Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/73

Úr Wikiheimild

Þá er Ólafur konungur Tryggvason hafði verið tvo vetur konungur að Noregi var með honum saxneskur prestur, sá er nefndur er Þangbrandur. Hann var ofstopamaður mikill og vígamaður en klerkur góður og maður vaskur. En fyrir sakir óspektar hans þá vildi konungur eigi hann með sér hafa og fékk honum sendiferð þá að hann skyldi fara til Íslands og kristna landið.

Var honum kaupskip fengið og er frá hans ferð það að segja að hann kom til Íslands í Austfjörðu í Álftafjörð hinn syðra og var eftir um veturinn með Halli á Síðu. Þangbrandur boðaði kristni á Íslandi og af hans orðum lét Hallur skírast og hjón hans öll og margir aðrir höfðingjar en miklu fleiri voru hinir er í móti mæltu. Þorvaldur veili og Veturliði skáld ortu níð um Þangbrand en hann drap þá báða. Þangbrandur dvaldist tvo vetur á Íslandi og varð þriggja manna bani áður hann fór í brott.