Heimskringla/Ynglinga saga/1

Úr Wikiheimild

Kringla heimsins, sú er mannfólkið byggir, er mjög vogskorin. Ganga höf stór úr útsjánum inn í jörðina. Er það kunnigt að haf gengur frá Njörvasundum og allt út til Jórsalalands. Af hafinu gengur langur hafsbotn til landnorðurs er heitir Svartahaf. Sá skilur heimsþriðjungana. Heitir fyrir austan Asía en fyrir vestan kalla sumir Evrópu en sumir Eneu. En norðan að Svartahafi gengur Svíþjóð hin mikla eða hin kalda. Svíþjóð hina miklu kalla sumir menn eigi minni en Serkland hið mikla, sumir jafna henni við Bláland hið mikla. Hinn nyrðri hlutur Svíþjóðar liggur óbyggður af frosti og kulda, svo sem hinn syðri hlutur Blálands er auður af sólarbruna. Í Svíþjóð eru stórhéruð mörg. Þar eru og margs konar þjóðir og margar tungur. Þar eru risar og þar eru dvergar, þar eru blámenn og þar eru margs konar undarlegar þjóðir. Þar eru og dýr og drekar furðulega stórir. Úr norðri frá fjöllum þeim er fyrir utan eru byggð alla fellur á um Svíþjóð, sú er að réttu heitir Tanaís. Hún var forðum kölluð Tanakvísl eða Vanakvísl. Hún kemur til sjávar inn í Svartahaf. Í Vanakvíslum var þá kallað Vanaland eða Vanaheimur. Sú á skilur heimsþriðjungana. Heitir fyrir austan Asía en fyrir vestan Evrópa.