Galdramennirnir í Vestmannaeyjum

Úr Wikiheimild
Galdramennirnir í Vestmannaeyjum
Úr Íslenzk æfintýri, þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar (1819-1888) og Magnúsar Grímssonar (1825-1860) sem kom út í Reykjavík 1852.

Þegar svartidauði geisaði yfir Ísland tóku átján galdramenn sig saman og gjörðu félag með sér. Þeir fóru út í Vestmannaeyjar og ætluðu þar að verja sig dauðanum meðan þess yrði auðið. Þegar þeir sáu að sóttinni var farið að létta af landinu vildu þeir vita hvort nokkur maður mundi lifa. Þeir tóku sig saman um að senda einn þeirra á land. Tóku þeir þann til þess sem hvorki var mestur né minnstur í íþrótt þeirra. Hann fluttu þeir í land og sögðu að ef hann yrði ei kominn aftur fyrir jól mundu þeir senda honum sendingu sem dræpi hann. Þetta var snemma á jólaföstunni. Maðurinn fór og gekk lengi og kom víða. En hvergi sá hann mann; bæirnir stóðu opnir og önduð lík lágu á víð og dreif í þeim. Loksins kom hann að einum bæ lokuðum. Hann furðaði sig á því og nú vaknaði hjá honum von um að hann mundi finna mann. Hann barði að dyrum og þar kom út ungleg stúlka og fríð. Hann heilsaði henni, en hún hljóp um háls honum og grét af gleði yfir því að sjá mann; því hún sagðist hafa hugsað að enginn lifði eftir nema hún ein. Hún bað hann að vera hjá sér og hann játaði því. Fóru þau nú inn og töluðu margt saman. Hún spurði hann hvaðan hann kæmi og hvað hann væri að fara. Hann sagði henni það og það með að hann yrði að koma aftur fyrir jólin. Hún bað hann samt að vera hjá sér sem lengst. Aumkvaðist hann svo yfir hana að hann hét henni því. Sagði hún honum að þar nærri væri enginn maður á lífi því hún sagðist hafa farið vikuleið frá sér á alla vegu og engan mann fundið.

Nú leið fram undir jólin og Eyjamaðurinn vildi fara. Stúlkan bað hann að vera og sagði að félagar hans mundu ekki vera svo grimmir að láta hann gjalda þess þó hann dveldi hjá sér, einstæðingnum. Lét hann svo til leiðast og nú var kominn aðfaradagur jóla. Þá ætlar hann að fara hvað sem hún segi. Hún sér þá að nú duga ei bænir lengur og segir: „Heldurðu að þú komist út í eyjar í kveld? Eða þykir þér ekki eins gott að deyja hérna hjá mér og deyja einhverstaðar á leiðinni?“ Hann sá að tíminn var nú orðinn of naumur og ásetti sér nú að vera kyrr og bíða dauða síns.

Leið nú af nóttin og var hann mjög daufur, en stúlkan var hin kátasta og spurði hvort hann sæi hvað Eyjabúum liði. Hann sagði að nú væru þeir búnir að senda sendinguna í land og mundi hún koma í dag. Stúlkan settist nú hjá honum á rúmið sitt, en hann lagðist upp í fyrir ofan hana. Hann sagði að nú væri sig farið að syfja og væri það aðsókn. Síðan sofnaði hann. Stúlkan sat á rúmstokknum og var einatt að smávekja hann og láta hann segja sér hvar sendingin væri. En því nær sem hún kom því fastara svaf hann, og seinast þegar hann sagði að sendingin væri komin í landareignina sofnaði hann svo hún gat ei vakið hann oftar, enda leið þá ekki á löngu áður hún sá gufu mórauða koma inn í bæinn.

Gufa þessi leið hægt og hægt inn að henni og varð þar að mannsmynd. Stúlkan spyr hvert hún ætli að fara. Sendingin segir henni allt sitt erindi og bað hana fara af rúminu; „því ég kemst ekki upp fyrir þig,“ segir hún. Stúlkan segir að þá verði hún nokkuð til að vinna. Sendingin spurði hvað það væri. Stúlkan segir það sé það að lofa sér að sjá hvað hún geti orðið stór. Sendingin játar því og verður nú svo stór að hún fyllir upp allan bæinn. Þá segir stúlkan: „Nú vil ég sjá hvað lítil þú getur orðið.“ Sendingin segist geta orðið að flugu og í því bregzt hún í flugulíki og ætlar nú að komast undir hendina á stúlkunni upp í rúmið til mannsins. En þá lendir hún í sauðarlegg sem stúlkan hélt á og fór inn í hann, en stúlkan setti tappa í gatið. Lét hún síðan legginn með sendingunni í vasa sinn og vekur nú manninn. Vaknar hann þá fljótt og undrast mjög yfir því, að hann lifi enn. Stúlkan spyr hann hvar sendingin sé. Hann segist ekki vita hvað orðið hafi af henni. Segir þá stúlkan að það hafi sig lengi grunað að ekki mundu þeir vera miklir galdramenn í Eyjunum. Varð nú maðurinn mjög glaður og nutu þau bæði hátíðarinnar með mikilli ánægju.

En er leið að nýjári fór maðurinn að verða fálátur. Stúlkan spurði hvað að honum gengi. Hann segir að nú séu þeir í Eyjunum að búa til aðra sendingu, „og magna þeir hana allir. Hún á að koma hér á gamlaársdag og þá mun ei gott að forða mér.“ Stúlkan sagði að ekki gæti hún kviðið því að óreyndu, „og skaltu ekki vera hræddur við sendingar Eyjamanna“. Var hún nú hin kátasta og þótti honum þá skömm að að bera sig mjög illa. Á gamlársdag segir hann að nú sé sendingin komin í land, „og miðar henni fljótt því hún er ákaflega mögnuð“. Stúlkan segir að hann skuli nú ganga út með sér. Hann gjörir það. Ganga þau þangað til þau koma að skógarrunn einum. Þar nemur hún staðar og kippir upp nokkrum hríslum. Verður þá fyrir þeim hella ein. Hún lyftir upp hellunni og er þar jarðhús undir.

Þau ganga nú ofan í jarðhúsið og er þar dimmt og ógurlegt. Þar er ein ljóstýra dauf og logar hún á mannsístru í hauskúpu. Þar liggur karl einn heldur ógurlegur í rúmfleti við ljósið. Augun í honum voru eins og blóð og allur var hann ófrýnilegur svo Eyjamanninum þótti nóg um. Karlinn segir: „Það ber eitthvað nýrra við að þú ert á ferðinni, fóstra. Það er langt síðan ég hef séð þig og hvað á ég nú að gjöra fyrir þig?“ Stúlkan segir honum þá allt um ferðir sínar og um manninn og fyrri sendinguna. Karlinn biður hana að lofa sér að sjá legginn. Hún gjörir það og verður þá karlinn allur annar þegar hann tók við leggnum. Velti hann honum á allar lundir fyrir sér og strauk hann allan utan. Þá segir stúlkan: „Hjálpaðu mér nú fljótt, fóstri, því nú er manninn farið að syfja og það er merki þess að sendingin er senn komin.“ Karlinn tekur þá tappann úr leggnum og kemur þá flugan út úr honum. Karlinn strauk fluguna og klappaði henni og segir: „Farðu nú og taktu á móti öllum sendingum úr Eyjunum og gleyptu þær!“ Þá varð brestur mikill og fór flugan út og varð þá svo stór að annar skoltur tók við himin, en annar við jörðu. Tók hún svo á móti öllum sendingum úr Eyjunum og var nú manninum borgið.

Fóru þau nú heim aftur úr jarðhúsinu og settust að á bæ stúlkunnar. Áttust þau síðan og jukust og margfölduðust og uppfylltu jörðina.