5[breyta]

Vitnið Jóhanna Sigurðardóttir, sem var félagsmálaráðherra í ríkisstjórn ákærða frá 24. maí 2007 til 1. febrúar 2009, bar fyrir dómi að hún hafi fyrst talið sig sjá merki um hættu varðandi fjármálastöðugleika á árinu 2006 vegna umfjöllunar greiningarfyrirtækja, sem hún hafi talið nauðsynlegt að fá upplýsingar um. Hún hafi því borið upp fyrirspurnir á Alþingi um stöðuna og fengið þau svör að allt væri í stakasta laga. Á árinu 2008 hafi síðan komið upp mikill vandi á alþjóðamörkuðum. Reynt hafi verið að taka á því með margvíslegum hætti og teldi hún ákærða hafa gert allt, sem í hans valdi stóð til að bregðast við því, meðal annars með því að styrkja gjaldeyrisvaraforðann.

Jóhanna kvaðst fyrst hafa heyrt um samráðshóp stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað á árinu 2006 í svörum við fyrirspurnum sínum á Alþingi. Hún hafi næst heyrt samráðshópsins getið á árinu 2008 og taldi hún að það hafi gerst í þau skipti, sem mál af þessum toga hafi verið rædd í ríkisstjórn. Að öðru leyti hafi hún ekki þekkt til hópsins eða haft afskipti af honum nema að því leyti, sem snert hafi félagsmálaráðuneytið, en fulltrúar þess hafi farið á fund hópsins, sem hafi hvatt til aðgerða til að endurskipuleggja bankalán í gegnum Íbúðalánasjóð. Hún kvað það ekki hafa verið rætt við sig hvort hópnum hafi verið ætlað að vinna að aðgerðaáætlun vegna hugsanlegs fjármálaáfalls. Hópurinn hafi verið nefndur á ríkisstjórnarfundi og þess getið að hann væri að skoða ýmis viðbrögð við því ástandi, sem hafi verið uppi á þessum tíma. Hún sagðist ekki vita hvort viðbragðsáætlun vegna fjármálaáfalls hafi verið til þegar vandamál Glitnis banka hf. komu upp í lok september 2008. Hún hafi heyrt af því í ágúst eða september 2008 að einhver slíkur undirbúningur stæði yfir, en að öðru leyti hafi hún ekki vitað af vanda bankanna fyrr en á hann reyndi. Hún sagði aðspurð að það hafi ekki verið rætt við sig að hætta væri á að allir bankarnir myndu falla ef einn þeirra færi á hliðina.

Jóhanna kvaðst ekkert hafa vitað um aðgerðir til að þrýsta á bankana til að minnka efnahagsreikning sinn eða flytja höfuðstöðvar sínar úr landi og tók hún fram að hún vissi ekki heldur hvernig það hefði átt að vera hægt á þessum tíma. Hún sagðist heldur ekki hafa vitað til þess að mat hafi verið lagt á þá hættu, sem hafi leitt af stærð og útrás bankakerfisins, en hún hafi treyst á eftirlitsstofnanir ríkisins í þeim efnum. Hún kvaðst hafa tekið mark á mati Seðlabanka Íslands í riti um fjármálastöðugleika frá 8. maí 2008 og talið að annað yrði ekki séð en að allt væri í lagi, en ef þörf yrði á einhverri viðbúnaðaráætlun þá yrði hún gerð þar.

Jóhanna sagðist ekki geta skýrt það frekar hvað falist hafi í ummælum í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí 2007 um að tryggja ætti að fjármálastarfsemi gæti áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið og að útrásarfyrirtæki sæju sér áfram hag í því að hafa höfuðstöðvar á Íslandi. Í hennar huga hafi það ekki verið stefna ríkisstjórnarinnar að styðja við áframhaldandi vöxt bankakerfisins. Rætt hafi verið um hvort ástæða væri til að bankarnir flyttu úr landi, en ekki hafi verið taldar raunverulegar forsendur fyrir því.

Jóhanna kvaðst ekki hafa fengið vitneskju um að Landsbanki Íslands hf. hafi tekið við innlánum á Icesave reikninga í Hollandi fyrr en á síðari hluta ársins 2008. Hún minntist þess ekki að Icesave reikningar hafi komið til umræðu í ríkisstjórn fyrir hrun bankanna.

Aðspurð sagðist Jóhanna ekki hafa leitt hugann að því hvort málefni bankanna kunni að hafa verið rædd í þrengri hópi ráðherra eða milli forsætisráðherra og utanríkisráðherra, en hún hefði talið eðlilegt að oddvitar stjórnarflokkanna ræddu þetta og einnig þeir ráðherrar, sem fóru með málaflokkinn. Henni hafi ekki verið kunnugt um neina fundi í því sambandi.

Jóhanna sagðist hafa heyrt af því að flutningur á Icesave reikningum úr útibúi Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi til dótturfélags þar í landi hafi verið til skoðunar í bankanum og hjá Fjármálaeftirlitinu. Hún hafi einnig frétt af áformum viðskiptaráðherra um að fara til fundar við breska fjármálaráðherrann, en að öðru leyti hafi hún ekki þekkt til þessara mála eða hvort ákærði hafi látið þau til sín taka. Hún minntist þess ekki að rætt hafi verið í ríkisstjórn að hætta gæti stafað af þessum innlánsreikningum vegna skuldbindinga Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

Jóhanna kvað bókanir um fundi ríkisstjórnar ákærða hafa verið með svipuðum hætti og áður hafi tíðkast. Almennt hafi verið bókað um lagafrumvörp og þau mál, sem ráðherrar hafi lagt fram, svo og hvernig málin hafi verið afgreidd. Fundargerðir ríkisstjórnarinnar hafi verið sendar með reglubundnum hætti til ráðherranna. Aðspurð hvað gætu talist vera mikilvæg stjórnarmálefni sagði Jóhanna að það væri mat hvers og eins ráðherra hvaða mál hann tæki upp í ríkisstjórninni. Staðan, sem hafi verið uppi á árinu 2008, og ógnin, sem stafaði af lausafjárskorti, hafi verið tekin upp nokkrum sinnum á fundum ríkisstjórnarinnar. Þannig hafi gjaldmiðlaskiptasamningar verið ræddir á ríkisstjórnarfundi, gjaldeyrisforðinn og tillaga viðskiptaráðherra um fjármálastöðugleikanefnd. Stundum hafi málin verið tekin upp af öðrum ráðherrum undir liðnum önnur mál, en á þessum tíma hafi sjaldan verið bókað um það, sem þannig hafi verið rætt. Aðspurð hvort staða bankanna hafi komið til umræðu í þessum tilvikum sagði Jóhanna að á fyrri hluta árs 2008 hafi staðan í efnahagsmálum almennt verið rædd, hrun á hlutabréfamarkaði og fleira. Hún minntist þess ekki hvort umræða um stöðu efnahagsmála, sem samgönguráðherra efndi til á fundi ríkisstjórnarinnar 18. mars 2008, hafi verið tekin upp undir liðnum önnur mál.

Jóhanna var spurð um ríkisstjórnarfund 16. maí 2008, þar sem ákærði kynnti gjaldmiðlaskiptasamninga Seðlabanka Íslands við seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs, og hvort hún þekkti til yfirlýsingar, sem gerð hafi verið í tengslum við þá. Hún kvaðst hafa verið kölluð á fund daginn áður með ákærða, utanríkisráðherra og formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands, þar sem henni hafi verið tjáð að erlendu seðlabankarnir hafi sett nokkur skilyrði fyrir samningsgerðinni og að eitt þeirra sneri að Íbúðalánasjóði. Hún hafi verið spurð hvort hún gerði athugasemdir við þetta og hvort félagsmálaráðuneytið myndi fylgja þessu eftir. Henni hafi þótt sjálfsagt að verða við þeirri beiðni, enda hafi vinna við þetta þegar verið hafin í ráðuneytinu vegna tilmæla frá Eftirlitsstofnun EFTA. Hún hafi vikið af fundinum eftir að hafa veitt þessi svör og á næsta ríkisstjórnarfundi hafi gjaldmiðlaskiptasamningarnir verið kynntir.

Jóhanna sagðist telja að viðskiptaráðherra hafi borið upp tillögu um skipun nefndar um fjármálastöðugleika á ríkisstjórnarfundi 12. ágúst 2008 til að styrkja samráðshóp um fjármálastöðugleika og viðbúnað með einhverjum hætti. Tillagan hafi verið rædd og minnti hana að afgreiðslu málsins hafi verið frestað. Jóhanna taldi að rætt hafi verið í fyrsta sinn um málefni einstakra banka í ríkisstjórn á fundi 30. september 2008 þegar mál vegna Glitnis banka hf. voru borin þar upp. Hún gat þess að formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands hafi komið á fundinn og greint frá því að hann teldi bankakerfið vera að hrynja. Hann hafi verið í miklu uppnámi og nefnt að setja þyrfti þjóðstjórn. Hún taldi það ekki hafa gerst áður að formaður bankastjórnarinnar hafi gert ríkisstjórninni grein fyrir stöðu íslenska bankakerfisins. Þá kvaðst Jóhanna telja að staða bankanna í heild hafi í fyrsta skipti verið rædd á formlegan hátt á ríkisstjórnarfundi 3. október 2008. Hún sagðist ekki vita ástæðu þess að viðskiptaráðherra hafi ekki verið hafður með í ráðum um málefni Glitnis banka hf. Hún hafi rætt við ákærða um helgina, sem þetta gerðist. Hann hafi sagt henni lauslega frá því að verið væri að skoða bankana og minnti hana að Glitnir banki hf. hafi verið nefndur sérstaklega. Utanríkisráðherra hafi tilnefnt iðnaðarráðherra sem fulltrúa Samfylkingarinnar í þessu efni og hafi henni þótt það sérkennilegt að viðskiptaráðherra hafi ekki verið fengið þetta verk. Hún hafi því haft samband við hann um kvöldið og hafi hann þá ekki vitað um þetta.

Aðspurð hvort innstæðutryggingar hafi í fyrsta sinn verið ræddar á fundi ríkisstjórnarinnar 5. október 2008 sagðist Jóhanna minnast umræðu um að viðskiptaráðherra vildi bæta innstæðutryggingakerfið, en menn hafi óttast að hreyfa við löggjöf um það. Hún taldi að þetta hafi ekki verið rætt á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Þá sagðist hún halda að undirbúningur að frumvarpi, sem varð að lögum nr. 125/2008, hafi ekki komið til kasta ríkisstjórnarinnar fyrr en á fundi hennar 6. október 2008.

6[breyta]

Vitnið Össur Skarphéðinsson, sem var iðnaðarráðherra í ríkisstjórn ákærða frá 24. maí 2007 til 1. febrúar 2009, sagðist fyrir dómi ekki hafa gert sér grein fyrir því að íslenska bankakerfinu og ríkissjóði hafi verið búin hætta á því tímabili, sem ákæra í málinu tekur til. Á þessum tíma hafi verið almenn ánægja með ganginn hjá bönkunum. Þegar dregið hafi að páskum 2008 hafi lánshæfiseinkunnir bankanna lækkað og umræður orðið um hugsanlegan lausafjárskort þeirra, sem hafi vakið óróa hjá ýmsum. Einnig hafi borist fregnir af því að bönkunum hafi ekki vegnað vel í viðleitni til að afla sér gjaldeyris erlendis. Þegar liðið hafi fram á vorið hafi menn orðið rórri, fyrst og fremst vegna umræðna um nauðsynleg viðbrögð, þar á meðal um að efla gjaldeyrisforðann, sem svo hafi verið gert. Þá hefði einnig komið út skýrsla um fjármálastöðugleika frá Seðlabanka Íslands í maí 2008 og hafi hún verið túlkuð þannig í fjölmiðlum og af stjórnmálamönnum að staðan væri í lagi.

Össur kvaðst hafa heyrt um samráðshóp stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað á ríkisstjórnarfundi fyrir páska 2008. Þetta hafi komið til af því að hann hafi spurt ákærða hvernig stæði á því að nýráðinn efnahagsráðgjafi ríkistjórnarinnar gæti tekið sér orlof við slíkar aðstæður, sem þá voru uppi. Ákærði hafi þá greint sér frá því að það væri viðbragðshópur að störfum til að fylgjast með málum og undirbúa viðbrögð, svo og að ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu leiddi hópinn. Össur sagðist hafa talið þennan hóp eiga að gera viðbragðsáætlanir og fylgjast með, enda væri þetta sameiginlegur farvegur sérfræðinga úr ýmsum ráðuneytum, Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu. Aðspurður hvort hann vissi til þess að viðbragðsáætlun hafi verið til þegar á reyndi sagðist Össur ekki minnast þess að hafa verið viðstaddur umræðu um þetta fyrr en hamfarirnar dundu yfir og hafi þá komið fram að einnig væri unnið að slíku í seðlabankanum.

Össur svaraði neitandi spurningu um hvort hann vissi um einhverjar aðgerðir til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins, sem ríkisstjórnin eða ákærði hafi gripið til á tímabilinu frá febrúar til október 2008, og bætti því við að hann hafi ekki enn hitt mann, sem gæti bent á hvað hefði verið hægt að gera á þessum tíma. Aðspurður sagðist hann ekki vita hvort gert hafi verið mat á þeirri hættu, sem fólst í útrás bankakerfisins, og minntist hann þess ekki að slíkt hafi komið til umræðu í ríkisstjórn.

Össur var spurður hvort umræður, sem hann gat um í kringum páskana 2008, hafi verið með þeim hætti að talið hafi verið að ef einn af stóru bönkunum félli myndu hinir fylgja með. Hann bar að sér hafi aldrei komið til hugar að einn banki myndi rúlla og hafi það þá heldur ekki verið nefnt að ef einn banki rúllaði myndu hinir gera það líka. Þetta hafi ekki heldur komið fram þegar fjallað hafi verið um málefni Glitnis banka hf., en hann hafi verið kvaddur af þeim sökum á fund í Seðlabanka Íslands 28. september 2008. Þar hafi hann gengið sérstaklega eftir því hvaða áhrif ráðstafanirnar, sem þar hafi verið rætt um, myndu hafa á aðra banka. Hann hafi verið fullvissaður um að þeir myndu lifa það af. Nánar aðspurður um hver hafi fullvissað hann um þetta sagðist Össur hafa fengið samhljóða svar um þetta þrívegis. Í fyrsta lagi hafi formaður bankastjórnar seðlabankans haft þetta eftir Sigurjóni Þ. Árnasyni, bankastjóra í Landsbanka Íslands hf., frá fundi deginum áður, í annan stað hafi nafngreindur starfsmaður Fjármálaeftirlitsins staðfest að Sigurjón hafi látið þessi orð falla og í þriðja lagi hafi formaður bankastjórnar seðlabankans í tilefni af fyrirspurn Össurar hringt í Halldór J. Kristjánsson, bankastjóra í Landsbanka Íslands hf., og hafi hann einnig staðfest þetta.

Aðspurður um það, sem kom fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 23. maí 2007 um að tryggja ætti að útrásarfyrirtæki sæju sér hag í því að hafa höfuðstöðvar á Íslandi, sagðist Össur ekki vita til að þetta hafi verið rætt við myndun hennar. Ekki hafi heldur verið rætt um að ríkisstjórnin hygðist styðja við áframhaldandi vöxt bankakerfisins. Á þessum tíma hafi flestir verið glaðir yfir því að bankarnir væru stórir og hafi þeir verið taldir sterkir, sem hafi þótt mikill happafengur fyrir skattkerfið.

Aðspurður hvort hann hafi vitað til þess að stjórnvöld hafi beitt sér fyrir því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða flyttu úr landi kvaðst Össur minnast þess að nafngreindur þingmaður í stjórnarandstöðu hafi borið upp hugmynd um að flytja bankana úr landi á árinu 2007 og hafi fáir talið sig hafa heyrt fjarstæðari hugmynd þá. Hann kvaðst hafa vitað af því að ákærði og utanríkisráðherra hafi hist reglulega á þessum tíma, en honum væri ekki kunnugt um að þau hafi þar sérstaklega rætt um samdrátt bankakerfisins.

Össur kvaðst enga vitneskju hafa haft um innlánasöfnun Landsbanka Íslands hf. í Hollandi, sem hófst 29. maí 2008. Þá sagðist hann hafa vitað það eitt um Icesave reikninga bankans í Bretlandi að íslenskur fjölmiðill hafi talið þá vera einhverja bestu viðskiptahugmynd allra tíma og hafi hann ekki heyrt af hugmyndum um flutning þeirra úr útibúi bankans til dótturfélags fyrr en eftir hrun bankakerfisins. Hann hafi ekki heyrt af því í viðræðum við ákærða eða aðra ráðherra að hætta gæti stafað af þessum reikningum fyrir Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta.

Össur var spurður hvaða stjórnarmálefni hafi verið rædd á ríkisstjórnarfundum á því tímabili, sem ákæra tekur til, og kvað hann það hafa verið allt milli himins og jarðar. Mál, sem ráðherrar hafi talið rétt að færa fram, hafi verið rædd, en fyrst og fremst atriði eins og nýmæli í löggjöf og pólitísk stefnumörkun á einstökum sviðum. Hann sagðist minnast þess að málefni bankanna hafi verið rædd, en hann hafi í febrúar 2008 óskað eftir umræðu í ríkisstjórninni um stöðuna í efnahagsmálum og hjá bönkunum undir liðnum önnur mál. Aðspurður hvort honum hafi þótt vanta umræðu í ríkisstjórninni um þetta sagði hann að það hafi verið fregnir um að skort hafi gjaldeyri í bönkunum og hafi hann talið rétt að málið yrði rætt á ríkisstjórnarfundi. Hann minnti að hann hafi þar spurt hvort sambandið milli ríkisstjórnar og forystu seðlabankans væri nógu gott og hafi ákærði vísað því til formanns Samfylkingarinnar, sem hafi sagst hafa verið viðstödd samtöl ákærða við forystu seðlabankans og hafi Ingimundur Friðriksson verið nefndur í því sambandi. Hann kvaðst hafa borið þetta upp á fundinum sökum þess að hann hafi þóst vita að þetta málefni hafi verið rætt milli ráðherra og forystumanna stjórnarflokkanna og talið að hann ætti að vera upplýstur um þá umræðu. Málefni bankanna hafi annars frekar komið upp í umræðu á ríkisstjórnarfundum um aðra dagskrárliði, svo sem um efnahagsmál, heldur en undir liðnum önnur mál.

Össur lýsti því að á ríkisstjórnarfundi 18. mars 2008 hafi samgönguráðherra óskað eftir umræðu um stöðu efnahagsmála og hafi þetta verið annað af tveimur skiptum, sem hann myndi eftir að málin hafi verið rædd. Hann minnti að samgönguráðherra hafi þar rætt um stöðu kjarasamninga og af því hafi spunnist umræður um gengi íslensku krónunnar og fleira, sem hafi væntanlega varðað gjaldeyrisskort. Aðspurður sagðist hann ekki muna hvort málefni bankanna hafi verið rædd þar, en hann teldi það ekki ólíklegt.

Aðspurður um fund ríkisstjórnarinnar 16. maí 2008, þar sem greint var frá gjaldmiðlaskiptasamningum Seðlabanka Íslands við seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs, sagði Össur að yfirlýsing, sem þeim tengdist, hafi ekki verið kynnt á fundinum og hafi hann ekkert heyrt af henni. Hann minntist þess ekki að rætt hafi verið um málefni bankanna í tengslum við þetta. Gegndi því sama um ríkisstjórnarfund 23. maí 2008, þar sem fjallað var um frumvarp til laga um heimild ríkisins til erlendrar lántöku.

Össur kvaðst telja að rætt hafi verið í fyrsta sinn um málefni einstakra banka á fundi ríkisstjórnarinnar 30. september 2008, þegar fjallað var um mál Glitnis banka hf. Formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands hafi komið á þann fund og sagt að tillagan, sem hann hafi gert tveimur dögum áður á fundum út af Glitni banka hf., gengi ekki upp. Formaðurinn hafi greint frá viðbrögðum markaðarins, að lánshæfiseinkunnir tiltekins banka hafi lækkað og lánalínur væru að þorna upp. Hann hafi farið vel völdum orðum um þá, sem hann hafi talið valda þessu, og lýst þeirri skoðun að efla þyrfti efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra af þessum sökum. Hann hafi einnig lýst þeirri skoðun að setja ætti ríkisstjórnina af og koma á þjóðstjórn. Össur kvað þetta vera fyrsta skipti, sem formaður bankastjórnarinnar hafi komið á fund ríkisstjórnarinnar til að gera grein fyrir stöðu bankakerfisins.

Aðspurður um fund ríkisstjórnarinnar 3. október 2008 sagði Össur að það hafi verið fyrsti fundurinn, sem hafi fyrst og fremst snúist um stöðu bankakerfisins. Þetta málefni hafi á hinn bóginn verið rætt milli ráðherra í vikunni á undan. Vegna gagnrýni, sem viðskiptaráðherra bar upp á fundinum út af því að hann hafi ekki verið hafður með í ráðum um málefni Glitnis banka hf., sagðist Össur hafa komið að þessu á þann hátt að utanríkisráðherra hafi í símtali 28. september 2008 óskað eftir að hann færi rakleitt til fundar í Seðlabanka Íslands sökum þess að Glitnir banki hf. væri fallinn. Hann hafi svarað því til að hann hefði ekki mikinn áhuga á þessu, auk þess sem aðrir væru betur hæfir til að fjalla um þetta. Utanríkisráðherra hafi þá sagt að með honum færi aðstoðarmaður viðskiptaráðherra og hafi Össur spurt á móti hvort hann ætti ekki að hafa viðskiptaráðherra með sér, sem utanríkisráðherra hafi neitað. Utanríkisráðherra hafi ekki talið rétt að láta nokkurn vita um málið að svo stöddu og hafi viðskiptaráðherra verið þar með talinn. Össur kvaðst því hafa verið eini ráðherrann í sínum flokki að utanríkisráðherra frátalinni, sem þá hafi verið kunnugt um þessa atburði. Þegar liðið hafi á þetta kvöld hafi verið búið að leggja málið niður og hafi þurft að taka ákvarðanir. Formaður bankastjórnar seðlabankans hafi spurt hvort ráðherrar, sem þar voru staddir, hefðu umboð til þess og hafi ákærði sagst hafa það fyrir sinn flokk. Það hafi Össur á hinn bóginn ekki haft og hafi hann og aðstoðarmaður viðskiptaráðherra í framhaldi af því skipt með sér verkum við að ræða símleiðis við ráðherra Samfylkingarinnar. Ekki hafi tekist að ná í einn ráðherra, en að öðru leyti hafi legið fyrir að þeir hefðu umboð flokksins.

Aðspurður hvort rætt hafi verið í fyrsta sinn um innstæðutryggingar á fundi ríkisstjórnarinnar 5. október 2008 sagðist Össur telja að þær hafi komið til umræðu fyrr í sömu viku á fundi, sem haldinn hafi verið í ráðherrabústaðnum. Þá kvað hann frumvarpið, sem varð að lögum nr. 125/2008, hafa fyrst komið til umræðu í ríkisstjórn 6. sama mánaðar.

Össur var spurður sérstaklega að því hvort hugsast gæti að málefni bankanna hafi verið rædd í tengslum við tiltekna aðra dagskrárliði á ríkisstjórnarfundum 15. apríl, 23. maí, 22. júlí, 12. ágúst og 15. ágúst 2008. Hann kvað það vera hugsanlegt og teldi hann að í einhverjum þessara tilvika hafi það örugglega verið gert.

Össur kvað venjur um dagskrá og ritun fundargerða á fundum ríkisstjórnarinnar vera á þann veg að ráðherrar hafi allt þar til stundarfjórðungi fyrir upphaf fundar getað tilkynnt um mál, sem þeir vildu fá tekin á dagskrá. Um önnur mál hafi ekki verið lagðar fram skriflegar tillögur og hafi þau getað verið af ýmsum toga. Bókanir um þau hafi verið ákaflega óljósar.

7[breyta]

Vitnið Tryggvi Þór Herbertsson, sem gegndi starfi efnahagsráðgjafa forsætisráðherra frá 1. ágúst til 15. október 2008, bar fyrir dómi að sér hafi verið greint frá því þegar hann var tekinn til starfa að til væri samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Upp frá því hafi hann fengið upplýsingar um það, sem gerðist á fundum hópsins, með því að ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu hafi að þeim loknum hitt sig og ákærða, ýmist saman eða hvorn fyrir sig, og farið yfir fundarefnin. Tryggvi kvaðst hafa litið svo á að samráðshópurinn væri vettvangur til upplýsingaskipta, en þaðan hafi komið hugmyndir, sem hafi skipt sköpum þegar bankakerfið hrundi, þar á meðal um að veita ætti kröfum um innstæðufé forgangsrétt við slit fjármálafyrirtækja. Frá þessu hafi ráðuneytisstjórinn greint sér og hafi hann að auki fengið skriflega greinargerð um þessa hugmynd.

Tryggvi kvaðst hafa verið staddur í Bandaríkjunum ásamt ákærða síðla í september 2008 þegar sá síðarnefndi hafi fengið símtal, þar sem greint hafi verið frá því að Glitnir banki hf. ætti við lausafjárvanda að etja og að staðan væri alvarleg. Þeir hafi af því tilefni flýtt heimför sinni um einn dag. Eftir heimkomu hafi þeir átt fund með formanni stjórnar Glitnis banka hf., sem hafi sagt þeim að hann hafi leitað til Seðlabanka Íslands um lausafjárfyrirgreiðslu, sem hafi numið að því er Tryggva minnti 600.000.000 evrum, vegna skuldar bankans, sem væri á gjalddaga um miðjan október. Fundur hafi verið haldinn í fjármálaráðuneytinu 28. september 2008, sem Tryggvi hafi sótt ásamt ákærða, ráðuneytisstjóranum í forsætisráðuneytinu og bankastjórn seðlabankans, og hafi þar verið farið yfir leiðir til að leysa vanda Glitnis banka hf., þar á meðal að setja nýtt hlutafé inn í félagið og þynna út hluti þáverandi hluthafa. Frekari fundir hafi svo staðið yfir þennan dag og langt fram eftir nóttu. Þangað hafi margir komið, meðal annarra embættismenn, stjórnmálamenn og menn úr bankakerfinu, og gat Tryggvi þess aðspurður að meðal þeirra hafi verið ráðuneytisstjórinn í viðskiptaráðuneytinu og aðstoðarmaður viðskiptaráðherra. Hann minntist þess ekki að óskað hafi verið eftir því að samráðshópurinn kæmi saman af þessu tilefni. Tryggvi sagði að sér hafi líkað illa við þá leið, sem farin var með Glitni banka hf., en tillagan um hana hafi komið frá seðlabankanum. Hann hafi bent mönnum á að með því að þynna út hluti hluthafa myndu Stoðir hf., stærsti eigandi Glitnis banka hf., falla og í kjölfarið myndu allir bankarnir og stóru eignarhaldsfélögin gera það líka. Menn hafi ekki gert sér grein fyrir því hvaða afleiðingar þessi aðgerð gæti haft. Hann kvaðst hafa greint ákærða frá þessari skoðun sinni.

Tryggvi kvaðst telja að bankastjórar Seðlabanka Íslands hafi verið búnir undir atvik sem þessi og nefndi því til stuðnings að sýndir hafi verið útreikningar á því hvað hlutabréf myndu lækka mikið við aðgerðir í tengslum við Glitni banka hf. Hafa yrði í huga að bankakreppa gæti komið upp á marga mismunandi vegu og ekki væri hægt að leggja fyrir eina áætlun, heldur yrði að styðjast við grófa hugmynd, sem yrði að útfæra hverju sinni. Á þessum tíma hafi menn þó ekki gert sér grein fyrir því hversu mikil krosseignatengslin og krossveðin væru, þótt upplýsingar um þetta hefðu átt að liggja fyrir í Fjármálaeftirlitinu, en að þeim hafi embættismenn og seðlabankinn ekki haft aðgang. Tryggvi kvaðst hafa á hinn bóginn þekkt þetta vegna fyrri starfa sinna.

Tryggvi greindi frá því að 5. október 2008 hafi komið upp umræða um hvernig farið yrði með greiðslumiðlun í landinu ef bankarnir féllu. Mönnum hafi verið kunnugt um þetta vandamál og undir það búnir vegna þeirrar sérstöðu, sem Reiknistofa bankanna nyti hér á landi. Á hinn bóginn hafi ekki legið fyrir hvernig erlendri greiðslumiðlun yrði háttað. Hann hafi því lagt til að rætt yrði við ráðgjafa frá bankanum J.P. Morgan, sem hafi verið við störf hér, og hafi sá banki verið fenginn til að annast erlenda greiðslumiðlun fyrir Ísland til að byrja með. Tryggvi kvaðst telja að menn hafi ekki verið búnir að velta þessu fyrir sér áður en hann hafi tekið til sinna ráða þennan dag.

Undir Tryggva voru borin ummæli hans í framlögðu endurriti af skýrslu, sem hann gaf fyrir rannsóknarnefnd Alþingis, um að vinna í samráðshópnum hafi ekki verið traustvekjandi, því þar hafi setið fólk með engan skilning á kerfinu og að efnahagslífið yrði ekki sundurgreint frá fjármálakerfinu. Einnig voru borin undir hann ummæli í sömu skýrslu um að ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu hafi alltaf verið sá „sem hljóp á eftir reiðhjólinu og setti spýtu inn í teinana í öllum málum“ í samráðshópnum. Staðfesti Tryggvi að hann hafi látið þessi orð falla.

Varðandi lið 1.4 í ákæru greindi Tryggvi frá því að eitt fyrsta verkið, sem ákærði hafi falið honum eftir að hann tók til starfa sem efnahagsráðgjafi, hafi verið að reyna að koma á breytingum á bankakerfinu, en í því skyni hafi hann rætt við bankastjóra og helstu eigendur íslensku bankanna. Hann hafi unnið að þessu alla fyrstu vikuna í ágúst og reynt að koma í framkvæmd hugmyndum um að minnka bankakerfið með því að sameina Glitni banka hf. og Landsbanka Íslands hf., taka íslensku útibúin úr öðrum bankanum og færa inn í Byr sparisjóð og flytja alla norræna starfsemi til dótturfélags Kaupþings banka hf. í Danmörku. Einnig yrði reynt að selja eins mikið af eignum og unnt væri, þótt þetta hafi verið erfiður tími til að gera slíkt.

Þá hafi verið ráðgert að ríkið gæfi út skuldabréf í evrum, sem bankarnir fengju í hendur, en í staðinn myndi ríkið fá öll íbúðarlán, sem yrðu tekin með afföllum. Hann kvaðst hafa í þessum efnum verið í nánu samstarfi við formenn stjórna Landsbanka Íslands hf. og Glitnis banka hf. Fyrirstaða hafi verið hjá eigendum Glitnis banka hf., en á endanum hafi þó mestu skipt að aðaleigandi Landsbanka Íslands hf. hafi ekki viljað þetta. Til umræðu hafi þó komið að gera þetta ef síðarnefnda bankanum hentaði á þriðja eða fjórða ársfjórðungi 2008. Tryggvi kvað þessa afstöðu hafa komið sér á óvart, en hann hafi trúað að þetta væri verðug tilraun. Hann taldi að engu hefði breytt að hefja þessa tilraun fyrr, enda hefðu forsvarsmenn bankanna þá að öllum líkindum verið fastari fyrir. Yrði að hafa í huga að stjórnvöld hafi ekki haft boðvald yfir þessum fyrirtækjum og einungis getað beitt tiltali og bent á hætturnar. Hann kvaðst ekki kannast við það úr fyrra starfi sínu sem forstjóri fjárfestingarbanka að þrýst hafi verið á bankana að selja eignir fyrr á árinu 2008. Á fundi ráðamanna með fulltrúum fjármálafyrirtækja á fyrri hluta ársins hafi aðallega verið rætt um hvernig stjórnvöld gætu stækkað gjaldeyrisvarasjóðinn og veitt bönkunum aðgang að meiri gjaldeyri. Tryggvi kvaðst hafa haft pata af fyrirætlunum um að skipta starfsemi Kaupþings banka hf. milli landa, en ekki hafi hann vitað hvernig ætti að framkvæma það.

Tryggvi kvaðst telja að fara yrði aftur til júlí 2007 til að finna tíma, þegar bankarnir hafi átt góða möguleika á að selja eignir. Á árinu 2008 hafi vissar eignir verið orðnar verðlausar og erfitt að selja aðrar fyrir meira en hrakvirði. Hafi því verið óraunhæft að selja eignir til að minnka efnahagsreikning bankanna, en þó hefði verið unnt að selja dótturfélög í heilu lagi og hafi einkum verið hugað að því síðsumars 2008. Mjög erfitt hafi verið að selja eignasöfn og lánasöfn, en tap við sölu á þeim hefði gengið á eigið fé bankanna og stefnt þeim í þrot.

8[breyta]

Vitnið Jón Þór Sturluson kvaðst fyrir dómi hafa starfað sem aðstoðarmaður viðskiptaráðherra frá hausti 2007, en fram til þess tíma hafi hann átt sæti í bankaráði Seðlabanka Íslands sem fulltrúi Samfylkingarinnar og samhliða því verið efnahagsráðgjafi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Jón kvaðst hafa unnið náið með viðskiptaráðherra, ráðuneytið hafi verið lítið og verkefnin fjölbreytt. Hann sagðist hafa orðið vitni að fjölmörgum samtölum ráðherrans við ákærða gegnum síma, en þeir hafi einnig átt fundi og þá einkum í tengslum við ríkisstjórnarfundi, þar sem viðskiptaráðherra hugðist leggja fyrir mál. Aðspurður um samskipti viðskiptaráðherra og utanríkisráðherra kvaðst Jón hvorki geta staðfest né hafnað því að þau hafi verið andstæðingar, en hann hafi gegnt trúnaðarstörfum fyrir bæði og þekkti ekki dæmi þess að þau hefðu hallmælt hvoru öðru. Upplýsingar hafi borist milli þeirra með ýmsum hætti og kannaðist hann ekki við að fyrirkomulag á samskiptum ráðherra Samfylkingarinnar hafi komið þar að sök.

Um minnisblað vegna fundar, sem Jón sat með viðskiptaráðherra, utanríkisráðherra og formanni stjórnar Fjármálaeftirlitsins 15. janúar 2008, þar sem rætt var meðal annars um það vandamál í bankakerfinu að menn væru alltaf að lána sjálfum sér, sagði Jón að ætlunin hafi verið að skerpa á lögum þannig að unnt yrði að gera sér grein fyrir því hverjir væru raunverulegir hluthafar. Hann hafi talið að bankalán til eignarhaldsfélaga eins og þau hafi verið tíðkuð hér á landi væru vandamál, en hann hafi þó vanmetið umfang vandans. Hann og ráðherrann hafi rætt þetta við formann stjórnar Fjármálaeftirlitsins og forstjóra þess í ýmsu samhengi og hafi staðið yfir undirbúningur að lagasetningu um þetta.

Aðspurður um skjal frá 15. júlí 2008 með fyrirsögninni „efnahagsstefna á krossgötum“ og fund með hagfræðingum, sem haldinn var 7. ágúst sama ár, sagði Jón að á þessum tíma hafi starfað sérstök ráðherranefnd um ríkisfjármál, þar sem átt hafi sæti ákærði, fjármálaráðherra, félagsmálaráðherra og utanríkisráðherra. Viðskiptaráðherra hafi ekki setið í nefndinni, enda hafi málefni hennar ekki verið á verksviði hans. Jón kvaðst á hinn bóginn hafa sótt fundi nefndarinnar sem ráðgjafi utanríkisráðherra. Skjalið frá 15. júlí 2008 hafi verið tekið saman í tengslum við fund, sem Landsbanki Íslands hf. hafi haldið með hagfræðingunum Willem H. Buiter og Anne C. Sibert, þar sem farið hafi verið yfir stöðu Íslands, bankakerfisins og peningamála. Hann hafi lagt til að utanríkisráðherra færi á fundinn og í framhaldi af honum hafi þau gert þessa samantekt, sem hafi síðan verið kynnt ákærða. Fundurinn 7. ágúst 2008 hafi verið haldinn af þessu tilefni og mætti ætla að þetta hafi einnig verið kveikjan að því að ákærði réði til starfa ráðgjafa á sviði efnahagsmála. Á þessum tíma hafi verið uppi hætta út af því að bankarnir hafi ekki verið búnir að tryggja fjármögnun sína og hafi þeir átt erfitt með að útvega erlent lánsfé um nokkurt skeið, en til lengdar gæti þetta haft mjög alvarleg áhrif á bankana. Jón kvaðst telja að sér hafi verið ljós merki um aðsteðjandi hættu frá ársbyrjun 2008, en framan af hafi hún ekki verið bráð, heldur vaxið smám saman fram að hausti.

Jón sagðist hafa verið viðstaddur einhverja fundi, þar sem viðskiptaráðherra hafi fengið munnlega skýrslu um störf samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Hann hafi ekki verið jafn vel inni í störfum hópsins og ráðherrann og hafi ekki haft heildarsýn yfir þau. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við tregðu við að láta upplýsingar í té innan ráðuneytisins um það, sem fram kom í hópnum. Hann kannaðist við að mismunandi skoðanir hafi verið uppi innan samráðshópsins um hversu langt ætti að ganga í gerð viðbragðsáætlunar og að núningur hafi þar verið milli fulltrúa viðskiptaráðuneytisins og hinna ráðuneytanna. Með tillögu 12. ágúst 2008 um skipun nefndar um stöðugleika fjármálakerfisins hafi viðskiptaráðherra að einhverju leyti verið að bregðast við þeim annmörkum, sem hann hafi séð á störfum hópsins. Ljóst hafi þótt að samráðshópurinn hefði ekki mikil völd eða skyldur og að koma þyrfti betra formi á samstarfið, en ríkisstjórnin hafi verið á annarri skoðun.

Varðandi lið 1.4 í ákæru sagði Jón að í viðskiptaráðuneytinu hafi ekki beinlínis verið lagt mat á hættu af útrás bankakerfisins. Þar hafi á hinn bóginn margoft verið rætt um aðsteðjandi hættu og viðbrögð við henni, sem einnig hafi verið rætt við aðra, þar á meðal ákærða. Í þessu sambandi benti Jón á að í framhaldi af fundi utanríkisráðherra og ákærða með bankastjórn Seðlabanka Íslands 7. febrúar 2008 hafi sér og ráðuneytisstjóranum í forsætisráðuneytinu verið falið að taka saman tillögur um viðbrögð við aðstæðunum, sem uppi voru. Í tengslum við það hafi meðal annars verið rætt um heimild handa bönkunum til að gera reikninga sína í erlendum gjaldmiðli, innstæðutryggingar, húsnæðismarkaðinn og svokallaðan hlutfallsvanda, en hann hafi talið að eina lausnin á þeim vanda væri að gera Ísland að hluta af stærra myntsvæði. Niðurstaðan í þessum umræðum hafi orðið sú að róttækar yfirlýsingar gætu skaðað bankakerfið frekar en að koma því að gagni. Hann taldi að á þessum tíma hafi allir gert sér grein fyrir hættu á að allir bankarnir myndu falla ef einn þeirra félli. Ýmislegt hafi þó verið gert til að bregðast við ástandinu og hafi í viðskiptaráðuneytinu verið fengist við atriði, sem vörðuðu innstæðutryggingar og Icesave reikninga Landsbanka Íslands hf. Hann kvaðst einnig minnast þess að viðskiptaráðherra hafi átt samtöl við forstjóra Fjármálaeftirlitsins vegna Icesave reikninganna, en þetta mál hafi aðallega verið á verksviði þess. Aðspurður um aðgerðir af hendi stjórnvalda á árinu 2008 til að þrýsta á bankana til að þeir drægju úr stærð sinni benti Jón á að tekist hafi að koma í veg fyrir kaup Kaupþings banka hf. á hollenska bankanum NIBC, en hann teldi víst að afskipti Fjármálaeftirlitsins hafi leitt til þeirrar niðurstöðu. Sala á eignum hafi á hinn bóginn verið mjög erfið á þessum tíma og hefði krafa stjórnvalda um slíkt getað gert illt verra.

Um undirbúning frumvarps, sem varð að lögum nr. 125/2008, bar Jón að í upphafi sumars 2008 hafi samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað falið sérfræðingum, sem meðal annars hafi komið úr viðskiptaráðuneytinu, að gera drög að slíku frumvarpi. Honum hafi verið sagt frá þeirri vinnu, en hann hafi ekki tekið þátt í henni.

Í tengslum við lið 1.5 í ákæru var Jón inntur eftir því hvað hann hafi vitað um Icesave reikninga í erlendum útibúum Landsbanka Íslands hf. og aðgerðir stjórnvalda varðandi þá. Hann kvaðst hafa heyrt af þessu vegna starfa samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað, en eina skjalið, sem hann hafi fengið í þessu sambandi, hafi verið yfirlit um innlánasöfnun á þessum reikningum í janúar eða febrúar 2008. Hann sagðist ekki vita hvort ákærði hafi komið að þessu, en taldi að viðskiptaráðherra hafi rætt þetta við hann. Í viðskiptaráðuneytinu hafi menn staðið í þeirri trú að unnið væri að flutningi þessara reikninga úr erlendu útibúi bankans til dótturfélags, en í ágúst 2008 hafi komið í ljós að viðræðum um þetta við breska fjármálaeftirlitið miðaði ekki áfram. Stjórnendur bankans hafi af þessu tilefni leitað til stjórnvalda, en ráðuneytinu hafi einnig borist upplýsingar um þetta frá forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Hann sagðist hafa setið fund ásamt viðskiptaráðherra með bankastjórum Landsbankans Íslands hf. og hafi hann einnig hitt stjórnendur bankans í London stuttu fyrir fund með fjármálaráðherra Bretlands 2. september 2008. Þeim fundi hafi verið komið á eftir samtöl, sem viðskiptaráðuneytið hafi átt við stjórnendur Landsbanka Íslands hf. og formann stjórnar Fjármálaeftirlitsins, en grunur hafi komið upp um að afstaða breska fjármálaeftirlitsins ætti sér pólitískar rætur og hafi því þótt þörf á að taka á málinu á pólitíska sviðinu. Á fundinum hafi verið reynt að koma því skýrlega á framfæri að þótt rekstur bankans væri traustur þá væri lausafjárstöðu hans mikil hætta búin ef hann fengi ekki að stýra innri fjármögnun sinni eftir að Icesave reikningarnir yrðu fluttir til dótturfélags. Viðbrögð breska fjármálaráðherrans hafi verið mjög sérkennileg og valdið vonbrigðum. Stór íslensk sendinefnd hafi mætt til fundarins og hefði það átt að sýna hversu alvarlega málið væri tekið hér. Hann teldi ummæli erlenda ráðherrans um það gagnstæða hafa snúið að alþjóðlegum vanda, en ekki vanda Landsbanka Íslands hf. Íslensk stjórnvöld hafi gengið út frá því að minni hætta yrði á að bankinn yrði fyrir áhlaupi ef reikningarnir yrðu fluttir í erlent dótturfélag og hafi breski ráðherrann ekki áttað sig á þeim alvarleika málsins.

9[breyta]

Vitnið Steingrímur J. Sigfússon, sem á árinu 2008 var alþingismaður og formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, kvaðst fyrir dómi hafa sannarlega talið sig sjá hættu vofa yfir íslensku fjármálakerfi og ríkissjóði frá febrúar til október 2008 og reyndar í nokkur ár þar á undan, en hann hafi lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar á árinu 2005 og hafi í greinargerð með henni reifað hættur, sem hann hafi talið vera að byggjast upp. Á árinu 2008 hafi hann talið hættu á að Ísland stefndi í þrot, einkum vegna ójafnvægis, hraðrar skuldasöfnunar ríkisins, ofvaxtar bankakerfisins og skuldasöfnunar heimila. Mörgum hafi verið ljóst að bankakerfið hafi um tíma staðið tæpt á árinu 2006 og hafi því verið óskiljanlegt að vitund manna um hætturnar skyldi ekki hafa verið meiri. Þeir, sem hafi rætt um vandamál, hafi fengið litla áheyrn, ekki aðeins hjá stjórnvöldum heldur samfélaginu öllu. Sjálfur hafi hann þó ekki trúað því fyrr en í október 2008 að allt íslenska bankakerfið myndi hrynja.

Steingrímur sagðist hafa vitað að einhver hópur á borð við samráðshóp um fjármálastöðugleika og viðbúnað væri til, en hann hafi sáralítið þekkt til starfa hópsins að öðru leyti en því að hann væri skipaður embættismönnum. Honum hafi verið kunnugt um áhyggjur innan Seðlabanka Íslands af stöðu mála, en bankinn hafi látið frá sér fara varnaðarorð allt frá árinu 2004 eða 2005. Þetta hafi reyndar verið mótsagnarkennt, því bankinn hafi einnig gefið út skýrslur, þar sem allt hafi verið sagt í góðu lagi. Samráðshópurinn hafi ekki verið mjög sýnilegur, en ef til vill hafi starfsemi hans einmitt átt að vera þannig. Virtist sem svo að störf hópsins hafi ekki skilað miklum árangri. Stjórnarandstaðan hafi almennt ekki verið upplýst um þessi störf og hafi til dæmis ekki verið minnst á samráðshópinn í tengslum við meðferð frumvarps til laga um heimild handa ríkinu til erlendrar lántöku vorið 2008. Hann kvaðst hafa hrokkið við þegar hann sá fjárhæðina, sem hafi átt að taka að láni, og fundist hún benda til að eitthvað væri í aðsigi.

Steingrímur kvaðst ekki hafa orðið þess var að stjórnvöld gerðu eitthvað til að draga úr stærð bankakerfisins, en tók fram að sem leikmaður á þessu sviði væri hann ekki dómbær um hversu raunhæft væri að aðgerðir hefðu getað skilað árangri. Æskilegt hefði verið að stjórnvöld hefðu tekið varnaðarorð um þetta alvarlega og leitað eftir aðstoð.

Aðspurður um fyrirspurn, sem hann bar fram á Alþingi um samskipti ráðherra og Seðlabanka Íslands, sem ákærði svaraði á þingfundi 7. maí 2008, sagðist Steingrímur hafa borið hana fram sökum þess að hann hafi haft þá tilfinningu að ríkisstjórnin og seðlabankinn ynnu ekki vel saman og hafi hann viljað fá upplýsingar um hvað gert væri til að samræma viðbrögð við vandanum. Hann hafi einnig viljað fá upplýsingar um hvort efla ætti gjaldeyrisvaraforðann.

Steingrímur kvaðst ekki hafa vitað um yfirlýsingu þriggja ráðherra og bankastjórnar Seðlabanka Íslands til seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs, sem gerð var 16. maí 2008 í tengslum við gjaldmiðlaskiptasamninga bankanna, fyrr en nokkrum mánuðum eftir að hann varð fjármálaráðherra í febrúar 2009, en þá hafi hann heyrt um þessa yfirlýsingu á fundi með norrænum ráðherrum og seðlabönkum. Hann hafi látið leita að yfirlýsingunni eftir heimkomu af fundinum, en hún hafi ekki fundist í fjármálaráðuneytinu og hafi orðið að fá eintak af henni frá Seðlabanka Íslands. Hann sagðist hafa orðið þess var í viðræðum við fulltrúa hinna Norðurlandanna að þeim hafi fundist lítið hafa verið gert á grundvelli yfirlýsingarinnar og hafi þetta skapað vissa vantrú á íslenskum stjórnvöldum, en ekki hafi þó verið rætt frekar hvað þeir hafi talið að skort hafi á. Hann hafi einnig heyrt hjá bankastjóra seðlabanka Svíþjóðar að formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands hafi ekki sótt næst fund norrænna seðlabankastjóra eftir að yfirlýsingin var gerð og að það hafi valdið gremju. Aðspurður minntist Steingrímur þess ekki að skýrslur frá Seðlabanka Íslands 8. júlí og 19. september 2008 um aðgerðir á grundvelli yfirlýsingarinnar hafi borist í tal í tengslum við þetta.

Steingrímur sagði beiðni þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 21. júlí 2008 um að Alþingi yrði kallað saman, sem hafnað var í ríkisstjórn 22. sama mánaðar, hafa átt rætur að rekja til umræðna innan flokksins um að allt stefndi fram af bjargbrún. Hann hafi talið óveður í vændum á Íslandi og mikilvægt að kalla Alþingi saman til að bregðast við.

Aðspurður um tjón íslenska ríkisins af bankahruninu sagði Steingrímur að allt hafi verið gert, sem unnt var, til að draga úr því. Tjónið væri af mörgum toga, meðal annars vegna endurfjármögnunar Seðlabanka Íslands og bankakerfisins, skuldasöfnunar út af hallarekstri ríkisins, töpuðu lánstrausti þess, erfiðleika við erlendar lántökur og lakari lánskjara. Mætti í fljótu bragði telja til atriði, sem svari til 25 til 30% af vergri landsframleiðslu.

10[breyta]

Vitnið Bolli Þór Bollason, sem var ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu á þeim tíma sem ákæra í málinu varðar og jafnframt formaður samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað, lýsti því fyrir dómi að um mitt ár 2007 hafi farið að halla undan fæti í alþjóða efnahagsmálum eftir mikinn uppgang næstu ára á undan. Þetta hafi bitnað á íslensku bönkunum, sem hafi sótt á erlenda markaði til að fjármagna starsemi sína. Upp frá þessu hafi hlutabréfaverð fallið og lánsfjármögnun orðið erfiðari. Bankarnir hafi búið við sífellt versnandi skilyrði, þótt inn á milli hafi rofað til eina eða tvær vikur í senn. Skuldatryggingarálag bankanna hafi farið hækkandi allan þennan tíma og mikil óveðurský verið yfir þeim.

Bolli kvað samráðshópinn hafa verið stofnaðan vegna mikils vaxtar í fjármálakerfi heimsins. Fljótlega upp úr árinu 2000 hafi athygli á alþjóðavettvangi farið að beinast að hugsanlegum viðbúnaði í þessu sambandi og hafi það orðið tilefni til að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið hafi gert samning um samstarf sitt. Árið 2004 hafi verið ákveðið á fundi forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, bankastjórnar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins að setja á fót óformlegan samráðshóp, sem hafi starfað fram í febrúar 2006, en þá hafi hópurinn lagt til að þetta samráð yrði formbundið. Á þeim grunni hafi samráðshópurinn um fjármálastöðugleika og viðbúnað orðið til. Tilgangur hans hafi fyrst og fremst verið að búa til vettvang fyrir samráð þeirra, sem stóðu að hópnum, en ráðuneytin hafi komið þar við sögu til að unnt yrði að tryggja þeim upplýsingar. Upphaflega hafi verið ráðgert að hópurinn fundaði tvisvar á ári og hafi honum ekki verið ætlað að leysa stofnanirnar undan sínum hefðbundnu og lögbundnu skyldum. Þetta hafi komið skýrt fram í tillögu eldri hópsins, þar sem því hafi verið lýst að mikilvægt væri að stjórnvöld hefðu vitneskju um framvindu mála á fjármálamarkaði, ekki til að grípa inn í störf eftirlitsstofnana, heldur til að vera upplýst og til taks ef alvarleg fjármálakreppa væri í aðsigi, sem sýnt væri að eftirlitsstofnanirnar gætu ekki komið í veg fyrir. Þá fyrst kæmi til kasta stjórnvalda og eftir atvikum Alþingis.

Bolli kvaðst ekki hafa litið svo á að samráðshópurinn ætti að gera aðgerðaáætlun vegna viðbragða við hugsanlegu fjármálaáfalli, heldur hafi hópurinn átt að ræða stöðuna og setja fram ábendingar. Seinni hluta ársins 2007 hafi verið farið að huga að viðbúnaði við hugsanlegu áfalli og hafi ráðuneytisstjórarnir óskað eftir að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið létu samráðshópnum í té ákveðnar upplýsingar, greinargerðir og minnisblöð. Á hinn bóginn hafi hópurinn ekki átt að gera slíka áætlun, heldur seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið. Báðar stofnanirnar hafi undirbúið viðlagaáætlanir, hvor á sínu sviði, og gert sérstakan samráðssamning ef grípa þyrfti inn í á fjármálamarkaði. Komið hafi til tals í hópnum hvort lagaheimildir væru nægilega rúmar til að stofnanirnar gætu sinnt störfum sínum við þær aðstæður, sem uppi voru. Þannig hafi á fyrsta eða öðrum fundi hópsins komið fram að veita þyrfti Fjármálaeftirlitinu heimildir til að grípa inn í starfsemi fjármálafyrirtækja ef þörf væri á og hafi frumvarp um slíkar heimildir verið kynnt, en þessar hugmyndir hafi ekki orðið að veruleika fyrr en með svokölluðum neyðarlögum. Þessi umræða hafi komið upp um þær mundir, sem íslensku bankarnir áttu í miklum erfiðleikum á fyrri hluta ársins 2006, og hafi það verið mat hópsins að ófært væri að gera slíkar breytingar á lögum á þeim tíma vegna hættu á að þær yrðu taldar vera vitnisburður um veikburða bankakerfi.

Um sambandið milli samráðshópsins og þeirra, sem að honum stóðu, rakti Bolli að ráðuneytisstjórarnir í hópnum hafi verið fulltrúar ráðherra og komið sem slíkir með skoðanir, ábendingar og hugmyndir, sem ræddar hafi verið þeirra á milli. Með störfum hópsins hafi stjórnvöld ekki aðeins fengið upplýsingar frá eftirlitsstofnununum, heldur hafi Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið einnig fengið upplýsingar um afstöðu ráðherra til einstakra mála. Bolli sagðist hafa rætt mikið við ákærða og meðal annars greint honum frá því, sem fram fór í samráðshópnum, enda hafi öll efnahagsumræða hér á landi seinni hluta árs 2007 og sérstaklega á árinu 2008 snúist um stöðu bankanna og af þeim sökum hafi þeir rætt þetta mikið. Efaðist hann um að þeir hafi nokkru sinni rætt saman án þess að þessi mál bæri á góma. Hann hafi einnig kynnt sjónarmið ákærða í nefndinni, sérstaklega þegar liðið hafi á árið 2008 og línur farið að skýrast. Þegar hópurinn hafi farið að ræða um hugsanleg viðbrögð hafi þessi skoðanaskipti orðið mjög ör og hafi hann greint hópnum frá því, sem farið hafi á milli sín og ákærða. Í hópnum hafi ekki mikið verið óskað eftir því að hann flytti ákærða skilaboð og hafi ekki verið rætt þar um að skort hafi á pólitíska stefnumörkun til að starf hópsins yrði markvissara. Þá hafi ekki verið óskað þar eftir að ákærði beitti sér á einhvern hátt gagnvart bönkunum, heldur hafi sú almenna afstaða verið ríkjandi innan samráðshópsins að eðlilegt væri að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið hefðu slík verk á hendi.

Aðspurður hvort lagaákvæði um þagnarskyldu hafi staðið starfi samráðshópsins fyrir þrifum sagði Bolli ljóst að Seðlabanki Íslands en þó sérstaklega Fjármálaeftirlitið hafi haft upplýsingar um innri stöðu bankanna, sem ekki hafi verið æskilegt að bærust inn í hópinn. Það hafi þó ekki hamlað starfi hópsins, enda hafi Fjármálaeftirlitið sinnt öllum beiðnum um upplýsingar. Hann hafi ekki talið Fjármálaeftirlitinu skylt að veita samráðshópnum upplýsingar um stöðu einstakra banka og hafi verið treyst á mat þess í þeim efnum.

Bolli kvað bæði Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið hafa haft tilbúnar viðbúnaðaráætlanir til að bregðast við fjármálaáfalli þegar það reið yfir í október 2008. Í samráðshópnum hafi verið talið ljóst að kæmi til fjármálaáfalls myndu allir stóru bankarnir falla sökum þess að erlendis hafi ekki verið gerður greinarmunur á þeim. Viðbúnaðaráætlanir seðlabankans hafi einkum beinst að því að tryggja að fjármálakerfið gæti verið virkt þótt bankarnir féllu. Viðbúnaði af öðrum toga hafi verið sinnt vel innan samráðshópsins, enda hafi legið fyrir drög að frumvarpi, sem varð að svokölluðum neyðarlögum. Aðspurður um viðbúnað vegna greiðslumiðlunar sagði Bolli að hann hafi að minnsta kosti verið í því horfi að seðlabankanum hafi tekist á skömmum tíma að tryggja hana innan lands sem utan. Hann teldi þetta fyrst og fremst hafa verið undirbúið innan seðlabankans, en sagðist ekki geta fullyrt hvort aðrir hafi átt hlut að því verkefni, þótt líklegt væri að bankar og fjármálafyrirtæki hafi komið að því á undirbúningsstigi.

Aðspurður hvort deilur hafi verið innan samráðshópsins milli fulltrúa fjármálaráðuneytisins og viðskiptaráðuneytisins sagði Bolli að þá hafi greint á um innstæðutryggingar, en rætt hafi verið í hópnum hvort og þá hve mikið ríkið ætti að tryggja af innstæðum. Deilt hafi verið um hvort tímabært væri að setja ákveðnar tölur á blað og hafi hann og ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu verið sammála um að stíga varlega til jarðar í þeim efnum. Hann kvað verkstjórn sína í samráðshópnum ekki hafa sætt gagnrýni og hafi hann ekki lagt til við ákærða að gera breytingar á hópnum.

Vegna fundar í samráðshópnum 1. apríl 2008, þar sem lagt var fram vinnuskjal frá Seðlabanka Íslands, sem reist var á tillögum Andrew Gracie, sagði Bolli að í þeim tillögum hafi verið stillt upp hugsanlegum aðgerðalista ef til fjármálaáfalls kæmi og hafi verið unnið á þeim nótum í hópnum. Á þessum fundi hafi hann sagt að setja þyrfti á blað aðgerðaáætlun og hafi hann þá átt við það að seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið myndu vinna áfram að viðbragðsáætlun, sem eftir atvikum kæmi inn á borð stjórnvalda. Taldi hann sig hafa rekið á eftir þessu síðar. Aðspurður um ummæli, sem höfð voru eftir honum í fundargerð frá fundi samráðshópsins 2. apríl 2008 um að hann hafi skilið málið ráðherramegin þannig að taka ætti á stóru bönkunum þremur og innlánstryggingum, sagði Bolli að legið hafi ljóst fyrir að aðkoma stjórnvalda að hugsanlegu fjármálaáfalli hlyti að beinast að stóru bönkunum þremur og yrði að horfa á þá alla í einu að þessu leyti.

Bolli var inntur eftir því hvort marka mætti af ummælum hans á fundi samráðshópsins 21. apríl 2008 að hann hafi talið vinnuna þar ganga hægt, en í fundargerð var haft eftir honum að næstu skref í viðbúnaðarstarfinu væru meðal annars að móta sameiginlega stefnu stjórnvalda, setja þrýsting á bankana, undirbúa lagafrumvörp og gera aðgerðaáætlun. Kvaðst Bolli ef til vill hafa viljað fastara land undir fótum, en það hafi aðallega verið til að vera viðbúinn því versta. Nokkuð skýrar hugmyndir hafi verið um hvernig ætti að bregðast við og hafi þær skilað sér eins vel og hægt var í neyðarlögunum.

Bolli lýsti því að skjal, sem nefnt var ólystugi matseðillinn og rætt var um meðal annars á fundi samráðshópsins 22. júlí 2008, hafi verið minnisblað, sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins hafi lagt fram í lok apríl 2008 vegna beiðni Bolla um að Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands myndu setja á blað hugmyndir sínar um viðbúnað og viðbrögð við hugsanlegri fjármálakreppu. Forstjórinn hafi tekið þar upp atriði, sem sneru að hugsanlegu lagafrumvarpi, og hafi þau aðallega varðað valdheimildir Fjármálaeftirlitsins. Að auki hafi verið nefnd atriði, sem hafi tengst framvarpsgerðinni sem slíkri, hugsanlegri fjáröflun ríkisins með aðkomu Íbúðalánasjóðs, frekari viðbúnaði og eflingu gjaldeyrisforðans. Þessi listi hafi verið nýttur til að halda áfram umræðum um viðbrögð við fjármálaáfalli og verkefni stjórnvalda í því sambandi. Aðspurður um umræðu á fundinum um vinnuhóp til að undirbúa lagafrumvarp sagði Bolli að sá hópur hafi verið stofnaður og starfað að þessum málum. Á síðari fundi samráðshópsins hafi verið spurt um framvindu í störfum þessa vinnuhóps og hafi honum þótt þeim miða hægt. Ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu hafi þá tekið að sér að herða á vinnunni.

Bolli kvað fund samráðshópsins 16. september 2008 hafa verið haldinn í kjölfar þess að bandaríski fjárfestingarbankinn Lehman Brothers hafi fallið, en sá atburður hafi breytt stöðunni. Taldi hann að þá hafi legið fyrir að ef allt færi á versta veg yrði að grípa inn í starfsemi bankanna með lagasetningu á grundvelli vinnunnar, sem hópurinn hafi leyst af hendi. Þessi stefna hafi þá legið fyrir, en eins og málum var komið hafi verið rík ástæða til að reka á eftir vinnunni.

Varðandi lið 1.4 í ákæru sagði Bolli að talsvert hafi verið rætt innan samráðshópsins um þörfina á að dregið yrði úr stærð bankanna og hafi það einnig verið gert í forsætisráðuneytinu. Það hafi á hinn bóginn verið samdóma mat flestra að ekki væri hlaupið að því að grípa til yfirgripsmikilla aðgerða og hafi stjórnvöld ekki haft heimildir til að beita sér í málinu. Rætt hafi verið um að reyna að hafa áhrif á bankana og hafi þau samskipti aðallega komið í hlut Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Á árinu 2008 hafi almennt verið talið ógerlegt að grípa til aðgerða í þessu skyni, enda hefði verið litið á þær sem veikleikamerki, sem hefði getað fellt bankana. Bolli kvaðst hafa setið fundi með ákærða og stjórnendum bankanna, þar sem stærð bankakerfisins hafi borið á góma, en á þessum fundum hafi verið farið almennt yfir stöðuna. Hann minntist þess einnig að hafa verið viðstaddur fund ákærða með stjórnendum Kaupþings banka hf., þar sem rætt hafi verið um kaup á hollenskum banka og að hugsanlega yrði hætt við þau. Þetta hafi verið óformlegir fundir, enda hafi stjórnvöld ekki haft boðvald yfir bönkunum.

Bolli kvaðst hafa verið viðstaddur fund ákærða, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra með bankastjórn Seðlabanka Íslands 7. febrúar 2008. Þar hafi komið fram að staðan væri alvarlegri en ætlað hafi verið, en erfitt hafi þó verið að meta sannleiksgildi þessara upplýsinga, þar sem nokkrum mánuðum síðar hafi komið út skýrsla frá seðlabankanum um fjármálastöðugleika, þar sem því hafi verið lýst yfir að staða bankakerfisins væri sæmilega traust þótt þar hafi einnig verið að finna nokkur varúðarmerki. Það eina, sem vitað hafi verið á þessum tíma, hafi verið að minnstu veikleikamerki á íslenska bankakerfinu myndu án efa vera túlkuð þannig að bönkunum væri ekki treystandi. Það yrði einfaldlega gert áhlaup á bankana og þeir myndu hrynja. Mönnum hafi þó auðvitað brugðið við þessar fregnir. Bolli bar að þetta hafi verið rætt áfram bæði í forsætisráðuneytinu og samráðshópnum, en fundir í honum hafi verið mjög tíðir eftir þetta. Þetta hafi verið umræðuefni innan hópsins þar til yfir lauk.

Bolli var spurður um ummæli í drögum að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem fylgdu tölvubréfi hans til ákærða 10. febrúar 2008, um að mikilvægt væri að íslensk fyrirtæki hefðu höfuðstöðvar sínar hér á landi og hvort ekki hafi verið uppi hugmyndir um að hvetja bankana til að flytja úr landi. Taldi Bolli að á þessum tíma hafi frumkvæði að slíku ekki getað komið frá stjórnvöldum, en önnur saga væri hvað kynni að hafa mátt segja í einkasamtölum. Allir tilburðir í þessa átt af hálfu stjórnvalda hefðu orkað tvímælis.

Bolli kvaðst ekki telja að skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem send var Seðlabanka Íslands 14. apríl 2008, hafi gefið tilefni til sjálfstæðra aðgerða, enda hafi þegar verið hafin vinna að því, sem rætt hafi verið um í henni.

Bolli sagðist hafa séð yfirlýsingu, sem gerð var 16. maí 2008 í tengslum við gjaldmiðlaskiptasamninga við norræna seðlabanka. Aðspurður hvort þessi yfirlýsing hafi gefið tilefni til einhverra aðgerða taldi Bolli að þegar þarna hafi verið komið hafi staðan verið metin þannig að mjög erfitt væri að gera eitthvað, sem myndi skila árangri. Yfirlýsingin hafi að vissu leyti verið forsenda þess að samningarnir kæmust í höfn og hafi verið lítilsháttar ágreiningur um hversu skýrt mætti orða hana. Hann hafi talið langt gengið með yfirlýsingunni, en menn hafi talið mikilvægt að ná þessum samningum.

Bolli minntist þess ekki hvenær hann hafi fyrst heyrt getið um að Landsbanki Íslands hf. hygðist bjóða upp á Icesave reikninga í útibúi sínu í Hollandi, en kynnt hafi verið í samráðshópnum, líklega í lok maí 2008, að þessi starfsemi væri hafin. Icesave reikningarnir hafi verið talsvert til umræðu, bæði kostir þeirra og gallar. Hann kvaðst hafa verið þeirrar skoðunar að þessum reikningum fylgdi áhætta fyrir ríkið að því leyti, sem það yrði talið þurfa að gangast í ábyrgð, en það hafi verið álitamál. Einhverjum mánuðum áður hafi erlend matsfyrirtæki séð þetta sem allsherjar lausn fyrir íslenska bankakerfið, en síðar hafi komið í ljós að reikningunum hafi verið ætlað að fjármagna og mæta vanda Landsbanka Íslands hf. heima fyrir. Bolli sagðist ekki muna hvort rætt hafi verið um að beita sér gegn söfnun innlána á Icesave reikninga í Hollandi. Þessi starfsemi hafi samrýmst reglum á evrópska efnahagssvæðinu og hafi því verið erfitt að beita sér lagalega gegn henni. Þetta hafi verið áhættuþáttur í fjármálakerfinu og hafi menn gert sér grein fyrir því að hann tengdist fyrst og síðast því álitamáli hvort ríkið kynni að vera gert ábyrgt fyrir greiðslu innstæðutrygginga.

Í tengslum við lið 1.5 í ákæru sagðist Bolli ekki muna nákvæmlega hvenær hann hafi fengið vitneskju um Icesave reikninga í útibúi Landsbanka Íslands hf. í London. Um þá hafi oft verið rætt, meðal annars í samráðshópnum, og þá einkum í tengslum við hugsanlega ábyrgð ríkisins á reikningunum ef illa færi. Sagði hann að Fjármálaeftirlitið hafi fyrst og fremst beitt sér fyrir flutningi reikninganna í erlent dótturfélag með samskiptum við breska fjármálaeftirlitið og hafi Fjármálaeftirlitið leitt þessa vinnu af hálfu íslenskra stjórnvalda. Seðlabanki Íslands hafi einnig komið óformlega að þessu í samskiptum við erlenda seðlabanka. Aðspurður hvort hann vissi til þess að ákærði hafi kynnt sér stöðu þessara mála sérstaklega eða leitað ráðgjafar um hvernig staðið yrði að slíkum flutningi svaraði Bolli því til að þessi mál hafi oft komið til umræðu og vitað hafi verið af þeirri hættu, sem í þessu var fólgin. Málið hafi verið í formlegum farvegi milli fjármálaeftirlita og seðlabanka landanna tveggja. Bolli sagði að sú afstaða viðskiptaráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins að íslenska ríkið bæri ábyrgð á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta hafi borið á góma milli hans og ákærða. Innan samráðshópsins hafi þó ekki allir verið sammála þessari túlkun og um það hafi oft verið rætt. Nánar aðspurður um þetta sagðist Bolli hafa verið sammála skoðunum ráðuneytisstjórans í fjármálaráðuneytinu um þetta eins og í mörgum öðrum málum og hafi þeir báðir talið að fara ætti varlega í þessum efnum, enda háar fjárhæðir í húfi. Ekki minntist hann þess að borist hafi í tal að viðskiptaráðuneytið og Fjármálaeftirlitið myndu afla lögfræðilegs álits um afstöðu sína.

Bolli kvað sér hafa verið kunnugt um samskipti Landsbanka Íslands hf. við breska fjármálaeftirlitið, sem rætt var um í samráðshópnum 12. ágúst 2008. Gengið hafi á ýmsu og hafi borist misvísandi upplýsingar eftir því hvort bankinn hafi veitt þær eða aðrir. Á tímabili hafi honum verið tjáð að breska fjármálaeftirlitið væri að fara fram úr sjálfu sér og jafnvel lögum í aðgerðum sínum. Hann hafi talið útilokað að gripið yrði til lagasetningar af þessu tilefni. Hann hafi litið svo á að Fjármálaeftirlitið hafi ekki talið þörf á að ákærði skipti sér af þessu máli. Sjálfur hafi hann ekki haft trú á að Landsbanka Íslands hf. tækist að ná samningum um þetta við breska fjármálaeftirlitið og haft að auki efasemdir um að bankinn vildi í reynd flytja Icesave reikningana til dótturfélags, enda hefði hann þá ekki getað fært fé frá því til móðurfélagsins. Hann kvaðst ekki geta sagt að þetta hafi verið almennt viðhorf innan samráðshópsins, en þar hafi hann þó ekki verið einn um þessa skoðun.

11[breyta]

Vitnið Kristján Andri Stefánsson kvaðst fyrir dómi hafa gegnt starfi ritara ríkisstjórnarinnar nær óslitið frá 1992 til 2004. Hann kvað reglur hafa verið settar á árinu 1999 um dagskrá funda ríkisstjórnarinnar og fundargerðir hennar, en einnig hafi gilt ákveðnar venjur. Hann hafi setið fundi ríkisstjórnarinnar og fært fundargerðir, en á fundunum hafi mál að meginstefnu til verið lögð fram skriflega. Ráðherrar hafi óskað eftir að mál yrðu tekin á dagskrá og afhent gögn þegar það hafi verið gert. Fært hafi verið til bókar hvaða gögn hafi verið lögð fram, hvað lagt hafi verið til um meðferð mála og hvaða afgreiðslu þau hafi fengið. Ekki hafi verið bókað um umræður til að hefta ekki skoðanaskipti á fundum. Komið hafi fyrir að ráðherrar hafi eingöngu reifað mál munnlega og þá sérstaklega undir liðnum önnur mál, en slíkar umræður hafi yfirleitt verið heimilaðar. Í þeim tilvikum hafi verið mismunandi hvað hafi verið fært til bókar, en það hafi ekki verið á sama veg og með skrifleg erindi. Getið hafi verið í bókun um umræðuefni, en umræðan hafi ekki verið færð til bókar.

12[breyta]

Vitnið Baldur Guðlaugsson, sem var ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu á þeim tíma sem ákæra í málinu varðar og átti jafnframt sæti í samráðshópi um fjármálastöðugleika og viðbúnað, vísaði fyrir dómi til samkomulags 21. febrúar 2006 um stofnun samráðshópsins um afmörkun á verksviði hans. Baldur kvað hópinn ekki hafa borið meiri skyldur en þær, sem þar greindi, og hafi hópurinn ekki haft ákvörðunarvald, heldur hafi honum verið ætlað að fjalla um afmörkuð efni og þá einkum stöðu og horfur á fjármálamörkuðum, lagafrumvörp, sem hafi verið í bígerð, og þátttöku Íslands í samstarfi Evrópusambandsríkja á þessu sviði. Þar hafi menn skipst á skoðunum og þangað hafi borist greinargerðir um vinnu, smíði sviðsmynda og undirbúning valkosta. Hópurinn sem slíkur hafi ekki unnið að gerð viðlagaáætlunar og hafi engar heimildir haft, hvorki til inngrips né upplýsingaöflunar. Aðspurður sagði hann að listi, sem nefndur var ólystugi matseðillinn og lagður var fram á fundi samráðshópsins 28. apríl 2008, hafi haft að geyma ábendingar og hugmyndir, sem hægt væri að vinna frekar, en það hafi hópurinn ekki sjálfur átt að gera, enda hafi hann ekki fengist við slíkt. Með líkum hætti hafi hópurinn komið að gerð frumvarps, sem varð að lögum nr. 125/2008. Grunnur hafi verið lagður að breytingum á lögum um fjármálaeftirlit á árinu 2006, en sú vinna hafi verið lögð til hliðar og verið svo tekin aftur upp. Hópurinn sem slíkur hafi ekki unnið að þessu. Baldur kvaðst ekki muna hvort þetta hafi verið gert á vettvangi Fjármálaeftirlitsins og viðskiptaráðuneytisins, en áður en samráðshópurinn tók til starfa hafi nefnd haft þetta verkefni með höndum og hafi þá verið uppi hugmyndir um að æskilegt væri að styrkja heimildir Fjármálaeftirlitsins til að grípa inn í starfsemi fjármálafyrirtækja. Vandinn hafi á hinn bóginn verið sá að ekki hafi verið hægt að leggja fram frumvarp sem þetta nema annaðhvort ríkti algjör ró á mörkuðum eða fjármálakreppa væri skollin á. Fjármálaráðuneytið hafi ekki komið að öðru en einum þætti verksins, sem hafi snúið að möguleikum ríkisins til að veita fé til að halda uppi fjármálakerfinu. Vinnan, sem hafi verið í gangi, hafi aðallega snúið að heimildum Fjármálaeftirlitsins, en síðan hafi einnig hafist vinna við endurskoðun laga um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Þetta hafi allt verið komið í gang snemma árs 2008, en síðan hafi bæst við þáttur, sem sneri að undirbúningi þess að ríkið þyrfti á einhvern hátt að grípa inn í til að reisa við banka. Fjármálaráðuneytið hafi sett mann inn í hóp, sem hafi unnið að þessu. Vinnunni við frumvarpið hafi ekki verið endanlega lokið þegar hrunið dundi yfir. Baldur tók fram að engin leið væri til að hafa tilbúna viðbúnaðaráætlun þegar áföll dyndu yfir, enda væri ekki hægt að sjá nákvæmlega fyrir þær aðstæður, sem kynnu að koma upp. Menn hafi á hinn bóginn þurft að vera búnir að forvinna hlutina þannig að ljúka mætti þeim þegar aðstæður kölluðu á.

Baldur kvaðst ekki geta metið fyrir annarra hönd hvort eitthvað hafi skort á stefnumörkun af hendi ráðherra vegna starfa samráðshópsins, en ljóst væri að þær stofnanir, sem helst báru ábyrgð á fjármálaeftirliti og fjármálastöðugleika, hafi haft beinan aðgang að ráðherrum. Samráðshópurinn hafi ekki myndað einhvern flöskuháls, sem hafi hamlað stofnunum að vinna sín verk. Hann kannaðist ekki við að hópurinn hafi talið sig vanta pólitíska stefnumörkun, enda hafi verið ljóst af samkomulaginu um stofnun hópsins að leggja ætti til grundvallar að markaðsaðilar ættu að leysa vanda sinn sjálfir.

Baldur sagðist ekki telja að fyrir hendi hafi verið áherslumunur um hversu langt ætti að ganga í vinnu samráðshópsins milli sín og Bolla Þórs Bollasonar annars vegar og annarra í hópnum hins vegar. Hann minntist þó þess að um vorið 2008 hafi verið skiptar skoðanir innan hópsins um hvort ríkið ætti að lýsa því yfir að það myndi ábyrgjast fjárhæð innstæðna umfram lögbundið lágmark. Hafi hann og Bolli talið að slík skilaboð myndu gefa til kynna að allt væri að fara á hliðina. Slíka ákvörðun ætti ekki að taka nema staðið væri frammi fyrir alvarlegri stöðu, enda hafi hún verið tekin í október 2008 og verið alls annars efnis en áður hafi verið rætt um. Baldur kvaðst telja Tryggva Pálsson og Jónas Fr. Jónsson einkum hafa haldið fram gagnstæðri skoðun. Aðspurður sagðist Baldur ekki hafa talið brýna þörf á að gera frekari skýrslur eða aðgerðaáætlanir en fyrir lágu, enda hafi verið vonast til að ástandið myndi lagast og óljóst hafi verið hvað gæti gerst og hvenær.

Baldur kvaðst telja viðfangsefni samráðshópsins hafa verið slík að starfið hafi orðið að fara leynt. Sagt hafi verið frá því að hópurinn væri til, en ekki hafi verið talið hyggilegt að fjalla opinberlega um störf hans að öðru leyti. Hann kannaðist ekki við að óttast hafi verið að gögnum eða upplýsingum yrði lekið úr hópnum. Fjármálaeftirlitið hafi talið að mikill trúnaður yrði að ríkja um þessi störf og hafi umræður því verið mjög á almennum nótum. Taldi hann að brestur á upplýsingamiðlun hafi ekki háð starfi hópsins og hefði engu breytt þótt Fjármálaeftirlitinu eða Seðlabanka Íslands hefði verið heimilt að miðla meiri upplýsingum til hans. Aðspurður hvort óttast hafi verið að viðskiptaráðherra myndi bera út upplýsingar, sem kæmu fram á vettvangi hópsins, sagði Baldur að það kunni að hafa verið undirstrikað með almennum hætti í störfum hópsins að ráðherrarnir mættu ekki fjalla um málefni hans opinberlega. Kannaðist Baldur ekki við að lagt hafi verið fyrir ráðuneytisstjórann í viðskiptaráðuneytinu að skammta ráðherra sínum upplýsingar naumt. Varnaðarorð um að ráðherrar ættu ekki að ræða opinberlega um mál, sem samráðshópurinn fengist við, hafi ekki snúið að einhverjum einum ráðherra frekar en öðrum. Annað hefði ekki verið sagt nema að gefnu sérstöku tilefni, sem Baldur minntist ekki að komið hafi upp. Hann kvaðst hafa gert fjármálaráðherra grein fyrir því, sem fór fram á vettvangi hópsins, þannig að ráðherrann hafi í stórum dráttum vitað um það, sem þar var fjallað um.

Aðspurður hvort samráðshópurinn hafi náð þeim markmiðum, sem að var stefnt, vísaði Baldur til þess að hópurinn hafi verið myndaður til að skiptast á upplýsingum. Þótt það hafi ekki verið verkefni hópsins hafi hann einnig skilað góðri vinnu, sem hafi lagt grunn að þeim aðgerðum sem gripið var til við fjármálahrunið. Baldur kvaðst ekki sjá hvað hópurinn hefði getað gert betur að gættu verksviði hans. Ekki hafi komið til umræðu að breyta samkomulaginu um stofnun samráðshópsins til að víkka út hlutverk hans. Ljóst hafi verið í vinnu samráðshópsins að sérstakt samstarf væri milli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands, en að auki hafi sér verið kunnugt um að innan bankans væri unnið að viðlagaundirbúningi. Hann kannaðist ekki við að fundið hafi verið að verkstjórn samráðshópsins.

Varðandi lið 1.4 í ákæru greindi Baldur frá því að stærð bankakerfisins hafi ekki verið til umræðu í fjármálaráðuneytinu, enda fjalli það um fjármál ríkisins en ekki einkaaðila. Það hafi ekki verið verkefni samráðshópsins að hvetja til þess að þrýst yrði á bankana um að draga úr stærð sinni, þótt þar hafi stundum verið rætt um að koma yrði á framfæri sjónarmiðum um að bankarnir þyrftu að selja eignir. Á fundum hópsins hafi á hinn bóginn ekki komið fram upplýsingar um eignir bankanna og hafi umræður um þetta því ekki snúist um það hvort eignasala gæti verið raunhæf lausn á vanda þeirra.

Aðspurður um tölvubréf hans 14. febrúar 2008 til ákærða, fjármálaráðherra og ráðuneytisstjórans í forsætisráðuneytinu um atriði, sem stæðu upp á bankana, þar sem meðal annars var vikið að því að bankarnir ættu að stöðva vöxt sinn og selja eignir, sagðist Baldur hafa sent þetta í tengslum við fund, sem ráðherrar áttu með fulltrúum fjármálafyrirtækja sama dag. Rætt hafi verið um að ríkið ætti að taka erlend lán og endurlána bönkunum og hafi hann talið rétt að ráðherrarnir gætu svarað fyrir sig með þeim atriðum, sem tilgreind voru í tölvubréfinu, ef fulltrúar fjármálafyrirtækjanna myndu færa þetta í tal. Það hafi ekki gerst á fundinum og hafi því ekki reynt á þessi atriði.

Í tengslum við lið 1.5 í ákæru bar Baldur að mikið hafi verið rætt innan samráðshópsins um innlánasöfnun Landsbanka Íslands hf. erlendis, en þetta hafi þó einkum verið á verksviði Fjármálaeftirlitsins. Ráðherrar, sem áttu fulltrúa í hópnum, hafi vitað af málinu, en erindum hafi ekki verið beint til hópsins út af því. Í samráðshópnum hafi ekki verið vitað fyrr en í júlí 2008 að hlé hafi orðið á vinnu við flutning Icesave reikninga úr útibúi bankans í London til dótturfélags og sagði Baldur að eftir þetta hafi sér fyrst orðið kunnugt um samskipti bankans við breska fjármálaeftirlitið. Samráðshópurinn hafi síðan fylgst með þessu, en verkefnið hafi reynst erfitt, því skilyrði breska fjármálaeftirlitsins fyrir flutningnum hafi tekið sífelldum breytingum.

Baldur kvað stöðu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta oft hafa verið rædda innan samráðshópsins. Hann hafi ekki litið svo á að ríkið bæri ábyrgð á lágmarksfjárhæð innstæðutrygginga. Hann taldi að bresk stjórnvöld hafi farið að huga sérstaklega að stöðu sjóðsins í framhaldi af umfjöllun um hana í breskum fjölmiðli í júlí 2008. Aðspurður um bréf viðskiptaráðuneytisins 20. ágúst 2008 til breska fjármálaráðuneytisins sagði Baldur að erlenda ráðuneytið hafi borið upp fyrirspurn um inntak nokkurra ákvæða í lögum um tryggingarsjóðinn, þar á meðal hvort ríkið myndi aðstoða sjóðinn ef því væri ekki skylt að gera það. Þetta hafi verið rætt og kunni að hafa verið uppi skiptar skoðanir um ábyrgð ríkisins á sjóðnum, en niðurstaðan hafi orðið sú að lýsa ekki afstöðu til þessa og hafi svar við fyrirspurninni verið látið vera óskýrt að þessu leyti. Ekki hafi verið talið hyggilegt að segja að ríkið léti sig þetta engu varða og því hafi verið látið við það sitja að svara fyrirspurninni á þann veg að ríkið myndi uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningnum um evrópska efnahagssvæði á sama hátt og hver önnur ríkisstjórn myndi gera við slíkar aðstæður.

Baldur kvaðst telja að nokkuð hafi verið liðið á árið 2008 þegar formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins hafi fyrst látið sig varða innlánasöfnun Landsbanka Íslands hf. á Icesave reikninga, en reglur hafi verið með þeim hætti að bankanum hafi verið þetta heimilt. Hann sagðist ekki vita annað en að ráðherra hafi í fyrsta sinn látið þetta mál til sín taka þegar viðskiptaráðherra átti fund með breska fjármálaráðherranum 2. september 2008. Hafi aldrei komið til tals innan samráðshópsins að ástæða væri til að leita atbeina ákærða vegna þessa.

13[breyta]

Vitnið Áslaug Árnadóttir greindi frá því fyrir dómi að hún hafi verið skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu frá 1. júlí 2007 og settur ráðuneytisstjóri frá desember 2007 til loka júlí 2008, en þá hafi hún tekið aftur við stöðu skrifstofustjóra. Þá hafi hún verið formaður stjórnar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá 29. febrúar 2008 til ársloka 2009.

Aðspurð í tengslum við lið 1.3 í ákæru sagðist Áslaug hafa setið flesta fundi samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað frá ársbyrjun til 31. júlí 2008. Hún kvað samráðshópinn hafa verið vettvang til upplýsinga- og skoðanaskipta, en ekki hafi verið ætlunin að taka ákvörðunarvald af stofnunum eða ráðuneytum með stofnun hópsins og hafi verið unnið samkvæmt því. Í hópnum hafi verið fulltrúar frá mörgum stofnunum og hafi því verið tækifæri til að ræða þar mál, sem heyrðu undir fleiri en eina þeirra. Unnt hafi verið að fara yfir hvað þyrfti og væri hægt að gera og stöðu mála almennt, auk þess sem þar hafi mátt fá upplýsingar um hvað aðrir væru að gera. Það hafi ekki beinlínis verið hlutverk hópsins að gera sérstaka viðbragðsáætlun, en engu að síður hafi ýmislegt verið unnið í tengslum við það. Þetta hafi þó að stórum hluta verið verkefni Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins, enda hafi þær stofnanir búið yfir upplýsingum, sem hafi þurft í þessum efnum. Af fundargerðum samráðshópsins mætti sjá að þessum stofnunum hafi verið falið að gera ýmsar skýrslur og samantektir, en sumt af því hafi verið unnið að frumkvæði þeirra sjálfra. Það hafi ekki verið álit hópsins að þetta væru verkefni hans, en þar hafi á hinn bóginn verið vettvangur til að ræða viðfangsefni seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins á þessu sviði. Aðgerðaáætlun hafi ekki legið fyrir þegar hún lét af störfum í hópnum. Áslaug kvað ákærða ekki hafa beint óskum til samráðshópsins um að leysa af hendi tiltekin verk, en hún hafi litið svo á að margt af því, sem fulltrúi hans í hópnum hafi borið upp, hafi komið til vegna viðræðna milli þeirra. Hún hafi ekki talið að skort hafi pólitíska stefnumörkun vegna verkefna samráðshópsins. Þá sagði hún að viðskiptaráðuneytið hafi ekki lagt til að breytingar yrðu gerðar á samráðshópnum.

Áslaug kvaðst telja að störf samráðshópsins hafi verið markviss og skilað tilætluðum árangri og benti á að þar hafi verið lagður grunnur að svonefndum neyðarlögum. Drög að frumvarpi til þeirra laga hafi ekki verið samin í hópnum, heldur innan Fjármálaeftirlitsins, en gegnum störf hópsins hafi þessum drögum verið komið á framfæri við viðskiptaráðuneytið. Í samráðshópnum hafi verið ákveðið að stofna vinnuhóp á vegum fjármálaráðuneytisins til að vinna hluta af frumvarpsdrögunum og mætti rekja samræmingu í vinnu að málinu til samráðshópsins. Innan samráðshópsins hafi ekki verið eining um að vinnuhópur þessi yrði undir stjórn fjármálaráðuneytisins, enda hafi hún talið verkefnið heyra undir viðskiptaráðuneytið, en þetta hafi þó ekki bitnað á árangri. Á endanum hafi sá hluti frumvarpsdraganna, sem varð 1. gr. laga nr. 125/2008, verið saminn í fjármálaráðuneytinu, en það, sem út af stóð, hafi verið unnið í viðskiptaráðuneytinu á grundvelli þess efnis, sem upphaflega kom frá Fjármálaeftirlitinu. Nánar aðspurð sagði hún að ákvæðið, sem varð 5. gr. laga nr. 125/2008, hafa byggt að miklu leyti á frumvarpsdrögum, sem samin hafi verið í Fjármálaeftirlitinu á árinu 2006, en unnið hafi verið við það í vinnuhópi á vegum viðskiptaráðuneytisins og hafi því verki verið lokið í vikunni áður en bankarnir hrundu. Á sínum tíma hafi verið fjallað um þessi drög í samráðshópnum, en ákvæðið hafi tekið miklum breytingum eftir það. Ákvæðið, sem varð 6. gr. laganna, hafi verið samið 4. október 2008. Hana minnti að ákvörðun um að setja það í frumvarpið hafi verið tekin á fundum, sem haldnir voru í ráðherrabústaðnum þá helgi, og taldi hún ríkisstjórn eða ráðherra hafa tekið þá ákvörðun.

Áslaug sagði að tregðu hafi gætt við töku ákvarðana innan samráðshópsins og þá sérstaklega um það hvort hafa ætti tilbúnar yfirlýsingar um ábyrgð á innstæðum. Þetta hafi verið mjög umdeilt innan hópsins. Auk hennar hafi Jónas Fr. Jónsson og Tryggvi Pálsson talið mikilvægt að teknar yrðu ákvarðanir um þetta, en Baldur Guðlaugsson og Bolli Þór Bollason hafi ekki talið þetta tímabært. Reynt hafi verið að knýja á um ákvarðanir um þetta, en þær hafi ekki verið teknar á þeim tíma, sem hún sat í samráðshópnum. Hún tók fram að það hafi ekki verið ætlun hennar að ákvarðanir um innstæðutryggingar yrðu gerðar opinberar fyrr en á þær myndi reyna.

Áslaug sagðist ekki hafa talið upplýsingamiðlun innan samráðshópsins fullnægjandi og hafi hún stundum haft þá tilfinningu að hún hefði ekki nægar upplýsingar, en flestar hafi þær legið hjá Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu. Eins og sæist af fundargerðum hafi liðið mislangur tími milli funda samráðshópsins og hafi því ekki alltaf verið fyrir hendi nýjustu upplýsingar, þótt þetta hafi ekki almennt komið að sök. Hún kvað þetta ekki hafa snúið að sér einni sem fulltrúa viðskiptaráðuneytisins í samráðshópnum. Fjármálaeftirlitið hafi af skiljanlegum ástæðum verið viðkvæmt fyrir því að veita upplýsingar um einstök fjármálafyrirtæki og hafi mikil áhersla verið lögð á trúnað innan hópsins.

Áslaug kvaðst hafa miðlað upplýsingum reglulega til viðskiptaráðherra með því að hitta hann eftir fundi í samráðshópnum, en hafi hann ekki verið tiltækur hafi hún stundum rætt við aðstoðarmann hans. Trúnaður hennar í stjórnsýslunni hafi verið við ráðherrann og hafi hún því greint honum frá öllu, sem hún vissi um störf hópsins, og ekki haldið upplýsingum frá honum. Hún sagði það ekki hafa borist í tal í samræðum hennar við viðskiptaráðherra að hann teldi ákærða og utanríkisráðherra halda frá sér upplýsingum um þetta málasvið, en ýmis atvik hafi þó valdið pirringi. Í því sambandi nefndi hún sérstaklega vandræði Glitnis banka hf. seint í september 2008 og kynni hún ekki skýringu á því að viðskiptaráðuneytið hafi ekki komið að ákvörðun um þau. Aðspurð sagðist hún telja að þetta hafi ekki hamlað framgangi mála og að upplýsingar hafi skilað sér á endanum. Ekki hafi verið vandkvæði í samskiptum viðskiptaráðherra og aðstoðarmanns hans og hafi aðstæður við meðferð á málefnum Glitnis banka hf. ekki verið einkennandi fyrir samstarf þeirra. Hún kvaðst ekki minnast þess nákvæmlega hvort vantraust annarra í samráðshópnum í garð viðskiptaráðherra vegna ætlaðrar lausmælgi hans hafi valdið vandamálum í störfum hópsins.

Í tengslum við lið 1.4 í ákæru sagði Áslaug að engin vinna hafi farið fram í viðskiptaráðuneytinu til að þrýsta á að bankarnir minnkuðu efnahagsreikninga sína eða flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi, enda hafi ráðuneytið ekki haft tæki til að gera slíkt. Hún sagðist ekki vita hvort viðskiptaráðherra hafi beitt sér fyrir þessu og ekki minntist hún þess að ákærði hafi leitað eftir tillögum frá samráðshópnum um hvað gera mætti í þessu sambandi, en á hinn bóginn hafi þetta verið rætt innan hópsins. Öllum hafi verið ljóst að erfitt væri að taka á þessum málum, en stundum hafi borist í tal að ræða yrði við stjórnendur bankanna um þetta og hafi yfirleitt komið í hlut Fjármálaeftirlitsins að fylgja því eftir.

Áslaug kvað innlánasöfnun Landsbanka Íslands hf. á Icesave reikninga í Hollandi hafa fyrst verið rædda á fundi samráðshópsins í lok maí 2008. Þar hafi því verið velt upp hvort einhver leið væri til að hamla gegn þessu og hafi það verið skoðun hennar að erfitt væri að lögum fyrir íslensk stjórnvöld að koma í veg fyrir þessa starfsemi. Hún minntist þess ekki að hafa rætt sérstaklega um þetta við viðskiptaráðherra.

Varðandi lið 1.5 í ákæru lýsti Áslaug því að á síðasta fundi hennar í samráðshópnum 31. júlí 2008 hafi bréfaskipti Landsbanka Íslands hf. og breska fjármálaeftirlitsins komið inn á borð hópsins. Um sömu mundir hafi starfsmaður breska fjármálaráðuneytisins haft samband við viðskiptaráðuneytið vegna þessa. Samhliða þessu hafi komið upp áhyggjur um stöðu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og hafi orðið mikil umræða og skiptar skoðanir um ábyrgð á skuldbindingum hans. Hún hafi einnig fundið mikinn þrýsting frá erlendum stjórnvöldum út af þessu og hafi þetta að auki verið rætt á vettvangi evrópskra tryggingarsjóða. Í viðskiptaráðuneytinu hafi fremur verið hallast að því að ríkinu bæri að styðja tryggingarsjóðinn. Ekki hafi verið rætt beinlínis um að ríkisábyrgð væri fyrir hendi, heldur þyrfti að taka afstöðu til þess hvort ríkið myndi styðja sjóðinn svo að hann gæti staðið við skuldbindingar sínar. Í þessu sambandi hafi stjórn sjóðsins ritað bréf til ráðherra, enda hafi verið skýr ákvæði í lögum um hvernig sjóðurinn ætti að fjármagna sig. Hún hafi talið augljóst að einhvers staðar yrði tryggingarsjóðurinn að taka lán, þótt ekki hafi verið mælt fyrir um það í lögum að ríkinu bæri að veita það, og hafi hún lagt mikið upp úr því að fá skýr svör um hvort ríkið hygðist styðja sjóðinn, sem hún hafi talið eina færu leiðina. Hún kvað viðskiptaráðuneytið ekki hafa leitað eftir lögfræðilegu áliti annarra um þetta. Þá sagðist hún ekki hafa vitað hvort ríkinu hefði verið kleift að standa undir þessu, en slíkum spurningum hefði fjármálaráðuneytið þurft að svara.

Áslaug kvað áherslu hafa verið lagða á að Landsbanki Íslands hf. flytti Icesave reikningana úr útibúum til dótturfélaga til að forða því að ábyrgð á innstæðunum myndi hvíla á íslenska tryggingarsjóðnum. Viðskiptaráðuneytið hafi fylgst með málinu gegnum samráðshópinn, þar sem mikið hafi verið rætt um þetta eftir að hún vék úr honum, en ráðuneytið hafi ekki komið að þessu fyrir þann tíma. Hún sagðist ekki vita hvort fundur viðskiptaráðherra með breska fjármálaráðherranum 2. september 2008 hafi verið fyrstu pólitísku afskipti þess fyrrnefnda af málinu, enda hafi hún ekki lengur verið ráðuneytisstjóri á þeim tíma. Aðspurð sagði hún bréfaskipti sín við breska fjármálaráðuneytið 3. ágúst 2008 og síðar hafa snúið að tryggingarsjóðnum, en ekki að tilraunum til að flytja Icesave reikningana í dótturfélag, sem hún hafi ekki komið beint að.

14[breyta]

Vitnið Jónína S. Lárusdóttir kvaðst fyrir dómi hafa verið skipuð ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneytinu 1. ágúst 2007, en frá desember á því ári hafi hún verið í fæðingarorlofi til 1. ágúst 2008, þegar hún hafi tekið til starfa á ný. Þá hafi hún átt sæti í samráðshópi um fjármálastöðugleika og viðbúnað samhliða starfi sínu sem ráðuneytisstjóri. Hún sagðist hafa orðið fyrir miklu áfalli út af stöðu bankakerfisins þegar hún tók aftur til starfa eftir orlof sitt.

Aðspurð í tengslum við lið 1.3 í ákæru sagðist Jónína hafa litið á samráðshópinn sem vettvang til samráðs og skoðanaskipta og hafi þeir, sem áttu hlut að honum, átt að veita þar upplýsingar, þótt gætt hafi þar áhrifa af lagaákvæðum um þagnarskyldu. Hópnum hafi ekki verið ætlað að taka ákvarðanir eða gegna hlutverki stjórnvalds og hafi því ráðuneyti og stofnanir haldið sínum viðfangsefnum óbreyttum á þessu sviði. Við undirbúning viðbragða við fjármálaáfalli hafi hópurinn aðallega átt að samræma verkefni, en það hafi verið hlutverk Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins að semja viðbúnaðaráætlanir. Hún teldi ekki að skort hafi pólitíska stefnumörkun í störfum hópsins. Hún hafi ekki alltaf verið sátt við stefnuna, en talið að unnið væri þar af heilindum þótt stundum hafi verið skiptar skoðanir innan hópsins um hvaða skref ætti að taka. Viðskiptaráðuneytið hafi innan samráðshópsins óskað eftir afstöðu til þess hvað ríkið væri tilbúið að gera til að styðja við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta, en fulltrúar fjármálaráðuneytisins og forsætisráðuneytisins í hópnum hafi ekki talið tímabært að taka ákvörðun um þetta. Þetta hafi verið helsta ágreiningsefnið í samráðshópnum. Hún kvaðst ekki vita hvort þessir fulltrúar hafi þar lýst skoðunum ráðherra sinna, en hún hafi rætt þetta við viðskiptaráðherra og veitt honum upplýsingar um það, sem gerðist í hópnum. Hún taldi störf samráðshópsins hafa skilað tilætluðum árangri, enda hafi á grundvelli þeirra verið unnt ljúka undirbúningi fyrir lagasetningu og meta í meginatriðum hvað gera þyrfti þegar bankarnir hrundu. Hún hafi á hinn bóginn ekki verið sátt við hvernig vinnu hópsins var stjórnað, hún hafi haft gríðarlegar áhyggjur af stöðunni og gjarnan viljað vinna hlutina hraðar. Hún hafi komið þessu á framfæri við viðskiptaráðherra, en ekki óskað eftir því að ákærða yrði tjáð þetta. Ekki hafi verið rætt um að breyta samkomulaginu um stofnun samráðshópsins.

Jónína bar að þegar ljóst hafi orðið 3. október 2008 að öll sund væru að lokast hafi ekki verið tilbúin eiginleg viðbúnaðaráætlun, en á hinn bóginn hafi mikil vinna verið leyst af hendi fram til þess tíma og ýmsar upplýsingar því legið fyrir. Þær hafi nægt til að meta stöðuna og sjá til hvaða aðgerða þyrfti að grípa, þar á meðal að ljúka vinnu við frumvarp, sem varð að lögum nr. 125/2008. Frumvarpið hafi verið sett saman úr vinnu margra hópa og því verið endanlega lokið um helgina 4. og 5. október 2008. Unnið hafi verið að ákvæðinu, sem varð 5. gr. laganna, á árinu 2008 og hafi það legið fyrir í drögum þegar hún kom aftur til starfa eftir fæðingarorlof, en eftir hafi þó staðið nokkrar lagfæringar. Ákvæði 1. gr. laganna hafi komið frá vinnuhópi í fjármálaráðuneytinu, ákvæði um sparisjóði frá Fjármálaeftirlitinu og ákvæði um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta frá nefnd á vegum viðskiptaráðuneytisins. Hún taldi ákvæðið, sem varð 6. gr. laganna, hafa orðið til um helgina 4. og 5. október 2008 eða í vikunni þar á undan.

Undir Jónínu voru borin ummæli hennar í framlögðu endurriti af skýrslu fyrir rannsóknarnefnd Alþingis, þar sem hún hafi greint frá því að ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu hafi sagt við hana að það væri ekki endilega þannig að láta ætti ráðherra vita af öllu, sem fram færi á fundum samráðshópsins, en hann gerði það ekki við sinn ráðherra. Aðspurð hvort sá andi hafi ríkt í hópnum að halda ætti gögnum frá ráðherrum eða hvort þetta hafi snúið sérstaklega að viðskiptaráðherra ítrekaði Jónína það, sem hún hafi einnig sagt fyrir rannsóknarnefndinni, að hún hafi verið alveg klár á því hvar hennar trúnaðarskylda lægi. Hún taldi að ekki hafi verið reynt að hefta upplýsingagjöf til viðskiptaráðherra og hafi hún fengið öll gögn eins og aðrir í hópnum. Þá hafi ráðherrann þekkt það, sem hafi verið unnið við í viðskiptaráðuneytinu í tengslum við undirbúning að frumvarpinu, sem varð að lögum nr. 125/2008. Jónína kvaðst aðspurð ekki kunna aðra skýringu á því að viðskiptaráðherra hafi ekki verið kvaddur til vegna málefna Glitnis banka hf. í lok september 2008 en að þetta hafi verið ákvörðun ákærða og utanríkisráðherra.

Jónína kvaðst telja að tillaga, sem viðskiptaráðherra bar upp á fundi ríkisstjórnarinnar 12. ágúst 2008 um skipun nefndar um fjármálastöðugleika, hafi þegar verið mótuð þegar hún kom aftur til starfa 1. sama mánaðar. Sér hafi verið sagt að hugsunin að baki tillögunni hafi verið sú að reyna ætti að læra af því, sem væri að gerast í þessum efnum, og kanna hvort gera þyrfti breytingar á lögum. Hún hafi ekki talið þetta eiga að vera viðbrögð við ástandinu eins og það var orðið á þessum tíma. Ekki væru efni til að álykta af þessari tillögu að ráðherranum hafi ekki verið kunnugt um það, sem hafi farið fram í samráðshópnum, eða um vinnu innan ráðuneytisins við gerð frumvarps, sem varð að lögum nr. 125/2008, enda hafi hann fengið upplýsingar um þau efni.

Varðandi lið 1.5 í ákæru sagðist Jónína hafa komist fyrst að atriðum, sem sneru að flutningi Icesave reikninga Landsbanka Íslands hf. frá erlendum útibúum til dótturfélaga, þegar hún kom aftur til starfa 1. ágúst 2008. Hún hafi sett sig inn í málið og farið á næsta fund samráðshópsins, þar sem hún hafi fengið upplýsingar. Síðan hafi henni borist ósk frá Landsbanka Íslands hf. um að fá að kynna henni málið. Hún hafi farið ásamt ráðuneytisstjóranum í fjármálaráðuneytinu á fund í bankanum 13. ágúst 2008, þar sem bankastjórar og forstöðumaður lögfræðisviðs hans hafi greint frá stöðunni og bréfaskiptum bankans við breska fjármálaeftirlitið. Bankastjórarnir hafi síðan komið til fundar með viðskiptaráðherra 20. ágúst 2008 og hafi hún verið viðstödd. Jónína kvaðst hafa haft þungar áhyggjur af stöðu þessa máls og talið sig ekki geta séð að það tækist að flytja reikningana til dótturfélags. Hún hafi ekki verið viss um að stjórnendur bankans hafi verið einlægir í því að vilja flytja reikningana. Aðspurð sagðist hún ekki minnast þess að nokkru sinni hafi verið rætt um að leita atbeina ákærða vegna þessa máls.

Jónína kvað ráðuneytisstjórann í fjármálaráðuneytinu hafa haft þá skýru afstöðu að ríkið bæri enga ábyrgð á fjármögnun Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Hún hafi á hinn bóginn talið frambærileg rök fyrir því að ríkið gæti borið slíka ábyrgð. Þetta hafi ekki endilega verið sú niðurstaða, sem hún hefði kosið, en hún hafi talið rétt að þeir, sem tækju endanlega ákvörðun, væru upplýstir um báðar hliðar.

15[breyta]

Vitnið Jónas Fr. Jónsson, sem var forstjóri Fjármálaeftirlitsins og átti einnig sæti í samráðshópi um fjármálastöðugleika og viðbúnað á þeim tíma sem ákæra í málinu varðar, kvaðst fyrir dómi ekki hafa átt mikil samskipti við viðskiptaráðherra eða ákærða vegna starfa sinna. Stofnunin hafi verið mjög sjálfstæð og samskipti hennar við viðskiptaráðherra aðallega farið gegnum formann stjórnar Fjármálaeftirlitsins. Jónas sagðist hafa fundað með ákærða í mars 2008, en þá hafi staða bankanna ekki litið svo illa út. Við það tækifæri hafi hann farið yfir helstu upplýsingar, sem fyrir lágu, og talið stöðuna vera í lagi nema bankarnir hafi beitt glæpsamlegum blekkingum. Spurður hvort ákærði hafi haft ástæðu til að hafa áhyggjur af stöðu mála eftir þennan fund sagði Jónas að á þessum tíma hafi verið lausafjárkreppa og yrði almennt að reikna með því að banki, sem fengi ekki fjármögnun í 12 til 18 mánuði, myndi lenda í vandræðum. Hann hafi svo aftur rætt við ákærða í byrjun október 2008, líklega 4. þess mánaðar.

Jónas kvað lausafjárkreppu hafa verið komna á fyrir ársbyrjun 2008 og hafi verið fyrirsjáanlegt að bankar um allan heim myndu eiga erfitt með að útvega sér lánsfé, þar á meðal íslensku bankarnir. Vitað hafi verið um gjalddaga á stórum lánum þeirra vorið 2009, svo og að íslenska bankakerfið myndi fara illa ef ekki tækist að fjármagna þessar greiðslur. Svokallaðar kennitölur bankanna hafi þó litið ágætlega út og hafi ársreikningar og lausafjárskýrslur þeirra ekki bent til þess að þeir ættu í vandræðum. Reikningar bankanna hafi verið endurskoðaðir af alþjóðlegum endurskoðunarfyrirtækjum og hafi að auki margir komið að því að skoða mál þeirra. Þeir, sem þar hafi átt í hlut, hafi borið mikla ábyrgð á því að eftirlitsstofnunum bærust upplýsingar ef eitthvað væri athugavert við stöðu bankanna á þessum tíma. Innan bankanna hafi einnig verið mikið innra eftirlitskerfi. Í þessu ljósi byrjuðu eftirlitsstofnanir með málefnum fjármálamarkaðarins almennt ekki á því að vantreysta upplýsingum frá bönkum. Fjármálaeftirlitið hafi gert reglubundin álagspróf vegna bankanna, en þau hafi verið þannig uppbyggð að gert hafi verið ráð fyrir vanskilum við bankana, fall á verði hlutabréfa og skuldabréfa og veikingu á gengi krónunnar. Hafi þetta allt verið prófað miðað við sama tímamark. Bankarnir hafi staðist prófin og hafi upplýsingar um þau verið birt opinberlega samkvæmt hvatningu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en af þeim sökum hafi hver sem vildi getað notað þau og bætt við öðrum forsendum. Talið hafi verið að prófin gæfu góða mynd. Þau hafi aðallega snúið að eiginfjárstöðu bankanna, en Seðlabanki Íslands hafi prófað lausafjárstöðu þeirra og birt niðurstöður um það í riti sínu um fjármálastöðugleika. Að mati seðlabankans hafi lausafé bankanna á þessum tíma átt að nægja til tólf mánaða.

Aðspurður hvort Fjármálaeftirlitið hafi verið nægilega öflugt til að sinna hlutverki sínu sagði Jónas að hún hafi á þessum tíma verið mun minni stofnun en hún væri nú í hlutfalli við stærð bankakerfisins. Stofnunin hafi verið vanburðug þegar hann hóf þar störf og hafi verið farið í mikla uppbyggingu, meðal annars með því að bæta upplýsingakerfi. Hún hafi orðið sér úti um fé til að fjölga starfsmönnum, bæta aðstæður þeirra og kjör, sem hafi mætt andstöðu bankanna í byrjun. Hafi verið örðugt að stækka stofnunina og það ekki gengið nógu hratt. Þrátt fyrir þetta hafi erlendir eftirlitsaðilar gefið henni jákvæða umsögn. Reynt hafi verið að halda fundi með fulltrúum stóru bankanna þriggja til að fara yfir helstu atriði einu sinni eða tvisvar á ári og hafi það síðan að auki verið gert samkvæmt beiðnum.

Jónas kvaðst hafa treyst ársreikningum bankanna, sem lagðir voru fyrir Fjármálaeftirlitið. Innan þess hafi verið myndaður hópur í nóvember 2007 til að skoða þá nánar og hafi hann verið byrjaður að draga ýmsar ályktanir. Á hinn bóginn hafi ekkert hrópað á að mikil hætta væri yfirvofandi. Aðspurður hvort gerðar hafi verið úrtakskannanir á áreiðanleika þessara gagna sagði Jónas að á dagskrá hafi verið að láta endurskoðendur staðfesta að úrbætur hafi verið gerðar á rekstri bankanna samkvæmt upplýsingum frá þeim á árinu 2007 og hafi síðan staðið til að fara í bankana 2008 til að sannreyna úrbæturnar. Aðspurður vegna ummæla, sem höfð voru eftir formanni stjórnar Fjármálaeftirlitsins í minnisblaði um fund hans með viðskiptaráðherra, aðstoðarmanni hans og utanríkisráðherra 15. janúar 2008 um að menn væru alltaf að lána sjálfum sér, svaraði Jónas því til að Fjármálaeftirlitið hafi gert sérstakt átak vegna þessa frá árinu 2007 og hafi verið kannaðar svokallaðar stórar áhættur, svo sem mætti sjá í ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins frá þessum tíma. Útlán hafi verið könnuð og hafi í sumum tilvikum þurft að rannsaka þau betur. Reglur um þetta hafi verið flóknar og hafi þurft að gæta að því að þeim væri ekki beitt öðru vísi hér en í nágrannalöndunum, en einnig hafi verið erfitt að greina eignarhald félaga. Jónas kvað Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands hafa skipst reglulega á gögnum og átt fundi, þar sem meðal annars hafi verið lýst áhyggjum af stöðunni ef lausafjárkreppan drægist á langinn.

Í tengslum við lið 1.3 í ákæru sagðist Jónas hafa litið svo á samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað hafi aðallega verið vettvangur til upplýsinga- og skoðanaskipta. Starf hópsins hafi verið gagnlegt og hafi þeir, sem áttu hlut að honum, getað unnið frekar úr því, sem þar kom fram. Settar hafi verið upp greiningar á úrræðum og sviðsmyndir um hugsanlegt áfall, en frekari greiningar af þeim toga hefðu bætt litlu við, enda hafi aðalatriðið verið að ná utan um heildarmyndina. Hópnum hafi ekki verið bannað að gera viðlagaáætlun, en ekki hafi heldur verið beinlínis ætlast til þess. Fjármálaeftirlitið hafi verið búið að gera ákveðnar áætlanir og hafi slík vinna einnig farið fram í Seðlabanka Íslands. Það hafi ekki verið í verkahring samráðshópsins að gera drög að lagafrumvörpum til að mæta fjármálaáfalli, en hann hafi á hinn bóginn látið semja slík drög í Fjármálaeftirlitinu vegna ábendinga, sem hafi komið fram í tengslum við stofnun samráðshópsins, um að frekari lagaheimildir þyrfti til aðgerða vegna fjármálaáfalls. Þessi frumvarpsdrög hafi verið útfærð nánar sumarið 2008 og orðið stofninn í lögum nr. 125/2008. Starf samráðshópsins hefði mátt vera skilvirkara og hafi hann kallað eftir því í minnisblöðum frá nóvember 2007 og mars og apríl 2008, þar sem hann hafi lagt til að afstaða yrði mótuð til tiltekinna atriða, meðal annars hvað komið gæti til greina að leggja af mörkum úr ríkissjóði ef til fjármálaáfalls kæmi. Ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu hafi reynst mjög tregur til að ræða þessi atriði og beinlínis lagst gegn því, en með umræðu hefði þó að minnsta kosti mátt útiloka einhverja valkosti, þótt vissulega væri aldrei hægt að sjá nákvæmlega fyrir hvernig áföll yrðu. Stjórnun hópsins hafi að öðru leyti ekki verið ábótavant. Jónas taldi ekki að takmarkanir á upplýsingaskiptum hafi háð starfi samráðshópsins, enda hafi upplýsingum verið miðlað eins og þörf hafi verið á og gætt meiri dirfsku í þeim efnum eftir því, sem leið á störf hópsins. Hann kvaðst hafa litið svo á að hópurinn hafi getað unnið verkefni að beiðni þeirra, sem stóðu að honum, en endanlega hefði þurft valdbærar stofnanir til að taka ákvarðanir og hafi hópurinn ekki haft neinar valdheimildir. Jónas minntist þess ekki að rætt hafi verið um að samkomulaginu um stofnun samráðshópsins yrði breytt og hafi hann ekki talið knýjandi þörf á því. Yrði að hafa í huga að ekki hafi verið litið svo á að samráðshópurinn væri að fást við bráða hættu, en talið hafi verið að hún gæti komið upp vorið 2009 og hafi því þótt vera nokkur tími til stefnu.

Jónas sagði að í framhaldi af fundi samráðshópsins 21. apríl 2008, þar sem fjallað var um vinnuskjal um sviðsmyndir fjármálaáfalls, hafi farið í hönd vinna á grundvelli áðurnefndra frumvarpsdraga frá Fjármálaeftirlitinu. Hann kvað skjal frá sér, sem nefnt var ólystugi matseðillinn og lagt var fram á fundi samráðshópsins 28. sama mánaðar, hafa verið gert til að skerpa umræður innan hópsins og kalla fram svör við álitaefnum, sem þar hafi verið getið. Jónas kvaðst ekki minnast sérstaklega fundar í samráðshópnum 29. maí 2008, þar sem atriði í þessu skjali voru aftur rædd. Hann sagði að enn hafi verið vísað til þessa skjals þegar rætt var á fundi 7. júlí 2008 um að stjórnvöld hafi ekki gert upp við sig hvað þau vildu ganga langt og ekki væri búið að stilla stjórnendum bankanna upp við vegg. Ágreining innan samráðshópsins mætti sjá í fundargerð frá 31. júlí 2008, þar sem honum hafi verið lýst nákvæmlega.

Varðandi lið 1.4 í ákæru lýsti Jónas þeirri skoðun að bankakerfið hafi stækkað mest á árunum 2002 til 2005, en eftir það hafi ekki orðið ytri vöxtur. Útrás bankakerfisins hafi byrjað löngu fyrir árið 2008, en þegar þar var komið sögu hafi verið lausafjárkreppa og erfitt að minnka efnahagsreikninga bankanna með sölu eigna. Á því ári hafi þó Kaupþing banki hf. hætt við kaup á hollenska bankanum NIBC, en með þeim hefði bankakerfið hér á landi stækkað um 40%. Einnig hafi Landsbankinn Íslands hf. hætt við að kaupa tiltekið fyrirtæki í Bretlandi. Í evrum talið hafi efnahagsreikningar bankanna dregist saman um 7% fyrri hluta árs 2008. Bankarnir hafi reynt að losa þær eignir, sem þeir gátu, en hættulegt hefði getað orðið að ganga lengra, enda hafi sala á óhagstæðu verði getað haft áhrif á eiginfjárhlutfall þeirra og sent út skaðleg skilaboð, auk þess sem erfitt hafi verið að finna kaupendur. Jónas kvaðst hafa sagt opinberlega og í samtölum við stjórnendur bankanna að þeir ættu að draga úr stærð sinni og þetta hafi stjórnmálamenn einnig sagt. Þá yrði að minnast þess að stjórnvöld hafi engar valdheimildir haft til að þvinga einkafyrirtæki til að selja eignir. Erfitt væri að setja fasta viðmiðun um hversu stórt bankakerfi mætti vera sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, en huga yrði að því að um helmingur eigna íslensku bankanna hafi verið í erlendum dótturfélögum.

Um yfirlýsingu ákærða, fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og bankastjórnar Seðlabanka Íslands til seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs frá 16. maí 2008, sem gerð var í tengslum við gjaldmiðlaskiptasamninga bankanna, sagði Jónas að fyrir þann tíma hafi legið fyrir að æskilegt væri að bankarnir minnkuðu efnahagsreikninga sína. Ingimundur Friðriksson hafi borið þetta atriði í yfirlýsingunni undir sig áður en hún hafi verið undirrituð og hafi þeir verið sammála um þetta markmið, þótt engar valdheimildir hafi verið til að fylgja því eftir. Yfirlýsingin hafi því í raun ekki haft nein áhrif.

Jónas minntist þess ekki að Fjármálaeftirlitið eða Seðlabanki Íslands hafi brugðist sérstaklega við bréfi frá Landsbanka Íslands hf. 10. mars 2008, þar sem tilkynnt var um fyrirhugaða innlánasöfnun bankans á Icesave reikninga í Hollandi. Ekki hafi verið unnt að banna starfsemi útibúsins í Hollandi, enda hafi það verið stofnað á árinu 2006. Litið hafi verið svo á að Fjármálaeftirlitið gæti ekkert gert til að hindra þessa starfsemi, en til þess hefði orðið að afturkalla starfsleyfi Landsbanka Íslands hf. og heimildir hans til að taka við innlánum í öllum starfstöðvum sínum.

Í sambandi við lið 1.5 í ákæru sagði Jónas að í lok árs 2007 eða snemma 2008 hafi verið farið að telja Icesave reikninga Landsbanka Íslands hf. hættulega, en ekki hafi verið unnt að banna bankanum að safna innlánum á þennan hátt og hafi engum dottið í hug að beita sér fyrir breytingu laga til að koma slíku við. Jónas kvaðst hafa heyrt af útstreymi af reikningunum í apríl 2008 og hafi það ekki verið talið á hættulegu stigi, en fundað hafi verið um þetta með stjórnendum bankans. Litið hafi verið svo á að bankinn væri að vinna að því að færa reikningana til erlendra dótturfélaga, en síðar hafi komið í ljós að hann ætti í erfiðleikum með það. Bankinn hafi sjálfur átt að sinna þessu gagnvart breska fjármálaeftirlitinu, en Seðlabanki Íslands, Fjármálaeftirlitið og viðskiptaráðuneytið hafi síðan þrýst á bresk stjórnvöld og hafi þá verið horft til hagsmuna þjóðarinnar, en ekki endilega bankans. Lagasetning hafi ekki komið til álita til að knýja á um flutning reikninganna, enda hafi sú aðgerð verið háð samþykki breskra stjórnvalda. Vilji hafi staðið til þess að ekki yrði haldið þannig á málinu að bankinn félli vegna umtals í tengslum við þetta. Skilyrðin, sem breska fjármálaeftirlitið hafi sett fyrir flutningi reikninganna til dótturfélags, hafi verið ströng, en gæta hafi þurft að því að ef bankinn færði of miklar eignir til dótturfélags hefðu ákvæði í skilmálum lánssamninga hans getað valdið því að lánardrottnar gætu gjaldfellt kröfur sínar. Að auki hafi þurft að huga að lausafjárstýringu innan samstæðunnar. Fjármálaeftirlitið hafi 11. ágúst 2008 óskað eftir tímabundnum tilslökunum af hálfu breska fjármálaeftirlitsins, en þá hafi verið rætt um að unnt ætti að vera að ljúka flutningi reikninganna fyrir árslok 2008. Á síðustu dögunum áður en bankinn féll hafi síðan bresk stjórnvöld verið tilbúin að láta flutninginn ná fram að ganga á einni eða tveimur vikum að fullnægðum öllum skilyrðum. Hann kvaðst lengst af hafa verið þeirrar skoðunar að það myndi takast að ljúka þessu máli.

Aðspurður hvort viðleitni til að takmarka innlánasöfnun Landsbanka Íslands hf. erlendis hafi beinst að því að draga úr skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðugeigenda og fjárfesta sagði Jónas að þessar aðgerðir hafi snúist um að koma í veg fyrir áhlaup á bankann. Menn hafi ekki endilega haft áhyggjur af hugsanlegri áhættu fyrir ríkið. Ábyrgð þess hafi ekki borist í tal fyrr en allt hafi verið komið að fótum fram.

16[breyta]

Vitnið Jón Sigurðsson greindi frá því fyrir dómi að viðskiptaráðherra hafi farið þess á leit að hann tæki að sér að gegna starfi formanns stjórnar Fjármálaeftirlitsins. Hann hafi eftir nokkra umhugsun tekið þetta að sér og hafið störf í janúar 2008. Hann hafi ekki mótað stefnu sína til fulls áður en hann tók við starfinu sökum þess hversu brátt þetta hafi borið að, en hann hafi ætlað sér að bæta starfshætti Fjármálaeftirlitsins og beina eftirlitinu meira að stjórnarháttum fjármálafyrirtækja en einstökum ákvörðunum þeirra. Hann hafi einnig viljað auka vettvangskannanir stofnunarinnar. Jón bar að sér hafi þótt ljóst við upphaf starfa sem formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins að fjöldi starfsmanna þar og undirbúningur þeirra undir störfin hafi ekki verið nægur. Hann kvaðst hafa tekið þátt í mótun tillagna stofnunarinnar í tengslum við gerð fjárlaga og hafi þar verið gert ráð fyrir verulegri aukningu í starfseminni og fjölgun starfsmanna, meðal annars vegna þess að eftirlitsskyldir aðilar hafi ekki einungis verið fleiri en áður, heldur hafi starfsemi þeirra verið flóknari.

Jón kvaðst hafa átt fund með viðskiptaráðherra og ráðuneytisstjóra hans snemma í janúar 2008 og hafi þá nokkur vandamál þegar verið komin upp, meðal annars áform Kaupþings banka hf. um að kaupa hollenska bankann NIBC, sem Fjármálaeftirlitið hafi lagst eindregið gegn, og áhætta Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta vegna innlánasöfnunar á netreikningum í Bretlandi og víðar. Aðspurður um fund með viðskiptaráðherra, aðstoðarmanni hans og utanríkisráðherra 15. janúar 2008, þar sem rætt hafi verið um að menn væru alltaf að lána sjálfum sér, of mikil vensl væru á lánamarkaði og skerpa yrði regluverkið þannig að fyrir lægi hverjir væru raunverulegir eigendur hlutafjár, kvað Jón þetta hafa verið margoft rætt og hafi tengslin milli aðila verið eitt af viðvarandi vandamálunum þann tíma, sem hann gegndi þessu starfi. Hann hafi á hverjum einasta stjórnarfundi, sem hann sat, beint því til forstjóra Fjármálaeftirlitsins að gera gangskör að því að rekja í sundur þessi flóknu tengsl.

Jón kvaðst hafa vitað um samráðshóp um fjármálastöðugleika og viðbúnað, svo og að forstjóri Fjármálaeftirlitsins hafi átt þar sæti sem fulltrúi stofnunarinnar. Forstjórinn hafi greint sér frá því, sem gerðist í störfum hópsins.

Aðspurður í tengslum við lið 1.4 í ákæru sagðist Jón hvorki vita til þess að ákærði hafi gert eitthvað á árinu 2008 til að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikninga sína eða flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi né að stjórnvöld hafi beitt bankana þrýstingi í þessu skyni, enda hafi þau ekkert vald haft að lögum til að ákveða stærð banka frekar en annarra fyrirtækja. Hefði verið reynt að hlutast til um flutning banka úr landi í byrjun árs 2008 eða sölu eigna þeirra hefði það líklega ekki skilað árangri. Hann kvaðst ásamt forstjóra Fjármálaeftirlitsins og Ingimundi Friðrikssyni seðlabankastjóra hafa þó hitt stjórnendur bankanna þriggja á aðskildum fundum í byrjun mars 2008, þar sem hann hafi lýst þungum áhyggjum af örum vexti bankanna og hvatt þá til að draga saman seglin.

Jón kvaðst hafa rætt alloft við forstjóra Fjármálaeftirlitsins og lögfræðinga, sem störfuðu þar, hvort til álita kæmi að hindra innlánasöfnun Landsbanka Íslands hf. á Icesave reikninga í Hollandi og hafi þeir talið enga lagastoð fyrir því. Hann hafi ekki rætt um þetta við stjórnendur bankans fyrr en komið hafi verið fram á haust 2008, en hann hafi einnig hitt þá í byrjun mars til að ræða mikinn vöxt í þessum netreikningum og hvort þeir óttuðust ekki að þetta kvika fé yrði þeim skammgóður vermir. Þá hafi það verið nefnt hvort ekki væri fært að flytja Icesave reikningana úr útibúi bankans í Bretlandi til dótturfélags. Vissulega hafi margir hvatt íslensku bankana til að hverfa frá markaðsfjármögnun, þar á meðal lánshæfismatsfyrirtæki, en sér hafi þótt þessi öra söfnun innlána ógætileg. Þá teldi hann það hafa verið misráðið að afnema 25. mars 2008 bindiskyldu í Seðlabanka Íslands vegna þessara reikninga. Af sinni hendi hafi þessar umræður um Icesave reikningana einnig tengst stöðu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

Jón kvað Fjármálaeftirlitið hafa í samstarfi við Seðlabanka Íslands beitt sér gagnvart Kaupþingi banka hf. til að koma í veg fyrir kaup hans á hollenska bankanum NIBC. Í því sambandi hafi stjórnendum Kaupþings banka hf. verið bent á að þeim yrði bannað að ljúka þessum kaupum ef þeir vildu ekki hverfa frá þeim og hafi þessar fortölur nægt. Aðspurður hvort ekki hefði verið unnt að beita álíka aðferðum til að hindra innlánasöfnun Landsbanka Íslands hf. í Hollandi ítrekaði Jón að lögfræðingar innan Fjármálaeftirlitsins hafi ekki talið lagalegar forsendur til að koma í veg fyrir þá starfsemi.

Varðandi lið 1.5 í ákæru kvaðst Jón hafa rætt við viðskiptaráðherra um að sér hafi virst áhættusamt að Landsbanki Íslands hf. hefði starfsemi í tengslum við Icesave reikninga í Bretlandi í útibúi í stað þess að hafa hana í dótturfélagi. Þetta hafi hann jafnframt rætt við stjórnendur Seðlabanka Íslands, einkum Ingimund Friðriksson, og hugsanlega einnig utanríkisráðherra. Í mars 2008 hafi verið rætt við stjórnendur Landsbanka Íslands hf. hvort þeir hygðust fara að tilmælum breska fjármálaeftirlitsins um að draga úr auglýsingum um þessa reikninga og hætta að bjóða hærri vexti en keppinautar bankans. Við þessu hafi stjórnendurnir brugðist með því að neita að bankinn byði hærri vexti en aðrir, en sér hafi skilist á þeim að bankinn stefndi að því að flytja þessa starfsemi til dótturfélags. Þótt rætt hafi verið í tengslum við þetta um að bankinn hagaði starfsemi sinni með þessum hætti vegna lausafjárskorts hafi hann talið að í raun byggi þar að baki dulinn eiginfjárvandi. Álagspróf Fjármálaeftirlitsins hafi illu heilli ekki verið fallin til að leiða þetta í ljós og hafi veilan í eftirlitinu líklega verið sú að heildarsýn hafi skort yfir fjármálamarkaðinn. Eftir því, sem liðið hafi á árið 2008, hafi grunsemdir aukist um að vandi bankanna stafaði af tengslum milli aðila, en ekki hafi legið fyrir fyrr en eftir hrun bankanna að markaðsmisnotkun hafi viðgengist og menn hafi bólstrað verðmæti hlutafjár í bönkunum með því að stunda viðskipti, sem voru í raun engin.

Jón kvaðst ekki hafa vitað með beinum hætti um samskipti milli Landsbanka Íslands hf. og breska fjármálaeftirlitsins vegna ráðagerða um flutning Icesave reikninganna til dótturfélags á tímabilinu frá apríl til júlí 2008. Hann hafi hitt fulltrúa breska fjármálaeftirlitsins á fundi með bankastjórn Seðlabanka Íslands 31. júlí 2008 og hafi þar verið farið ítarlega yfir málið og reynt að ná samkomulagi um hvaða leið skyldi fara til að koma fram flutningi á Icesave reikningunum til dótturfélags. Um þetta hafi tekist ágæt samstaða, en þó hafi þetta verið þungt undir fæti, þar sem Landsbanki Íslands hf. hafi talið sig hafa náð samningi við breska fjármálaeftirlitið í lok maí 2008 um að öllum kröfum þess væri fullnægt með því að 5% af samanlögðum innstæðum á reikningunum yrðu lögð til hliðar á reikningi í Seðlabanka Íslands eða Englandsbanka. Landsbanki Íslands hf. hafi ekki átt fulltrúa á þessum fundi, en svo hafi virst sem bankanum hafi fundist breska fjármálaeftirlitið krefjast þess að of mikið fé yrði látið af hendi til dótturfélags í tengslum við flutning reikninganna og hafi það verið kjarni ágreiningsins milli þeirra. Á fundinum hafi borist í tal að sennilega yrði að nota allt árið 2008 til að flytja starfsemina til dótturfélags. Breska fjármálaeftirlitið hafi viljað að þetta yrði gert á skemmri tíma, en bent hafi þá verið á að þetta kynni að valda því heimildir lánardrottna til að gjaldfella lánssamninga við bankann kynnu að rakna við.

Jón sagðist ekki geta borið um aðdragandann að fundi sínum, viðskiptaráðherra og annarra íslenskra embættismanna með fjármálaráðherra Bretlands 2. september 2008, en þetta hafi komið til í framhaldi af fundi, sem Fjármálaeftirlitið hafi átt með forstjóra breska fjármálaeftirlitsins um samskipti stofnananna og þá einkum í tengslum við erlendar innstæður hjá íslensku bönkunum og innstæðutryggingar. Með fundinum við ráðherrann hafi átt að fá bresk stjórnvöld til að sýna sveigjanleika við að hrinda í framkvæmd flutningi Icesave reikninganna til dótturfélags, sem stjórnvöld í báðum löndum hafi verið sammála um að væri besta lausnin. Ákveðið hafi verið að ræða við breska fjármálaráðherrann, því æðsta stjórn fjármálamarkaða þar í landi hafi verið í höndum hans, bankastjóra Englandsbanka og formanns stjórnar breska fjármálaeftirlitsins, en að auki hafi það haft pólitískan tilgang að vinna skilning á afstöðu Íslendinga í málinu. Jón kvaðst halda að áður hafi verið reynt á pólitískum vettvangi að afla skilnings breskra stjórnvalda, en hann hafi talið sig vita að ákærði hefði mikinn hug á því að vinna málinu framgang og hafi rætt við viðskiptaráðherra um hvernig mætti stilla málinu upp við bresk stjórnvöld án þess að lofað yrði ríkisstuðningi.

Jón kvað andrúmsloftið á fundinum 2. september 2008 hafa verið vinsamlegt og eftir atvikum jákvætt, en fátt annað hafi þó komið út úr fundinum en kurteisislegar yfirlýsingar um að það besta yrði gert úr málinu. Þar hafi breski fjármálaráðherrann ekki lýst fyrirvara við það, sem íslenska sendinefndin færði fram, heldur sýnt því skilning. Á fundinum hafi ekki annað komið fram varðandi Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta en að staðið yrði við þann samning, sem Ísland hafi gert um að koma upp innstæðutryggingarkerfi, án þess að því fylgdi ríkisábyrgð og hafi þetta verið í samræmi við skoðun hans á því. Í efni, sem tekið hafi verið saman við undirbúning fundarins, hafi sagt um þetta að íslensk stjórnvöld ábyrgðust áreiðanlega tryggingarvernd fyrir allar innstæður í íslenskum bönkum í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum um evrópska efnahagssvæðið, en hann gæti ekki fullyrt að þetta hafi verið sagt orðrétt á fundinum. Aðspurður sagði Jón að það hafi komið fram af hálfu breskra stjórnvalda að einfaldast yrði að íslenska ríkið tæki á sig ábyrgð á einhverjum ótilteknum fjárhæðum. Jón kvað allt andrúmsloftið í kringum þetta mál hafa gjörbreyst eftir fall bandaríska fjárfestingarbankans Lehman Brothers um miðjan september 2008, enda hafi bresk stjórnvöld óttast að erlend fjármálafyrirtæki væru að soga fé þaðan úr landi, líkt og hafi gerst í tilviki bandaríska bankans. Sagðist Jón telja að þetta hafi meðal annars verið ástæðan fyrir þeirri hörku, sem hafi færst undir lokin í viðræður um flutning Icesave reikninganna, en þar gæti þess þó einnig hafa gætt að bresk stjórnvöld hafi haft í huga áhættu af því að þrengingar Landsbanka Íslands hf. gætu haft smitandi áhrif á fjármálamarkaði þar. Hann hafi vonað í lengstu lög að samningar gætu tekist um flutning reikninganna, en ekki hafi hann þó verið fullur bjartsýni. Aðspurður sagði Jón að sér hafi ekki verið kunnugt um hvort leitað hafi verið eftir því að ákærði léti þetta mál til sín taka, en hann hafi gert ákærða grein fyrir fundinum með breska fjármálaráðherranum, enda hafi þeir rætt um þetta áður í einkasamtölum. Hann lýsti einnig þeirri skoðun að ákærði hefði í þessum efnum fyrst og fremst getað komið að gagni á pólitískum vettvangi og taldi hann ákærða hafa gert það.

17[breyta]

Vitnið Rúnar Guðmundsson kvaðst fyrir dómi hafa verið sviðsstjóri vátryggingasviðs hjá Fjármálaeftirlitinu á árunum 2007 og 2008, en hann hafi að auki átt þar sæti í mörgum nefndum og vinnuhópum, meðal annars viðbúnaðarhópi Fjármálaeftirlitsins, sem hafi starfað frá ársbyrjun 2006 allt fram að hruni bankakerfisins. Viðbúnaðarhópur þessi hafi veitt forstjóra og stjórn Fjármálaeftirlitsins og eftir atvikum samráðshópi um fjármálastöðugleika og viðbúnað tölulegar upplýsingar.

Rúnar greindi frá því að vinnuskjal Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um sviðsmyndir fjármálaáfalls, sem fjallað var um á fundi samráðshópsins 21. apríl 2008 og hann var meðal höfunda að, hafi átt rætur að rekja til þess að á árinu 2006 hafi Fjármálaeftirlitið hugað í auknum mæli að vandamálum, sem hafi komið upp í rekstri fjármálafyrirtækja. Forstjóri og stjórn Fjármálaeftirlitsins hafi falið honum að kanna erfiðleika, sem danska fjármálaeftirlitið hafi staðið frammi fyrir vegna nánar tiltekins banka, og hafi verið reynt að draga af því lærdóm og sjá hvaða úrræði Fjármálaeftirlitið hefði ef til vandræða kæmi hér á landi. Þetta vinnuskjal hafi verið liður í því viðfangsefni og einnig tengst norrænni viðbúnaðaræfingu á árunum 2006 og 2007. Þátttaka í henni hafi skilað þeim árangri að Fjármálaeftirlitið, seðlabankinn og viðskiptaráðuneytið hafi verið betur sett til að fást við þá erfiðleika, sem síðar komu upp. Reynslan af þátttöku í þeirri æfingu hafi verið mjög góð, en miður hafi verið að henni hafi ekki verið lokið af hálfu Íslands. Æfingin hafi þó leitt í ljós ýmsa vankanta í regluverkinu, svo og í starfsháttum og heimildum Fjármálaeftirlitsins til ráðstafana, og hafi ýmsar úrbætur verið gerðar í framhaldi af því. Hann kvaðst ekki hafa heyrt neitt frekar um afdrif vinnuskjalsins um sviðsmyndir fjármálaáfalls og hafi sér fundist bagalegt að því hafi ekki verið lokið, en viðbúnaðarhópur Fjármálaeftirlitsins hafi í framhaldi af þessu fengið fréttir um vinnu samráðshópsins eftir því, sem ástæða hafi verið til.

Um þátt sinn í vinnu við undirbúning frumvarps, sem varð að lögum nr. 125/2008, sagðist Rúnar hafa látið samráðshópi um fjármálastöðugleika og viðbúnað í té minnisblað um þá athugun, sem hann hafi gert á aðstæðum í Danmörku. Í framhaldi af því hafi hann tekið sæti í vinnuhópi með fulltrúum Seðlabanka Íslands, fjármálaráðuneytisins og viðskiptaráðuneytisins, sem hafi farið yfir lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og lög um fjármálafyrirtæki til að meta hvaða heimildir væru fyrir hendi fyrir stjórnvöld til að grípa til ráðstafana. Vinnuhópurinn hafi farið yfir sviðmyndir, stöðu mála erlendis og hvaða úrræði vantaði í íslenska löggjöf og gert síðan drög að frumvarpi til breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki, þar sem lagt hafi verið til að setja ákvæði um heimildir Fjármálaeftirlitsins til að taka yfir starfsemi slíkra fyrirtækja. Þessi vinna hafi orðið uppistaðan í frumvarpinu, sem síðar varð að svokölluðum neyðarlögum, en vinnuhópurinn hafi þó ekki verið kallaður til þegar komið hafi að endanlegri frumvarpssmíð. Á síðustu dögunum fyrir bankahrunið hafi honum verið falin verkefni, sem hann hafi fengist við í samvinnu við seðlabankann, viðskiptaráðuneytið og fleiri, og hafi þar verið reynt að kortleggja það, sem stjórnvöld þyrftu að gera ef bankarnir lentu í miklum erfiðleikum. Á þeim tíma hafi þótt verulegar líkur á að bankarnir gætu ekki fjármagnað sig. Aðspurður hvort honum hafi virst sem ekki væri til heildstæð aðgerðaáætlun sagði Rúnar að vantað hafi skriflegan verkferil eða viðbúnaðaráætlun, sem gott hefði verið að hafa til að fara eftir á þessum tíma. Hann teldi þó að Fjármálaeftirlitið hafi verið fært um að framkvæma yfirtöku fjármálafyrirtækja í samræmi við það, sem lagt hafi verið til í frumvarpi að neyðarlögunum, meðal annars vegna þess, sem lærst hafi á norrænu viðbúnaðaræfingunni. Undirbúningurinn hafi þannig verið vandaður, þótt hann hefði mátt vera betri.

18[breyta]

Vitnið Davíð Oddsson, sem var bankastjóri við Seðlabanka Íslands og formaður bankastjórnar á því tímabili sem ákæra í málinu varðar, var spurður fyrir dómi hverjar hann teldi ástæður þess að bankakerfið hafi hrunið haustið 2008. Hann lýsti þeirri skoðun sinni að stóru íslensku bankarnir þrír hafi komið sér á ystu nöf í rekstri sínum á tilteknu árabili með innri starfsemi sinni, útvíkkun starfseminnar, stækkun sinni og frávikum frá þekktum bankaháttum. Þrátt fyrir þetta hefðu þeir hugsanlega getað lifað af um langan tíma, en þegar saman hafi farið þessi atriði og afturkippur, sem hafi orðið á alþjóðlegum mörkuðum á miðju ári 2007, hafi það ekki verið hægt. Fyrir þann tíma hafi fjármálafyrirtæki getað gengið í ofgnótt fjár á góðum kjörum og með litlum tryggingum. Lengi vel hafi ekki verið talið að bankarnir kynnu að vera með dulinn eiginfjárvanda og hafi ástæða þess verið sú að þeir hafi árlega gert reikninga, sem stærstu endurskoðunarfyrirtæki landsins hafi áritað, og hafi ekki þótt efni til vantrausts. Einstaka menn, þar á meðal hann, hafi þó haft vaxandi áhyggjur af því að uppbygging bankanna fengi staðist við hraðan vöxt þeirra á sama tíma og stærstu hluthafar í þeim hafi aukið umsvif sín. Þetta hafi verið tilfinning fremur en vissa og hafi hún beðið reglubundið skipbrot þegar reikningsskil bankanna hafi sýnt að allt virtist vera í stakasta lagi. Mikið framboð lánsfjár hafi gefið bönkunum svigrúm til að ráðast í fjölmörg verkefni, sem hafi vakið undrun, og jafnframt stærstu viðskiptavinum þeirra, sem oft hafi verið tengdir þeim, til að leggja undir sig þekkt fyrirtæki erlendis. Davíð kvaðst hafa verið byrjaður að gera athugasemdir út af þessu við ráðherra og stjórnendur bankanna löngu fyrir árið 2008. Til að byrja með hafi ekki allir innan Seðlabanka Íslands verið sammála þessu mati hans, en það hafi verið reist á tilfinningu og upplýsingum, sem hann hafi talið sig safna saman með því að horfa á hvernig hlutir hafi gengið fyrir sig, meðal annars hvernig ný fyrirtæki hafi sprottið upp á miklum hraða og menn hafi getað keypt nær hvað sem var án fyrirstöðu. Þetta hafi hann talið sýna að ýmsir hefðu óbeislaðan aðgang að bönkunum. Einnig hafi fjárhagslegt öryggi stærstu skuldunauta bankanna verið byggt á uppfærðum tölum um viðskiptavild, sem hafi verið óheyrilega há. Um þetta hafi verið rætt innan bankastjórnar seðlabankans og hafi samstarfsmenn hans orðið sammála honum um hætturnar, sem þarna hafi verið uppi, þegar komið hafi verið fram á árið 2007. Við upphaf lánsfjárkreppunnar hafi bankarnir talið sig geta bjargað sér í meira en 660 daga án lántöku, sem hafi ekki hljómað illa, en aðspurður sagði Davíð að eflaust hefði verið til bóta ef seðlabankinn hefði kallað eftir gögnum frá bönkunum um þetta, þótt hafa yrði í huga að hann hafi engar lagaheimildir haft til að krefjast slíkra gagna. Síðar hafi komið fram að þessar áætlanir bankanna hafi reynst vera reistar á röngum forsendum, þar sem í þeim hafi meðal annars verið byggt á því að skuldir við bankana, sem voru á gjalddaga á þessu tímabili, yrðu greiddar. Þetta hafi ekki gengið eftir, enda hafi fyrirtæki staðið veikt og fengið mikið fé að láni, og hafi bankarnir því þurft að lengja í lánum þeirra og hafi það veikt stöðu bankanna. Þegar lánsfjárkreppan hafi verið búin að standa í tvo eða þrjá mánuði hafi hann lýst þeirri skoðun að ef svo færi lengur en í eitt ár samfleytt myndu bankarnir allir hrynja og hafi hann nefnt þetta meðal annars við ákærða og nokkra aðra ráðherra. Hann hafi talið þá skilja alvöru málsins og hlusta af athygli, en ekki væri þó víst að þeir hafi trúað þessu í byrjun, enda hafi hann ekki haft órækar sannanir. Davíð kvaðst staðfesta það, sem haft var eftir honum í framlögðu endurriti af skýrslu hans fyrir rannsóknarnefnd Alþingis, að honum hafi fundist sem ákærði hafi í þessu efni síður viljað trúa því, sem hann hafi sagt, en orðum stjórnenda bankanna. Á hinn bóginn væri ekki óeðlilegt að ráðherra vildi sannreyna upplýsingar, sem bærust frá bankastjórn Seðlabanka Íslands. Davíð kvaðst telja sig og ákærða ekki hafa rætt nægilega mikið saman, enda hafi fundir forsætisráðherra með bankastjórn seðlabankans ekki verið jafn tíðir á þessum tíma og þegar hann gegndi embætti forsætisráðherra. Að einhverju leyti hafi skort trúnað milli ákærða og bankastjórnarinnar og kynni hann sjálfur að hafa átt þátt í því með framgöngu sinni, en þótt ráðherra hafi verið eðlilegt að sannprófa upplýsingar með samtölum við stjórnendur bankanna þá kynni einnig að hafa verið eðlilegt að leiða þá saman við bankastjórn seðlabankans. Slíkt hafi hann þó ekki lagt til. Aðspurður um samráð við aðra ráðherra en ákærða kvaðst Davíð hafa átt fund með viðskiptaráðherra á árinu 2007 eða 2008, en sá ráðherra hafi aldrei óskað eftir fundi við sig. Á aðra fundi, sem ráðherrar úr Samfylkingunni hafi sótt, hafi utanríkisráðherra oftast mætt, en félagsmálaráðherra tvívegis. Þá hafi iðnaðarráðherra komið á fundi um málefni Glitnis banka hf. í lok september 2008.

Davíð kvaðst telja að bankarnir hafi staðið nokkuð tæpt þegar að þeim þrengdi á fyrri hluta ársins 2006, en hann hafi þó ekki séð þetta fyrir. Forsætisráðherra hafi haft samband við sig á laugardegi og sagst hafa fengið af því fregnir að stjórnendur bankanna teldu þá myndu fara í þrot á komandi mánudegi. Hann hafi ásamt Ingimundi Friðrikssyni og Tryggva Pálssyni fundað með stjórnendum Glitnis banka hf. og Landsbanka Íslands hf. og hafi hann einnig rætt við forstjóra Kaupþings banka hf., en þeir hafi allir talið bankana vera komna í þrot. Á þessum tíma hafi bankarnir ekki verið stærri en svo að Seðlabanki Íslands hefði getað greitt götu þeirra um einhvern tíma. Þrátt fyrir hættuna hafi verið ákveðið í seðlabankanum að bregðast ekki við að svo stöddu, enda hafi þar verið fylgt þeirri reglu að lofa aldrei viðbrögðum fyrr en í fulla hnefana. Úr þessum erfiðleikum hafi svo ræst, enda hafi ekki verið kreppa á alþjóðamörkuðum. Bankarnir hafi dregið lærdóm af þessu, meðal annars um að taka lán til lengri tíma en áður, en hann hafi einnig dregið lærdóm, enda hafi hann verið tekinn í bælinu og reynslan af þessu sýnt að ástandið gæti versnað á undraverðum hraða. Davíð sagði seðlabankann hafa fylgst eftir þetta með starfsemi bankanna eftir því, sem hann hafi haft tök á, en seðlabankinn hafi engar þvingunarheimildir haft og hafi því ekki getað annað en að óska eftir upplýsingum frá bönkunum eða leita til Fjármálaeftirlitsins. Þá hafi seðlabankinn beitt sér í samtölum við starfsmenn bankanna og hafi þeir verið í góðu sambandi við starfsmenn seðlabankans. Aðspurður hvort seðlabankinn hafi gripið til einhverra ráðstafana vegna útþenslu bankakerfisins eftir þessa atburði sagði Davíð að meira hafi verið rætt um þetta og hafi lausafjáreftirlit bankans einnig verið aukið.

Davíð kvað fulltrúa Seðlabanka Íslands hafa borið upp spurningar á fundum með Fjármálaeftirlinu um hvernig háttað væri svonefndum krosseignatengslum í sambandi við starfsemi bankanna og ekki síður krosslánveitingum, en hann hafi talið að þessa hafi gætt í ríkara mæli en aðrir hafi viljað kannast við. Fjármálaeftirlitið hafi fullvissað seðlabankann um að allt væri þetta innan settra lagaheimilda og reglna, en síðar hafi komið á daginn að viðmiðanir Fjármálaeftirlitsins um hverjir teldust til tengdra aðila hafi verið mjög frjálslegar. Þetta hafi þó endurskoðendur bankanna einnig átt að sjá og væri því ekki einungis við Fjármálaeftirlitið að sakast í þessum efnum, en aðspurður minntist hann þess ekki að hafa rætt þetta við ákærða. Hann vísaði og til þess að seðlabankinn hafi ekkert boðvald haft gagnvart Fjármálaeftirlitinu og hafi samstarfssamningur milli þeirra engu breytt um valdmörk. Seðlabankinn hafi talið Fjármálaeftirlitið vera veikburða stofnun, sérstaklega þegar bankarnir stækkuðu. Starfsmenn hafi verið fáir og þeir hæfileikaríku hafi umsvifalaust verið keyptir af bönkunum, sem hafi getað greitt hærri laun. Þessir veikleikar hafi meðal annars birst í því að hjá Fjármálaeftirlitinu hafi að mestu verið látið við það sitja að skoða ársreikninga bankanna til að meta stöðu þeirra, sem hann kvaðst ekki hafa talið frambærilegt eftirlit. Þótt seðlabankinn hafi verið virkari en lög og samkomulag um verkaskiptingu við Fjármálaeftirlitið hafi ráðgert hafi bankanum ekki verið fært að taka að sér verkefni annarra. Aðspurður kvaðst Davíð ekki hafa komið þessum skoðunum sínum sérstaklega á framfæri við ákærða eða viðskiptaráðherra, en hann hafi þó ekki legið á þeim og ekki einu sinni við Fjármálaeftirlitið.

Davíð kvaðst vera sammála því mati, sem komið hafi fram í minnisblaði Tryggva Pálssonar til bankastjórnar Seðlabanka Íslands 28. janúar 2008 með yfirskriftinni hryllingsmynd. Hann sagðist á hinn bóginn ekki þekkja vinnuskjal frá fjármálasviði seðlabankans með heitinu: „Ef allt fer á versta veg í lausafjárstöðu bankanna“, sem lagt var fram á fundi starfshóps bankans um lausafjárvanda 29. janúar 2008.

Davíð sagði fund bankastjórnar Seðlabanka Íslands með ákærða, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra 7. febrúar 2008 hafa haft það meginmarkmið að koma upplýsingum á framfæri um þá hættu, sem hann hafi talið vera í farvatninu. Hann hafi talið augljóst af samtölum við erlenda bankamenn að jafnvel þótt lát yrði á lánsfjárþrengingum myndu íslensku bankarnir verða aftastir í röðinni þegar kæmi að lánveitingum. Einnig hafi komið fram áhyggjur hjá Moody‘s Investors Service vegna innlánasöfnunar Landsbanka Íslands hf. erlendis, þótt þeirri starfsemi hafi verið fagnað þar í byrjun. Taldi Davíð það mundu hafa verið stórkostlega ámælisvert hefði hann ekki komið þessu á framfæri við ráðherrann, sem seðlabankinn heyrði undir, og hafi þetta að auki verið mál, sem varðaði þjóðina alla. Í framhaldi af þessu hafi seðlabankinn farið að undirbúa sig fyrir áfall og hafi bankinn verið viðbúinn þegar það kom. Aðspurður kvaðst Davíð ekki vilja segja til um það hvort staðið hafi upp á ákærða að grípa til sérstakra aðgerða vegna þess, sem hafi komið fram á fundinum, en hann minnti að komið hafi til tals að ræða yrði við bankana og hafi það verið gert af hálfu seðlabankans. Hann teldi ákærða hafa getað rætt við stjórnendur bankanna af þessu tilefni þótt hann hafi ekkert frekar fengið um aðvaranir seðlabankans en orð, sem fallið hafi á lokuðum fundi. Davíð kvaðst gera sér grein fyrir þeim vanda, sem blasað hafi við ákærða, sem ekki væri víst að hefði fengið pólitískan meðbyr til að stemma stigu við þessu. Ákærði hefði getað sagt af sér í þessari stöðu, en það hefði eflaust verið talið óábyrgt.

Davíð kvað aðalbankastjóra og aðra starfsmenn Englandsbanka hafa á fundi 3. mars 2008 lýst miklum áhyggjum vegna stærðar íslensku bankanna og innstæðutrygginga. Vegna umfangs bankakerfisins í Bretlandi litu menn þar vandann ef til vill ekki eins stórum augum og ætla mætti, en áhyggjurnar hafi engu að síður verið til staðar.

Davíð kvaðst hafa átt fund með ákærða 6. mars 2008, þar sem hann hafi kynnt tillögur, sem Andrew Gracie hafi skilað til Seðlabanka Íslands 29. febrúar sama ár. Í þessum tillögum hafi falist gagnleg áminning og teldi hann sig hafa afhent ákærða eintak af þeim.

Um grein í riti Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika, sem kom út 8. maí 2008, vísaði Davíð til þess að seðlabankinn hafi ekki á þessum tíma verið eftirlitsstofnun, heldur hafi það hlutverk verið á hendi Fjármálaeftirlitsins. Almennt hafi verið lögð áhersla á það í heiminum að seðlabankar gæfu út skýrslur af þessum toga. Orðalagið í greininni hafi verið þokukennt, en þó þannig að þeir, sem hafi lært að lesa á milli línanna, hafi getað séð að bankinn hefði áhyggjur, meðal annars þar sem rætt hafi verið um að reyna myndi mjög á viðnámsþrótt bankanna. Stefnan hafi verið sú að haga orðum af varfærni, en þetta hafi ekki verið merki um að menn hafi ekki gert sér grein fyrir hættunni.

Davíð greindi frá því að á miðju ári 2008 hafi gríðarlegur bókfærður hagnaður komið fram í reikningsskilum bankanna og hafi endurskoðandi Seðlabanka Íslands, Stefán Svavarsson, talið að þetta fengi ekki staðist. Bankastjórn seðlabankans hafi óskað eftir því að Stefán færi í bankana og gerði grein fyrir þessu, sem hann hafi gert, en Stefán hafi verið þeirrar skoðunar að verulegur hluti þessa hagnaðar væri hrein froða.

Í tengslum við lið 1.3 í ákæru sagði Davíð að í Seðlabanka Íslands hafi verið talið mikilvægt að mynda formlega tengingu milli þeirra, sem stóðu að samráðshópi um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Samhliða því hafi seðlabankinn komið á fót starfshópi til að undirbúa hann fyrir áföll og gera skýrslu, sem hugsanlega mætti nota við fall banka. Tilgangur samráðshópsins hafi verið margþættur, meðal annars miðlun upplýsinga og söfnun þekkingar, en að auki myndi stjórnkerfið venjast samráði ef til áfalls kæmi. Tekið hafi verið þátt í norrænni viðlagaæfingu og hafi seðlabankinn talið hana leiða í ljós að ekki væri búið að ákveða hvernig ríkið myndi bregðast við bankaáfalli, en með þessu væri hann þó ekki að bera upp gagnrýni, enda gætu verið gildar ástæður fyrir því að slík ákvörðun lægi ekki fyrir. Davíð kvaðst telja að ætlunin hafi verið sú að samráðshópurinn myndi gera viðlagaáætlun vegna bankaáfalls, en slík áætlun hafi þó ekki verið tilbúin af hendi hópsins þegar það reið yfir. Innan hópsins hefði verið unnt að vinna með leynd að undirbúningi frumvarps til laga um yfirtöku banka, en ef slíkt hefði spurst út hefði það gefið til kynna vantraust á bönkunum. Bankastjórar seðlabankans, sem ekki áttu sæti í samráðshópnum, hafi fengið þaðan minnisblöð og jafnframt hafi Ingimundur Friðriksson og Tryggvi Pálsson greint þeim frá störfum hópsins. Hann kvaðst hafa verið ánægður með að unnið væri að þessum málum, en hann hafi þó stundum talið vinnuna mega vera markvissari og hafi hann einhverju sinni gert athugasemd af því tilefni. Hann minntist þess ekki að hafa heyrt kvartað undan verkstjórn í hópnum, en honum hafi ekki þótt verkefni hópsins hafa verið sett nægilega skipulega niður eða vinnu við þau. Um þetta hafi hann ekki rætt við ákærða. Hann kannaðist á hinn bóginn við að kvartað hafi verið um að pólitíska stefnumörkun hafi vantað vegna starfa hópsins, en hann hafi þó ekki vitað hvað hafi nákvæmlega verið átt við með því. Í tengslum við þetta gat hann þess að hefðu seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið haft vitneskju um að ríkið hefði gert upp við sig að reyna að koma bönkunum til bjargar hefði það getað leitt af sér freistnivanda, enda hafi seðlabankinn jafnan lýst því yfir að engin slík loforð hafi verið gefin. Hann sagðist ekki minnast þess að hafa gagnrýnt að ekki hafi verið tekin ákvörðun um þetta og hafi hann ekki rætt það við ákærða.

Davíð sagðist kannast við sjónarmið í vinnuskjali um sviðsmyndir fjármálaáfalls, sem lagt var fram á fundi samráðshópsins 21. apríl 2008, en um þau hafi verið rætt innan bankastjórnar Seðlabanka Íslands, sem hafi talið að helstu þættir í þessum efnum þyrftu að vera skýrir. Það hafi líka tekist á endanum, þótt á hlaupum hafi verið þegar allt féll. Seðlabankinn hafi myndað nýjan starfshóp undir lok september 2008 og hafi hann greint frá því þegar hann gekk á fund ríkisstjórnarinnar 30. þess mánaðar, svo og að sá hópur væri að undirbúa lagafrumvarp og annað, sem yrði að liggja fyrir þegar bankarnir myndu falla. Á fundinum hafi ríkisstjórnin bætt mönnum í þennan hóp og fáeinum dögum síðar hafi hópurinn verið yfirtekinn af öðrum. Davíð kvaðst hafa talið mikilvægt að þeirri stefnu yrði fylgt að ríkið tæki ekki á sig ábyrgð á skuldum óreiðumanna og hafi ákærði fylgt því eftir. Á þessum tíma hafi staðið eftir talsverð vinna við undirbúning frumvarps, sem varð að lögum nr. 125/2008, en grunnurinn hafi legið fyrir. Ómögulegt hafi þá verið að bjarga bönkunum, en margir hafi þó viljað fara þá leið, þar á meðal utanríkisráðherra.

Aðspurður í tengslum við lið 1.4 í ákæru sagði Davíð að ekki hafi verið hægt frá maí 2008 að minnka bankana svo neinu næmi. Rætt hafi verið innan Seðlabanka Íslands að æskilegt væri að dregið yrði úr stærð bankakerfisins og hafi jafnframt verið um þetta rætt í samkomulagi við norræna seðlabanka um gjaldmiðlaskiptasamninga. Árangur hafi náðst í þessum efnum þegar tekist hafi að stöðva kaup Kaupþings banka hf. á hollenskum banka. Nánar aðspurður um það sagði Davíð að þetta mál hafi verið á sviði Fjármálaeftirlitsins, sem hafi ekki talið sig hafa lagaheimild til að koma í veg fyrir kaupin, en seðlabankinn hafi lagt ríka áherslu á að hindra þau. Hann hafi því átt samtal við forstjóra Kaupþings banka hf. og sagst telja víst að Fjármálaeftirlitið myndi banna kaupin, en í framhaldi af því hafi bankinn rætt frekar við seljanda bankans og þeir komist að niðurstöðu um að láta þau ekki ganga eftir. Hafi virst sem stjórnendur Kaupþings banka hf. hafi trúað því á þessum tíma að heimildir stæðu til að banna kaupin. Þessu til viðbótar gat Davíð þess að Glitnir banki hf. hafi reynt að selja eignir í Noregi og kynni það að hafa tekist ef hafist hefði verið handa fyrr. Um flutning banka til útlanda kvað Davíð þá hafa verið dýrkaða um þetta leyti, en hann hafi einhverju sinni látið orð falla í fjölmiðli um að einn af stærstu bönkunum ætti að flytja úr landi og hafi hann verið talinn mæla eins og landráðamaður. Teldi hann ókleift eftir árið 2006 að flytja bankana úr landi, því erlend fjármálaeftirlit hefðu ekki léð máls á því, en um þetta hafi hann ekki rætt við ráðherra. Hann kvað það hafa komið til tals hvort Kaupþing banki hf. gæti flutt úr landi með því að dönsku dótturfélagi hans yrði breytt í móðurfélag, en ljóst hafi þótt að danska fjármálaeftirlitið myndi ekki samþykkja þetta, svo sem rætt hafi verið á fundi bankastjórnar seðlabankans með ákærða og fleiri ráðherrum 7. febrúar 2008. Ríkisstjórnin hafi haft þá stefnu að halda bönkunum í landi, en hann teldi þessa stefnu þó í raun engin áhrif hafa haft. Vegna hvatningar stjórnvalda hafi á árinu 2008 að öðru leyti verið skoðuð einstök atriði í því skyni að minnka bankakerfið og hafi nokkur árangur náðst, en hann hann verið í smáum stíl, enda hafi þetta verið erfiður tími í fjármálaheiminum. Hann minntist þess ekki að ákærði hafi óskað eftir tillögum í þessu sambandi.

Davíð sagði að reynt hafi verið með samtölum að þrýsta á bankana um að draga úr stærð sinni og hafi stjórnendur þeirra gert sér grein fyrir því að þess væri þörf. Íslenska ríkið hafi staðið vel að vígi, en stærð bankakerfisins hafi verið gríðarleg í hlutfalli við þjóðarframleiðslu. Hann kvað sig og ákærða hafa rætt þetta um það leyti, sem samkomulag hafi tekist við þrjá norræna seðlabanka um gjaldmiðlaskiptasamninga, og hafi þeir verið sammála um að beita bankana þrýstingi í þessu skyni. Aðspurður um yfirlýsingu, sem var gerð 16. maí 2008 í tengslum við samningana, sagði Davíð að bankastjóri sænska seðlabankans hafi lagt áherslu á að ekki væri unnt að gefa loforð um slíka samningsgerð nema norrænu seðlabankarnir þrír yrðu sannfærðir um að þeir myndu ekki stofna sér í hættu með því, en í því sambandi þyrfti að sjá fram á breytingar í íslensku efnahagslífi. Þessi áskilnaður hafi aðallega tengst vantrausti á bankana, en hér hafi þó einnig verið mikil þensla á þessum tíma. Valdheimildir, sem heitið hafi verið í yfirlýsingunni að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið myndu neyta til að þrýsta á bankana til að draga úr stærð efnahagsreikninga sinna, hafi verið takmarkaðar og fremur óbeins eðlis. Hann taldi yfirlýsinguna bera með sér að gert hafi verið ráð fyrir lengri tíma til að ná þessu markmiði en raun hafi orðið á. Hann minntist þess ekki að norrænu seðlabankarnir hafi hreyft athugasemdum um árangur í þeim efnum, sem yfirlýsingin hafi varðað, í framhaldi af minnisblöðum, sem Seðlabanki Íslands sendi þeim 8. júlí og 19. september 2008, en hann kvaðst þó hafa fundið það að trúin á að þetta myndi takast hafi farið dvínandi eftir því sem tíminn leið. Um ástæðu þess að viðskiptaráðherra hafi ekki skrifað undir yfirlýsinguna sagði Davíð að hann hafi ekki verið á fundum í tengslum við hana og hafi verið talið mestu skipta að formenn beggja stjórnarflokkanna myndu rita undir hana ásamt fjármálaráðherra, sem héldi um ríkissjóð, en hann hafi gengið út frá því að flokksformennirnir myndu síðan hvort um sig beita sér eftir þörfum gagnvart ráðherrum úr sínum flokki.

Davíð greindi frá því að skýrsla, sem fylgdi bréfi til sín 14. apríl 2008 frá framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hafi verið fengin til að fá úttekt á stöðu íslenska bankakerfisins. Í tengslum við þetta hafi verið upplýst að stjórnvöld teldu brýnt að dregið yrði úr stærð þess, en vandkvæði væru þó á því, enda myndu bankarnir stefna í vandræði ef eignir yrðu seldir langt undir bókfærðu verði. Hann kvaðst ekki muna betur en að leitað hafi verið í framhaldi af þessari skýrslu eftir áætlunum frá bönkunum um aðgerðir til að minnka efnahagsreikninga þeirra og hafi slíkar áætlanir borist, en eins og endranær um þær mundir hafi fylgt sögu að ekkert gengi í tilraunum til að selja eignir.

Davíð kvað bréf bankastjóra Englandsbanka 23. apríl 2008 til sín hafa markað lokapunkt við tilraunir Seðlabanka Íslands til að koma á gjaldmiðlaskiptasamningi milli þeirra. Taldi Davíð að boð erlenda bankastjórans um aðstoð við að leita leiða til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins hafi einkum verið sett fram í kurteisisskyni og hafi ekki þótt ástæða til að kanna það frekar.

Davíð sagði að málefni vegna innlánasöfnunar Landsbanka Íslands hf. á Icesave reikninga gegnum útibú bankans í Hollandi ekki hafa komið inn á sitt borð fyrr en sú starfsemi hafi þegar verið hafin. Þetta hafi þó verið málefni, sem hafi algerlega átt undir Fjármálaeftirlitið.

Í sambandi við lið 1.5 í ákæru var Davíð spurður hvort Seðlabanki Íslands hafi á einhvern hátt beitt sér fyrir því að Icesave reikningar í útibúi Landsbanka Íslands hf. í London yrðu fluttir í dótturfélag og svaraði hann því til að hér á landi hafi þetta mál að öllu leyti átt undir Fjármálaeftirlitið, sem hafi haft á hendi leyfisveitingar til stofnunar útibúa íslenskra banka, rannsókn slíkra mála og heimildir til að banna þá starfsemi. Hann kvað ýmsar hættur geta fylgt innlánasöfnun af þessum toga, en mest hafi verið óttast um svonefnda netreikninga, sem væru kvikir. Aðspurður hvort hann hafi rætt við ákærða hvernig fylgja ætti því eftir að starfsemi þessi yrði flutt í dótturfélag og hvort óskað hafi verið eftir atbeina seðlabankans í því sambandi kvað Davíð seðlabankann hafa beitt Landsbanka Íslands hf. þrýstingi í þessu skyni, en þvingunarheimildir hafi seðlabankinn ekki haft. Hann minntist þess ekki að hafa rætt þetta við ákærða, en hann hafi talið sig vita að þeir væru einhuga í málinu. Hann fengi ekki séð að afskipti ákærða af málinu hefðu nokkru breytt, en hafi einhver átt að beita sér frekar hafi það verið Fjármálaeftirlitið og viðskiptaráðherra. Um áhættu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta af þessari starfsemi sagðist Davíð hafa litið svo á að ríkið bæri ekki ábyrgð á henni, enda hefði þurft heimild í lögum fyrir því, en um þetta hafi hann átt í deilu við bankastjóra Landsbanka Íslands hf.

Um ástæðu þess að Seðlabanki Íslands hafi afnumið bindiskyldu vegna innstæðna í útibúum íslensku bankanna erlendis 25. mars 2008 lýsti Davíð því að seðlabankanum hafi borist ábendingar um að það væri andstætt reglum á evrópska efnahagssvæðinu að beita bindiskyldu í útibúum utan myntsvæðis viðkomandi banka. Bindiskyldu væri ætlað að draga úr þenslu á því svæði, þar sem henni væri beitt, og hafi verið bent á að hún hefði ekki áhrif á þenslu hér á landi nema innstæðufé úr erlendu útibúi væri flutt hingað. Starfshópur innan seðlabankans hafi kannað málið, meðal annars með tilliti til framkvæmdar seðlabanka Evrópu, og samsinnt þessum ábendingum. Þegar þetta hafi verið ákveðið hafi því verið trúað, sem Landsbanki Íslands hf. hafi upplýst, að fé frá útibúinu í Bretlandi hafi ekki verið fært til Íslands. Þetta hafi ekki verið kannað í tengslum við afnám bindiskyldunnar, en síðar hafi komið í ljós að þessar upplýsingar væru rangar og hafi þá allt verið komið um koll. Með afnámi bindiskyldunnar hafi verið létt böndum af um 20.000.000.000 krónum, en þetta hafi þó vart verið þáttur í falli bankans. Á hinn bóginn mætti hugsanlega gagnrýna að seðlabankinn hafi ekki rannsakað sannleiksgildi upplýsinganna frá Landsbanka Íslands hf.

Davíð sagðist minnast þess, sem fram kom í minnispunktum frá fundi bankastjórnar Seðlabanka Íslands og bankastjóra Landsbanka Íslands hf. 30. mars 2008, að þá hafi verið búið að taka út þriðjung innstæðna á Icesave reikningum og teldi annar bankastjóra Landsbanka Íslands hf. mjög litlar líkur á að íslensku bankarnir kæmust gegnum þetta. Davíð kvað þennan bankastjóra hafa sveiflast í áliti sínu um bankana, en þeir hafi verið hvattir til að safna innlánum erlendis, þar á meðal af seðlabankanum, og hafi matsfyrirtæki fagnað því. Í þessu efni hafi menn á hinn bóginn farið úr hófi fram. Davíð sagðist hafa síðan rætt þetta við ákærða og utanríkisráðherra á fundi 1. apríl 2008, svo sem lýst sé í minnisblaði utanríkisráðherra.

Davíð kvað það hafa komið Seðlabanka Íslands í opna skjöldu þegar uppvíst varð á fundi með bankastjórum Landsbanka Íslands hf. 14. júlí 2008 að ekki stæðu yfir aðgerðir til að flytja Icesave reikningana til dótturfélags í Bretlandi. Aðspurður hvort raunhæft hafi verið að Landsbanki Íslands hf. gæti látið af hendi eignir á móti innstæðum á reikningunum við flutning þeirra til dótturfélags sagði Davíð að framan af hafi því verið haldið mjög á lofti að innstæðuféð, sem útibúið í London hafi tekið við, hafi ekki verið notað í starfsemi bankans hér á landi. Þessu hafi verið trúað, en þegar til hafi átt að taka hafi bankinn ekki ráðið við að flytja og binda fé í þeim mæli, sem breska fjármálaeftirlitið hafi gert kröfu um. Eftir fundinn 14. júlí 2008 hafi seðlabankinn talið að þetta mál væri komið í farveg, en bankanum hafi þó borist upplýsingar um að Landsbanki Íslands hf. tæki ekki á því af heilindum. Vonir hafi allt að einu staðið til að lausn fengist í málinu þar til bréf hafi borist frá breska fjármálaeftirlitinu 15. ágúst 2008.

Í tengslum við 2. lið ákæru lýsti Davíð aðspurður reynslu sinni af bókunum í fundargerðum af ríkisstjórnarfundum. Hann kvað fundargerðirnar hafa verið mjög knappar á þeim tíma, sem hann gegndi embætti forsætisráðherra, en þess hafi þó verið gætt að vissir þættir kæmu þar fram. Þannig hafi verið getið um mál, sem leggja þyrfti fyrir Forseta Íslands, og lagafrumvörp, sem flytja ætti á Alþingi sem stjórnarfrumvörp. Niðurstöður og ákvarðanir hafi að öðru leyti yfirleitt verið bókaðar stuttlega þannig að fyrir lægi afgreiðsla mála. Forsætisráðherra hafi farið yfir fundargerð og staðfest að fundi loknum. Þá lýsti Davíð því að forsætisráðherra hafi látið gera dagskrá fyrir ríkisstjórnarfundi og hafi almennt verið tekin þar upp mál, sem einstakir ráðherrar hafi sent inn tillögur um. Á ríkisstjórnarfundum hafi að auki getað verið umræður um annað en það, sem tekið hafi verið upp í dagskrá, og hafi þær ekki verið bókaðar.

19[breyta]

Vitnið Ingimundur Friðriksson var bankastjóri við Seðlabanka Íslands og átti jafnframt sæti í samráðshópi um fjármálastöðugleika og viðbúnað á því tímabili sem ákæra í málinu varðar. Hann sagðist fyrir dómi hafa verið einn af þremur bankastjórum seðlabankans og hafi þeir saman verið fjölskipað stjórnvald, en hann hafi aðallega sinnt þeim sviðum bankans, sem sneru að fjármálum, rekstri og bókhaldi. Hann kvað miklar lausafjárþrengingar hafa verið á alþjóðlegum fjármálamarkaði á árinu 2008 og hafi aðgengi íslenskra banka að lausafé verið mjög takmarkað. Fyrir banka, sem hafi verið svo háðir þessu aðgengi, hafi þetta hlotið að hafa þau áhrif að erfiðara yrði að fjármagna þá og greiða lán þegar þau féllu á gjalddaga. Fyrir hefði legið að gjalddagar stórra lána yrðu aðallega á árunum 2009 til 2012. Rætur þessa vanda mætti rekja lengra aftur í tíma, en hans hafi gætt frá miðju ári 2007 og hafi hann ágerst eftir það. Atvik hafi gerst, sem hafi valdið vafa um getu íslensku bankanna til að fjármagna sig, meðal annars ráðagerðir Kaupþings banka hf. um kaup á stórum hollenskum banka og árangurslausar tilraunir Glitnis banka hf. til að útvega sér lánsfé erlendis. Hann kvað það geta verið erfitt að álykta um stöðu banka út frá skuldatryggingarálagi þeirra, sem rætt var um í minnisblaði í Seðlabanka Íslands 28. janúar 2008 með fyrirsögninni „hryllingsmynd“, enda tæki þetta álag mið af markaðsaðstæðum hverju sinni. Í tilviki Kaupþings banka hf. hafi skuldatryggingarálag á þessum tíma borið með sér óvissu um kaupin á hollenska bankanum og hafi það lækkað strax og ljóst varð að ekki yrði af þeim. Ræst hafi úr lausafjárstöðu Glitnis banka hf. eftir að skýrsla hafi verið gerð, sem dreift var á fundi starfshóps seðlabankans um lausafjárvanda 29. janúar 2008, en vitað hafi verið að eiginfjárstaða Glitnis banka hf. væri flókin og hafi athygli einkum beinst að gjalddaga á stóru láni í október á því ári. Sú tilhneiging hafi víða verið uppi erlendis að setja alla íslensku bankana undir sama hatt, þótt þeir væru ólíkir, og hafi því verið talið líklegt að vandi eins þeirra yrði fljótt vandi annarra. Aðspurður hvort hann hafi verið sammála þeirri skoðun Davíðs Oddssonar að verulega mikil hættumerki hafi verið uppi snemma árs 2008 sagði Ingimundur að hafa mætti mismunandi skoðanir á því hvað blasað hafi við á þessum tíma, en ljóst hafi verið að alþjóðlegir markaðir væru meira eða minna lokaðir, mikil þörf væri á endurfjármögnun hjá bönkunum á árunum eftir 2008 og hún yrði því gríðarlega erfið. Á hinn bóginn hafi allt starf miðað að því að hindra að illa færi og hafi viðbúnaður verið aukinn stórlega, svo og upplýsingaöflun um lausafjárstöðu, útlánaframvindu, fjármögnun og kosti á henni.

Varðandi lið 1.3 í ákæru sagði Ingimundur það hafa verið í höndum stofnana, sem hefðu vald til þess að lögum, að taka ákvarðanir ef hætta skapaðist á fjármálamarkaði, en meðal þeirra hafi verið þær, sem áttu hlut að samráðshópi um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Hópnum hafi á hinn bóginn verið ætlað að gera viðbragðsáætlun og þar hafi verið settar upp sviðsmyndir vorið 2008 vegna fjármálaáfalls. Hann taldi samráðshópinn hafa verið gagnlegan og hafi hann verið mikilvægur sem vettvangur fyrir upplýsingamiðlun og skoðanaskipti, svo sem miðað hafi verið að í samkomulagi um stofnun hans. Ingimundur minntist þess ekki að rætt hafi verið um að breyta þessu samkomulagi og hafi Seðlabanki Íslands að minnsta kosti ekki leitað eftir því. Aðspurður hvort vinna hópsins hefði getað verið markvissari sagði Ingimundur að menn gætu alltaf verið vitrir eftir á. Hann kvaðst ekki geta gert athugasemdir við það hvernig hópnum var stýrt og kannaðist ekki við að aðrir hafi gert það. Vel gæti verið og eðlilegt að skiptar skoðanir hafi verið innan hópsins um þörfina á að gera aðgerðaáætlanir. Þeir, sem hafi talið það óheppilegt, kunni að hafa óttast að það myndi spyrjast út, á meðan aðrir hafi viljað fá skýrari áætlun um hvernig bregðast mætti við ólíkum sviðsmyndum af fjármálaáfalli, sem væri þó ekki einfalt að gera, enda hefði sérhvert áfall af þessum toga sín sérkenni. Auðvelt myndi hafa verið að beina tilmælum til hópsins um að vinna að sérstökum verkefnum, en hann minntist þess ekki að það hafi gerst. Hann sagðist engar forsendur hafa til að meta hvernig ráðherrar hafi fylgst með störfum samráðshópsins, en hann hafi haft þá tilfinningu að ákærði hafi verið vel upplýstur um þau. Hann kvaðst ekki telja að skortur á pólitískri stefnumörkun hafi hamlað starfi samráðshópsins, enda hafi hann reiknað með að gerðir ráðuneytisstjóranna í hópnum væru í samræmi við vilja ráðherranna. Hann taldi umræðu innan hópsins um þörf á stefnumörkun ekki hafa snúið að því hvað ríkið kynni að leggja af mörkum til bankakerfisins, heldur fremur að undirbúningi lagafrumvarpa til að bregðast við áfalli og hafi vinna við þau hafist sumarið 2008.

Ingimundur sagði að setja þyrfti orð, sem hann hafi látið falla á fundi samráðshópsins 15. janúar 2008 um að fjármálaáfall væri ekki lengur fjarstæðukenndur möguleiki, í samhengi við aðstæður á þessum tíma, en þær hafi verið erfiðar. Hann taldi tillögur frá Andrew Gracie, sem kynntar voru á fundi hópsins 18. mars 2008, hafa verið gagnlegar. Aðstæður hafi þó verið þannig á þessum tíma að mjög erfitt hefði verið að stilla bönkunum upp við vegg, eins og rætt hafi verið um í þessum tillögum. Hann kvað Seðlabanka Íslands hafa fengið Andrew Gracie hingað til lands til að fara yfir stöðu bankakerfisins og hafi samráðshópurinn vitað af vinnu hans, þótt hann hafi ekki verið hér á vegum hópsins. Hann sagðist ekki muna eftir vinnuskjali, sem var dreift á fundi samráðshópsins 1. apríl 2008 og reist á tillögum Andrew Gracie, en atriði, sem þar hafi verið getið, hafi verið í vinnslu, þótt það hafi ekki endilega verið á vettvangi hópsins. Þannig hafi vinna við gjaldmiðlaskiptasamninga verið á hendi Seðlabanka Íslands, rætt hafi verið við eftirlitsstjórnvöld um flutning erlendra innlána bankanna til dótturfélaga og rætt hafi verið við stjórnendur bankanna um að draga úr stærð þeirra. Það hafi þeir að nokkru gert með því að selja jaðarstarfsemi og minni háttar deildir úti í heimi, en á þessum tíma hafi þó verið nær ógerlegt að selja eignir og hafi erlendir ráðgjafar fremur lagt til að eiginfjárstaða bankanna yrði bætt. Ingimundur sagðist hafa vitað að Glitnir banki hf. hafi verið kominn langt með að selja eignir í Noregi þegar bandaríski fjárfestingarbankinn Lehman Brothers féll um miðjan september 2008, en kaupandinn hafi þá haldið að sér höndum og Glitnir banki hf. ekki náð að afla sér fjár fyrir skuldum, sem hafi verið á gjalddaga í næsta mánuði. Hann kvað þessa aðgerð Glitnis banka hf. hafa haft nokkurn aðdraganda.

Um lið 1.4 í ákæru bar Ingimundur að það hafi verið hægara sagt en gert að draga úr stærð bankakerfisins. Hugur allra hafi staðið til þess og þá ekki aðeins innan Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins, heldur einnig innan ráðuneytanna, sem hafi átt hlut að samráðshópi um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Væri engin ástæða til að efast um að þetta hafi jafnframt verið vilji ákærða á þessum tíma. Ingimundur sagðist ekki vita hvernig ákærði kunni að hafa beitt sér í þessu efni, en líklega hafi hann komið þessu á framfæri á fundum með stjórnendum bankanna. Ingimundur taldi ljóst af skýrslum erlendra sérfræðinga að sala eigna hafi verið afar erfið á þessum tíma og meðal annars hafi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn komist að þeirri niðurstöðu að þótt æskilegt væri að minnka eignir bankanna yrði það ekki gert nema á löngum tíma. Hann kvaðst ekki geta séð hvaða tök stjórnvöld hafi haft á að knýja bankana til að minnka efnahagsreikninga sína, enda hefði eignasala getað orðið þeim mjög erfið fjárhagslega og jafnvel keyrt þá í þrot. Um sölu eigna hafi verið rætt á fundum bankastjórnar seðlabankans með stjórnendum bankanna, en ljóst hafi verið að viðleitni til slíks yrði árangurslaus. Hann minntist þess ekki að gerðar hafi verið áætlanir innan seðlabankans, sem hefðu getað stuðlað að þessu, heldur hafi það staðið öðrum nær. Það sama hafi átt við um flutning höfuðstöðva banka eða innlána til annarra ríkja, en slíkar aðgerðir gætu aldrei náð fram að ganga nema í samráði við stjórnvöld í því ríki, sem flytja ætti starfsemina til, og hefði það orðið langt og flókið ferli.

Ingimundur rakti að viðræður hafi byrjað í mars 2008 við norræna seðlabanka, Englandsbanka og evrópska seðlabankann um gjaldmiðlaskiptasamninga við Seðlabanka Íslands og hafi þá komið upp ósk frá einhverjum þeirra um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn yrði fenginn til að meta stöðuna hér á landi. Það hafi verið gert og hafi skýrsla sjóðsins borist 14. apríl 2008. Skýrslan hafi verið mikilvægt gagn í þessum viðræðum og einnig þegar bankastjórar Englandsbanka og sænska seðlabankans hafi tekið upp umræðu um málefni Íslands á fundi seðlabankastjóra helstu iðnríkja heims í Basel. Vegna þess fundar hafi sænski seðlabankinn einnig sent fulltrúa sína hingað til lands til að meta stöðu mála. Ingimundur kvað yfirlýsingu bankastjórnar Seðlabanka Íslands og þriggja ráðherra, sem gerð var í tengslum við gjaldmiðlaskiptasamninga seðlabankans við seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs 16. maí 2008, ekki hafa orðið tilefni til meiri háttar aðgerða til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins. Aðstæður hafi ekki boðið upp á það og hafi norrænu seðlabankarnir gert sér grein fyrir því.

Ingimundur minntist ekki hvaða vitneskju hann kunni að hafa haft um aðdragandann að því að Landsbanki Íslands hf. hafi byrjað að safna innlánum á Icesave reikninga í Hollandi 29. maí 2008. Þessi starfsemi hafi verið heimil samkvæmt reglum á evrópska efnahagssvæðinu og hafi hann talið ómögulegt að stöðva hana, en bankinn hafi ætlað að flytja hana á síðari stigum til dótturfélags.

Ingimundur var spurður um fund sinn, Davíðs Oddssonar og Tryggva Pálssonar með formanni stjórnar Kaupþings banka hf. 11. júlí 2008, þar sem fjallað var meðal annars um þörfina á að minnka efnahagsreikning bankans og hugmyndir stjórnenda bankans um flutning höfuðstöðva hans úr landi. Ingimundur kvað þennan fund ekki hafa gefið tilefni til sérstakra viðbragða af hendi Seðlabanka Íslands, en þar hafi í fyrsta sinn komið fram að hugleiðingar væru innan Kaupþings banka hf. um að flytja hann úr landi. Ingimundur kvað símafund sinn við starfsmenn Englandsbanka 1. ágúst 2008 hafa farið fram að frumkvæði þeirra vegna viðræðna Landsbanka Íslands hf. og breska fjármálaeftirlitsins um flutning Icesave reikninga frá útibúi bankans í London til dótturfélags. Hafi bresk stjórnvöld viljað með þessu koma á framfæri við íslenskar stjórnarstofnanir upplýsingum um það, sem verið var að ræða þar ytra.

Ingimundur greindi frá því í tengslum við lið 1.5 í ákæru að rekja mætti erlenda innlánasöfnun Landsbanka Íslands hf. til ársins 2006, þegar alþjóðleg matsfyrirtæki hafi meðal annarra gert athugasemdir um að þáttur innlána væri of lítill í fjármögnun bankanna. Þessi starfsemi hafi líklega hafist á árinu 2007 og vaxið frekar hratt, en þetta hafi orðið mikilvægur þáttur í fjármögnun bankans. Öllum hafi verið ljóst að þessar innstæður væru kvikar og umfjöllun fjölmiðla gæti þannig haft áhrif á stöðu bankans, en hann hafi reynt að bæta úr þessu með því að beina innlánum meira inn á bundna reikninga. Þótt Seðlabanki Íslands hafi verið hlynntur því að bankar fjármögnuðu sig með innlánum hafi sú afstaða ekki snúið sérstaklega að erlendum Icesave reikningum Landsbanka Íslands hf. Framan af hafi seðlabankinn ekkert talið athugavert við þessa starfsemi, en á því hafi orðið breyting snemma árs 2008. Ingimundur kvaðst telja sig hafa heyrt af því í upphafi þess árs að til stæði að flytja innlánsreikningana til dótturfélags í Bretlandi og það kynni að taka um hálft ár, en hann hafi þá ekki vitað hvort breska fjármálaeftirlitið hafi lagt að bankanum að gera þetta.

Ingimundur kannaðist ekki við að umræður um útstreymi af Icesave reikningum í Bretlandi á fundum bankastjórnar Seðlabanka Íslands annars vegar með stjórnendum Landsbanka Íslands hf. 30. mars 2008 og hins vegar með ákærða og utanríkisráðherra 1. apríl sama ár hafi leitt til sérstakra viðbragða. Hann gat þess að talið hafi verið að skýringa á þessu útstreymi væri fremur að leita í umfjöllun breskra fjölmiðla á þessum tíma en í atriðum, sem hafi varðað stöðu Landsbanka Íslands hf.

Ingimundur kvað þær upplýsingar hafa komið á óvart, sem komið hafi fram á fundi seðlabankans með stjórnendum Landsbanka Íslands hf. 14. júlí 2008 og rætt var um á fundi samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað 22. sama mánaðar, að vinna við flutning Icesave reikninganna til dótturfélags væri ekki hafin, enda hafi menn þá staðið í þeirri trú að byrjað hafi verið á þessu um vorið 2008. Aðspurður sagðist hann hafa talið að bankastjórar Landsbanka Íslands hf. hafi ekki verið samstíga í afstöðu sinni til þess hversu nauðsynlegt væri að koma þessum flutningi fram. Skömmu eftir þessa fundi hafi fulltrúar breska fjármálaeftirlitsins komið hingað til lands og átt meðal annars fund í Seðlabanka Íslands. Þar hafi komið fram að hugsanlega mætti ljúka flutningi reikninganna á þremur mánuðum og hafi vonir staðið til að það gæti tekist. Ekki hafi komið til tals að beita aðgerðum til að stöðva þessa starfsemi og hefði notkun bindiskyldu við seðlabankann í því skyni verið óraunhæfur kostur, en henni hafi á sínum tíma verið létt af erlendum innlánum íslensku bankanna til samræmis við reglur seðlabanka Evrópu og hafi það að mati Ingimundar verið eðlileg ráðstöfun.

Ingimundur sagði að í samráðshópnum hafi verið gengið út frá því að Fjármálaeftirlitið myndi eiga í viðræðum við Landsbanka Íslands hf. og bresk stjórnvöld um atriði, sem vörðuðu flutning á Icesave reikningunum til erlends dótturfélags, en um þetta hafi hann ekki rætt við formann stjórnar Fjármálaeftirlitsins. Hann vissi ekki hvort ákærði hafi látið þetta til sín taka, en lýsti þeirri skoðun að atriði, sem hér hafi reynt á, hafi ekki verið þess eðlis að ákærði hefði getað liðkað fyrir og hafi ekki komið til tals að leita eftir því.

20[breyta]

Vitnið Tryggvi Pálsson greindi frá því fyrir dómi að hann hafi verið framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabanka Íslands á því tímabili, sem ákæra í málinu varðar. Undir fjármálasviðið hafi heyrt greiðslukerfi og fjármálakerfi, auk þess sem þar hafi verið unnið að viðbúnaði vegna hugsanlegs fjármálaáfalls. Hann kvaðst einnig hafa starfað með samráðshópi um fjármálastöðugleika og viðbúnað, en aldrei hafi verið fyllilega skýrt hvort hann hafi átt þar sæti eða verið ritari hópsins. Hann hafi tekið fullan þátt í fundum hópsins, en Ingimundur Friðriksson hafi þar verið fulltrúi seðlabankans.

Tryggvi lýsti því að haustið 2007 hafi sér þótt ljóst að aftur væri að koma upp ástand eins og það, sem hafi verið á árunum 2005 og 2006 þegar íslensku bankarnir hafi átt erfitt með að fjármagna sig erlendis. Hann hafi í nóvember 2007 gert samantekt um hvort íslenska fjármálakerfinu væri meiri hætta búin á þessum tíma en á árunum á undan og hafi hún verið lögð fyrir Fjármálaeftirlitið og bankastjórn Seðlabanka Íslands, en um hana var rætt á fundi samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað 15. þess mánaðar. Niðurstaðan í samantektinni hafi orðið sú að bönkunum væri meiri hætta búin. Hann hafi lagt til við bankastjórn seðlabankans 9. nóvember 2007 að starfshópur um viðbrögð við lausafjárvanda yrði kallaður saman, en sá hópur hafi starfað frá nóvember 2005 til nóvember 2006 og almennt verið nefndur krísuhópur. Bankastjórnin hafi orðið við þessari tillögu og hópurinn starfað fram að bankahruni haustið 2008. Á fjármálasviði seðlabankans hafi í janúar 2008 verið samin skýrsla undir fyrirsögninni: „Ef allt fer á versta veg í lausafjárstöðu bankanna“ og hafi hún verið lögð fyrir starfshópinn 29. þess mánaðar, auk þess sem hún hafi verið afhent bankastjórninni og Fjármálaeftirlitinu. Degi áður hafi hann sent bankastjórninni minnisblað með yfirskriftinni „hryllingsmynd“. Hann kvaðst hafa lagt til að breski sérfræðingurinn Andrew Gracie, sem áður hafi starfað hjá Englandsbanka, yrði fenginn til að fara yfir viðbúnaðarvinnu hér á landi. Það hafi gengið eftir og hafi tillögum þessa sérfræðings verið skilað til seðlabankans 29. febrúar 2008. Á grundvelli þessara tillagna hafi í seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu verið tekið saman vinnuskjal um úrræði stjórnvalda til að bregðast við óróleika á fjármálamörkuðum, sem hafi verið lagt fyrir samráðshópinn á fundi 1. apríl 2008. Þá hafi í seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu verið gert vinnuskjal um sviðsmyndir fjármálaáfalls, sem hafi verið lagt fram á fundi samráðshópsins 10. apríl 2008. Í því hafi verið brugðið upp þeirri mynd að Glitnir banki hf. gæti ekki staðið við endurgreiðslur á erlendum lánum um miðjan október 2008, en þar hafi þó ekki verið sagt að fjármálaáfall myndi stafa af því. Hann kvaðst hafa sent minnisblað til bankastjórnar seðlabankans 4. júní 2008, sem hafi snúist um áhyggjur af lausafjárstöðu Glitnis banka hf. Þá hafi hann gert vinnuskjal fyrir samráðshópinn um aðkallandi ákvarðanatöku stjórnvalda vegna hættu á fjármálaáfalli, sem fjallað var um á fundi hópsins 7. júlí 2008. Einnig hafi hann sent til samráðshópsins minnisblað 15. ágúst 2008 um stefnu stjórnvalda og viðlagaundirbúning. Hann kvaðst hafa litið svo á frá haustinu 2007 að raunhæfur möguleiki væri á að bankarnir kæmust í vandræði þannig að grípa þyrfti inn í og talið skylt að undirbúa það, sem unnt væri, fyrir aðstæður sem ekki hafi þó verið víst að kæmu upp. Á árinu 2008 hafi vandi bankanna verið meiri en áður og þar með meiri líkur á því að stjórnvöld myndu standa frammi fyrir vanda.

Aðspurður hvort dregin hafi verið upp önnur mynd af ástandinu í riti Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika 8. maí 2008 svaraði Tryggvi því til að hefði seðlabankinn sagt að fjármálakerfið myndi ekki standa hefði um leið lokast fyrir allar lánalínur og áfall orðið. Í ritinu hafi verið gengið eins langt og kostur var til að gera grein fyrir stöðunni. Ekki mætti aðeins horfa til ummæla í greininni um að fjármálakerfið væri enn í meginatriðum traust, heldur hafi lykilatriðið verið fólgið í orðum um að við ríkjandi aðstæður reyni á viðnámsþrótt bankanna. Með greininni hafi einnig fylgt töflur yfir helstu áhættuþætti og viðnámsþróttinn, svo og hvort staðan hafi batnað eða versnað ár frá ári, en þar mætti sjá að frá nóvember 2003 hafi seðlabankinn aldrei talið fjármálastöðugleika hafa batnað, heldur ýmist staðið í stað eða versnað frá undanfarandi tímabili.

Aðspurður hvort uppbygging eða starfsemi íslensku bankanna hafi leitt af sér sérstakar hættur vísaði Tryggvi til þess að þeir hafi starfað á svæði, þar sem þeir hafi átt aðgang að evrópska markaðinum, en íslensk stjórnvöld hafi á hinn bóginn ekki átt hlut að viðbúnaðarsamstarfi á vegum Evrópusambandsins. Bankarnir hafi byggt mikið á erlendri fjármögnun og breyst í átt að því að verða fjárfestingarbankar, sem tækju meiri áhættu. Þá hafi þeir beinlínis stært sig af því að vera fljótari en aðrir til ákvarðana. Þeir hafi stækkað mjög ört og fylgdi því alltaf hætta. Bankarnir hafi verið orðnir það stórir að stjórnvöld hafi haft takmörkuð úrræði til að bjarga þeim ef á þyrfti að halda. Alltaf hafi verið lögð áhersla á að bankarnir yrðu að leysa vandamál sín sjálfir.

Tryggvi minntist þess ekki að hafa átt bein samskipti við ákærða vegna starfa sinna, sem hafi heyrt undir bankastjórn Seðlabanka Íslands og verið þar á verksviði Ingimundar Friðrikssonar. Aðspurður kvaðst Tryggvi hafa talið að ákærði hafi átt mikil samskipti við formann bankastjórnarinnar og hafi þau farið mikið fram í símtölum.

Varðandi lið 1.3 í ákæru var Tryggvi spurður hvort starf samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað hafi verið markvisst og skilað tilætluðum árangri og svaraði hann því til að alltaf mætti gera betur, en hann hafi talið miklu hafa skipt að hópurinn hafi starfað og hist oftar eftir því, sem ástandið hafi orðið alvarlegra. Hópurinn hafi verið myndaður til skoðanaskipta og upplýsingamiðlunar og hafi starf hans að því leyti gengið allvel. Aldrei hafi verið lagt til að samkomulagi um stofnun samráðshópsins yrði breytt til að skilgreina hlutverk hans á nýjan leik, en störf hans hafi þó þróast með tímanum. Ekki hafi heldur verið lagt til að skipt yrði um formann í samráðshópnum, þótt skiptar skoðanir hafi verið um hvernig standa ætti að vinnunni.

Tryggvi sagði samkomulagið um stofnun samráðshópsins frá 21. febrúar 2006 engu hafa breytt um gildi samstarfssamnings Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands 28. mars 2003, sem var endurskoðaður 3. október 2006, enda hafi verið tekið fram í samkomulaginu að hann breytti engu um hlutverk þeirra, sem stóðu að því. Ekki hafi verið ráðgert að samráðshópurinn tæki yfir verkefni, sem samstarfssamningurinn fjallaði um, og hafi því samstarf stofnananna tveggja átt að standa óbreytt. Þetta samstarf hafi einkum verið fólgið í upplýsingaskiptum og hafi samráðsfundir einnig verið haldnir, en seðlabankinn hafi þó orðið að kvarta yfir töfum á veitingu upplýsinga til sín. Aðspurður hvort seðlabankinn hafi óskað eftir upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu um krosseignatengsl og krosslán milli banka sagði Tryggvi að síðarnefnda stofnunin hafi litið á upplýsingar um einstaka aðila sem trúnaðarupplýsingar, sem bankaleynd hvíldi yfir, og mætti því ekki veita seðlabankanum þær. Tryggvi kvað seðlabankann ekki hafa reynt að knýja frekar á um þetta með því að leita til viðskiptaráðuneytisins, enda hafi verið litið svo á að Fjármálaeftirlitið væri að sinna skyldum sínum réttilega. Samstarf milli seðlabankans og viðskiptaráðuneytisins hafi lítið verið annað en það, sem komið hafi til vegna samráðshópsins.

Tryggvi lýsti því að hann hafi ritað fundargerðir samráðshópsins og hafi þær yfirleitt verið samdar fljótlega eftir hvern fund og sendar rafrænt á fundarmenn. Ábendingar frá þeim hafi stundum leitt til breytinga og fundargerð þá verið send aftur á hópinn. Hafi þannig öllum verið kunnugt um fundargerðirnar og átt kost á að koma ábendingum að. Eftir bankahrunið hafi hann á hinn bóginn neitað að gera breytingar á þeim. Fundargerðirnar hafi verið merktar sem drög sökum þess að þær hafi ekki verið afgreiddar formlega í samráðshópnum, en hann hafi alltaf litið svo á að þær væru endanlegar.

Tryggvi kvað samráðshópinn ekki hafa sinnt frumvinnu við viðlagaundirbúning, en hafa lagt línur um hvað væri gert og hvenær og hafi því hver stofnun, sem átti hlut að hópnum, átt að sinna sínum skyldum. Sviðsmyndir, sem hópurinn hafi fjallað um, hafi átt að varpa upp möguleikum, sem gætu verið í stöðunni ef til fjármálaáfalls kæmi. Viðlagaáætlun fælist ekki í því að draga atriði saman í einu skjali, heldur að fara yfir hvaða spurningum þyrfti að svara, hvað gera þyrfti varðandi innstæðutryggingar, hvaða bankar væru kerfislega mikilvægir og hvort reyna ætti að bjarga einum þeirra eða fleiri. Í því sambandi hafi hann haft mikinn áhuga á því að fjármálaráðuneytið mæti hversu mikið ríkið gæti lagt af mörkum, en um það hafi verið skiptar skoðanir innan samráðshópsins. Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið hafi viljað leggja meiri vinnu í töluleg atriði og að afstaða yrði tekin til einstakra valkosta, sem uppi væru, en ráðuneytisstjórarnir í forsætisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu hafi ekki viljað ganga eins langt. Hafi þurft að gæta að því að aðgerðir stjórnvalda kynnu að valda áfallinu, sem verið var að reyna að forðast. Aðspurður hvort einhverju hefði breytt fyrir störf samráðshópsins að fleiri skýrslur af þessum toga hefðu verið gerðar sagði Tryggvi að máli gæti skipt hvaðan þær hefðu komið, en hann hefði viljað sjá skýrslu frá fjármálaráðuneytinu um hvað ríkissjóður þyldi að leggja af mörkum. Þá kvað hann samráðshópinn einnig hafa þurft að huga að mismunandi valkostum varðandi innstæðutryggingar og eiga tiltækar yfirlýsingar um það efni ef til áfalls kæmi, en ekki hafi staðið til að birta nokkuð slíkt nema á það reyndi. Þegar upp hafi verið staðið hafi tekist vel til við samningu frumvarps, sem varð að lögum nr. 125/2008, og hafi sú leið, sem var farin með yfirlýsingu um innstæðutryggingar, reynst farsæl. Hann hafi þó verið þeirrar skoðunar og væri það enn að betra hefði verið að svara fleiri spurningum áður en á hólminn var komið.

Tryggvi sagði vinnu hafa staðið yfir í langan tíma til að undirbúa viðbrögð varðandi greiðslumiðlun ef til bankahruns kæmi og hafi þunginn af henni hvílt á Seðlabanka Íslands, Reiknistofu bankanna og greiðslukortafyrirtækjum. Þegar til kom hafi síðan verið unnið í samstarfi við viðskiptaráðuneytið og utanríkisráðuneytið að því að tryggja erlenda greiðslumiðlun og hafi það tekist að fenginni ábyrgðaryfirlýsingu frá seðlabankanum. Ef ekki hefði tekist að tryggja greiðslumiðlun hefði ástandið orðið mun alvarlega.

Aðspurður hvort metið hafi verið nægilega hvort örðugleikar eins banka gætu leitt aðra banka í vandræði sagði Tryggvi þetta alltaf hafa verið grundvallarspurningu. Viðlagaæfingar, þar á meðal samnorræn æfing, hafi reynst afar gagnlegar. Þótt íslensku bankarnir hafi reynt að aðgreina sig eftir erfiðleikana á árinu 2006 hafi þegar á reyndi verið litið á þá sem eina heild þegar traustið hafi brostið á lánamörkuðum. Á grundvelli þessarar reynslu hafi verið gengið út frá því að ef áfall yrði hjá einum af þremur bönkum, sem Seðlabanki Íslands hafi talið kerfislega mikilvæga, þá myndi það sama gerast aftur og hefði þá áfallið sjálfkrafa áhrif á hina tvo. Þrátt fyrir þetta hafi verið lifað í voninni um að einn bankanna kynni að standa eftir svo að áfallið yrði minna og yrði þá að gera það, sem mögulegt væri, til að aðstoða hann. Þessi afstaða hafi birst í því að seðlabankinn hafi talið hugsanlegt í byrjun október 2008 að Kaupþing banki hf. gæti einn bankanna þriggja lifað og veitt honum lán að fjárhæð 500.000.000 evrur skömmu fyrir fall hans gegn veði í hlutum í dönsku dótturfélagi hans. Um líkt leyti hafi sænski seðlabankinn lánað Kaupþingi banka hf. enn hærri fjárhæð með veði í starfsemi hans í Svíþjóð. Í þessu sambandi hafi einnig getað skipt máli í hvaða röð bankarnir þrír hefðu leitað eftir aðstoð seðlabankans og hafi ekki verið unnt að skipuleggja þetta fyrir fram.

Tryggvi kvað fyrrnefndar tillögur frá Andrew Gracie hafa verið kynntar á fundi samráðshópsins 18. mars 2008. Tillögurnar hafi um margt mótað vinnu í framhaldinu, enda hafi hjálpað mikið að fá álit utanaðkomandi manns, sem hefði mikla reynslu af viðlagaundirbúningi. Samkvæmt tillögunum hafi átt að reikna út hversu mikið ríkið myndi þurfa að leggja af mörkum vegna fjármálaáfalls og myndi það vekja menn svo mjög til umhugsunar að bönkunum yrði stillt upp við vegg og gert ljóst að þeir yrðu að fjármagna sig, en ella yrði gripið til aðgerða. Ef til þess kæmi að ríkið þyrfti að yfirtaka banka yrði að þynna út hlutafé þeirra hluthafa, sem fyrir væru, enda yrðu þeir öðrum fremur að bera tjónið og innstæðueigendur að njóta verndar. Þetta hafi verið sú leið, sem reynt hafi verið að fara þegar Glitnir banki hf. leitaði aðstoðar síðla í september 2008. Seðlabanki Íslands hafi leitast við að meta kostnað af fjármálaáfalli með hliðsjón af alþjóðlegum athugunum og hafi niðurstaðan um það verið birt í riti um fjármálastöðugleika. Aðspurður hvað gert hafi verið til að stilla bönkunum upp við vegg sagði Tryggvi að í samtölum við stjórnendur bankanna hafi ítrekað verið reynt að þrýsta á þá að hætta frekari útrás og selja eignir, meðal annars með því að búa til verðbréfasöfn til að selja. Þótt staðan hafi á þessum tíma verið þröng til að gera slíka hluti á mörkuðum hafi þetta verið línan, sem hafi þurft að taka. Henni hafi verið fylgt eftir, þótt ef til vill hefði mátt gera meira. Aðspurður hvort breyta hefði mátt til hækkunar kröfum til bankanna um eiginfjárhlutfall í þessu skyni bar Tryggvi að þetta hafi verið rætt. Fjármálaeftirlitið hafi í raun haft þetta í hendi sér, enda hafi því verið heimilt að víkja frá lágmarkskröfu um eiginfjárhlutfall með tilliti til áhættu einstakra banka, en með hækkun á eiginfjárkröfu hefði verið girt fyrir að bankarnir seldu eignir á lágu verði. Hann tók fram að ef lagaleg úrræði dygðu ekki til að þrýsta á bankana hafi stjórnvöld alltaf haft þá lokahótun gagnvart þeim að lánsmatsfyrirtækin yrðu upplýst um veika stöðu þeirra ef þeir gerðu ekki það, sem óskað væri eftir. Með því myndu stjórnvöld þó taka áhættu á að valda áfallinu sjálf. Að þessu frágengnu kvaðst Tryggvi ekki sjá að úrræði hafi verið til að leggja þrýsting á bankana, en hefði Fjármálaeftirlitið haft rýmri valdheimildir til íhlutunar í starfsemi fjármálafyrirtækja hefði mátt hóta að beita þeim.

Tryggvi kvað vinnuskjali um úrræði stjórnvalda gegn óróleika á fjármálamarkaði, sem dreift var á fundi samráðshópsins 1. apríl 2008, hafa verið stillt upp af Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu til að draga fram tvenns konar hugsanlegar aðstæður, annars vegar lausafjárvanda banka og hins vegar lausafjár- og eiginfjárvanda. Hafi þar verið sýnt hvað hvor þessara stofnana gæti gert, svo og stjórnvöld. Spurður hvað Bolli Þór Bollason hafi átt við með þeim orðum, sem höfð hafi verið eftir honum í fundargerð samráðshópsins, að setja þyrfti á blað aðgerðaáætlun sagði Tryggvi að slík áætlun hefði verið í takt við þetta vinnuskjal, en í henni hefðu þó væntanlega verið komin skýrari svör um hvaða leiðir stjórnvöld vildu fara. Aftur hafi verið rætt um aðgerðaáætlun á næsta fundi samráðshópsins 2. apríl 2008, svo og skipun tveggja vinnuhópa, annan til að fjalla um viðbúnað við fall eins stóru bankanna og hinn um málefni tengd innlánstryggingum. Vinnu við aðgerðaáætlun hafi miðað hægt að því leyti, sem átt hafi verið við að hún yrði dregin saman í einu skjali, en hver hafi unnið áfram fyrir sig og hafi aldrei orðið til slík áætlun.

Aðspurður um fund samráðshópsins 4. apríl 2008, þar sem Tryggvi hafi minnt á að tillögur Andrew Gracie hafi gert ráð fyrir því að bönkunum yrði stillt upp við vegg þegar stjórnvöld væri búin að marka stefnuna, sagði hann það rétt að þar hafi hann kallað eftir stefnumörkun og hafi hann fengið þau svör að allir bankarnir þrír yrðu að teljast kerfislega mikilvægir og að stöðu ríkissjóðs mætti ekki stefna í hættu. Aftur hafi hann kallað eftir stefnumörkun í minnisblaði 15. ágúst 2008, en þar hafi hann gefið sér nánari forsendur um stefnu stjórnvalda um kerfislega mikilvæga banka, Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og greiðsluhæfi ríkissjóðs. Þar hafi einnig komi fram að væri þetta stefna stjórnvalda, þá yrði í viðlagaundirbúningi að leggja áherslu á raunhæft mat á hámarksþoli ríkisins vegna fjármálaáfalls og draga eins og kostur væri úr skuldbindingum vegna innstæðutrygginga og annars opinbers stuðnings. Að þessu hafi samráðshópurinn ekki unnið frekar á þessum tíma, heldur hafi það verið gert þegar komið hafi verið inn í áfallið og sú vinna tekist vel.

Spurður um umræðu á fundi samráðshópsins 10. apríl 2008 um vinnuskjal með heitinu sviðsmyndir fjármálaáfalls, þar sem komið hafi fram ábendingar um að taka yrði saman lýsingar á áhrifum aðgerða og aðgerðaleysis og þau skilyrði, sem stjórnvöld gætu sett, svo og skoða kosti á að slá skjaldborg um ákveðna þætti, sagði Tryggvi að á þessum tíma hafi ekki verið unnið frekar með þetta formlega, en það hafi verið gert þegar á þurfti að halda. Ákvörðunin, sem tekin hafi verið um málefni Glitnis banka hf. í lok september 2008, hafi markað vissa stefnu og hafi síðan verið haldið áfram þegar Landsbanki Íslands hf. og Kaupþing banki hf. hafi lent í vanda. Þar hafi reynst farsælt að ekki hafi áður verið gefin fyrirheit um of mikið. Í tengslum við þetta ítrekaði Tryggvi að æskilegra hefði verið að taka afstöðu til þessara atriða áður en áfallið dundi yfir, en um það hafi verið skiptar skoðanir innan samráðshópsins.

Um fund samráðshópsins 28. apríl og 29. maí 2008 sagði Tryggvi að ólystugi matseðillinn, sem þar hafi verið rætt um, hafi verið stutt yfirlit, sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins hafi gert til að kalla fram viðbrögð. Þetta yfirlit hafi hjálpað í umræðunni, en viðbrögð við því hafi ekki komið fram á þessum tíma, þótt sumt af því, sem þar var getið, hafi svo verið gert. Þannig hafi Seðlabanki Íslands liðkað fyrir um laust fé og gengið svo langt sem hann hafi talið sig geta. Einnig hafi verið búið að meta kerfislegt mikilvægi bankanna.

Tryggvi sagðist ásamt fleirum hafa ítrekað á fundi samráðshópsins 7. júlí 2008 að vinna þyrfti frekar við aðgerðaáætlanir í tæka tíð. Í vinnuskjali um aðkallandi ákvarðanatöku stjórnvalda vegna hættu á fjármálaáfalli, sem rætt hafi verið um á fundinum, hafi verið farið yfir stöðuna og þau atriði, sem hann hafi talið að gera þyrfti. Hann hafi talið að í raun þyrfti öðru vísi hóp til að taka næsta skref, þar sem samráðshópurinn hafi verið skipaður embættismönnum til að skiptast á upplýsingum og skoðunum. Í stað samráðshópsins hefði þurft aðgerðahóp, sem hefði einbeitt sér að aðgerðaáætlun sem enn ætti eftir að gera, og hafi hann talið að það þyrfti eins konar herforingja til að stjórna því starfi. Þetta síðastnefnda mætti ekki skilja svo að hann hafi talið að leita ætti til utanaðkomandi manns, heldur hefði þurft aðra manngerð til að leiða vinnuna þegar mál hafi verið komin á svo alvarlegt stig. Tryggvi neitaði því aðspurður að þessar tillögur hafi falið í sér tilraun Seðlabanka Íslands til að víkjast undan ábyrgð á lögbundnu hlutverki sínu og jafnframt að frekar hefði átt að beina þeim til seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, enda hafi bæði þurft að breyta lögum til að rýmka heimildir Fjármálaeftirlitsins til aðgerða og vantað hafi afstöðu ríkisins til mikilvægra atriða, sem einkum hafi varðað hugsanleg útgjöld ríkissjóðs. Tryggvi bar að tillögur sínar hafi verið ræddar og hann ráðgert að þær bærust til ráðherra, en eftir á hafi hann séð að það hafi ekki gerst. Hafi hann spurt sig hversu marga ráðuneytisstjóra hefði þurft til að koma þessum gögnum áleiðis.

Tryggvi kvað Seðlabanka Íslands lítið hafa komið að vinnu við samningu lagafrumvarpa, sem rætt hafi verið um á fundi samráðshópsins 31. júlí 2008. Aðspurður hvort óljóst hafi verið hverjir hafi átt að vinna að þessu sagði hann að þetta verk hafi byrjað í samstarfi Fjármálaeftirlitsins og viðskiptaráðuneytisins, síðan hafi verið myndaður vinnuhópur á vegum fjármálaráðuneytisins og að endingu hafi fleiri komið að verkinu.

Um fund samráðshópsins 16. september 2008, þar sem aftur var rætt um ólystuga matseðilinn, sagði Tryggvi að þá hafi ekki verið komin fullnægjandi svör við honum. Á þessum tíma hafi legið fyrir drög að yfirlýsingu um innstæðuvernd með þremur valkostum. Eins og fram komi í fundargerð hafi hann á hinn bóginn talið ýmislegt ógert í vinnu við smíð lagafrumvarpa og jafnframt þörf á að leita ráðgjafar endurskoðenda til að fara yfir tiltekin atriði í ákvæðum lánssamninga bankanna um heimildir lánardrottna til að gjaldfella kröfur sínar. Í ljósi þess að í sviðsmyndum, sem samráðshópurinn hafi að einhverju leyti stuðst við í störfum sínum, hafi verið tekið mið af því að Glitnir banki hf. kynni að falla um miðjan október 2008 var Tryggvi spurður hvort þar hafi sérstaklega verið rætt um viðbrögð í slíku tilviki. Hann svaraði því til að innan Seðlabanka Íslands hafi verið farið yfir öll atriði, sem komið hafi í hug, meðal annars um skilmála hugsanlegra lána til Glitnis banka hf., hvaða tryggingar mætti taka gildar og hvaða ráðstafanir gætu komið lánssamningum bankans í uppnám. Aðspurður hvort þessi vinna hafi verið lögð til grundvallar þegar mál Glitnis banka hf. bárust seðlabankanum síðla í september 2008 sagðist Tryggvi hafa verið fjarverandi á þeim tíma, en þó í sambandi við samstarfsmenn sína. Valkostir seðlabankans hafi í raun verið að neita um aðstoð, sem hefði leitt til áhlaups á Glitni banka hf., eða samþykkja beiðni um hana og taka svo ákvörðun um hvernig seðlabankinn myndi tryggja sig. Tryggvi kvaðst ekki deila á þá ákvörðun seðlabankans að betra væri að taka yfir 75% hlut í Glitni banka hf. en að veita lán gegn óvissum tryggingum.

Í tengslum við lið 1.4 í ákæru sagði Tryggvi að vissulega hafi verið þrýst á bankana að draga úr stærð sinni á árinu 2008 og hafi verið fylgst með viðbrögðum þeirra. Öllum hafi verið ljóst að þetta væri ekki aðeins krafa Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins, heldur bærist hún einnig utan úr heimi. Þessi þrýstingur hafi verið stöðugur, en skort hafi tæki til að taka völdin af stjórnendum bankanna. Unnt hefði verið að skipuleggja þetta betur og fara að tillögu Andrew Gracie um að stilla bönkunum upp við vegg, en erfitt væri að segja hvort það hefði nokkru breytt. Aðspurður kvaðst Tryggvi kannast við að hafa sagt fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að unnt hefði verið að knýja fram markvissari og meiri aðgerðir til sölu á eignum ef stjórnvöld hefðu sett bönkunum stólinn fyrir dyrnar, en eftir á að hyggja teldi hann að þetta hefði þurft að gera á árunum 2003 eða 2004 til að stöðva stækkun bankanna.

Tryggvi kvaðst hafa verið viðstaddur fundi milli seðlabankans og stjórnenda einstakra banka, þar sem þessi mál hafi verið rædd. Hann sagðist ekki vita af eigin raun um atvik í tengslum við það að Kaupþing banki hf. hafi snemma árs 2008 fallið frá kaupum á hollenska bankanum NIBC, enda hafi það mál einkum hvílt á herðum Fjármálaeftirlitsins, en ljóst hafi verið að Kaupþing banki hf. hafi verið kominn í verulegan vanda og hefði ekki ráðið við kaupin. Fjármálaeftirlitið hafi dregið að taka ákvörðun og hafi það verið skynsamlegt, því þannig hafi Kaupþingi banka hf. gefist ráðrúm til að draga sig út úr kaupunum. Þessi fyrirhuguðu kaup hafi ekki aðeins ógnað lánshæfiseinkunnum Kaupþings banka hf., heldur hinna bankanna líka, enda hafi matsfyrirtæki og fjölmiðlar ekki talið bankann mundu ráða við að fjármagna kaupin. Með líkum hætti hafi farið um fyrirætlanir Landsbanka Íslands hf. um kaup á innlánastarfsemi bresks fjármálafyrirtækis með heitinu Close Brothers Group. Um aðferðir, sem Seðlabanki Íslands hafi beitt til fylgjast með aðgerðum bankanna í þessum efnum, sagði Tryggvi það hafa verið gert með því að halda saman upplýsingum, sem kæmu fram í formlegum viðræðum á fundum og samtölum sérfræðinga seðlabankans við starfsmenn, sem hafi fengist við fjárstýringu innan bankanna þriggja. Seðlabankinn hafi einnig vegna hlutverks síns við erlenda lánsfjáröflun fyrir ríkið fengið vitneskja um það, sem gerðist á alþjóðlegum mörkuðum, og frá stórum erlendum fjárfestingarbönkum.

Tryggvi kvað það hafa verið kunnugt innan Seðlabanka Íslands að kostir til að selja eignir banka hafi verið þröngir á árinu 2008, en alltaf mætti þó deila um hvaða verð hefði getað fengist eða hvenær það hefði verið orðið svo lágt að eiginfjárstöðu bankanna væri ógnað. Hann hafnaði því að tillögur, sem seðlabankinn hafi fengið frá Andrew Gracie í lok febrúar 2008, hafi falið í sér ráðagerð um að efnt yrði til svonefndrar brunaútsölu á eignum bankanna, því þótt lánsfjármarkaðir, sem þeir hafi leitað inn á, hafi þornað upp hafi ekki verið sjálfgefið að ekki væri unnt að selja eignasöfn eða heilar einingar úr starfsemi þeirra. Að auki hafi tillögurnar lotið að því að bankarnir yrðu að fjármagna sig sjálfir og hafi þar ekkert verið nefnt um hvernig það yrði gert. Bankarnir hafi á þessum tíma fengið tilboð um fjármögnun, sem þeir hafi hafnað sökum þess að verðið væri of hátt, en þeir hafi á árinu 2007 verið komnir í þá stöðu að vaxtamunur væri neikvæður. Hann hefði talið skynsamlegt og tilraunarinnar virði að stilla bönkunum upp við vegg til að sjá hvort það hefði kallað fram frekari viðbrögð, þótt ekki yrði fullyrt að það hefði miklu breytt.

Í sambandi við lið 1.5 í ákæru sagði Tryggvi að samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað hafi fengið nokkrar upplýsingar um samskipti Landsbanka Íslands hf. og breska fjármálaeftirlitsins út af ráðagerðum um flutning á Icesave reikningum frá útibúi bankans í London til dótturfélags. Fjármálaeftirlitið hafi fengið upplýsingar um þetta frá bresku stofnuninni og Seðlabanki Íslands með fundum við stjórnendur Landsbanka Íslands hf. Innan samráðshópsins hafi verið talið að bankinn væri að vinna að þessu af krafti, en annað hafi svo komið í ljós. Svo hafi virst sem tregða hafi komið upp í þessum efnum vegna þess að bankinn hafi þurfti að fá aðgang að fé gegnum innlánasöfnunina í útibúinu, en einnig hafi komið fram á fundi í seðlabankanum í júlí 2008 með bankastjórum Landsbanka Íslands hf. að breska fjármálaeftirlitið gerði kröfu um að mikið laust fé og aðrar eignir myndu fylgja innstæðunum á Icesave reikningum til dótturfélags og væri bankanum þetta um megn. Þótt ljóst hafi verið að upphaflegar hugmyndir um flutning reikninganna hafi ekki staðist hafi seðlabankinn lýst því að hann styddi eindregið að þetta næði fram að ganga.

Tryggvi kvað það hafa komið til umræðu á fundi samráðshópsins 12. ágúst 2008 hvaða úrræði stjórnvöld hefðu til að knýja á um að innstæðurnar yrðu fluttar til dótturfélags, en þar hafi þó engar ákveðnar hugmyndir komið fram um hvað mætti gera. Fjármálaeftirlitið hafi farið með málið og hafi forstjóri þess og formaður stjórnar gegnt þar lykilhlutverki. Þótt fjármögnun Landsbanka Íslands hf. og staða Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta hafi skipt máli fyrir fjármálastöðugleika og þar með getað heyrt undir Seðlabanka Íslands yrði að minnast þess að fjármálastöðugleiki hafi einnig verið viðfangsefni Fjármálaeftirlitsins. Hann kvaðst ekki geta sagt til um það hvort einhverju hefði skipt að ákærði léti þetta til sín taka, en ekki hafi verið talin ástæða innan seðlabankans eða samráðshópsins til að leita til hans um þetta.

Aðspurður hvort rætt hafi verið innan seðlabankans um hvort ríkið ætti að láta af hendi fé til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta sem framlag fremur en sem lán sagði Tryggvi svo ekki vera og hafi bankinn engar tillögur gert um þetta. Þetta hafi borist í tal innan samráðshópsins meðal ýmissa spurninga um valkosti, en ekki verið lagt til þar, enda hafi verið gengið út frá því að gæta yrði varfærni við að fella skuldbindingar á ríkið.

21[breyta]

Vitnið Arnór Sighvatsson, sem starfaði sem aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands á tímabilinu sem ákæra í máli þessu varðar, kvaðst fyrir dómi einkum hafa fengist í því starfi við peningastefnu, þjóðhagsspár og þjóðhagslegar áhættur, en hann hafi ekki komið þar að viðlagaundirbúningi vegna hugsanlegs fjármálaáfalls. Aðspurður sagðist hann hafa talið hættu vofa yfir íslensku bönkunum um þó nokkurn tíma og þegar horft væri um öxl mætti draga þá ályktun að einkavæðing bankanna hafi frá upphafi borið þessa hættu í sér. Þegar á árinu 2005 hafi verið komin fram skýr merki um að bankarnir ættu í lausafjárvanda og eftir að svo var komið hafi ekki verið líklegt að fært yrði að bjarga þeim. Þetta væri þó sagt nú þegar fyrir lægi frekari vitneskja um hvernig eignastaða bankanna hafi í raun verið. Í fyrstu hafi verið talið að bankarnir ættu í lausafjárvanda, en nú væri ljóst að undirliggjandi hafi jafnframt verið eiginfjárvandi. Þetta hafi þó ekki blasað við á árinu 2005. Fyrstu hættumerkin hafi birst í því að skuldatryggingarálag bankanna hafi hækkað og seðlabankanum borist spurnir að utan um að evrópskir lánamarkaðir væru að lokast fyrir þeim, svo sem komið hafi á daginn á árinu 2006. Líf bankanna hafi þá verið í húfi, en tekist hafi að leysa vanda þeirra tímabundið. Grunur innan erlendra banka um að eignastaða íslensku bankanna væri ekki sem sýndist gæti í raun hafa verið grunnurinn að lausafjárvanda þeirra og þar með falli þeirra. Arnór sagðist þegar hafa orðið var við þetta erlendis á árinu 2005, svo og að íslensku bankarnir hafi þótt ótrúverðugir. Áhætta hlyti að fylgja svo hröðum vexti, sem hafi verið á íslensku bönkunum, og við þær aðstæður væri hættara við að eignir væru lakari en ella. Þetta hefði getað leitt til falls bankanna þegar á árinu 2006 ef þeim hefði ekki tekist að ná í lausafé með því að komast inn á bandarískan lánamarkað og afla erlendra innstæðna. Hann kvaðst aðspurður ekki hafa fylgst með því innan seðlabankans hvort bankarnir hafi breytt starfsemi sinni að fenginni reynslu af erfiðleikum á árinu 2006. Hann hafi rætt um þá skoðun sína að bankarnir tækju of miklar áhættur, þótt hann hafi ekki komið henni formlega á framfæri, en um þetta hafi allir virst vera sammála. Á þessum tíma hafi menn ekki fyllilega gert sér grein fyrir vandamálum bankanna, sem hafi tengst eignum þeirra, og talið þá frekar eiga í lausafjárvanda. Mætti líkja eiginfjárvanda við krabbamein, sem ynni á manni á löngum tíma, en lausafjárvanda við hjartaáfall. Við fall bankanna hafi komið í ljós að þeir hafi í raun verið eins og dauðvona krabbameinssjúklingar, sem hafi fengið hjartaáfall.

Arnór kvað umræðu hafa staðið um hættur, sem fylgt hafi stækkun bankanna og útrás, en hann hafi mest haft áhyggjur af samspili þeirra við þjóðhagslega þætti, sem hafi birst annars vegar í gríðarlegum viðskiptahalla og hins vegar eignabólu. Viðskiptahallinn hafi verið vísbending um að gengi krónunnar myndi á síðari stigum falla mjög hratt og eignabólan um að veð fyrir útlánum bankanna gætu verið slök. Þannig hafi legið fyrir vísbendingar um útlánatöp í framtíðinni, en á þessum tíma hafi fáa órað fyrir því að bankarnir væru að veita lán til kaupa á hlutabréfum í sér sjálfum gegn veði í bréfunum. Þótt bönkunum hafi tekist tímabundið að losna úr þrengingum á árinu 2006 hafi þeir engan möguleika átt 2008 og hafi hann verið þeirrar skoðunar að fall eins þeirra yrði þeim öllum að falli vegna þess hve samtengdir þeir hafi verið, en um þetta hafi verið rætt á árinu 2008. Ef koma hefði átt í veg fyrir fall bankanna hefði líklega orðið að grípa til aðgerða á árinu 2005, en hann gæti þó ekki sagt til um hvort enn hefði mátt gera eitthvað eftir þann tíma. Aðspurður hvort ekki hafi verið unnt innan bankanna að áætla hversu mikið ríkið kynni að geta stutt þá ef á þyrfti að halda sagði Arnór það mundu hafa verið háð því hvað ríkið hefði nánar átt að gera. Hefði það nægt að leggja bönkunum til nýtt eigið fé hefði stuðningur ríkisins hugsanlega getað komið að haldi, en vandinn hér hafi reynst það mikið stærri að ríkið hefði ekki getað staðið undir honum.

Aðspurður vegna ummæla, sem höfð voru eftir honum í framlögðu endurriti af skýrslu fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um að tregðu hafi gætt innan Seðlabanka Íslands til að taka á bönkunum og hafi staða seðlabankastjóra, sem hafi verið þekktur fjandmaður bankanna, verið erfið í því sambandi, kvaðst Arnór hafa með þessu átt við Davíð Oddsson, sem hafi verið umdeildur og átt í alkunnum útistöðum við helstu eigendur Glitnis banka hf. Vegna þessara aðstæðna hafi það, sem bankastjórinn hafi sagt eða ákveðið í þessum efnum, verið mjög viðkvæmt og hafi þetta litað umræður um aðgerðir seðlabankans. Málin hefðu þó ekki þróast á annan veg þótt annar maður hefði gegnt þessari stöðu, enda hefði ekki verið unnt að bjarga bönkunum.

Arnór kvaðst vegna starfssviðs síns innan Seðlabanka Íslands ekki hafa verið í aðstöðu til að fylgjast með því hvort stjórnvöld hafi eitthvað gert til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins. Hann hafi ekki setið fundi með ráðherrum, ráðuneytisstjórum eða forráðamönnum Fjármálaeftirlitsins, þar sem stærð bankakerfisins hafi komið til umræðu, eða verið á annan hátt í samskiptum við ákærða. Aðspurður sagðist hann þó telja fráleitt að bankarnir hefðu getað selt eignir á árinu 2008 þannig að til gagns hefði komið, enda hefðu þær ekki verið seldar nema með miklum afföllum og þá einkum bestu eignir bankanna, sem hefðu þá setið eftir með hrat í höndunum. Með slíkum ráðstöfunum hefði orðið skammt í það að kröfum um eiginfjárhlutfall yrði ekki lengur fullnægt. Þá hefði orðið erfitt að knýja á um að einhver bankanna flytti höfuðstöðvar sínar úr landi, en umræður um þetta væru að auki reistar á þeim misskilningi að þeir hafi aðeins átt við lausafjárvanda að etja. Þess yrði einnig að gæta að við flutning banka til annars lands hefðu eftirlitsstofnanir þar orðið að kanna efnahagsreikning hans og mætti telja líklegt að komist hefði verið að þeirri niðurstöðu að of mikil áhætta fylgdi flutningum, sem hefði þá verið hafnað. Kvaðst Arnór telja það vera óraunsætt að ætla að leysa hefði mátt vanda vegna stærðar bankakerfisins á þennan hátt á árinu 2008, en hugsanlega hefði einhver bankanna enn getað flutt úr landi 2005.

Aðspurður hvort seðlabankinn hefði getað beitt sér á einhvern hátt til að takmarka erlenda innlánasöfnun bankanna á árinu 2008 sagðist Arnór telja að svo hafi ekki verið, enda hefði þurft að gera það áður en heimildir til þeirrar starfsemi voru veittar, sem hafi verið í verkahring Fjármálaeftirlitsins. Eftir á að hyggja hefði skipt miklu að setja strangar reglur um tímamismun skulda og eigna í erlendum gjaldeyri, en þær hafi ekki verið fyrir hendi þá. Hefði verið komið í veg fyrir þessa sókn í erlendar innstæður, sem hafi á þeim tíma verið lausn á lausafjárvanda bankanna, hefðu þeir hugsanlega fallið fyrr og þá líklega með minni tilkostnaði. Hann kvað vitneskju sína um innlánasöfnun Landsbanka Íslands hf. á Icesave reikninga í Bretlandi hafa verið svipaða þeirri, sem hafi legið fyrir í tölfræðigögnum. Innstæðurnar hafi á tímabili safnast hratt upp og hafi verið ólíklegt að unnt yrði að flytja þær til erlends dótturfélags, enda hefði þá einnig þurft að flytja eignir á móti þeim og hefðu það líklega orðið að vera bestu eignir bankans. Að auki mætti draga í efa að það hefði þjónað hagsmunum bankans að bjóða upp á reikninga sem þessa í dótturfélagi í ljósi þess að tilgangurinn með þeim hafi verið að fjármagna starfsemina hér á landi. Hann kvaðst ekki hafa haft spurnir af samskiptum íslenskra og breskra stjórnvalda í tengslum við þetta. Hann hafi heldur ekki vitað hvort rætt hafi verið innan Seðlabanka Íslands um að taka upp samvinnu við önnur stjórnvöld af þessum sökum.

22[breyta]

Vitnið Jón Þ. Sigurgeirsson kvaðst fyrir dómi hafa starfað hjá Seðlabanka Íslands með hléum frá árinu 1986, en hann hafi unnið frá árslokum 2005 fram í byrjun apríl 2008 hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og komið þá aftur til seðlabankans, þar sem hann hafi síðan aðallega fengist við samskipti við sjóðinn, aðra seðlabanka, erlend ráðuneyti, lánshæfismatsfyrirtæki og erlenda banka.

Jón kvað íslensku bankanna hafa á árunum fram að 2006 farið mjög geyst inn á erlenda lánamarkaði og tekið mikið fé að láni, en fréttir hafi borist af því að ýmsir væru farnir að skortselja þá og hafi evrópskir lánamarkaðir virst lokast á þá 2006. Erfiðleikar, sem leiddu af þessu, hafi þó liðið hjá með því að bankarnir hafi leitað inn á bandarískan lánamarkað og Landsbanki Íslands hf. byrjað að afla erlendra innlána, en dæmi hafi þá verið um erlendar lántökur bankanna með vaxtaálagi, sem ekki hafi áður verið litið við. Þegar lántökur sem þessar hafi ekki lengur boðist á árinu 2007 hafi ekkert verið eftir. Jón kvaðst ekki áður hafa séð viðlíka kreppu á alþjóðamörkuðum eins og þá, sem hafi brostið á 2008, og hafi hún komið að óvörum öllum, sem hafi komið að fjármálamörkuðum.

Jón kvað Seðlabanka Íslands hafa leitað til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í tengslum við áætlun sína um að gera gjaldmiðlaskiptasamninga við aðra seðlabanka til að sýna fram á aðgang sinn að lausafé. Sendinefnd frá sjóðnum hafi gert könnun á íslensku bönkunum og skilað skýrslu til seðlabankans 14. apríl 2008, þar sem komið hafi fram að hugsanlega mætti bjarga hlutum hér. Jón kvaðst ekki hafa átt hlut að gerð þessarar skýrslu, en eftir á að hyggja hafi hún verið full jákvæð, því sendinefndin hafi líkt og aðrir talið að hér væri við lausafjárvanda að etja. Í skýrslunni hafi verið bent á að íslenska bankakerfið væri of stórt og að ein leiðin út úr vandræðunum væri að minnka umfang þess. Einnig hafi komið fram að styrkja þyrfti eigið fé bankanna, en með sölu eigna hefði verið grafið undan eiginfjárgrunninum og hefði því þurft að gera þetta hægt og bítandi. Áþekka niðurstöðu hafi verið að finna í skýrslu, sem sérfræðingar sænska seðlabankans hafi gert í tengslum við gerð gjaldmiðlaskiptasamninga Seðlabanka Íslands við þrjá norræna seðlabanka. Á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi síðan að beiðni stjórnvalda verið gerð úttekt á íslenska bankakerfinu í júlí 2008 og hafi niðurstaðan þar orðið að mestu sú sama, þar á meðal að ekki væri unnt að minnka bankakerfið á einni nóttu og gefa yrði sér tíma til þess. Aðspurður sagðist Jón telja að sjá mætti af þeirri skýrslu að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hafi þótt mál hafa þróast á réttan veg hér á landi frá því að skýrslan 14. apríl 2008 var gerð og hafi ekki verið gerðar alvarlegar athugasemdir út af því, sem gert hafi verið til að draga úr stærð bankakerfisins.

Jón sagði umræðu hafa verið innan Seðlabanka Íslands um hvort flytja mætti höfuðstöðvar íslensku bankana úr landi og hafi seðlabankinn verið hlynntur því, að minnsta kosti hvað varðaði Kaupþing banka hf. Jón kvaðst á hinn bóginn ekki hafa séð það fyrir að tekið yrði nokkurs staðar erlendis við bankanum á þessum tíma, enda hafi hann greinilega átt í vandræðum og væri óvíst að hann myndi hafa viljað sýna erlendum eftirlitsstofnunum eignasafn sitt. Þessar hugmyndir hafi því verið óraunhæfar.

Jón sagðist telja mjög líklegt að hann hafi setið einhverja fundi stjórnenda Seðlabanka Íslands á árinu 2008 með öðrum stjórnvöldum, þar sem rætt hafi verið um stærð íslenska bankakerfisins og hættu af henni, en ekki minntist hann þess hvenær það hafi nánar verið eða hvort ákærði eða aðrir ráðherrar hafi verið á slíkum fundum. Hann kvað stjórnendur bankanna hafa veitt seðlabankanum upplýsingar um aðgerðir sínar til að draga úr stærð bankakerfisins, en þar á meðal hafi verið hugmyndir Glitnis banka hf. um að selja eignir í Noregi.

Jón kvaðst ekki hafa fengist sérstaklega við mál, sem vörðuðu flutning á Icesave reikningum frá útibúi Landsbanka Íslands hf. í London til dótturfélags, en hann hafi þó setið marga fundi í Seðlabanka Íslands, þar sem þetta hafi verið rætt, þar á meðal símafund með starfsmönnum Englandsbanka og fundi með bankastjórum Landsbanka Íslands hf. Hann kvaðst minnast þess að á fundi með bankastjórunum sumarið 2008 hafi annar þeirra sagt að ekki væri unnt að flytja nægilegar eignir til dótturfélags meðal annars vegna þess að bresk stjórnvöld skorti skilning á svokölluðum sjávarútvegseignum. Honum hafi þótt þessi orð undarleg, því hann hafi reiknað með að Landsbanki Íslands hf. ætti fleiri eignir en þessar hér á landi og hafi hann þá farið að gruna að ekki væri allt með felldu varðandi eignir bankans.

23[breyta]

Vitnið Sigurður Sturla Pálsson, sem gegndi starfi framkvæmdastjóra alþjóða- og markaðssviðs Seðlabanka Íslands á þeim tíma sem ákæra í málinu varðar, bar fyrir dómi að fyrir mitt ár 2006 hafi íslensku bankarnir átt í erfiðleikum við endurfjármögnun á alþjóðlegum lánamörkuðum, enda hafi þeir þá legið undir ámæli fyrir áhættusækni. Þessir erfiðleikar hafi þá liðið hjá og fjármögnun gengið ágætlega fram að miðju ári 2007, þegar aðgangur þeirra að mörkuðum hafi takmarkast verulega og síðan lokast. Í Seðlabanka Íslands hafi á þessum tíma verið fyrirséð að bankarnir þyrftu að endurfjármagna starfsemi sína mikið á árinu 2009, en Glitnir banki hf. þó að stóru leyti haustið 2008. Hafi þótt ljóst að næðu bankarnir ekki að endurheimta aðgang að alþjóðlegum mörkuðum fyrir árið 2009 væri lítil von til þess að þeir gætu endurfjármagnað sig. Hafi verið litið á þetta sem lausafjárvandamál og að seðlabankinn, sem beri skyldu til að veita bönkunum lausafjárfyrirgreiðslu, yrði að gera allt, sem í hans valdi stæði, til að bankakerfið myndi ekki hrynja. Snemma árs 2008 hafi verið blikur á lofti á gjaldeyrismarkaði og í mars hafi gengi krónunnar fallið verulega, sem hafi haft mikil neikvæð áhrif á verðgildi skuldabréfa bankanna og skuldatryggingarálag, en þessi hætta hafi í raun alltaf vofað yfir frá árinu 2006. Hafi verið gengið út frá því að seðlabankinn þyrfti að veita bönkunum lausafjárfyrirgreiðslu þar til þeir fengju aðgang að alþjóðlegum fjármálamörkuðum á ný. Hann kvaðst hafa verið í miklum samskiptum við starfsmenn, sem hafi fengist við fjárstýringu í bönkunum, og skynjað vel þessa erfiðleika. Enn hafi þó bankarnir haft aðgang að millibankafjármögnun og skuldabréf þeirra verið notuð í endurhverfum viðskiptum, auk þess sem þeir hafi nýtt opin bankalán. Skammtíma fjármögnun þeirra hafi verið stöðug, en langtímafjármögnun ekki fengist. Í seðlabankanum hafi verið óttast að hún fengist ekki þegar nær dró þeim tíma, sem hennar var þörf. Aðspurður hvort áhyggjur hafi á þessum tíma verið uppi innan seðlabankans um að bankarnir ættu einnig við undirliggjandi eiginfjárvanda að stríða svaraði Sigurður því til að slíkar upplýsingar hafi borist frá erlendum fjármálastofnunum og að nokkru leyti úr fjölmiðlum, en seðlabankinn hafi aftur á móti einkum horft á uppgjör bankanna og þá fyrst og fremst skuldahlið efnahagsreikninga þeirra. Hafi verið reiknað með því að Fjármáleftirlitið sinnti þessu verkefni og hafi sú verkaskipting birst greinilega í samtölum við starfsmenn þess, en seðlabankinn hafi orðið að taka niðurstöðum Fjármálaeftirlitsins sem gefnum.

Sigurður kvaðst frá árinu 2006 hafa átt sæti í viðlagahópi innan Seðlabanka Íslands, sem hafi þó ekki starfað reglulega, en frá því seint á árinu 2007 eða snemma 2008 hafi hópurinn hist vikulega. Þar hafi Sigurður gegnt því hlutverki að greina frá stöðunni á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og stöðu íslensku bankanna erlendis. Að öðru leyti hafi viðlagahópurinn einkum fylgst með lausafjárskýrslum bankanna og gjaldeyrisjöfnuði, en hann hafi skoðað fjármál bankanna og aðallögfræðingur seðlabankans kannað heimildir til að grípa inn í. Hópurinn hafi tekið saman viðlagahandbók, sem hafi verið lokið við á miðju ári 2008. Aðspurður sagðist hann ekki minnast þess að viðlagahópurinn hafi leitað eftir upplýsingum um erlendar lánalínur, sem bankarnir hafi notað til að fjármagna sig.

Spurður um umræður innan Seðlabanka Íslands um þörfina á að bankarnir drægju úr starfsemi sinni sagðist Sigurður hafa talið þá vita vel um vandann og að markaðir væru lokaðir. Þeir hafi unnið að því á árinu 2008 að selja eignir og hafi starfsmenn seðlabankans fundað ítrekað með stjórnendum bankanna um vandamál þeirra. Hann kvaðst ekki vita hvort seðlabankinn hafi gert annað en að hvetja bankana til dáða eða hvort önnur stjórnvöld hafi unnið að þessu verkefni. Hann sagðist telja að bankarnir hefðu getað fengið eðlileg verð við sölu eigna, en þeir hafi á hinn bóginn keypt miklar eignir dýru verði og skuldsett sig við það. Sala eigna hefði því haft bein neikvæð áhrif á eiginfjárstöðu þeirra og hefðu bankarnir ekki þolað afleiðingarnar af því til lengdar. Þetta hafi að minnsta kosti átt við fram í ágúst 2007, en á árinu 2008 hefði enn verið unnt að selja eignir, þótt erfitt hafi verið.

Sigurður kvaðst hafa farið ásamt formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands til London snemma árs 2008 og hafi þeir hitt þar fulltrúa margra banka. Hjá þeim hafi komið eindregið fram að íslensku bankarnir nytu ekki trausts. Þótt markaðir, sem hafi verið mjög erfiðir á þessum tíma, tækju við sér gætu íslensku bankarnir ekki reiknað með að komast þar að fyrr en verulegur bati hefði orðið. Tvær alþjóðlegar fjármálastofnanir hafi nefnt að íslenskir bankamenn væru rúnir trausti, en áhyggjurnar af bönkunum hafi verið miklar og talið að félli einn þeirra færu hinir sömu leið vegna svonefndra krosslánatengsla. Heildarmyndin hafi verið sú að staðan væri grafalvarleg. Seðlabankanum hafi verið ráðlagt að leita til erlendra seðlabanka um gjaldmiðlaskiptasamninga, en í skjóli þeirra kynnu bankarnir og ríkið að geta fengið aðgang að skuldabréfamörkuðum. Þreifingar hafi þá þegar verið byrjaðar um gerð slíkra samninga, en í framhaldi af þessu hafi seðlabankinn tekið upp viðræður við bandaríska, breska, evrópska og norrænu seðlabankana. Þegar gjaldmiðlaskiptasamningum hafði verið lokið við þrjá norræna seðlabanka í maí 2008 hafi aðstæður á hinn bóginn verið breyttar vegna vaxtahækkunar bandaríska seðlabankans og hafi markaðir þar með lokast.

Sigurður sagðist ekki hafa þekkt innlánasöfnun Landsbanka Íslands hf. á Icesave reikninga í Bretlandi frá upphafi og hafi Seðlabanki Íslands ekki fylgst náið með henni fyrr en blikur hafi verið komnar á loft. Framan af hafi verið litið á þetta sem jákvæða leið til fjármögnunar úr því að bankarnir hafi ekki haft aðgang að erlendum lánamörkuðum, en eftir á að hyggja mætti segja að þessi starfsemi hafi að einhverju leyti haldið lífi í bönkunum og hefði því verið erfitt að taka fyrir hana, enda hefði allt bankakerfið hrunið við fall Landsbanka Íslands hf. Bankinn hafi staðið af sér töluvert útstreymi af Icesave reikningunum í mars 2008 og hafi þótt mega hafa það sem próf á áreiðanleika. Í samanburði við erlenda banka, sem hafi orðið fyrir áhlaupi á þessum tíma, hafi Icesave reikningarnir haft þann kost að úttektir af þeim hafi farið fram á netinu og hafi því ekki verið unnt að birta í fjölmiðlum myndir af fólki, sem væri að taka fé sitt út úr bankanum. Seðlabankanum hafi verið ljóst að þessar innstæður væru kvikar og fylgst vel með þessu framan af árinu 2008, en neikvæð umfjöllun breskra fjölmiðla um íslenska bankakerfið á þeim tíma hafi ekki virst hafa mikil áhrif.

Sigurður kvaðst kannast við að annar bankastjóra Landsbanka Íslands hf. kunni að hafa látið orð falla á fundi með bankastjórn Seðlabanka Íslands 30. mars 2008, sem Sigurður var viðstaddur, um að mjög litlar líkur væru á að íslenska bankakerfið kæmist gegnum erfiðleika, sem þá hafi staðið yfir. Viðhorf þessa bankastjóra hafi á hinn bóginn sveiflast mjög til á árinu 2008 og hann rætt um það í mars að ástandið væri erfitt, en mánuði síðar fullyrt að bankakerfið myndi hafa þetta af, enda hafi þá aftur verið kominn vöxtur í Icesave reikningana. Sagði Sigurður að enginn hafi þá talið að ástandið væri algjörlega vonlaust. Hann kvað það hafa komið fram á fundinum að unnið væri að því að flytja Icesave reikningana úr útibúi bankans í London til dótturfélags og gæti tekið um sex mánuði að ljúka því. Í júní 2008 hafi á hinn bóginn komið fram á fundi með stjórnendum Landsbanka Íslands hf., sem hann hafi verið viðstaddur, að þessi flutningur gengi ekki sökum þess að breska fjármálaeftirlitið sætti sig ekki við þær eignir, sem bankinn hafi ætlað að láta fylgja innstæðunum til breska dótturfélagsins. Undir Sigurð voru borin ummæli í framlögðu endurriti af skýrslu hans fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um að annar bankastjóra Landsbanka Íslands hf. hafi sagt við þetta tækifæri að útlánasafn, sem bankinn hafi ætlað að flytja til dótturfélags, væri þannig að enginn myndi sætta sig við það nema kannski íslenska fjármálaeftirlitið. Sagði Sigurður af þessu tilefni að með þessu hafi meðal annars verið átt við að breska fjármálaeftirlitið hafi ekki haft skilning á verðmæti lánasafns, sem tengt hafi verið íslenskum sjávarútvegi, enda hafi sjávarútvegur ekki verið arðbær atvinnugrein í Bretlandi.

Aðspurður hvort rætt hafi verið innan Seðlabanka Íslands um að beita Landsbanka Íslands hf. þrýstingi til að knýja á um flutning Icesave reikninganna til dótturfélags svaraði Sigurður því til að hann hafi verið í miklum samskiptum við fjárstýringu Landsbanka Íslands hf. og einnig bankastjórn seðlabankans við bankastjórana þar. Hann teldi að Landsbanki Íslands hf. hafi verið beittur þrýstingi til að koma söfnun innlánanna í betra horf og hafi bankinn leitast við að auka bindingu þeirra. Eftir sem áður hafi aðrar leiðir til að fjármagna bankann verið lokaðar. Hann kvað það hafa verið rætt innan seðlabankans í febrúar 2008 hvort ríkið gæti borið ábyrgð á þessum innlánum og hafi sú afstaða komið fram að slík ábyrgð væri ekki fyrir hendi, enda yrði hún ekki til nema með lögum. Á hinn bóginn hafi verið uppi áhyggjur af því hvaða afleiðingar þetta gæti haft fyrir bankakerfið. Það hafi ekki verið skilningur starfsmanna seðlabankans að ríkinu bæri að styðja Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta ef til þess kæmi að á ábyrgð sjóðsins reyndi.

24[breyta]

Vitnið Stefán Svavarsson kvaðst fyrir dómi hafa verið ráðinn sem innri endurskoðandi Seðlabanka Íslands haustið 2006 og gegnt því starfi í þrjú ár. Aðspurður hvort bankastjórn seðlabankans hafi farið þess á leit að hann gerði könnun á reikningsskilum banka sagðist Stefán hafa rætt við hana um ýmsa liði í reikningum bankanna og þá einkum varðandi gengismun og skyld atriði, en hann hafi ekki verið beðinn um að gera könnun á reikningunum. Hann minntist þess ekki að hafa skilað skýrslu um þetta, heldur hafi fremur verið um orðaskipti að ræða. Hann kvaðst ekki hafa haft ástæðu til að draga í efa reikninga bankanna, sem hafi verið áritaðir af endurskoðendum um að þeir væru í samræmi við lög og reikningsskilastaðla.

25[breyta]

Vitnið Sylvía K. Ólafsdóttir, sem gegndi starfi forstöðumanns viðbúnaðarsviðs Seðlabanka Íslands á þeim tíma sem ákæra í máli þessu varðar, bar fyrir dómi að hún hafi komið þar til starfa eftir tímabilið þegar bankarnir gengu í gegnum erfiðleika á fyrri hluta árs 2006. Í nóvember 2007 hafi hún á hinn bóginn farið að gera sér grein fyrir því að bankakerfið væri í yfirvofandi hættu og hafi á þeim tíma verið kallaður til starfa viðbúnaðarhópur innan seðlabankans, sem hún hafi setið í. Hún hafi síðan styrkst í þessari trú þegar lausafjárpróf og álagspróf hafi verið gerð. Tillögur, sem seðlabankinn hafi fengið frá Andrew Gracie í febrúar 2008, hafi verið hafðar að leiðarljósi og hafi vinna hennar í framhaldi af því snúist um að gera seðlabankann viðbúinn Á þessum tíma hafi markaðsfjármögnun, sem bankarnir hafi verið mjög háðir, verið veiki hlekkurinn hjá þeim. Markaðir hafi þá nánast verið lokaðir og því augljós hætta á fjármálaáfalli. Henni hafi einnig verið kunnugt um áhyggjur innan seðlabankans af undirliggjandi eiginfjárvanda bankanna og útlánaáhættu. Þar hafi legið fyrir erlend gögn um samþjöppun í útlánum íslensku bankanna, en henni hafi ekki verið kunnugt um hvort þau hafi sérstaklega verið tekin saman fyrir seðlabankann. Henni hafi ekki þótt Fjármálaeftirlitið taka nægilegt tillit til áhættu af þessari samþjöppun við mat á gæðum útlána bankanna og eins hafi verið uppi áhyggjur í seðlabankanum af eignarhaldsfélögunum og tryggingum fyrir skuldum þeirra.

Sylvía sagði setu í viðbúnaðarhópi Seðlabanka Íslands ekki hafa verið sitt aðalstarf, en hún hafi jafnframt séð um greiningar og rannsóknir varðandi fjármálstöðugleika. Tryggvi Pálsson og Sigurður Sturla Pálsson hafi einnig verið í viðbúnaðarhópnum, en aðrir sérfræðingar hafi verið kallaðir til og hafi flest svið innan bankans komið að honum á einhvern hátt. Þessi hópur hafi vaktað fjármögnum bankanna, skoðað endurgreiðsluferla og farið yfir lausafjárstöðu og innlánasöfnun, en að auki gert greiningar og sviðsmyndir og sinnt almennum viðbúnaðarstörfum. Samstarf hópsins við Fjármálaeftirlitið hafi einkum verið fólgið í gagnaöflun. Aðspurð hvort seðlabankinn og fjármálaeftirlitið hafi unnið að samræmingu viðbragða sinna við hugsanlegri kerfisáhættu á fjármálamarkaði í samræmi við ákvæði samstarfssamnings þeirra frá 3. október 2006 bar Sylvía að lítið hafi verið unnt að gera í því efni þegar komið var fram á árið 2008 og að auki hafi mat á slíkri áhættu verið skammt á veg komið á alþjóðlegum vettvangi. Viðbúnaðarhópur seðlabankans hafi ítrekað skoðað kerfisáhættu og samspil áhættuflokka og gert sviðsmyndir af því hvernig mál gætu þróast, en notast hafi verið við fyrirmynd frá Englandsbanka í því skyni.

Sylvía kvaðst hafa þekkt úr nokkurri fjarlægð til starfa samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Hún hafi ásamt starfsmönnum frá Fjármálaeftirlitinu gert sviðsmyndir af fjármálaáfalli og tekið saman yfirlit um hugsanleg úrræði stjórnvalda í þessum efnum, en henni hafi verið kunnugt um að samráðshópurinn hafi fengið þetta skjal. Aðspurð hvað hún hafi talið að yrði næsta skref sagði hún að úrræði og valkostir hafi virst fáir og engir þeirra góðir. Hafi verið lagt til að myndaður yrði aðgerðahópur, enda hafi samráðshópurinn einungis verið ráðgefandi og ætlaður til upplýsingamiðlunar, en ekki til beinna aðgerða. Hún sagðist ekki hafa talið það vera hlutverk samráðshópsins að gera aðgerðaáætlun eða viðbragðsáætlun vegna hugsanlegs fjármálaáfalls, enda hafi hún komist að því að hann hafi ekki haft heimildir til slíks. Hún hafi því séð fyrir sér að búin yrði til sameiginleg viðbragðsáætlun með skrá um tengiliði og almennar aðgerðaáætlanir ef til fjármálaáfalls kæmi, en einnig að mikilvægt yrði að þeir, sem kæmu að málum, væru vanir að vinna saman og til þess væru viðbúnaðaræfingar. Hún kvaðst hafa aflað sér viðlagahandbókar frá seðlabanka Írlands og notað hana sem grunn að samsvarandi handbók fyrir Seðlabanka Íslands, en vinna hennar hafi þannig aðallega snúið að honum. Hún kvaðst ekki vita hvort einhver víðtækari viðbragðsáætlun hafi verið til þegar bankarnir hrundu, en gat þess að ekki væri víst að slíkt hefði nokkru skilað.

Sylvía sagði það hafa verið rætt innan Seðlabanka Íslands að samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað væri veikburða. Því hafi verið velt upp hvort taka ætti saman lista um aðgerðir, en frá því hafi verið horfið sökum þess að talið hafi verið að slík vinna ætti ekki heima hjá samráðshópnum. Hún kvaðst telja Tryggva Pálsson hafa sent minnisblað um þetta til samráðshópsins, en ekki vita hvort einhver viðbrögð hafi orðið við því. Aðspurð hvort hún hafi talið vinnu af þessum toga hafi strandað innan samráðhópsins á afstöðu ráðuneytisstjóranna í fjármálaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu sagði Sylvía það hafa verið sína tilfinningu, en fyrir því hefði hún enga vissu.

Sylvía greindi frá því að reglubundnar viðlagaæfingar hafi farið fram innan Seðlabanka Íslands vegna greiðslumiðlunar, en ekki vissi hún til þess að samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað hafi gert áætlun um greiðslumiðlun ef til fjármálaáfalls kæmi. Hún kvað viðbúnaðarhóp seðlabankans heldur ekki hafa komið að gerð viðlagaáætlunar vegna greiðslu- og uppgjörskerfa, en slík kerfi hafi þó verið á verksviði bankans.

Sylvía kvað erfitt að meta það hvort vinna hafi verið vel samhæfð við meðferð á beiðni Glitnis banka hf. um aðstoð síðla í september 2008. Fólk hafi gengið fljótt og vel til verka við að taka ákvarðanir um atriði, sem þar komu upp, og væri útilokað að meta hvað hafi verið gott eða slæmt í því sambandi, en allir hafi virst óþolinmóðir og vilja gera eitthvað, þótt lítið hafi verið hægt að gera.

26[breyta]

Vitnið Guðjón Rúnarsson kvaðst fyrir dómi hafa gegnt starfi framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja á þeim tíma, sem ákæra í málinu snýr að. Hafi þessi samtök að markmiði að vinna að almennum starfsskilyrðum þessarar greinar og vera málsvari fyrirtækjanna í sameiginlegum hagsmunamálum, en ekki einstökum viðskiptum.

Guðjón kvað samtökin ekki hafa orðið þess vör að rætt hafi verið um að stjórnvöld væru á árinu 2008 að þrýsta á stóru íslensku bankana þrjá að draga úr stærð sinni eða flytja höfuðstöðvar sínar úr landi. Um slíkt hafi stjórnvöld heldur ekki rætt við samtökin, en innan þeirra hafi verið ólík fyrirtæki, sem sennilega hafi haft ólíkar skoðanir. Hann hafi á hinn bóginn fundið það að bankarnir hafi haft áhyggjur af ástandinu og mætti ætla að þeir hefðu fagnað því að geta dregið saman seglin. Um þetta hafi heldur ekki verið rætt innan samtakanna, en þess yrði að minnast að í röðum þeirra hafi verið fyrirtæki, sem stóðu í samkeppni.

Guðjón sagðist hafa á þessum tíma átt samskipti við ákærða á fundi 14. febrúar 2008, þar sem fulltrúar fjármálafyrirtækjanna hafi lýst yfir áhyggjum sínum og rætt hafi verið um hvað gera mætti. Hann minntist þess ekki nákvæmlega hvort stjórnvöld hafi þar óskað eftir tilteknum aðgerðum fjármálafyrirtækjanna, enda hafi margt verið rætt. Líklegra væri að slíkt hefði verið borið upp í viðræðum við einstaka fyrirtæki en á fundi af þessari stærð. Guðjón kannaðist við bréf samtakanna til ákærða 25. janúar 2008, en það hafi verið ritað til að vekja athygli á nokkrum atriðum, sem samtökunum hafi staðið uggur af.

27[breyta]

Vitnið Þorsteinn Már Baldvinsson kvaðst fyrir dómi hafa tekið sæti í stjórn Glitnis banka hf. á aðalfundi seint í febrúar 2008 og í framhaldi af því verið var kosinn formaður hennar, en þeirri stöðu hafi hann gegnt til 7. október sama ár. Þorsteinn bar að stjórnin hafi tekið ákvörðun um að grípa til aðgerða til að draga úr stærð bankans og hafi starfsmenn hans unnið eftir þeirri stefnu. Í þessu skyni hafi um 200 starfsmönnum verið sagt upp á tímabilinu frá apríl til júní 2008 og bankinn jafnframt unnið að sölu eigna og lokun starfsstöðva. Sú stefna hafi einnig verið mörkuð að stærstu skuldanautar bankans yrðu að koma eignum í verð og draga þannig úr skuldum við hann. Þá hafi á vormánuðum 2008 farið í hönd vinna við að selja starfsemi bankans í Noregi og hafi henni nánast verið lokið þegar væntanlegur kaupandi hafi tilkynnt 23. september á því ári að hann væri hættur við kaupin. Þorsteinn kvaðst hvorki vita hvort stjórnvöld hafi óskað eftir upplýsingum um framvindu þessarar vinnu né hafa skoðun á því hvort þessi sala hefði tekist ef vinnan hefði byrjað fyrr, en með henni hefði verið unnt að losna við lán að fjárhæð 900.000.000 evrur.

Þorsteinn kvaðst hafa átt fund með ákærða 22. mars 2008, en minntist þess ekki hvað þeir hafi rætt um. Þeir hafi aftur átt fund í ágúst og 27. september 2008, en viðfangsefnið á síðasta fundinum hafi verið skýrt, enda öllum ljóst hvert stefndi. Þá sagðist Þorsteinn hafa í eitt eða tvö skipti farið til fundar í Seðlabanka Íslands. Á engum þessara funda með ákærða eða í seðlabankanum hafi verið rætt eða þrýst á um aðgerðir til að minnka Glitni banka hf. Stjórn félagsins hafi ákveðið sjálf að leggja í aðgerðir í því skyni og hafi stjórnvöld á engan hátt komið að því. Þau hafi heldur ekki sýnt þessu áhuga eða óskað eftir upplýsingum með því að ræða við sig.

Þorsteinn greindi frá því að Glitnir banki hf. hafi tilkynnt í ágúst eða september 2008 að til stæði að sameina hann og Byr sparisjóð. Þetta hafi ekki verið rætt sérstaklega í stjórn Glitnis banka hf., en Þorsteinn kvaðst hafa verið þeirrar skoðunar að rétt væri til lengri tíma litið að sameina fjármálafyrirtæki til að lækka rekstrarkostnað og taldi hann sig hafa greint ákærða frá þeirri skoðun. Þá minntist Þorsteinn þess að hafa hitt Tryggva Þór Herbertsson á fundi með ákærða í ágúst 2008 og hafi Tryggvi svo efnt til fundar Þorsteins með formanni stjórnar Landsbanka Íslands hf., þar sem rætt hafi verið lauslega um hvort æskilegt yrði að sameina þann banka og Glitni banka hf. Hann hafi litið svo á að Landsbanki Íslands hf. hefði ekki áhuga á þessu og hafi það ekki verið rætt meira.

28[breyta]

Vitnið Lárus Welding kvaðst fyrir dómi hafa tekið við starfi forstjóra Glitnis banka hf. 1. maí 2007 og gegnt því fram í byrjun október 2008. Hann kvaðst ekki minnast þess að stjórnvöld hafi óskað eftir tilögum frá bankanum um hvernig hann gæti minnkað efnahagsreikning sinn eða flutt höfuðstöðvar sínar úr landi, en hann hafi á þessum tíma átt reglubundin samskipti við Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands. Mikil breyting hafi orðið á rekstri bankans í byrjun árs 2008, en þá hafi erlendir skuldabréfamarkaðir verið lokaðir og stjórn hans og starfsmenn ákveðið að breyta um stefnu. Lárus kvaðst hafa átt nokkra fundi með stjórnvöldum um þetta, meðal annars með ákærða í janúar 2008 vegna skuldabréfaútboðs, en þar hafi þeir farið yfir stöðuna og átt gott og opið spjall. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við annað en að stjórnvöld væru sammála fyrirætlunum bankans. Í bankanum hafi í framhaldi af þessu verið lagt í mikla vinnu og hafi aðgerðaáætlun verið gerð um hvernig unnt yrði að fjármagna hann við þessar breyttu aðstæður, en um þetta hafi bankinn ekki fengið sérstakar fyrirskipanir. Lárus kannaðist aðspurður við að hafa kallað starfsmenn bankans til fundar 16. mars 2008 til að leggja drög að þessu starfi. Áætlunin hafi verið kynnt stjórnvöldum, en með henni hafi verið stefnt að því að selja eignir og beita eignatryggðri fjármögnun. Á þessum grunni hafi verið reynt að draga úr útlánum og selja stóran hluta af starfsemi bankans í Noregi. Vinna við þá sölu hafi byrjað í mars 2008 og hafi verið fundað fyrst með væntanlegum kaupanda 27. apríl sama ár. Þessu hafi miðað vel og áreiðanleikakönnun verið fengin, en í framhaldi af því hafi verið gerður samningur um sölu á þessari starfsemi fyrir því sem næst bókfært verð hennar, sem hefði skilað Glitni banka hf. um 100.000.000.000 krónum í erlendum gjaldeyri. Vegna ákvæða í lánssamningum hafi þó orðið að leita samþykkis þriggja lánardrottna fyrir sölunni og hafi einn þeirra tilkynnt eftir nokkra bið að hann legðist gegn henni. Af þeim sökum hafi kaupandinn dregið sig tilbaka 23. september 2008, en Lárus taldi í þessu ljósi að ekki hafi skipt sköpum að tilraunir til þessarar sölu hafi ekki byrjað fyrr. Auk þessa hafi verið reynt að selja lánasöfn í Luxemborg og hafi starfsemi í Kaupmannahöfn verið hætt. Allt frá árinu 2007 hafi verið unnið að því að skrá bankann á norskum hlutabréfamarkaði, en frá því hafi verið horfið og reynt þess í stað að afla hlutafjár frá erlendum fjárfestingarsjóðum, þar sem vonir hafi staðið til að fá allt að 750.000.000 bandaríkjadali á árinu 2008. Einnig hafi verið rætt töluvert um sameiningu banka á þessu tímabili og þá sérstaklega um sameiningu Glitnis banka hf. og Landsbanka Íslands hf., en ekki hafi þó verið alvara í viðræðum um það. Samkomulag hafi svo tekist um að sameina Byr sparisjóð við Glitni banka hf. í september 2008. Hann sagði aðspurður að ekki hafi komið til tals að flytja höfuðstöðvar bankans úr landi, en þó hafi lauslega verið rætt um að sú gæti orðið endanlega niðurstaðan ef félagið yrði skráð á norskum hlutabréfamarkaði.

Að öðru leyti en að framan greinir sagðist Lárus hafa átt fund með ákærða ásamt fulltrúum fjármálafyrirtækja 14. febrúar 2008 og síðan aftur ásamt stjórnendum bankanna til að ræða almennt um hluti. Þá kvaðst hann einnig hafa fundað af augljósu tilefni með ákærða 27., 28. og 30. september 2008. Lárus kvað fundinn 14. febrúar 2008 aðallega hafa snúist um að fyrirhuguð kaup Kaupþings banka hf. á hollenska bankanum NIBC myndu ganga tilbaka og yrði það til að leysa málin. Hann minntist þess ekki að þar hafi verið rætt um að bankarnir yrðu að draga úr stærð sinni, en kannaðist aðspurður við að annar bankastjóra Landsbanka Íslands hf. hafi þar sagt að stærð íslenska bankakerfisins væri langtímavandi og hafi það í stórum dráttum verið rétt.

Lárus sagði Glitni banka hf. hafa átt náið samstarf við Seðlabanka Íslands um áðurnefnd verkefni og hafi almennt tekist góð samstaða um þau. Aðspurður í tilefni af ummælum, sem höfð voru eftir honum í framlögðu endurriti af skýrslu hans fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um að seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hefðu átt að kalla stjórnendur bankanna meira til funda til að setja þeim skýrar reglur, sem þeir hefðu svo getað kynnt sem fyrirmæli við stærstu hluthafa bankanna, kvaðst Lárus ekki mundu segja að eitthvað hafi skort hér á, en hefði eitthvað komið skýrt fram þá hefði verið brugðist við.

Lárus lýsti því að Glitnir banki hf. hafi leitað 25. september 2008 til Seðlabanka Íslands og óskað eftir svari við því hvort seðlabankinn kynni að veita bankanum lán gegn veði í norsku lánasafni. Hann hafi ásamt formanni stjórnar bankans átt fund með formanni bankastjórnar seðlabankans 26. september 2008 og hafi þá verið rætt um að unnið yrði að því að finna leiðir til að verða við ósk bankans, en af þessu hafi þeir svo ekki heyrt frekar fyrr en að kvöldi 28. sama mánaðar. Hann kvaðst ekki vera réttur maður til að gefa skýringar á því að niðurstaðan hafi þá orðið sú að ríkið hafi með tilteknum skilmálum boðist til að kaupa 75% hlut í Glitni banka hf. Lárus sagðist ekki vita hvernig ákærði kunni að hafa komið að þessu máli, en þeir hafi átt fund 27. september 2008 og sér þá virst eins og öll vinna við þetta færi fram í seðlabankanum.

29[breyta]

Vitnið Jón Guðni Ómarsson kvaðst fyrir dómi hafa starfað við fjárstýringu hjá Glitni banka hf. frá fyrri hluta árs 2008 og fengist sérstaklega við ný fjármögnunarverkefni, sem hafi miðað að því að nýta eignir bankans til að afla fjár eftir margs konar leiðum. Á árinu 2008 hafi bankinn farið að leggja hluta af eignum sínum í sérstök hlutafélög, sem stofnuð hafi verið í Bretlandi til að halda utan um þær, og hafi síðan félögin gefið út skuldabréf, sem hafi mátt nota í veðlánaviðskiptum hjá evrópska seðlabankann. Með þessu hafi eignirnar ekki verið teknar af efnahagsreikningi bankans og hafi þær því eftir sem áður haft áhrif á eiginfjárstöðu hans. Á þennan hátt hafi reynst unnt að fá veðlán út á illseljanlegar eignir, bæði erlendar og íslenskar, og fjárhæð lánanna numið meiru en hægt hefði verið að selja þær fyrir.

Jón kvað þessa starfsemi hafa verið lið í aðgerðum, sem stjórnendur Glitnis banka hf. hafi gert áætlanir um á fyrri hluta ársins 2008 og fjölmargir starfsmenn hans tekið þátt í. Jón sagðist ekki geta séð að bankinn hefði getað gert nokkuð fleira til að afla fjár með ráðstöfun eða nýtingu eigna sinna en ráðgert hafi verið í þessum áætlunum.

30[breyta]

Vitnið Vilhelm Már Þorsteinsson kvaðst fyrir dómi hafa starfað framan af árinu 2008 sem yfirmaður við viðskiptaþróun Glitnis banka hf., en á því starfsviði hans hafi verið fengist við hagræðingaraðgerðir, verkefni tengd fjármögnun bankans og aðgerðir til að fá viðskiptavini til að draga úr skuldum sínum við bankann. Í maí 2008 hafi hann tekið við deild innan bankans, sem hafi fengist við fjárstýringu, og unnið þar fram að falli hans.

Vilhelm sagði að unnið hafi verið að fjölmörgum verkefnum á þessum tíma til að draga úr stærð Glitnis banka hf. og hafi bankinn þar að mestu leyti notið aðstoðar erlendra fjárfestingarbanka. Þegar liðið hafi á árið 2008 hafi meira en 40 starfsmenn bankans unnið að þessu. Stærsta verkefnið hafi verið fyrirhuguð sala á starfsemi bankans í Noregi eða hluta hennar. Erlendur ráðgjafi bankans hafi talið hagfelldara að selja aðeins hluta starfseminnar, sem myndi skila jafn miklu lausu fé og sala hennar allrar, enda yrði sú aðgerð einfaldari og hugsanlegir kaupendur fleiri. Í maí eða júní 2008 hafi að undangengnum samningaviðræðum við nafngreint félag borist skuldbindandi tilboð í þessar eignir. Glitnir banki hf. hafi þurft að fá samþykki fyrir sölunni vegna sambankaláns frá þremur erlendum bönkum og hafi tveir þeirra samþykkt það strax, en sá þriðji dregið svar sitt fram í seinni hluta ágúst 2008 og þá hafnað beiðninni. Kaupandinn hafi þá allt að einu viljað halda kaupunum uppi að því leyti, sem þau væru ekki háð samþykki lánveitenda Glitnis banka hf., en horfið svo frá því eftir miðjan september 2008. Þessi kaup, sem hafi verið stærsta verkefnið af þessum toga, hefðu getað skilað Glitni banka hf. miklu lausafé. Meðal annarra verkefna, sem fengist hafi verið við á þessum tíma, hafi verið samdráttur á starfsemi Glitnis banka hf. í Luxemborg, niðurskurður í rekstri og sala á lánum til norska olíuiðnaðarins. Einnig hafi verið farið yfir lánasafn bankans til að kanna hvort þar væru einhverjar markaðshæfar eignir og hvort unnt væri að selja hlutdeild bankans í sambankalánum. Vilhelm kvað Glitni banka hf. hafa veitt Seðlabanka Íslands upplýsingar um þessar aðgerðir og taldi hann að ánægja hafi þar verið með þessi verk.

Vilhelm kvað mikilli vinnu hafi verið varið í verkefni til að fá nýja hluthafa í Glitni banka hf. og hafi það stærsta snúist um að fá svokallaða hliðarskráningu fyrir félagið á hlutabréfamarkaði í Noregi. Þrír erlendir bankar, sem hafi unnið að þessu, hafi á hinn bóginn talið í janúar 2008 að skynsamlegast væri að hverfa frá þeirri ráðagerð vegna markaðsaðstæðna, en leita þess í stað eftir nýju hlutafé frá alþjóðlegum fjárfestingarsjóðum. Í framhaldi af því hafi borist fjárfestingartilboð og hafi verið unnið frekar að þessu verkefni frá apríl fram í ágúst 2008, þegar tilboðsgjafinn hafi dregið sig í hlé.

Aðspurður sagði Vilhelm að Glitnir banki hf. hafi haft samning við Deutsche Bank AG um lánalínu, sem grípa mætti til við erfiðar aðstæður. Þegar til hafi átt að taka haustið 2008 hafi Glitni banka hf. verið meinað að nota þessa lánalínu og hafi þar fylgt sögu að öllum aðferðum yrði beitt til að hindra notkun hennar.

31[breyta]

Vitnið Kristján Óskarsson sagðist fyrir dómi hafa starfað á árinu 2008 sem framkvæmdastjóri lána og fjármála Glitnis banka hf., en undir höfuðstöðvar bankans, þar sem hann starfaði, hafi heyrt fjármögnun og eignastýring, svo og útibúanet. Í lok október 2008 hafi hann síðan tekið sæti í skilanefnd bankans.

Kristján kvaðst ekki hafa komið í störfum sínum að verkefnum við sölu eigna eða til að auka aðgengi Glitnis banka hf. að lausafé, en hann hafi á síðari stigum fengið staðfest að á árinu 2008 hafi verið unnið að sölu dótturfélaga bankans í Noregi og Luxemborg. Einnig að búnir hafi verið til svokallaðir pakkar úr lánasöfnum bankans og veðlán verið fengin út á þá, en þetta hafi verið algeng leið til að afla lausafjár með eignum, sem erfitt hafi verið að selja. Yrði að hafa í huga að á tímabilum þegar markaðsverð eigna væri lágt gæti sala þeirra breytt lausafjárvanda í eiginfjárvanda, en eiginfjárhlutfall banka væri almennt mjög lágt. Í efnahagsreikningi Glitnis banka hf. hafi þetta hlutfall verið um 5% og hefði þá ekki þurft meira til að þurrka það út en að selja eignir bankans með að meðaltali 5% afslætti. Vegna aðstæðna á markaði hafi ekki verið unnt á þessum tíma að fá sanngjarnt verð fyrir eignir, jafnvel þótt þær væru góðar. Við aðstæður sem þessar yrði því að losa um fé með öðrum aðferðum en sölu eigna og þá helst með því að taka veðlán út á þær. Kristján kvaðst telja að þessum aðferðum hafi víða verið beitt við fjármögnun banka á árinu 2008.

Kristján sagði að almennt væri stór hluti eigna banka illseljanlegur og hafi þetta meðal annars átt við um útlán Glitnis banka hf. til viðskiptavina, sem hafi numið um ⅔ hlutum eigna hans. Við fall bankans hafi innlendi hluti starfseminnar verið fluttur til nýs banka, en sá erlendi orðið eftir. Frá falli bankans hafi verð fyrir góðar eignir reynst það lágt að hagstæðara hafi þótt að halda í þær og bíða til dæmis fram að gjalddaga útlána, enda næðu tilboð, sem bærust í slíkar eignir, ekki sannvirði þeirra. Að auki væru lánasöfn almennt ekki markaðshæf til sölu nema lánssamningarnir fylgdu tilteknum stöðlum, en svo hafi ekki verið nema að litlu leyti með útlán Glitnis banka hf. Til að geta selt þau hefði afsláttur því þurft að verða miklu meiri en almennt gerðist.

32[breyta]

Vitnið Heimir V. Haraldsson kvaðst fyrir dómi hafa tekið sæti í skilanefnd Glitnis banka hf. haustið 2008 og starfað þar til ársloka 2011. Við upphaf slitameðferðar á bankanum hafi lausafé verið lítið, en samkvæmt uppgjöri, sem tók mið af stöðu bankans í lok ársins 2008 eftir að vissar eignir og skuldbindingar höfðu verið færðar til nýs banka, hafi skuldir þess eldri verið um 2.000.000.000.000 krónum hærri en andvirði eigna. Skilanefndin hafi frá byrjun fylgt þeirri stefnu að selja ekki eignir, enda hafi markaðsverð þeirra verið mjög lágt og fjölmargir gefið sig fram með tilboð, sem hafi aðeins numið broti af bókfærðu verði eignanna. Ekki hafi verið ljóst að hvaða marki þetta yrði rakið til markaðsverðs eignanna eða þeirrar staðreyndar að bankinn væri í slitameðferð. Samkvæmt framlagðri samantekt, sem Heimir hafi gert um áhrif af sölu eigna fyrir undirverð á eigið fé Glitnis banka hf. eins og það hafi staðið fyrir upphaf slitameðferðar, hafi lítið þurft að koma til svo að eigið féð myndi þurrkast út. Hann taldi að markaðsverð eigna bankans hafi reyndar verið komið að miklu leyti niður fyrir bókfært verð þeirra þegar um sumarið 2008, en þá hafi svokallað CAD hlutfall vegna eigin fjár bankans verið um 11% og lögbundið lágmark á þeim tíma 8%. Hafi því bókfært andvirði eigna bankans ekki mátt rýrna um meira en um 60.000.000.000 krónur til að eigið fé hans færi niður fyrir lágmarkið. Hefði bankinn selt eign á þessum tíma fyrir lægri fjárhæð en nam bókfærðu verði hefði slíkt innleyst tap þegar haft áhrif til lækkunar á eigið fé hans. Í framhaldi af því myndi hafa risið spurning um hvort færa þyrfti niður bókfært verð sambærilegra eigna, en slík niðurfærsla myndi um leið hafa leitt til lækkunar á eigin fé bankans. Ekki væri ljóst að hvaða marki hefði þurft að færa niður bókfært verð eigna bankans á þennan hátt, enda hafi margar þeirra ekki talist til svonefndra markaðseigna, en eflaust hefði orðið að gera það að einhverju leyti. Þá hafi heimildir til að selja ýmsir eignir bankans verið háðar margvíslegum takmörkunum, svo sem vegna áhvílandi veðréttinda og skilmála í sambankalánum, sem bankinn hafi átt hlutdeild í. Aðspurður kvaðst Heimir telja að álykta mætti af núverandi verði á skuldbindingum Glitnis banka hf. í viðskiptum lánardrottna að á markaði sé búist við greiðslu á um 30% af fjárhæð lýstra krafna við slit á bankanum.

33[breyta]

Vitnið Sigurður Einarsson, sem var formaður stjórnar Kaupþings banka hf. á tímabilinu sem ákæra í málinu varðar, bar fyrir dómi að vandamál, sem tengdust stærð íslenska bankakerfisins í samanburði við umfang hagkerfisins, hafi almennt ekki verið rædd innan Kaupþings banka hf. nema í sambandi við málefni þess banka, en í því tilliti hafi hann verið mjög stór. Að þessu hafi verið hugað þegar á árinu 2006 og meðal annars kannað hvort breyta ætti bankanum í svokallað Evrópufyrirtæki, sem hafi þó ekki náð lengra. Einnig hafi verið hugað að því að flytja eignir til erlendra starfstöðva bankans og þar með nær uppruna sínum. Þessu til viðbótar hafi komið til skoðunar að flytja höfuðstöðvar bankans úr landi, en um það hafi verið leitað til erlendrar lögmannsstofu, sem hafi skilað skýrslu um þetta í júní 2008, og síðan rætt við breska fjármálaeftirlitið í september sama ár, sem hafi tekið þessum áformum býsna vel. Þetta hafi þótt vera raunhæfar hugmyndir, en tímasetningar hafi verið óljósar og ekki rætt um þetta sem spurningu um viku eða mánuði. Tvenns konar verkefni hafi verið til umræðu innan bankans í tengslum við þetta. Annað þeirra hafi snúið að því að flytja norrænar eignir til bankans FIH, dótturfélags Kaupþings banka hf. í Danmörku, og aðrar erlendar eignir til dótturfélags í Bretlandi, Singer & Friedlander. Hitt verkefnið hafi snúist um flutning á höfuðstöðvum bankans til annars lands. Fyrrnefnda verkefnið hefði fyrirsjáanlega tekið skemmri tíma og hefði það að öllum líkindum haft talsverð áhrif á stærð íslenska bankakerfisins.

Sigurður kvað Kaupþing banka hf. ekki hafa átt í erfiðleikum á fyrri hluta árs 2006 og hafi þar ekki verið litið svo á að kreppa væri skollin á. Neyðarfundir, sem stjórnvöld hafi átt með stjórnendum banka af þessu tilefni, hafi ekki snúið að Kaupþingi banka hf., heldur Glitni banka hf. og Landsbanka Íslands hf. Á vandamálum, sem tengst hafi svokölluðum krosseignatengslum og rætt hafi verið um á þessu tímabili, hafi verið tekið innan Kaupþings banka hf. á árinu 2006 og hafi þeirra ekki gætt eftir það. Aðspurður hvort Kaupþing banki hf. hafi átt við lausafjárvanda að stríða á árinu 2008 sagði Sigurður að starfsemi bankans í Bretlandi hafi að fullu verið fjármögnuð með innlánum þar og dótturfélagið í Danmörku hafi að mestu verið fjármagnað á heildsölumarkaði. Það síðarnefnda hafi að einhverju leyti einnig átt við um móðurfélagið á Íslandi, þannig að innlán hafi þar ekki staðið undir útlánum. Vegna þessa hafi bankinn hafið söfnun innlána í erlendum dótturfélögum og hafi sú starfsemi staðið undir stórum hluta af endurfjármögnun bankans á árinu 2008. Á því ári hafi samráð stjórnvalda við Kaupþing banka hf. verið mjög takmarkað og hafi það sama átt við um samráð bankans við hina stóru bankana tvo. Innan Kaupþings banka hf. hafi ekki verið kunnugt um stöðu mála í mars og apríl 2008 þegar stjórnvöld hafi átt fundi með stjórnendum Landsbanka Íslands hf. vegna erfiðrar stöðu þess banka og innlánasöfnum hans í Bretlandi. Sigurður kvað það eftir á að hyggja hafa komið sér á óvart að Kaupþingi banka hf. hafi ekki verið greint frá þessu og að Landsbanka Íslands hf. hafi verið heimilað að halda áfram innlánasöfnun í Bretlandi og hefja hana síðan í Hollandi. Aðspurður hvort talið hafi verið innan Kaupþings banka hf. að vandræði hinna bankanna tveggja gætu haft áhrif á starfsemi hans svaraði Sigurður því til að alltaf hafi verið unnið að því að greina Kaupþing banka hf. frá hinum bönkunum, en stjórnendur hans hafi þó ekki gert sér grein fyrir því hversu alvarleg staða þeirra hafi verið orðin. Sigurður kvað Kaupþing banka hf. hafa á árinu 2008 átt í endurhverfum viðskiptum í seðlabanka Evrópu, en einungis með bréf, sem gefin hafi verið út af erlendum aðilum. Um sumarið 2008 hafi stjórnendur Kaupþings banka hf. verið kvaddir til fundar í Seðlabanka Íslands vegna kvörtunar um slík viðskipti íslensku bankanna frá seðlabankanum í Luxemborg. Þau viðskipti hafi þá numið samtals um 5.000.000.000 evrum, en hluti Kaupþings banka hf. í þeim hafi verið milli 500.000.000 og 700.000.000 evrur. Í framhaldi af þeim fundi hafi Kaupþing banki hf. tekið íslensk skuldabréf út úr þeim viðskiptum.

Sigurður sagði Kaupþing banka hf. hafa meðal annars selt eignir fyrir um 700.000.000 sterlingspund á árinu 2008 í viðleitni til að minnka efnahagsreikning sinn, en meira hafi þó verið hugað að því að færa eignir bankans nær uppruna sínum og fjármagna þær þar. Aðspurður um ráðagerðir Kaupþings banka hf. um að taka yfir hollenska bankann NIBC sagði Sigurður að í byrjun hafi þau kaup þótt vera góð ráðstöfun, en vegna versnandi aðstæðna á mörkuðum hafi komið upp efasemdir um það. Hann hafi átt um þetta mörg samtöl við forstjóra Fjármálaeftirlitsins og jafnframt rætt þetta við viðskiptaráðherra og bankastjóra í Seðlabanka Íslands. Hafi ítrekað verið leitað eftir því við stjórnvöld að þau létu eitthvað frá sér fara um að Kaupþingi banka hf. væri meinað að láta kaupin ganga eftir, en ekkert slíkt hafi komið fram annað en það að forstjóri Fjármálaeftirlitsins hafi greint eiganda erlenda bankans frá því í símtali að ekki væri víst að kaupin yrðu samþykkt. Að endingu hafi Kaupþing banki hf. gert samning við eigandann um að hverfa frá kaupunum. Um frekari aðgerðir, sem Kaupþing banki hf. hefði getað gripið til á árinu 2008 til að draga úr stærð sinni, sagðist Sigurður telja að auðveldlega hefði mátt selja dótturfélagið Singer & Friedlander í Bretlandi, starfsemin í Svíþjóð hafi verið seld skömmu eftir fall bankans og hafi bankinn FIH í Danmörku verið eftirsótt eign á þessum tíma.

Sigurður kvað Kaupþing banka hf. ekki hafa átt í eiginfjárvanda eða haft ástæðu til að óttast erlend fjármálaeftirlit, enda fengi ekki staðist að eignir bankans hafi verið lakari en almennt hafi verið í evrópskri bankastarfsemi. Þetta mætti meðal annars sjá af afdrifum erlendra eininga, sem hafi á sínum tíma átt undir Kaupþing banka hf., enda væri fyrrum starfsemi hans í Svíþjóð enn við lýði, það sama ætti við um danskt dótturfélag bankans, þótt þar væru nú erfiðleikar, fullar endurheimtur myndu fást við uppgjör á dótturfélagi á eyjunni Mön og hlutfall endurheimtu úr breska dótturfélaginu Singer & Friedlander yrði um 90%. Hann teldi jafnframt að hlutfall heildarendurheimtu af kröfum á hendur móðurfélaginu yrði um 80%. Yrði einnig að hafa í huga að ekki væri samræmi milli verðmætis eigna í banka, sem væri í fullri starfsemi, og við slit hans.

Sigurður lýsti þeirri skoðun að það gæfi ekki rétta mynd af ástæðunum fyrir falli bankanna að horfa aðeins til aðstæðna seinnihluta september og byrjun október 2008, enda yrði að horfa lengra aftur í tíma, að minnsta kosti að því er Kaupþing banka hf. varðar. Í því sambandi yrði að hafa í huga að á árinu 2008 hafi staðið yfir mjög alvarleg alþjóðleg kreppa og jafnframt að vaxtastefna Seðlabanka Íslands hafi knúið almenning og fyrirtæki til að taka erlend lán. Svokölluð neyðarlög hafi síðan leitt af sér mismunun lánardrottna bankanna, en loks hafi aðgerðir breskra stjórnvalda, sem hafi tekið yfir dótturfélagið Singer & Friedlander, hleypt öllum lánssamningum Kaupþings banka hf. í uppnám. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í byrjun október 2008 hafi ekki leitt af sér hrun bankanna, þótt Sigurður teldi sumar þeirra hafa verið alrangar, svo sem yfirtaka ríkisins á Glitni banka hf.

Sigurður neitaði því að stjórnvöld hafi á árinu 2008 borið upp óskir um eða beitt þrýstingi til að Kaupþing banki hf. drægi úr starfsemi sinni eða flytti höfuðstöðvar sínar úr landi. Þvert á móti hafi stjórnvöld lagt stein í götu Kaupþings banka hf. í þessum efnum með því hafna ósk um heimild til að gera upp reikninga bankans í evrum, en með því að starfsemin hafi að mestu verið erlendis hefði þetta auðveldað alla áætlanagerð og rekstur, svo og að verja eigið fé bankans. Eftir á að hyggja teldi hann að stjórnvöld hafi haft allt of lítið samráð við Kaupþing banka hf., sérstaklega í ljósi stærðar bankans, og hafi stjórnendur hans átt sárafáa fundi með Seðlabanka Íslands, þótt hann kynni ekki að greina frá fjölda þeirra. Sérstaklega aðspurður um fund sinn með tveimur bankastjórum Seðlabanka Íslands 11. júlí 2008 kannaðist Sigurður ekki við umræður á fundinum hafi verið eins og þeim er lýst í framlögðu minnisblaði starfsmanns seðlabankans. Um samskipti við viðskiptaráðherra sagði Sigurður þá hafa ræðst við í síma og átt svo fund í lok september eða byrjun október 2008. Sigurður kvaðst ásamt forstjóra Kaupþings banka hf. hafa átt fund með ákærða í framhaldi af bréfi sínu 9. apríl 2008, en einnig hafi hann hitt ákærða á fundi í júlí eða ágúst sama ár. Á þessum fundum hafi verið rætt um íslenska fjármálakerfið. Sigurður kvað bréf sitt hafa snúið að hættum, sem gætu steðjað að því á næstu mánuðum og árum, og ótta við að svikalogn, sem þá hafi ríkt, gæti breyst fljótlega. Hann hafi því talið mikilvægt að stjórnvöld yrðu viðbúin og gerðu ráðstafanir til að auka við gjaldeyrisvarasjóð seðlabankans. Á fundinum í apríl hafi ákærði hlustað vel á sjónarmið viðmælenda sinna, en ekkert hafi annað komið út úr þessu en að settur hafi verið á fundur stjórnenda Kaupþings banka hf. með formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands tveimur dögum síðar, þar sem rætt hafi verið almennt um sömu atriðin. Sigurður sagði að stjórnvöld hafi hvorki á þessum fundum né við annað tækifæri óskað eftir áætlunum eða hugmyndum frá Kaupþingi banka hf. um hvernig mætti draga úr stærð bankakerfisins. Þá minntist hann þess ekki að ákærði hafi hvatt til þess að starfsemi Kaupþings banka hf. yrði flutt úr landi.

34[breyta]

Vitnið Hreiðar Már Sigurðsson, sem var forstjóri Kaupþings banka hf. á þeim tíma sem ákæra í málinu snýr að, bar fyrir dómi að rekja mætti stækkun íslenska bankakerfisins á fyrsta áratug þessarar aldar bæði til innri vaxtar og þess að bankarnir hafi yfirtekið önnur fjármálafyrirtæki hér á landi og erlendis. Stjórnendur Kaupþings banka hf. hafi talið bankann mundu styrkjast með því að starfa á mörkuðum erlendis í stað þess að vera bundinn við lítinn og sveiflukenndan markað hér á landi og hafi þessu almennt verið vel tekið, bæði hjá stjórnvöldum og almenningi. Í Kaupþingi banka hf. hafi verið um helmingur íslenska fjármálakerfisins, en bankinn hafi síðast tekið yfir annað fjármálafyrirtæki á árinu 2005. Staðið hafi til að Kaupþing banki hf. tæki yfir hollenska bankann NIBC á árinu 2007, en hætt hafi verið við það í byrjun næsta árs. Hann kvað Kaupþingi banka hf. aldrei hafa borist formleg tilmæli frá stjórnvöldum um að minnka efnahagsreikning bankans og hafi engir fundir, minnisblöð, kynningar eða óskir komið fram um það. Á hinn bóginn hafi mátt finna það á árinu 2008 að áhyggjur væru uppi um stærð bankakerfisins og hafi því verið velt upp hvað unnt væri að gera, en ekki hafi komið fram ákveðnar tillögur eða hugmyndir. Hreiðar sagðist hafa átt nokkra fundi með ákærða, þar sem rætt hafi verið almennt um stöðuna á mörkuðum. Þar hafi ákærði ekki borið upp tillögur eða beiðnir og hafi ekkert slíkt heldur komið fram frá öðrum stofnunum eða ráðherrum. Aðspurður um fund fjögurra ráðherra með fulltrúum fjármálafyrirtækja 14. febrúar 2008 sagði Hreiðar að þar hafi aðallega verið farið almennt yfir stöðuna og hvernig hún liti út frá sjónarhóli fyrirtækjanna. Þar hafi ekki verið rætt um sölu eigna bankanna, heldur hvernig auka mætti tiltrú erlendis á íslenska fjármálakerfið, en eftir á að hyggja mætti segja að samráð milli manna hefði mátt vera meira.

Hreiðar greindi frá því að erfiðleika, sem hafi komið upp í íslenska bankakerfinu fyrri hluta ársins 2006, mætti rekja til þess að bankarnir hafi gefið út mikið af skuldabréfum á evrópskum skuldabréfamarkaði og hafi vaknað ótti um hvað gerst gæti ef sá markaður myndi lokast. Bankarnir hafi brugðist við þessu meðal annars með innlánasöfnun erlendis og snúið sér að bandarískum skuldabréfamarkaði. Evrópski skuldabréfamarkaðurinn hafi aldrei lokast alveg, en kjörin þar hafi versnað. Stjórnendur Kaupþings banka hf. hafi ekki óttast að bankarnir gætu fallið vegna þessa. Sumarið 2007 hafi á hinn bóginn skollið á alþjóðleg kreppa, sem hafi gert bankanum erfiðara fyrir við öflun erlends lánsfjár. Staðan hafi batnað á árinu 2008, bankinn hafi meðal annars fengið ný innlán að fjárhæð um 5.700.000.000 evrur og stjórnendur hans talið sig hafa fundið þar leið út úr erfiðleikum, en innlánasöfnunin hafi farið fram í dótturfélögum Kaupþings banka hf. í níu löndum og innstreymi verið jafnt. Um miðjan september 2008 hafi stjórnendurnir því talið bankann myndu komast gegnum þetta þótt erfiðir tímar væru fram undan. Um þær mundir hafi stjórnendur allra alþjóðlegra banka haft áhyggjur af stöðu mála, enda hafi skuldatryggingarálag verið hátt, lánamarkaðir erfiðir og eignaverð að lækka.

Hreiðar kvað stjórnendur Kaupþings banka hf. hafa gripið til aðgerða til að draga úr starfsemi bankans meðal annars með því að stöðva útlánavöxt á síðari helmingi ársins 2007, en engin áform hafi þó verið um að selja einingar úr bankanum. Stjórn félagsins hafi í september 2008 samþykkt tillögur um breytingar á uppbyggingu bankans með því að færa norræna starfsemi undir bankann FIH, dótturfélag Kaupþings banka hf. í Danmörku, og aðra alþjóðlega starfsemi breska dótturfélagsins Singer & Friedlander. Að baki þessu hafi verið sú hugmynd að erlendar eignir yrðu fjármagnaðar á erlendum mörkuðum, enda hafi stjórnendur bankans verið sannfærðir um að í framtíðinni myndu íslenskir bankar ekki gefa út skuldabréf á erlendum mörkuðum. Áætlað hafi verið að það tæki um þrjá mánuði að hrinda þessu í framkvæmd og hafi þetta í raun átt að verða fyrsta skrefið í átt að því að færa höfuðstöðvar Kaupþings banka hf. úr landi. Samhliða þessu hafi átt að kanna hvert yrði best að flytja höfuðstöðvarnar, en áætlað hafi verið að sá flutningur gæti tekið öllu lengri tíma. Ekki hafi verið gert ráð fyrir atbeina íslenskra stjórnvalda í þessum verkefnum og hafi hugmyndir um þau ekki verið komnar á það stig að þær yrðu bornar undir stjórnvöld. Aðspurður sagði hann ljóst að bankinn hefði átt að byrja á þessu fyrr, en ekkert yrði nú sagt um hvort þrýstingur af hendi stjórnvalda hefði þar nokkru breytt. Engu hefði skipt þótt erlendar eftirlitsstofnanir hefðu þurft að skoða bækur Kaupþings banka hf. eða gera áreiðanleikakannanir í tengslum við þessar aðgerðir, enda hefði bankinn staðist slíka skoðun og í engu verið verri en aðrir alþjóðlegir bankar. Að öðru leyti um þetta sagði Hreiðar að illfært hefði verið að selja eignir frá Kaupþingi banka hf. á árinu 2008 og hafi þróun í þá átt byrjað sumarið áður. Það hafi þó ekki verið útilokað, en selt hefði þá verið með afföllum og eiginfjárhlutfall bankans ekki batnað við það.

Hreiðar bar að stjórnendur Kaupþings banka hf. hafi upphaflega talið að kaup á hollenska bankanum NIBC yrðu mjög hagstæð, enda hefði Kaupþing banki hf. þá aukið eigið fé sitt talsvert og seljendur NIBC orðið hluthafar þar. Hlutdeild íslensku starfseminnar hefði minnkað við þetta og hafi aldrei staðið til að móðurfélagið þyrfti að fjármagna þetta dótturfélag frekar en önnur stór dótturfélög sín. Eftir undirritun kaupsamnings hafi staðan á erlendum mörkuðum á hinn bóginn versnað og hafi hann rætt við forstjóra Fjármálaeftirlitsins til að lýsa áhyggjum sínum af kaupunum. Forstjórinn hafi svo rætt við seljendurna og gert þeim grein fyrir að ekki væri sjálfgefið að leyfi fengist fyrir kaupunum frá Fjármálaeftirlitinu og með því beitt þá í raun einhverjum þrýstingi til að falla frá viðskiptunum. Niðurstaðan hafi svo orðið sú að samið hafi verið um að hætta við kaupin.

Hreiðar kvaðst ekki minnast þess sérstaklega hver viðhorf stjórnvalda hafi almennt verið til atriða, sem vörðuðu ráðagerðir Kaupþings banka hf. um samdrátt í starfsemi sinni og flutning hennar úr landi. Hann gat þess þó að það hafi valdið stjórnendum bankans vonbrigðum að hafnað hafi verið beiðni um heimild til að gera uppgjör fyrir hann í erlendum gjaldmiðli, enda hafi það haft neikvæð áhrif að þurfa að gera upp í íslenskum krónum. Hann kvað stjórnvöld ekki hafa óskað eftir tillögum frá bankanum um aðgerðir til að minnka efnahagsreikning hans, en efnahagsráðgjafi ákærða hafi á hinn bóginn tekið upp umræður haustið 2008 um samruna í bankakerfinu. Hreiðar sagðist telja þetta hafa átt rætur að rekja til ótta um stöðu Glitnis banka hf., en hann hafi um páskana 2008 lagt til að þeim banka yrði skipt upp á þann hátt að Kaupþing banki hf. tæki yfir erlendar eignir hans og Landsbanki Íslands hf. þær innlendu. Þeirri hugmynd hafi ekki verið hreyft við stjórnvöld, en líklega hafi efnahagsráðgjafanum verið greint frá þessu um haustið. Hreiðar sagðist hafa átt í talsverðum samskiptum við Tryggva Pálsson hjá Seðlabanka Íslands og hafi Tryggvi haft nokkrar áhyggjur af stöðu bankakerfisins. Hann minntist þess ekki að Tryggvi hafi þar þrýst á að ráðstafanir yrðu gerðar til að minnka efnahagsreikning Kaupþings banka hf.

Hreiðar sagðist ekki hafa haft áhyggjur af því hvort Seðlabanki Íslands yrði fær um að veita Kaupþingi banka hf. lausafjárfyrirgreiðslu, enda hafi bankinn aldrei ætlað að hann þyrfti á slíku að halda. Seðlabankinn hafi á hinn bóginn valdið stjórnendum Kaupþings banka hf. vonbrigðum þegar reynt hafi á getu hans sem lánveitanda til þrautavara í lok september 2008, enda hafi ákvörðun um að kaupa hlut í Glitni banka hf. verið röng að mati hans. Hafi seðlabankinn í raun talið bankakerfið standa svo illa, sem síðar hafi verið haldið fram, fengi ekki staðist að verja 800.000.000 evrum til að kaupa hlut í Glitni banka hf. í lok september 2008.

Aðspurður um ástæðu þess að Kaupþing banki hf. hafi fallið í október 2008 svaraði Hreiðar því til að hana mætti rekja til ákvörðunar stjórnvalda um að setja svokölluð neyðarlög, enda hafi þau falið í sér mismunun kröfuhafa eftir þjóðerni og breytta réttindaröð þeirra. Frá þeirri klukkustund, sem lögin voru sett, hafi ekki lengur verið fært að reka alþjóðlegan banka hér á landi.

35[breyta]

Vitnið Jóhannes Rúnar Jóhannsson kvaðst fyrir dómi hafa starfað sem lögmaður hjá Kaupþingi banka hf. frá ágúst 2007 til október 2008, en frá þeim tíma til loka þess árs hafi hann átt sæti í skilanefnd félagsins. Hann hafi síðan verið skipaður í slitastjórn þess frá ársbyrjun 2012. Hann kvað lítið vera að finna í skjölum Kaupþings banka hf. um ráðagerðir um flutning á hluta af starfseminni eða höfuðstöðva hans úr landi. Þó væri að finna gögn um áætlun, sem hafi miðað að því að færa norræna starfsemi Kaupþings banka hf. undir dótturfélag hans, danska bankann FIH, og aðra alþjóðlega starfsemi undir breska dótturfélagið Singer & Friedlander, og hafi verið rætt um þetta á tveimur fundum í stjórn félagsins. Á þeim fundum hafi einnig verið rætt um aðra áætlun, þar sem gert hafi verið ráð fyrir að flytja höfuðstöðvar félagsins úr landi. Jóhannes kvaðst telja að endurskipulagning á alþjóðlegri samstæðu á fjármálamarkaði eins og sú, sem fyrrnefnda tillagan hafi snúist um, myndi almennt taka tólf til átján mánuði. Í síðarnefndu tillögunni hafi verið rætt um að stofna nýtt móðurfélag í Bretlandi til að taka við starfsemi Kaupþings banka hf. og mætti ætla að slíkt hefði tekið tvö til þrjú ár, enda hefði þá þurft að afla samþykkis margra og vinna að margháttuðum greiningum. Í ljós hafi komið að breska fjármálaeftirlitið teldi að engin dæmi væri að finna um aðgerð sem þessa þar í landi.

Jóhannes kvað það hafa verið ljóst á fyrstu stigum slitameðferðar á Kaupþingi banka hf. að mikill áhugi hafi verið á eignasafni hans, en þeirri stefnu hafi verið fylgt að selja ekki eignir á hrakvirði og teldi hann að erfitt hefði verið að fá fullt verð fyrir þær á þeim tíma. Hann sagði illfært að fullyrða hvort Kaupþing banki hf. hafi átt verulegar eignir, sem unnt hefði verið að selja með góðu móti áður en hann féll, en vafalaust hafi þær þó verið einhverjar. Hann greindi jafnframt frá því að sé tekið mið af gangverði krafna á hendur Kaupþingi banka hf. megi ætla að lánardrottnar geri ráð fyrir að endurheimta um 20 til 25% af kröfum sínum við slit bankans.

36[breyta]

Vitnið Vignir Rafn Gíslason kvaðst fyrir dómi vera löggiltur endurskoðandi og hafa starfað fyrir Fjármálaeftirlitið og Kaupþing banka hf. eftir fall bankans að ýmsum verkefnum, meðal annars úttektum og greiningum. Hann skýrði út fyrir dómi greiningu, sem hann gerði að beiðni ákærða og lögð hefur verið fram í málinu, á ársreikningi Kaupþings banka hf. fyrir árið 2007 og árshlutareikningi 30. júní 2008, þar sem reiknað var út hvaða áhrif þrenns konar hugsanlegar aðgerðir til að draga úr stærð bankans hefðu haft á efnahagsreikning hans og eiginfjárhlutfall. Þessar hugsanlegu aðgerðir voru í fyrsta lagi að öll útlán Kaupþings banka hf. hefðu verið seld með mismiklum afföllum og andvirðið notað til að greiða skuldir, í öðru lagi að hluti af ýmsum flokkum eigna hefði verið seldur og afgangur þeirra síðan endurmetinn með tilliti til söluverðsins og í þriðja lagi að norræn starfsemi bankans hefði verið seld á bókfærðu verði og söluverðinu varið til greiðslu skulda. Í meginatriðum sneri skýrslugjöf Vignis ekki að öðru en útskýringum á þessum útreikningum og er ekki ástæða til að greina hér frekar frá framburði hans.

37[breyta]

Vitnið Björgólfur Guðmundsson, sem var formaður stjórnar Landsbanka Íslands hf. á tímabilinu sem ákæra í málinu tekur til, kvaðst fyrir dómi hafa talið mikla hættu vofa yfir íslenska bankakerfinu allt árið 2008. Erfitt hafi verið um lántökur og hafi stjórnendur bankans látið gera skýrslu um vandann til að kynna fyrir öðrum. Dregið hafi verið úr útlánum bankans og reynt að styrkja lausafjárstöðu hans. Einnig hafi stjórnefndur bankans velt fyrir sér aðgerðum til að sameinast öðrum bönkum og hafi sú vinna staðið yfir frá byrjun árs 2008.

Björgólfur kvað stjórnendur Landsbanka Íslands hf. hafa gripið til ýmissa aðgerða á árinu 2008 til að draga úr stærð bankans, en engin heildstæð áætlun hafi þó verið gerð um þetta eða rædd í stjórn hans. Meðal annars hafi útibúum verið lokað hér á landi og hægt á útlánum, en erfitt hafi verið að selja eignir ef ekki ófært. Víst hafi verið talið að eignir myndu ekki seljast fyrir bókfært verð og myndi sala því hafa haft áhrif á stöðu eiginfjár, en af þessum sökum hafi verið horfið frá því að selja félög, sem bankinn hafi átt á Írlandi og í Bretlandi. Mat á þessu hafi einkum verið á hendi bankastjóra Landsbanka Íslands hf. en ekki stjórnar félagsins, þótt rætt hafi verið um þessi efni á vettvangi hennar. Björgólfur kvað það hafa verið stefnu stjórnenda bankans að draga úr stærð hans og starfsemi. Til umræðu hafi komið að skipta rekstrinum upp í starfsemi innanlands og utanlands og um sumarið 2008 hafi erlendur banki verið fenginn til að meta kosti þess að sameina Landsbanka Íslands hf., Glitni banka hf. og Straum-Burðarás fjárfestingabanka hf. Niðurstaðan af þeirri athugun hafi orðið sú að ekki yrði unnt að framkvæma þetta í ágúst 2008 og til þess myndi að auki þurfa á stuðningi ríkisins að halda. Aðspurður hvort stjórnvöld hafi á einhverjum tíma knúið á um það að Landsbanki Íslands hf. drægi úr stærð sinni svaraði Björgólfur því til að bankinn hafi ávallt reynt að vinna að þessu sjálfur, talið það skyldu sína og þekkt stöðuna best. Engar fyrirskipanir hafi borist um þetta eða tilmæli um að flytja höfuðstöðvar bankans úr landi. Þær stofnanir ríkisins, sem bankinn hafi átt samstarf við, hafi verið Fjármálaeftirlitið, Seðlabanki Íslands og viðskiptaráðuneytið og hafi þær aðallega greint frá áhyggjum sínum.

Aðspurður hvort rætt hafi verið um að láta innlánasöfnun Landsbanka Íslands hf. á Icesave reikninga í Hollandi, sem hafin var 29. maí 2008, fara fram í dótturfélagi þar í landi fremur en í útibúi vísaði Björgólfur til þess að bankinn hafi á þessum tíma rekið þar útibú, sem hafi haft öll tilskilin réttindi til að taka við innlánum, og hafi verið unnið að þessu með Fjármálaeftirlitinu, sem hann minntist ekki að hafi lýst áhyggjum af þessu. Bankinn hafi gengist undir að hlíta hollenskum lausafjárreglum, sem hafi ekki verið jafn strangar í Bretlandi, og hafi allt verið gert í góðum samskiptum við hollensk stjórnvöld. Þegar þau hafi lýst áhyggjum af þessari starfsemi í ágúst 2008 hafi bankinn boðist til að leggja fé, sem svaraði til nýrra innlána, inn í hollenska seðlabankann. Þessi starfsemi hafi ekki valdið áhyggjum á þessum tíma, enda hafi bankinn talið sig eiga eignir á móti skuldbindingunum. Aðspurður hvort féð, sem aflað var með þessum innlánum, hafi verið flutt frá Hollandi til Íslands sagði Björgólfur að það hafi verið greitt út í formi heildsölulána, en á móti hafi bankinn átt eignir þar ytra. Hollensk stjórnvöld hafi engum athugasemdum hreyft vegna þessarar starfsemi fyrr en keppinautar bankans hafi látið sig þetta varða.

Björgólfur sagði Landsbanka Íslands hf. hafa byrjað að safna innlánum á Icesave reikninga í Bretlandi vegna ábendinga matsfyrirtækja og annarra um að innlán hjá bankanum væru ekki nægilega hátt hlutfall af heildarskuldum. Eins og í Hollandi hafi verið unnið að þessu í samstarfi við þarlend stjórnvöld. Í byrjun hafi innlánin verið óbundin, en bankinn hafi síðar leitast við að beina þeim inn á bundna reikninga og hafi hann aldrei boðið hæstu vexti á markaðinum. Bankinn hafi viljað færa þessa starfsemi yfir í dótturfélag, enda hafi breska fjármálaeftirlitið viljað að hún færi eftir breskum lausafjárreglum. Andrúmsloftið hafi svo breyst og hafi stjórnendum Landsbanka Íslands hf. borist vitneskja um að málið væri orðið pólitískt. Aðspurður hvort talið hafi verið að hætta stafaði af þessari starfsemi í útibúi bankans vegna smæðar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta ítrekaði Björgólfur að bankinn hafi alltaf talið nægar eignir að baki skuldbindingunum og hafi engum í stjórn bankans dottið í hug að ábyrgð vegna innlánanna gæti fallið á ríkið. Ráðagerðir um að flytja Icesave reikningana úr útibúi til dótturfélags hafi strandað á hertum aðgerðum og skilyrðum breska fjármálaeftirlitsins og hafi Fjármálaeftirlitið reynt að liðka þar fyrir. Hann kvaðst ekki vita hvað íslensk stjórnvöld hefðu getað gert frekar í þessu skyni.

38[breyta]

Vitnið Halldór J. Kristjánsson, sem var bankastjóri í Landsbanka Íslands hf. á þeim tíma sem ákæra í málinu snýr að, kvaðst telja að rekja mætti stækkun íslenska bankakerfisins í byrjun þessarar aldar til þess að samkeppnisyfirvöld hafi lagst gegn því að Landsbanki Íslands hf. og Búnaðarbanki Íslands hf. fengju að sameinast. Með því hafi orðið ljóst að Landsbanki Íslands hf. gæti ekki stækkað frekar á innlendum bankamarkaði, en hann hafi á þeim tíma verið mjög háður sjávarútvegi. Hafi af þessum sökum verið gripið til þess að stækka bankann á erlendum markaði til að dreifa áhættunni og hafi það verið gert af varfærni með því að kaupa litlar einingar, sem hafi svo vaxið undir stjórn erlendra sérfræðinga. Á árinu 2003 hafi nýir hluthafar orðið ráðandi í bankanum og hafi þeir viljað ráðast í frekari vöxt erlendis.

Halldór sagði viðskiptabankana hafa sent erindi til ríkisstjórnarinnar í febrúar 2008 og lýst þar áhyggjum af lausafjárstöðu bankakerfisins ef framhald yrði á mikilli efnahagslægð. Þetta hafi leitt til þess að stjórnendur helstu bankanna hafi átt fund með nokkrum ráðherrum 14. febrúar 2008 og taldi Halldór að þar hafi byrjað samráð milli stjórnvalda og bankanna um aðgerðir til að hækka viðbúnaðarstigið. Á fundinum hafi verið rætt um hvað bankarnir gætu gert og nefnt meðal annars að þeir vildu draga úr vexti efnahagsreikninga, nota eignasöfn til lánsfjármögnunar í stað þess að selja þau á hrakvirði og treysta lausafjárstöðuna með því að safna innlánum erlendis. Á móti þessu hafi stjórnendur bankanna talið að stjórnvöld þyrftu ýmislegt að gera, þar á meðal að lækka stýrivexti með samstillum aðgerðum á meðan lausafjárþrengingar stæðu yfir og styrkja gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands. Aðspurður hvort íslenska bankakerfið hafi verið hætt komið á þessum tíma svaraði Halldór því til að lausafjárþrengingar hafi verið komnar fram veturinn 2007 til 2008, en áður hafi slíkt staðið yfir í fáeina mánuði og liðið svo hjá. Í þetta skipti hafi á hinn bóginn virst sem þessar þrengingar gætu staðið lengur en dæmi væru um og hafi því þótt varlegra að byrja strax að ræða um aðgerðir til að treysta stöðuna.

Halldór greindi frá því að innan Landsbanka Íslands hf. hafi verið hafin vinna á árunum 2007 og 2008 til að draga úr stærð efnahagsreiknings bankans. Í því skyni hafi verið mörkuð stefna um að auka ekki útlán og draga saman ef kostur væri. Þegar lausafjárerfiðleikar hafi aukist hafi þó ýmsir viðskiptavinir bankans átt örðugt með að standa í skilum og hafi því verið vandi á höndum. Með ýmsum aðgerðum hafi tekist að minnka efnahagsreikning bankans um 4 til 5% á fyrri helmingi ársins 2008. Til athugunar hafi verið samruni við Straum-Burðarás fjárfestingabanka hf. eða uppskipting milli félaganna, sem síðan hafi verið samið um í september 2008 þegar sá banki hafi keypt verðbréfafyrirtæki Landsbanka Íslands hf. í ýmsum löndum. Halldór kvað þá hugmynd hafa verið nefnda við ákærða vorið 2008 að sameina Landsbanka Íslands hf. og Glitni banka hf., en sá vandi hafi þó verið á höndum að miklar skuldir síðarnefnda bankans hafi verið á gjalddaga haustið 2008 og á fyrsta ársfjórðungi 2009. Sameinaður banki hefði þá lent í sömu erfiðleikum og Glitnir banki hf. um haustið 2008 og hafi því stjórnendur Landsbanka Íslands hf. talið sér ófært að fara þessa leið nema að verulegt laust fé hefði komið til og þá væntanlega með langtímaláni frá stjórnvöldum eða öðrum, sem ekki hafi verið unnt að fá á þeim tíma. Að auki hafi verið ákvæði í lánssamningum beggja bankanna, sem hefðu heimilað lánardrottnum að gjaldfella kröfur sínar við slíkar breytingar, sem hefðu leitt af sameiningu bankanna. Þessi hugmynd hafi því verið lögð til hliðar þar til efnahagsráðgjafi ákærða hafi tekið hana upp að nýju í ágúst 2008. Halldór sagðist telja að útilokað hefði verið að flytja höfuðstöðvar Landsbanka Íslands hf. úr landi, enda hafi hann í áratugi verið stærsti banki á landinu og enginn grundvöllur fyrir flutningi hans.

Aðspurður um aðgerðir stjórnvalda á árinu 2008 til að draga úr stærð bankakerfisins sagði Halldór ákærða hafa sett fram óskir um að Landsbanki Íslands hf. reyndi þetta eftir bestu getu. Ákærði hafi ekki haft nein lagaleg úrræði til að fylgja málinu eftir, en engin ástæða hefði heldur verið til þess, enda hafi bankinn einnig stefnt að þessu markmiði. Það hafi á hinn bóginn verið mjög vandasamt að gera þetta á þeim tíma. Kannað hafi verið með sölu eigna, en markaðsverð þeirra reynst slíkt að skynsamlegra hafi verið að leita eftir lánum með veði í eignunum.

Halldór kvað erlenda innlánasöfnun Landsbanka Íslands hf. hafa byrjað á árinu 2006. Hafi þá verið ákveðið að hefja þessa starfsemi á þeim markaðssvæðum, þar sem bankinn væri þegar með útibú, þannig að hluti af útlánum, hvort sem væri í Bretlandi eða Hollandi, væru fjármögnuð með innlánum þar. Útlánastarfsemi í Hollandi hafi byrjað í útibúi bankans þar á árinu 2006 og hafi þá orðið að gæta samræmis við stefnu bankans um að halda jafnvægi á milli innlána og útlána á þeim markaði. Þetta hafi að mati allra verið eðlileg aðgerð, en ekki viðbrögð við einhverjum vandamálum. Áður en byrjað hafi verið að taka við innlánum í Hollandi hafi verið hafin vinna til að fá leyfi fyrir rekstri dótturfélags og hafi verið stefnt að því að ljúka henni fyrir árslok 2008, en slík aðgerð hafi verið tímafrek og hafi því verið ákveðið að byrja með þessa starfsemi í útibúinu. Þegar hollenski seðlabankinn hafi gert athugasemdir um að innlánasöfnunin þar gengi of hratt hafi Landsbanki Íslands hf. brugðist við með því að bjóðast til að leggja innlán, sem myndu safnast eftir það, inn á bundinn reikning hjá erlenda seðlabankanum, sem hafi ekki svarað því boði. Þessi starfsemi hafi að nokkru verið fallin til að auka ábyrgð Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, en innlánin hafi þó að hluta verið tryggð í hollenska tryggingarkerfinu. Halldór kannaðist ekki við að íslensk stjórnvöld hafi lýst áhyggjum af því að skuldbindingar tryggingarsjóðsins myndu aukast vegna innlánasöfnunarinnar í Hollandi eða sett þrýsting á Landsbanka Íslands hf. vegna þeirrar starfsemi. Hann minntist þess að ákærði hafi sýnt erlendri innlánasöfnun bankans áhuga og hvatt til þess að reikningarnir í Bretlandi yrðu færðir til dótturfélags, en málið hafi þá þegar verið í farvegi og því ekki tilefni til frekari umræðna.

Halldór var spurður um nánari ástæðu þess að innlánasöfnunin hafi ekki farið fram í erlendum dótturfélögum. Hann rakti að innlánasöfnun í erlendum dótturfélögum hafi byrjað á árinu 2003, en af erlendum innlánum samstæðu Landsbanka Íslands hf. hafi um þriðjungur verið í dótturfélögum bankans í London, Luxemborg og Guernsey. Þegar byrjað hafi verið að safna innlánum á Icesave reikninga í Bretlandi hafi verið ákveðið að gera það í útibúinu í London, sem hafi verið sérstök eining og þegar haft á hendi útlánastarfsemi á sama hátt og útibúið í Hollandi. Stjórnendur bankans hafi veturinn 2007 til 2008 farið að ræða um að færa þessa starfsemi inn í dótturfélög. Hann minntist þess ekki að komið hafi sérstaklega til tals að færa óbundin innlán til dótturfélags jafnharðan og þeim hafi verið breytt í bundna reikninga, enda hafi verið eðlilegt að hafa allar tegundir þeirra undir sama hatti þannig að viðskiptavinir ættu auðvelt með að færa fé á milli þeirra. Hann kvað þá stefnu að flytja Icesave reikninga til dótturfélags hafa komið til vegna stöðu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, en einnig vegna markaðsstöðu.

Aðspurður hvernig Landsbanki Íslands hf. hafi varið fé, sem fengist hafi með innlánasöfnun erlendis, sagði Halldór að umfang Icesave reikninganna í Bretlandi hafi ekki aukist á árinu 2008, heldur hafi breytingar þar á reikningunum aðallega falist í því að óbundin innlán hafi orðið bundin til nokkurra ára, sem hafi aukið mjög öryggi bankans. Innlánin hafi því ekki farið í ný útlán, enda hafi efnahagsreikningur bankans dregist saman um 4% á fyrsta ársfjórðungi 2008. Undir Halldór var þá borið að eftir honum hafi verið haft í framlögðu endurriti skýrslu hans fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að fénu hafi verið ráðstafað til greiðslu á lánum og sagði hann af því tilefni að það væri rétt lýsing, enda hafi slíkt verið dæmigert fyrir ráðstöfun þess.

Halldór kvaðst hafa litið svo á að íslenska ríkið stæði að baki Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta á sama hátt og önnur ríki stæðu að baki sínum fjármálakerfum. Þessum samtryggingarsjóði fjármálafyrirtækja hafi einungis verið ætlað að bæta einstök tjón, en ekki að mæta kerfishruni. Sjóðurinn hafi að einhverju leyti verið í umsjá og á ábyrgð ríkisins, en ljóst hafi verið að til ríkisábyrgðar á honum hefði þurft lagaboð, svo sem formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands hafi ítrekað í viðræðum við bankastjóra Landsbanka Íslands hf. Hann kvað ummæli um að þjóðréttarleg skuldbinding kynni að hvíla á íslenska ríkinu vegna tryggingarsjóðsins, sem höfð voru eftir honum í minnispunktum um fund bankastjóra seðlabankans og Landsbanka Íslands hf. 31. júlí 2008, hafa snúið að skyldu til að koma sjóðnum á og starfrækja hann svo að hann gæti bætt fyrir tjón í einstökum tilvikum.

Halldór sagði að skoða yrði ummæli, sem höfð voru eftir honum í minnispunktum frá fundi bankastjórnar Seðlabanka Íslands með bankastjórum Landsbanka Íslands hf. 12. janúar 2008 um að síðarnefndi bankinn myndi ekki þola áhlaup á Icesave reikningana, í ljósi þess að enginn banki þyldi áhlaup. Vegna umræðna á fundi þeirra sömu og Fjármálaeftirlitsins 4. mars 2008, þar sem fjallað var um innstæðutryggingar og flutning Icesave reikninga í Bretlandi til dótturfélags, bar Halldór að á þeim tíma hafi verið hafnar viðræður milli Landsbanka Íslands hf. og breska fjármálaeftirlitsins um lausafjárstýringu í útibúinu þar í landi, en í þeim hafi fljótlega verið ákveðið að stefna að því að flytja starfsemina vegna þessara reikninga til dótturfélags. Halldór nefndi í tengslum við þetta að á þessum tíma hafi innstæður á Icesave reikningunum svarað til um 20% af heildareignum bankans.

Undir Halldór var borið að í minnispunktum frá fundi bankastjórnar Seðlabanka Íslands með bankastjórum Landsbanka Íslands hf. 30. mars 2008 kæmi fram að frá byrjun þess árs hafi um þriðjungur innstæðna á Icesave reikningum verið tekinn út, svo og að mjög litlar líkur væru á að íslenska bankakerfið hefði þetta af og gæti Landsbanki Íslands hf. ekki ráðið einn við þetta. Hann sagði það hafa staðið til á þessum tíma að sameina útibú Landsbanka Íslands hf. í London og dótturfélag bankans þar til að fá af því öryggi. Orðin um að bankinn myndi ekki ráða við þetta einn hafi vísað til þess að yrði ekki viðsnúningur á útstreyminu gæti það reynt á þolmörk bankans. Þá kvað hann fjárhæðir vegna útstreymis af Icesave reikningum, sem þar hafi verið rætt um og einnig á fundi bankastjórnar seðlabankans með ákærða og utanríkisráðherra 1. apríl 2008, hafa verið innan sveiflumarka miðað við aðstæður í Bretlandi. Hann minntist þess ekki að þessar sveiflur á innstæðunum hafi valdið sér þungum áhyggjum, enda hafi almennt gætt jákvæðni á mörkuðum á þessum tíma. Halldór var spurður hvort jákvæðni hafi gætt á fundi bankastjórnar seðlabankans með bankastjórum Landsbanka Íslands hf. 4. apríl 2008, þar sem rætt hafi verið um samskipti bankans við breska fjármálaeftirlitið. Um þetta sagði Halldór að í viðræðum við breska fjármálaeftirlitið, sem hafi byrjað í mars 2008, hafi virst sem sammæli væru um að sameina útibú Landsbanka Íslands hf. í London og dótturfélag bankans þar, en í lok mánaðarins hafi breska fjármálaeftirlitið skipt um skoðun og ekki viljað halda áfram á þeirri braut, heldur ræða breytingar á lausafjárreglum fyrir útibúið. Halldór kvað þetta hafa valdið sér vonbrigðum, enda hafi sú umræða beinst að smáatriðum um bindiskyldu, sem samkomulag hafi svo tekist um í lok maí 2008.

Halldór lýsti því að ummæli, sem höfð voru eftir hinum bankastjóranum í Landsbanka Íslands hf. á fundi þeirra með bankastjórum Seðlabanka Íslands 14. júlí 2008, um að ekki væri langt í næsta áhlaup á Ísland hafi átt rætur að rekja til þess að í maí á því ári hafi aðstæður á mörkuðum virst vera að batna, en þegar hér hafi verið komið sögu hafi verið ljóst að svo væri ekki. Vinna við að flytja Icesave reikningana úr útibúi Landsbanka Íslands hf. í London til dótturfélags hafi þá ekki verið hafin vegna þeirrar afstöðu, sem breska fjármálaeftirlitið hafi tekið í lok mars 2008, en í júlí hafi sú stofnun aftur verið búin að skipta um skoðun og viljað knýja á um flutninginn. Halldór minntist þess ekki að hafa greint ákærða frá þessum samskiptum við breska fjármálaeftirlitið, en frá byrjun mars 2008 hafi Fjármálaeftirlitið fengið afrit af öllum bréfaskiptum Landsbanka Íslands hf. við bresku stofnunina og fylgst því með málinu af hálfu íslenskra stjórnvalda. Hann hafi aldrei talið ástæðu til að ákærði kæmi frekar að þessu.

Halldór bar að þegar viðræður við breska fjármálaeftirlitið um flutning Icesave reikninganna til dótturfélags hafi byrjað af fullum þunga í ágúst 2008 hafi steytt á því að Landsbanki Íslands hf. hafi ekki talið fært að flytja meira en sem svaraði 10% af heildareignum sínum til dótturfélagsins á einu almanaksári vegna ákvæða í lánssamningum um heimildir lánardrottna til að gjaldfella kröfur sínar. Til að komast hjá þessu hefði orðið að leita samþykkis lánveitenda, sem hafi verið óframkvæmanlegt. Af þessum sökum hafi bankinn viljað fá undanþágu frá breska fjármálaeftirlitinu til að flytja eignir til dótturfélagsins á móti innstæðuskuldbindingunum í tveimur áföngum, 10% á árinu 2008 og annað eins 2009, sem breska stofnunin hafi hafnað. Í framhaldi af því hafi Landsbanki Íslands hf. leitað aðstoðar viðskiptaráðherra, sem hafi fundað með breska fjármálaráðherranum til að leita tilslökunar frá þessum kröfum, en sá fundur hafi ekki borið árangur. Halldór kvað sér hafa verið óskiljanlegt að breska fjármálaeftirlitið hafi ekki fallist á veita þessa undanþágu, en bankinn hefði haft efni á að gera þetta ef hann hefði fengið hana og lokið þá flutningi innstæðnanna til dótturfélagsins á árinu 2008.

Halldór sagði að á fyrri stigum hafi verið munur á afstöðu sinni og hins bankastjórans í Landsbanka Íslands hf. til þessa máls, en öllum hafi þó verið ljóst að flytja yrði starfsemi vegna Icesave reikninganna til dótturfélags, sem hann hafi verið sérstakur áhugamaður um. Allt að einu hafi verið unnið að þessu máli af fullum heilindum.

Aðspurður kvaðst Halldór hafa fengið fyrirspurn frá stjórnvöldum í lok september 2008 um hvort kaup ríkisins á 75% hlut í Glitni banka hf. myndu hafa áhrif á stöðu Landsbanka Íslands hf. Hann sagðist hafa aflað útreiknings hjá sérfræðingi innan bankans, sem hafi talið hann mundu standa þetta af sér. Halldór gat þess að hann hafi ekki verið beðinn um að leggja mat á það hvort bankakerfið í heild myndi standast þetta.

39[breyta]

Vitnið Sigurjón Þ. Árnason, sem var bankastjóri við Landsbanka Íslands hf. á þeim tíma sem ákæra í máli þessu lýtur að, bar fyrir dómi að rekja mætti öra stækkun Landsbanka Íslands hf. á skömmum tíma til þess að bankinn hafi aukið starfsemi sína erlendis og veitt þjónustu til innlendra félaga, sem einnig hafi fært út starfsemi í öðrum löndum. Stjórnendur bankans hafi mótað þessa stefnu á árinu 2003, en þá hafi 95% tekna hans verið aflað innanlands og hafi markmiðið verið að það hlutfall færi niður í helming.

Um aðgerðir Landsbanka Íslands hf. til að draga úr stærð sinni á árinu 2008 nefndi Sigurjón að reynt hafi verið að bæta lausafjárstöðuna og draga úr útlánum, en bankinn hafi líklega minnkað á þessum tíma um 4 til 5% í evrum talið. Eignir hafi verið notaðar til að afla lauss fjár, enda hafi verið erfitt að selja þær fyrir raunvirði. Hann teldi ekki að raunhæft hefði verið að flytja höfuðstöðvar bankans úr landi, enda hafi hann verið of íslenskur til þess. Slíkur flutningur hefði einnig tekið mörg ár. Sigurjón kvað stjórnvöld ekki hafa gripið til formlegra aðgerða til að fá Landsbanka Íslands hf. til að draga úr stærð sinni og taldi líklegt að þau hafi einfaldlega gert sér grein fyrir því að þetta væri ekki raunhæfur kostur, enda hefði engu breytt þótt þau hefðu sent bankanum bréf um þetta. Ef stjórnvöld hefðu neytt bankann til að selja eignir á árinu 2008 hefði fengist lágt verð fyrir þær og hafi Landsbanki Íslands hf. ekki verið öðru vísi settur að þessu leyti en hinir íslensku bankarnir tveir. Á árinu 2008 kynni bankinn að hafa getað selt lánasafn í Bretlandi, en út á það hafi þó bankinn fengið lán. Einnig hefði verið hugsanlegt að selja breska dótturfélagið Heritable Bank Ltd. fyrir um 200.000.000 sterlingpund, en við það hefði samsteypa Landsbanka Íslands hf. misst af fjármögnun. Menn hafi því reynt að nálgast hver annan í þessu máli, enda hafi allir gert sér ljóst að best væri að selja þegar seljandi væri ekki þvingaður til þess og hafi kaupendur heldur ekki beðið í röðum. Öðru máli hefði gegnt um að flytja starfsemi banka úr landi hefði einhver þeirra verið kominn nógu langt við undirbúning á slíku. Hann kvað stjórnendur Landsbanka Íslands hf. hafa vel gert sér grein fyrir stöðunni þótt þeir hafi ekki búist við að allt myndi hrynja og hafi þeir gripið til allra tækra úrræða til að draga starfsemina saman. Þetta hafi hinir bankarnir tveir einnig gert, Glitnir banki hf. með því að reyna að selja eignir og Kaupþing banki hf. með ráðagerðum um að flytja starfsemina úr landi. Hefði átt að bregðast við stærð bankakerfisins hefði rétti tíminn til þess verið um sumarið 2006 þegar erfiðleikar á fyrri hluta þess árs hafi verið liðnir hjá. Sigurjón kannaðist ekki við að Fjármálaeftirlitið eða Seðlabanki Íslands hafi þrýst á bankann að selja eignir, enda hafi þess ekki þurft.

Sigurjón lýsti þeirri skoðun sinni að mjög lítill tilgangur hafi verið með fundi fjögurra ráðherra og fulltrúa fjármálafyrirtækjanna 14. febrúar 2008 og mjög lítið komið út úr honum. Fulltrúar fjármálafyrirtækjanna hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum með fundinn, enda hafi samtök fyrirtækjanna lagt ríka áherslu á að gripið yrði til áþreifanlegra aðgerða. Í stað þess að ræða slíkt hafi menn nálgast vandamálin eins og þau snerust um ímynd, sem ekki hafi verið, enda hafi á árinu 2008 verið komin upp raunveruleg kreppa um allan heim, en ekki aðeins hér á landi eins og 2006. Að auki hafi bankarnir búið við þann vanda að vitað hafi verið að Seðlabanki Íslands gæti ekki stutt við þá. Sigurjón minntist þess ekki að á fundinum hafi verið lögð áhersla á að bankarnir hefðu höfuðstöðvar sínar hér á landi, en meðal stjórnenda bankanna hafi verið ríkjandi vilji til að skatttekjur fyrirtækjanna bærust til Íslands og hafi þeir rætt þetta sín á milli. Aðspurður hvort á fundinum hafi verið gefnar einhverjar yfirlýsingar um að ríkið myndi styðja við bankana bar Sigurjón að þar hafi komið fram að mikill áhugi væri á að koma sem bestum upplýsingum á framfæri, en margt fleira hafi þó verið rætt, meðal annars að ríkið vildi styrkja gjaldeyrisvarasjóð seðlabankans. Sigurjón kvað ummæli, sem höfð hafi verið eftir honum á fundinum um að stærð bankakerfisins hér á landi væri langtímavandamál, hafa snúið að svokölluðum hlutfallsvanda og hafi hann með þessum orðum verið að hvetja menn til að horfa til evrunnar. Í bönkunum hafi almennt verið litið svo á að erfitt yrði að leysa þennan vanda nema með því annaðhvort að þeir flyttu úr landi eða íslenska kerfið yrði hluti af stærra kerfi. Þetta hafi verið langtímavandi, sem ekki yrði leystur með litlum aðgerðum.

Sigurjón greindi frá því að í framhaldi af fundinum 14. febrúar 2008 hafi bankastjórar Landsbanka Íslands hf. átt fund með ákærða, þar sem þeir fyrrnefndu hafi borið upp hvort flötur væri á því að Glitnir banki hf. og Landsbanki Íslands hf. myndu sameinast. Hann staðfesti að ódagsett minnisblað, sem í málinu hefur verið talið vera frá 8. til 10. febrúar 2008, sýni þær hugmyndir, sem rætt hafi verið um á þessum fundi. Það hafi verið forsenda fyrir þessum samruna að ríkið veitti lausafjárstuðning, enda hefði að öðrum kosti verið óvíst hvort nokkurt gagn yrði af honum. Þannig hefði til dæmis verið óljóst hvort lánalínur þeirra banka, sem myndu sameinast, myndu allar haldast, því viðbúið hefði verið að einhverjar lánalínur annars þeirra myndu lokast vegna samrunans. Þá hefði rekstrarhagræðing, sem fylgt hefði samruna, ekki komið bönkunum til bjargar við þær aðstæður, sem uppi voru. Sigurjón kvaðst telja að hugmyndir, sem forstjóri Kaupþings banka hf. hafi síðar haft uppi um að skipta rekstri Glitnis banka hf. milli hinna bankanna tveggja, hafi verið vonlausar.

Sigurjón kvað stjórnendur Landsbanka Íslands hf. hafa almennt reynt að halda góðu sambandi við Seðlabanka Íslands til að láta vita hvað bankinn hafi verið að gera hverju sinni. Ýmsir fundir hafi verið haldnir um þessi efni og hafi þeir verið fremur óformlegir. Fyrsti fundurinn 2008 hafi verið haldinn í London í byrjun árs og hafi þá verið farið yfir stöðu íslensku bankanna og ástæður þess að skuldatryggingarálag þeirra hafi þróast sem raun bæri vitni. Hann hafi talið að rekja mætti þetta til þess að á árunum 2006 og 2007 hafi skuldabréf íslenskra banka verið sett í fjármálavafninga, en eigendur vafninganna hafi svo lent í vandræðum, leyst þá upp og selt bréfin á markaði á þessum tíma. Hann sagði það rétt að seðlabankinn hafi á fundum sem þessum mælst til þess að Landsbanki Íslands hf. drægi úr starfsemi sinni, en hann hafi þá svarað því til að þetta væri ekki hægt við ríkjandi aðstæður. Unnt hefði verið að selja vissar eignir, svo sem Glitnir banki hf. hafi reynt, en fyrir Landsbanka Íslands hf. hafi farið betur á því að umbreyta eignum til að geta fengið fjármögnun út á þær. Um samskipti við ákærða sagðist Sigurjón hafa eitt sinn hitt hann ásamt öðrum á formlegum fundi í febrúar 2008, en þeir hafi einnig ræðst óformlega við á heimili ákærða, enda hafi þeir verið nágrannar. Samtöl þeirra hafi snúist um ástandið á fjármálamörkuðum, þar á meðal hvort afla mætti erlendra lána til að styrkja gjaldeyrisforða seðlabankans, sem hafi hlutfallslega verið orðinn mjög lítill miðað við íslenska bankakerfið hvað erlent lausafé varðaði. Þetta hafi haft neikvæð áhrif erlendis og hafi því verið mikilvægt að styrkja gjaldeyrisforðann til að afla trausts, en ekki til að nota hann.

Um aðdragandann að innlánasöfnun Landsbanka Íslands hf. á Icesave reikninga í Hollandi rakti Sigurjón að á árinu 2006 hafi orðið ljóst að ekki væri unnt að treysta á aðgengi að hefðbundnum fjármálamörkuðum og hafi verið rætt um hvernig mætti endurfjármagna bankann á annan hátt. Annars vegar hafi verið kannað hvort leita mætti eftir skuldabréfafjármögnun á fleiri svæðum en á Evrópumarkaði og hins vegar hvort auka mætti innlánasöfnun bankans. Hún hafi byrjað í Bretlandi og færst síðan út til Hollands, sem hafi orðið fyrir valinu sökum þess að bankinn hafi þá þegar verið með útlánastarfsemi þar í landi. Sigurjón kvað það vera skilgreiningaratriði hvort það hafi verið eðli netreikninga eins og Icesave reikninganna að innstæður á þeim væru kvikar, enda hafi ekkert útstreymi verið af reikningunum í Hollandi og hafi það að öðru leyti almennt verið lítið. Þessir reikningar hafi því ekki skorið sig úr í samanburði við aðra, en bankinn hafi að auki unnið að því í Bretlandi að breyta óbundnum innlánum í bundin. Aðspurður hvort stjórnendur Landsbanka Íslands hf. hafi um mitt ár 2008 gert sér ljósar áhættur af þessum reikningum sagði Sigurjón þá hafa talið á þeim tíma að lausafjárkreppunni væri að ljúka, enda hafi dregið úr henni mjög hratt og mikið. Hafi meðal annars þótt mega ráða þetta af þróun skuldatryggingarálags Landsbanka Íslands hf. og annarra íslenskra banka. Innlánasöfnunin í Hollandi hafi að auki hafist á sama tíma og talið hafi verið að samkomulag hefði tekist við breska fjármálaeftirlitið um þessa starfsemi þar í landi. Um ástæðu þess að starfsemin í Hollandi hafi ekki frá öndverðu verið í dótturfélagi sagði Sigurjón að mikla vinnu þyrfti til að búa slík dótturfélög til og þá sérstaklega ef þau þyrftu bankaleyfi. Hann kvaðst telja að rekja mætti athugasemdir, sem hollensk stjórnvöld hafi byrjað að hreyfa í júlí 2008 vegna þessarar starfsemi bankans þar í landi, til kvartana frá keppinautum.

Sigurjón kvað ástæðuna fyrir því að Landsbanki Íslands hf. hafi safnað innlánum á Icesave reikninga í Bretlandi í útibúi bankans fremur en dótturfélagi hafa verið þá að samkvæmt breskum reglum, sem hann sagðist að þessu leyti telja andstæðar reglum á evrópska efnahagssvæðinu, hafi ekki mátt hafa frjálst flæði fjármagns frá dótturfélagi til annarra félaga í samstæðu. Fénu hafi því verið safnað í útibúi til að tryggja frelsi á flæði þess. Hann greindi frá því að breska fjármálaeftirlitið hafi á sínum tíma krafist þess á fundi með fulltrúum Landsbanka Íslands hf. að bankinn myndi starfa eftir breskum lausafjárreglum, en veitt svo undanþágu frá því til ársins 2011. Í mars 2008 hafi síðan breska fjármálaeftirlitið óskað eftir því að bankinn afsalaði sér undanþágunni og bankinn svarað því með spurningu um hvort ekki væri best að færa starfsemina í Bretlandi til dótturfélags. Hugmyndin um þetta hafi því upphaflega komið frá Landsbanka Íslands hf., sem hafi þó óskað eftir ákveðum tilhliðrunum. Breska fjármálaeftirlitið hafi þá ekki reynst hafa áhuga á þessu og niðurstaðan orðið sú að Landsbanki Íslands hf. hafi 29. maí 2008 gengist undir að vinna í allri starfsemi sinni eftir breskum lausafjárreglum, sem hafi verið strangari en íslenskar reglur. Bankinn hafi valið þennan kost í ljósi þess að mjög snúið hefði verið að láta aðeins útibúið í London falla undir þessar reglur og því auðveldara að láta samstæðuna alla fylgja þeim, þótt það hafi ekki verið skylt.

Sigurjón kvað það hafa legið fyrir að söfnun innlána í erlendum útibúum bankans yki á ábyrgð Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, en Landsbanki Íslands hf. hafi óskað eftir að flytja starfsemi vegna Icesave reikninganna í Bretlandi til dótturfélags til að koma henni undir breska lögsögu. Breska fjármálaeftirlitið hafi ekki fengist til þess og virtist eftir á að hyggja eins og stofnunin hafi ekki viljað flytja starfsemina nema henni myndi fylgja einhver ríkisábyrgð. Tilslakanir, sem bankinn hafi talið sig þurfa, hafi snúist um það að þótt hann væri tilbúinn til að flytja eignir til dótturfélags á móti skuldbindingum vegna innstæðna á reikningunum hafi verið hætta á að lánardrottnar gætu neytt ákvæða í lánssamningum við bankann til að gjaldfella kröfur sínar ef farið yrði of geyst í þessu efni. Þegar liðið hafi á sumarið 2008 og viðræður um flutning innstæðnanna til dótturfélags verið hafnar á ný hafi bankinn gengið hættulega langt til að koma til móts við kröfur breska fjármálaeftirlitsins. Það hafi þá krafist þess að bankinn flytti 20% eigna sinna til dótturfélags, en bankinn hafi boðist til að flytja 10% þeirra á árinu 2008 og önnur 10% strax í ársbyrjun 2009. Á þeim tíma hafi einnig komið fram að bresk stjórnvöld vildu fá ríkisábyrgð. Þegar hér hafi verið komið sögu hafi viðræður ekki lengur verið á bankalegum forsendum, heldur hafi málið verið komið á pólitískt stig. Þegar stjórnendur Landsbanka Íslands hafi áttað sig á því hafi þeir snúið sér í júlí eða ágúst 2008 til Fjármálaeftirlitsins og hugsanlega einnig Seðlabanka Íslands og leitað aðstoðar, enda hafi nýjar kröfur breska fjármálaeftirlitsins gert málið óleysanlegt. Út úr því hafi svo komið að viðskiptaráðherra hafi farið til fundar við breska fjármálaráðherrann. Aðspurður hve langan tíma hefði tekið að flytja starfsemina til dótturfélags sagði Sigurjón það mundu hafa ráðist af þeirri leið, sem farin hefði verið. Landsbanki Íslands hf. hafi viljað fara hraða leið með því að senda innstæðueigendum bréf og gera ráð fyrir samþykki þeirra ef athugasemdum yrði ekki hreyft, en breska fjármálaeftirlitið hafi viljað fara einhverja leið fyrir dómstólum. Umræðan frá júlí fram í september 2008 um tímasetningar hafi ekki snúist um þetta, heldur hversu hratt bankinn gæti látið dótturfélaginu í té eignir á móti skuldbindingunum. Áhyggjur af stöðu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta hafi ekki verið aðalatriðið í þessu sambandi, enda hafi verið alveg ljóst að hann væri mjög lítill, en enginn hafi heldur ráðgert að tryggingarsjóðir stæðu almennt straum af útborgun innlána. Sigurjón kvaðst telja að afskipti ákærða af þessu máli hefðu engu breytt um afdrif þess og hafi aldrei verið leitað eftir slíku af hálfu Landsbanka Íslands hf.

Aðspurður um ummæli, sem höfð voru eftir honum í minnispunktum frá fundi bankastjóra Landsbanka Íslands hf. með bankastjórn Seðlabanka Íslands 12. janúar 2008 um hættu á áhlaupi á Icesave reikninga í Bretlandi, sagðist Sigurjón ekki muna eftir þeim fundi, en tók fram að enginn banki þyldi áhlaup. Hann lýsti einnig þeirri skoðun að minnispunktar sem þessir væru ekki fundargerðir, heldur sýndu þeir aðeins það, sem seðlabankinn hafi viljað að kæmi fram á fundi. Hann kvað ummæli, sem honum hafi verið eignuð í minnispunktum frá fundi þeirra sömu 30. mars 2008 um að útstreymi af Icesave reikningunum væri mikið, Landsbanki Íslands hf. myndi ekki ráða við þetta einn og mjög litlar líkur væru á að íslenska bankakerfið kæmist af, án efa hafa verið höfð ónákvæmlega eftir. Á fundinum hafi hann sagt að bankakerfið gæti ekki gert þetta eitt og átt þá við að það yrði að fá lánafyrirgreiðslu gegn góðum veðum, svo og að bankarnir þyrftu að getað leitað eftir lausafjárstuðningi. Þótt það hefði ef til vill verið óeðlilegt hefði bankinn geta leyst úr þessu sjálfur, enda hafi hann verið sterkur og átt mikið lausafé. Hann hafi aðeins verið að undirbyggja að bankinn gæti þurft á stuðningi að halda. Vegna minnispunkta frá enn einum fundi bankastjóra Landsbanka Íslands hf. með starfsmönnum seðlabankans 31. júlí 2008, þar sem greint var frá umræðum um ábyrgð á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, sagði Sigurjón að þar hafi ekki verið reynt að fá seðlabankann til að bjarga málum. Fundurinn hafi snúist um að heyra afstöðu þess manns, sem hafi gegnt embætti forsætisráðherra þegar lögin um tryggingarsjóðinn voru sett, til þess hvort ríkisábyrgð væri á skuldbindingum hans. Svar við því hafi fengist á fundinum.

40[breyta]

Vitnið Jón Þorsteinn Oddleifsson kvaðst fyrir dómi hafa á árinu 2008 verið forstöðumaður fjárstýringar Landsbanka Íslands hf., en eitt helsta verkefni þeirrar deildar hafi verið að ávaxta lausafé bankans og hafi Icesave reikningar í erlendum útibúum hans verið nátengdir lausafénu. Jón kvaðst hafa fundið fyrir því á árinu 2008 að stjórnendur bankans hafi viljað draga úr umsvifum og hafi það verið ljóst í öllum deildum bankans. Vandamál vegna lausafjár hafi þá verið í forgrunni og hafi yfirmenn hans verið mjög upplýstir um þörfina á því að selja eignir. Þetta hafi ekki þótt hægt og hafi þá starfshópi innan bankans verið fengið það verkefni að leita fjármögnunar út á eignir. Jón kvaðst hafa lagt áherslu á að fá aukið lausafé og látið öðrum um að meta leiðir til þess, en hann hafi ekki haft ástæðu til þess að efast um þær, sem valdar hafi verið.

Jón kvað það hafa verið stefnu Landsbanka Íslands hf. að fjármagna sig í gegnum móðurfélagið, sem myndi svo fjármagna dótturfélög. Ein af ástæðunum fyrir því að innlánum á Icesave reikninga hafi verið safnað í erlendum útibúum bankans hafi verið sú að móðurfélagið hafi vantað innlánafjármögnun, en hefðu reikningarnir verið í dótturfélagi hefði ekki verið unnt að fjármagna móðurfélagið á þennan hátt. Í byrjun árs 2008 hafi byrjað umræða innan bankans um að heppilegra væri að hafa bresku Icesave reikningana í dótturfélagi. Í viðræðum um þetta við breska fjármálaeftirlitið hafi bankinn gengist undir breskar lausafjárreglur og hafi gengið vel að vinna eftir þeim, en í framhaldinu hafi svo komið fram auknar kröfur frá bresku stofnuninni, sem hafi ekki beinlínis snúið að lausafé, svo sem um auglýsingar og vexti. Um sumarið 2008 hafi bankinn sett fram tillögur um flutning starfseminnar vegna Icesave reikninganna til dótturfélags og hafi af hálfu hans verið fullur vilji til að láta verða af því, enda hafi umræður í Bretlandi um stöðu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta skapað óróa um reikningana. Þessum tillögum hafi breska fjármálaeftirlitið mætt með frekari kröfum, sem hafi ágerst eftir því sem á leið, og staðfesti Jón að hann hafi í framlögðu tölvubréfi 17. ágúst 2008 lýst þeirri skoðun að þær hafi svarað orðið til þess að áhlaup væri gert á Icesave reikningana. Aðspurður hvort í raun hafi verið mögulegt að flytja reikningana á þennan hátt sagði Jón að í grunninn yrði að ganga út frá því að fjármögnun og eignir þyrftu að vera á sama stað. Ef eignir frá móðurfélaginu hefðu getað fylgt skuldbindingum vegna innstæðna á Icesave reikningunum til dótturfélags hefði flutningur þeirra ekki haft neikvæð áhrif á lausafjárstöðuna. Erfiðleikar í tengslum við ráðagerðir um þennan flutning hafi fremur tengst ákvæðum í lánssamningum bankans, sem kynnu að hafa heimilað lánardrottnum að gjaldfella kröfur sínar vegna tilfærslu á eignum í þessum mæli, svo og efasemdir um að eignirnar hafi í raun getað fylgt þangað út. Jón kvaðst muna að rætt hafi verið innan Landsbanka Íslands hf. hvort unnt væri að flytja þann hluta af Icesave reikningunum, sem hafi verið bundinn til einhvers tíma, til dótturfélags bankans, sem þegar var starfandi í London, en gat ekki greint frá því hver afdrif þeirrar hugmyndar hafi orðið. Til að gera þetta hefðu þó eignir þurft að fylgja skuldbindingunum til dótturfélagsins og hafi því raun verið sama hindrun við því að flytja reikningana að þessu takmarkaða leyti. Jón sagðist telja að í meginatriðum hafi verið samstaða milli bankastjóra Landsbanka Íslands hf. í tengslum við þetta, en Sigurjón Þ. Árnason hafi þó rætt mjög umbúðalaust um áhyggjur sínar um heimildir lánardrottna til að gjaldfella kröfur og eignir, sem þyrfti að flytja til dótturfélags. Aðspurður hvort hann hafi átt samskipti við Fjármálaeftirlitið eða Seðlabanka Íslands vegna viðræðna um flutning Icesave reikninganna til dótturfélags sagðist Jón hafa átt samskipti við seðlabankann vegna starfa sinna við fjárstýringu. Samskipti við Fjármálaeftirlitið vegna þessa hafi orðið meiri eftir því, sem liðið hafi á viðræður við breska fjármálaeftirlitið, en hann taldi að Fjármálaeftirlitið hafi fylgst með þessum viðræðum frá því á öðrum ársfjórðungi 2008.

41[breyta]

Vitnið Lárentsínus Kristjánsson kvaðst fyrir dómi hafa tekið sæti í skilanefnd Landsbanka Íslands 7. október 2008 og starfað þar til ársloka 2011, þegar nefndin var lögð niður. Hann vísaði til þess að samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 hafi verulegum hluta eigna Landsbanka Íslands hf. verið ráðstafað til nýs banka, en eldri bankinn hafi þó haldið eftir flestum eignum erlendra útibúa, eignarhlutum í erlendum dótturfélögum og kröfum á hendur þessum útibúum og dótturfélögum. Landsbanki Íslands hf. hafi ekkert lausafé átt við upphaf slitameðferðar, en meðal þess, sem hann hafi haldið umráðum yfir, hafi verið útistandandi lán vegna starfsemi í Bretlandi, Hollandi og Kanada, svo og tvö nafngreind dótturfélög. Lárentsínus kvað þessar eignir ekki hafa verið auðseljanlegar. Á fyrstu stigum slitameðferðar hafi ýmsir gefið sig fram við skilanefnd bankans og viljað kaupa eignir fyrir lítið, en nefndin hafi ákveðið að huga ekki að sölu þeirra á þessu stigi og meðal annars láta lánasöfn lifa sinn tíma, enda hafi verið lítill markaður fyrir eignir. Skráðum erlendum verðbréfum hafi þó smám saman verið komið í verð og hafi dótturfélögin tvö verið seld fyrir ásættanlegt verð. Lárentsínus kvaðst telja að í byrjun hafi gangverð eignanna ráðist að nokkru af aðstæðum á markaði og að nokkru af þeirri staðreynd að bankinn væri til slita. Hann sagðist illa geta metið hvenær aðstæður hafi batnað að þessu leyti á markaði, en skilanefndin hafi notið starfa erlendra manna, sem hafi gjörþekkt hann og veitt ráðgjöf um hvenær tímabært hafi verið að selja. Lárentsínus sagðist þó telja að engar meginbreytingar hafi orðið á markaðsaðstæðum á þeim tíma, sem hann sat í skilanefnd.

Aðspurður sagði Lárentsínus að verðmæti eigna Landsbanka Íslands hf. við slitameðferðina hafi í lok september 2011 verið talið nema um 1.353.000.000.000 krónum, en megninu af þeirri fjárhæð yrði fyrirsjáanlega varið til greiðslu forgangskrafna. Ef ekki væri gerður greinarmunur á stöðu krafna í réttindaröð mætti ætla að þessi fjárhæð hefði nægt til að greiða lánardrottnum um 40% af kröfum þeirra.