Fyrsta auglýsing Jörundar hundadagakonungs

Úr Wikiheimild
Fyrsta auglýsing Jörundar hundadagakonungs
höfundur Jörundur hundadagakonungur

Eftir auglýsingunni sem var prentuð á Leirárgörðum og gefin út 26. júní 1809. Prentað í bók Jóns Þorkelssonar, Saga Jörundar hundadagakóngs, frá 1892 og þar prentuð eftir uppskrift í Ríkisskjalasafni Danmerkur staðfestu af Magnúsi Stephensen. Þessi texti er þýðing Gunnars Gunnarssonar biskupssveins á upprunalegu dönsku útgáfunni sem var hengd upp í Reykjavík fyrir hádegi 26. júní, en íslenska þýðingin var prentuð og hengd upp síðar.

Proclamation[breyta]

1. Allur danskur myndugleiki er upphafinn á Íslandi.

2. Allir Danskir ellegar faktórar, sem standa í sambandi með dönskum handelshúsum, skulu vera hver í sínu húsi og ekki upp á nokkurn máta láta sig sjá á götunum, heldur ekki að hafa samtal, eða senda skrifleg eða munnleg boð hver til annars né taka á móti slíku án þess að þeir hafi leyfi þar til.

3. Allir danskir embættismenn skulu vera um kyrt í sínu eigin húsi og eru undir sömu skilmálum sem hinir í undangangandi paragraph.

4. Allslags vopn án undantekningar, svo sem byssur, pístólur, korðar, lángir knífar (Dolk) eður ammunition skulu án tafar afhendast.

5. Sé svo að nokkur af landsins innbyggjurum, kvenfólk eða börn, skulu fara sendiferð milli Danskra án leyfis, eiga þeir að straffast sem stjórnarstandsins fjandmenn, samt sem áður, ef barnið ekki veit af, að það hafi drýgt yfirsjón, þá skal sú persóna, sem sendi það straffast í þess stað.

6. Allir lyklar til opinberra einnig privat pakkhúsa og krambúða, skulu afhendast; allir peningar og bankoseðlar, sem annaðhvort tilheyra kónginum ellegar þeim faktórum, sem eru í sambandi með dönskum höndlunarhúsum, skulu geymast strax undir loku og lás og lyklarnir afhendast ásamt öllum reikningskapar bókum, protokollum og pappírum, sem tilheyra kónginum og faktórum, er meðhöndlast upp á líkan máta.

7. Til að uppfylla þessi boð gefst yður hér í Reykjavík hálfur þriði tími, í Hafnarfirði 12 tímar, en síðar meir skal nauðsynleg ráðstöfun ské á öðrum fjærliggjandi stöðum.

8. Allir innfæddir, börn og kvenfólk, hverir sem eru og hverjum sem til heyra, — allir innfæddir embættismenn, — hafa fyrir eingu að óttast, og skulu meðhöndlast á bezta hátt, þó með því skilyrði, að þeir ekki brjóti á móti áðurnefndum skipunum.

9. Sé þessum vorum boðum strax að fullu hlýtt, mun það að miklum hluta hlífa við óþarfa mælgi og blóðsúthellingu, en skyldi einn eður annar, hver sem er, breyta öðruvísi en hér er fyriskipað verður hann að skyndingu fastur settur, heimtast fyrir stríðsrétt, og á að skjótast innan tveggja tíma, ef hann hefir brotið.

10. Þegar öllu hér að framan skrifuðu er fram fylgt, verður útgefin opinber auglýsing, af hverju Íslenzkir munu fá að sanna, að ekkert annað er tilgangurinn hér við en þeirra eigið gagn, og að þegga er fyrirtekið einungis til að gera þá vissa um frið og fullsælu, er Íslendingar munu varla hafa þekt á hinum seinni árum.

11. Þessi auglýsing skal verða skriflega til kynna gefin, hvar sem verður, svo Íslenzkir fái séð, að ekkert verði gert, er hindri frjálsræði þeirra, eður á nokkurn hátt [geti] orðið þeim til skaða.

Geti nokkur með rökum sannað, að einhver hafi brotið á móti þessari auglýsingu, þá skal sá hljóta verðlaun af 50 rd.

Reykjavík, þann 26ta Júnii 1809.
Jörgen Jörgenson