Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Þórir kóngsson og Öskuberi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Þórir kóngsson og öskuberi

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki; þau áttu sér einn son sem Þórir hét. Kóngur og drottning voru í öðru ríki og áttu þau tvö börn, son og dóttur; hét sonurinn Sigurður, en dóttirin Þórdís. Þessi tvö kóngsríki lágu hvert skammt hjá öðru og léku kóngsbörnin sér saman og fór vel á með þeim Þóri og Þórdísi. Karl bjó í koti sínu skammt þar frá og átti hann son einn; kom hann oft heim í kóngsríkin og lék sér með kóngsbörnunum og líkaði þeim vel við hann.

Einu sinni dó karlinn í kotinu og kom sonur hans sér þá í þjónustu föður Þóris; hann var hafður til að bera vatn og ösku og var því nefndur Öskuberi. Þeir Þórir og Öskuberi urðu brátt svo góðir vinir að hvorugur mátti af öðrum sjá.

Nú liðu stundir fram að ekkert bar til tíðinda þangað til Þórir og Þórdís voru orðin sextán vetra; þá fóru menn að taka eftir því að Þórir fór að gefa Þórdísi hýrt auga og grunaði marga að hugir þeirra mundu ekki vera fjarlægir hvor öðrum. Fljótt barst þessi kvittur til eyrna drottningarinnar móður Þórdísar og varð hún þá ævareið, því að hún þóttist vera miklu meiri að völdum og virðingu en foreldrar Þóris. Lét hún því smíða rammbyggða skemmu handa dóttur sinni; þar skyldi hún vera og engin samskipti hafa við aðra menn en þernur þær sem henni voru fengnar til fylgdar og þjónustu. Hin helzta þeirra var ráðgjafadóttir og hét hún Sigríður. Þau Þórir og Þórdís gátu nú aldrei talazt við nema stöku sinnum með bendingum sem þó oft mistókst.

Nú þegar svo var komið undi Þórir ekki hag sínum heima; gekk hann því fyrir föður sinn og bað hann að lofa sér í hernað; sagðist hann ekki una sér heima þar sem hann fengi ekki Þórdísar. Faðir hans var lengi tregur til, en þó lét hann til leiðast um síðir og var nú búin ferð Þóris á einu skipi. Sigurður kóngsson vildi ekki skilja við fóstbróður sinn og fylgdi hann honum á öðru skipi. Ætlaði Öskuberi með þeim, en þegar þeir gengu til sjávar tók Þórir hann afsíðis og bað hann að vera heima og þó hann væri lengi tregur til lét hann þó til leiðast um síðir. Þórir fékk honum nú samanvafinn böggul sem hann bað að koma til Þórdísar; einnig bað hann hann fyrir að veita Þórdísi alla þá hjálp er hann gæti og hún þyrfti. – Skildu þeir nú og héldu þeir Þórir og Sigurður á haf, en Öskuberi hélt heim og lagðist í rúmið; þóttist hann vera veikur og hefði þess vegna hætt við förina. Eftir nokkra daga reis Öskuberi úr rekkju alheill og gekk til skemmu Þórdísar; hittist þá svo á að hún sat úti, því að ekki var hennar eins vel gætt eftir að Þórir fór. Kastaði nú Öskuberi bögglinum í kjöltu hennar og sagði: „Mundu nú knýtið“ – og gekk síðan á burtu; en Þórdís leysti upp böggulinn og var í honum bílæti af Þóri og gullhjarta.

Liðu nú fram nokkrir tímar að ekki bar til tíðinda. Þórdís sat í skemmu sinni og syrgði Þóri. Þá kom ríkur ráðgjafasonur og bað Þórdísar. Móðir hennar leizt svo vel á hann að hún hét honum dóttur sinni. Næsta morgun fylgdi hún ráðgjafasyninum til skemmu Þórdísar og mátti hún lofast honum nauðug viljug.

Einu sinni voru þau á gangi úti Þórdís og ráðgjafasonurinn. Varð þá Öskuberi fyrir þeim og stagaðist einlægt á þessu: „Mundu knýtið! Mundu knýtið!“ Ráðgjafasoninn furðaði á þessu og spurði hann Þórdísi hvað það væri sem strákurinn væri einlægt að segja. Þórdís sagði að það væri vitfirringur og væri því ekki að marka hvað hann þvaðraði. Síðan bað hún hann að geyma að halda brúðkaupið í fjörutíu daga og lofaði hann því. Þórdís fór nú aftur í kastalann og kallaði á Sigríði og sagði við hana: „Ég hefi reynt þig að tryggð við mig og ætla ég því að trúa þér fyrir leyndarmáli mínu. Svo er mál með vexti að ég er með barni af völdum Þóris og mun ég innan skamms léttari verða. Nú má enginn vita af þessu nema þér þernur mínar; því vil ég biðja þig að fara með barnið fyrir mig strax og það er fætt til vinkonu minnar.“ Sigríður lofaði því; síðan sagði hún Sigríði hvar vinkonan væri. Því næst lagðist hún á sæng og ól sveinbarn næsta fagurt. Það var vatni ausið og nefnt Þórir. Þegar það var fætt hélt Sigríður af stað með það til vinkonu Þórdísar.

Nú víkur sögunni til Öskubera að kvöldið áður en Þórdís skyldi giftast varð honum reikað út á skóg; þar fann hann hestavörð kóngsins föður Þórdísar og fór að segja honum frá því að hann ætti að fá veizlu næsta dag; lézt hann nú vera mjög kátur og bauð hestaverðinum að vaka fyrir hann um nóttina yfir hestunum; hann sagðist svo ekki geta sofið hvort sem væri. Hestavörðurinn þáði það og lagðist til svefns; en þegar hann var sofnaður dró Öskuberi sverð hans úr slíðrum og lagði hann í gegn. Síðan tók hann fimm beztu hestana og fór síðan til kóngsdóttur og sagði að ef hún ekki vildi giftast ráðgjafasyninum þá yrði hún að flýja með sér þá um nóttina. Þórdís féllst á það og héldu þau svo af stað; höfðu þau tvo til reiðar hvert, en höfðu farangur á einum. Héldu þau nú áfram ferð sinni í sex daga samfleytt, en þá komu þau að svo stórri móðu að þau komust ekki yfir hana. Byggði þá Öskuberi kofa handa þeim sem þau höfðust við í; svo gjörðu þau þann samning með sér að ef ekki yrði búið að finna þau eftir sex ár þá skyldu þau eigast. Segir nú ekki af þeim fyrst; en nú er að segja frá því að þegar átti að sækja brúðina í skemmu sína brúðkaupsmorguninn var hún öll á burt og Öskuberi líka; einnig fannst hestavörðurinn drepinn og fimm beztu hestum kóngsins stolið. Grunaði menn þá að Öskuberi hefði stolið henni og flúið svo burt með hana; var nú safnað liði og þeirra leitað í hálfan mánuð dag og nótt, en allt kom fyrir ekki; brúðurin fannst ekki og ráðgjafasonurinn mátti fara heim aftur ver en sneyptur. Sömuleiðis vissi enginn hvað af Sigríði var orðið.

Liðu nú þannig fimm ár; þá kom Þórir heim aftur. Höfðu þeir fóstbræður farið víða um lönd og alstaðar haft sigur; kom hann heim með tíu skip sem hann átti einn, því að Sigurður hafði lagzt og dáið þegar þeir áttu skammt eftir heim og hafði hann gefið Þóri allt eftir sinn dag. Þegar hann kom heim til föður síns frétti hann hvarf Þórdísar og Öskubera. Þótti honum nú leitt að verða þannig af brúði sinni og sagði að linlega myndi hafa verið leitað að Þórdísi, og gjörir hann út skip er skyldi sigla hringinn í kringum landið og leita þeirra alstaðar með ströndum fram, en sjálfur ætlaði hann að leita þeirra á landi uppi ásamt með sveinum sínum. Leituðu þeir Þórir nú lengi lengi um skóga og fjöll og komu loksins að kofanum við móðuna og fundu þau Þórdísi og Öskubera þar; voru þá liðin hálft sjötta ár síðan þau flúðu. Varð þar mikill fagnaðarfundur sem von var. Þar hvíldu þeir sig um nóttina; en morguninn eftir héldu þau öll af stað heim í kóngsríkið. Segir ekki af ferðum þeirra fyr en þau koma í skóg einn; þar sáu þau dreng einn á að gizka fimm til sex ára gamlan; hann hélt á fuglakippu í hendinni, og þegar hann sá þau Þóri tók hann á sprett og hljóp þangað til hann mætti kvenmanni einum sem greip hann í fang sér og hljóp með hann inn í skóginn; en þegar Þórdís sá stúlkuna þeysti hún á eftir henni og létti eigi fyr en hún náði henni. Var þar þá komin Sigríður, hin forna þerna hennar. Sagði hún henni þá að þegar hún hefði komið með barnið til vinkonunnar hefði hún hvorki viljað heyra það né sjá. Svo sagðist hún hafa ætlað að fara með það heim aftur, en þá hefði hún verið horfin. Sagðist hún þá ekki hafa séð annað ráð vænna en að fara út á skóg og ala þar önn fyrir barninu eftir því sem hún bezt gæti. Sagðist hún hafa haft ofan af fyrir sér með því að veiða fugla og smádýr.

Héldu þau nú öll heim í kóngsríkið og giftist Þórir Þórdísi, því að móðir hennar var nú dáin og gat ekki lengur verið því til fyrirstöðu, en Öskuberi átti Sigríði; fekk hann hennar fyrir dyggð sína og trúmennsku.

Þórir settist að í ríki föður síns, en Öskuberi fékk ríki föður Þórdísar. Ríktu þeir bæði vel og lengi og áttu börn og burur o. s. frv.

Endar svo þessi saga.