Heimskringla/Ólafs saga helga/12

Úr Wikiheimild

Sveinn tjúguskegg Danakonungur var þenna tíma í Englandi með Danaher og hafði þar þá setið um hríð og haft land Aðalráðs konungs. Höfðu þá Danir víða gengið yfir England. Var þá svo komið að Aðalráður konungur hafði flúið landið og farið suður í Valland.

Þetta sama haust er Ólafur konungur kom til Englands urðu þau tíðindi þar að Sveinn konungur Haraldsson varð bráðdauður um nótt í rekkju sinni og er það sögn enskra manna að Játmundur hinn helgi hafi drepið hann með þeima hætti sem hinn helgi Merkúríus drap Júlíanum níðing.

En er það spurði Aðalráður Englakonungur þá snýr hann þegar aftur til Englands. En þá er hann kom aftur í landið sendi hann orð öllum þeim mönnum er fé vildu þiggja til þess að vinna land með honum. Dreif þá mikið fjölmenni til hans. Þá kom til liðs við hann Ólafur konungur með mikla sveit Norðmanna.

Þá lögðu þeir fyrst til Lundúna og utan í Temps en Danir héldu borginni. Öðrum megin árinnar er mikið kauptún er heitir Súðvirki. Þar höfðu Danir mikinn umbúnað, grafið díki stór og settu fyrir innan vegg með viðum og grjóti og torfi og höfðu þar í lið mikið. Aðalráður konungur lét veita atsókn mikla en Danir vörðu og fékk Aðalráður konungur ekki að gert. Bryggjur voru þar yfir ána milli borgarinnar og Súðvirkis svo breiðar að aka mátti vögnum á víxl. Á bryggjunum voru vígi ger, bæði kastalar og borðþök forstreymis svo að tók upp fyrir miðjan mann. En undir bryggjunum voru stafir og stóðu þeir niður grunn í ánni.

En er atsókn var veitt þá stóð herinn á bryggjunum um allar þær og varði þær. Aðalráður konungur var mjög hugsjúkur hvernug hann skyldi vinna bryggjurnar. Hann kallaði á tal alla höfðingja hersins og leitaði ráðs við þá hvernug þeir skyldu koma ofan bryggjunum. Þá segir Ólafur konungur að hann mun freista að leggja til sínu liði ef aðrir höfðingjar vilja að leggja. Á þeirri málstefnu var það ráðið að þeir skyldu leggja her sinn upp undir bryggjurnar. Bjó þá hver sitt lið og sín skip.