Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Lúpusar saga

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Lúpusar saga

Svo er sagt að á skógi nokkrum víðum bjuggu forðum karl og kerling í koti sínu. Þau áttu sonu þrjá; hét Sigurður hinn elzti, annar Sigmundur og hinn yngsti Lúpus. Karl og kerling unnu mjög hinum eldri sonum sínum, en bæði voru þau illa til Lúpusar. Lá hann jafnan á öskudyngju og hafði til matar það er verst þótti vera.

Þess er getið eitt sinn þá þeir bræður voru vaxnir að Sigurður mælti við föður sinn: „Það viljum við Sigmundur að þú búir ferð okkar. Leiðist oss að vera lengur á eyðiskógi þessum. Viljum við nema siðu góðra manna og leita okkur fjár og frægðar.“ Karl kvað svo vera skyldi og er búin var ferð þeirra biður Lúpus föður sinn orðlofs að fara með bræðrum sínum. Hann varð fár við, kvað það fjarri fara mundi, „og vil ég ekki að þú sért þeim sonum mínum til óvirðingar í för þeirra“. Lúpus biður ei að síður föður sinn fararleyfis. Hann neitaði jafnskjótt, en Lúpus hélt fast á að biðja. Þá mælti Sigurður: „Því skal ekki leyfa honum förina? Mun hann þá brátt verða drepinn og er hann oss þá ei lengur til skapraunar.“ Karl kvað það satt vera, „og er mála sannast að bezt er að leyfa honum að fara til að losa hann við sig“. Er honum nú fenginn malur og er þar í roð, uggar og gráði. Þeir bræður hans höfðu vopn og allgóð klæði, en Lúpus var lítt klæddur og vopnlaus. Fara þeir bræður nú af stað allir og ganga út á skóginn. Fara þeir frá morgni til miðdags og vita ógjörla hvurt þeir halda. Nær miðjum degi setjast þeir bræður til matar. Höfðu þeir eldri vel vandað nesti. Lúpus settist skammt frá þeim við uggapoka sinn. Hann bryður það er hann má, og hefir matazt miklu fyrr en bræður hans. Þá rekur hann upp hlátur mikinn og hló lengi og hátt. Þeir spyrja að hvurju hann hlæi. Hann kvað það markleysu og lézt ekki mundi segja frá því. Sigurður mælti: „Það vil ég víst að þú segir mér að hvurju þú hlær. Ertu skyldur til að gjöra vilja minn, því það áttu mér að þakka að þú fekkst að fara þessa för.“ Lúpus kvað ósýnt hvur meir ætti öðrum að þakka þá er lyki, „en segja má ég þér að ég hló að náttstað þeim er vér munum eiga í nótt“. Þeir kváðu hann það ógjörla vita mundi hvur náttstaður þeirra yrði. Þeir fóru síðan af stað aftur og gengu þann dag allan til kvölds og um kveldið tóku þeir sér náttstað undir eik mikilli. Lúpus kvað ráðlegra að fara upp í lim eikarinnar og búast þar um. Þeir gjöra nú svo og búa sér bæli í limi eikarinnar. Sofna þeir þegar hinir eldri og sofa allfast, en Lúpus vakir, og er kom nokkuð á nótt fram heyrir hann hark mikið. Því næst kemur ljón ógurlegt fram úr skóginum og að eik þeirri er þeir bræður voru í. Það ræður þegar til uppgöngu í eikina. Lúpus hafði tekið sverð Sigurðar og brugðið því, og er ljónið kemur þar upp að þeim höggur Lúpus í höfuð því með öllu afli svo í heila stóð, og fellur ljónið þegar dautt niður. Og eftir þetta leggur Lúpus sig til svefns og sefur til morguns og er þeir vakna bræður og sjá hvað Lúpus hefir unnið þakka þeir honum og voru vingjarnlegri við hann en áður.

Þeir fara nú þaðan og gengu til miðdegis. Þá tóku þeir til matar og köstuðu nokkru til Lúpusar. Hann sat skammt frá þeim að rífa roð sín og er miklu fljótar búinn að matast en þeir. Og nú rekur hann upp hlátur miklu meiri en hinn fyrra dag og veltist hann um í sífellu meðan þeir luku að matast, svo hló hann. Sigurður spurði hann þá: „Að hvurju hlær þú nú?“ Hann svarar: „Að náttstað vorum þeim er í nótt mun verða.“ Sigurður spyr hvursu hann mundi verða. Lúpus mælti: „Í kvöld munum vér koma að helli stórum sem tröllkona sú ræður er Trappa heitir, hið mesta flagð. Hún á dætur þrjár og son einn er Rauður heitir. Hann hefir með svikum sínum gjörzt ráðgjafi konungs þess er þessu landi ræður og gjört þar margt illt. Trappa mun taka glaðlega móti yður og bjóða yður gisting og allan beina og skulu þér þekkjast það. En illa mun hún við mig verða og mun ekki vilja veita mér gistingu. Þá skulu þér segja að ég sé vitlaus og enginn þurfi að óttast mig. Mun hún þá segja að ég skuli liggja á skíðahrúgu að hurðarbaki og mun ég þar verða, en munið að hafa ekki hátt þó ég hreyfi ykkur nokkuð í nótt þegar tröllkonurnar eru í svefn komnar, því Trappa mun láta ykkur liggja hjá dætrum sínum.“ Þeir hétu að fara að hans ráðum. Halda þeir nú áfram ferð sinni þann dag til kvölds og um kvöldið síðla komu þeir að helli hávum og víðum. Hurð var fyrir dyrum, hnigin á klofa, og er þeir komu að dyrunum er lokið upp hurðinni, og kemur Trappa út í dyrnar og mælti: „Komið heilir, góðir drengir, og verið velkomnir til gistingar með mér í nótt. Gangið inn og mun ég veita yður beina og láta ykkur hvíla hjá dætrum mínum, en ekki vil ég að óræsi það er fylgir ykkur komi inn fyri mínar hellisdyr.“ Sigurður mælti: „Rausnarlega er boðið og skal það víst þiggja, en maður sá er okkur fylgir og þér þykir svo ljótur er bróðir vor, og megum vér ekki skilja við hann því að hann er mjög óvitur og nærri fífl. Vil ég að þú leyfir honum að vera inni í hellinum, því ella munum vér allir á burtu fara.“ Trappa mælti: „Ekki er mér um hann þó það verði svo að vera fyrir þínar sakir, og skal hann þá liggja á skíðahrúgu að hurðarbaki.“ Sigurður kvað það gott rúm handa honum. Dætur Tröppu bjuggu nú rekkjur sínar, og eftir það er matur inn borinn sem þeir bræður mega vel eta, og þegar þeir höfðu matazt lætur Trappa þá eldri bræður hátta hjá dætrum sínum tveimur og lágu þeir við stokk. Hin þriðja dóttir Tröppu lá hjá móður sinni. Lúpus lagðist á skíðahrúguna, og er stund leið tekur hann skíð og kastar á hurðina. Trappa reis þá upp við olboga og mælti: „Ef þú verður ekki kyrr þá drep ég þig.“ En Lúpus brá sér ekki við þetta og lá nú sem ekki hefði í orðið, og eftir nokkra stund kastar hann aftur skíði á hurðina og við það rumskar Trappa nokkuð. Líður enn stund og kastar Lúpus hinu þriðja skíðinu, og nú bærist Trappa ekki og engin hreyfing er í hellinum. Nú stendur Lúpus upp hægt og gengur inn í hellinn þangað að er bræður hans hvíldu. Tekur hann þá upp og leggur þá upp fyrir tröllkonurnar í rekkjurnar og vakna þær ekki við það. Eftir það leggur hann sig aftur á skíðahrúguna. Eftir stund liðna heyrir hann að Trappa vaknar og vekur dóttur sína, þá er hjá henni lá, og mælti: „Far á fætur dóttir; far hljóðlega og högg höfuðin af báðum þeim er við stokk hvíla.“ Hún gjörir svo og höggur höfuð af báðum systrum sínum. Eftir það fer hún í rekkjuna aftur og sofnar og báðar þær. En Lúpus gengur hægt til bræðra sinna og bað þá upp standa og út ganga og verða burt sem skjótast, „en ég mun dveljast eftir,“ segir hann, „og vita hvursu kerlingu verður við er hún vaknar. Bíði þér mín í skóginum.“ Hann felur sig nú þar sem honum þykir vænst, en þeir fara út á skóg og bíða þar. Nær rismálum vaknar kerling og vekur dóttur sína og mælti: „Far þú á fætur, dóttir, og settu upp hituketilinn; brytjaðu strákana og sjóddu þá handa oss.“ Hún fer þegar á fætur og þrífur annan búkinn, hljóðar upp og segir: „Æ móðir mín, mikið slys hefir mig hent, ég hefi drepið báðar systur mínar, en strákarnir eru allir burtu.“ Trappa blés við og mælti: „Þess var von, þetta hefir strákurinn Lúpus gjört; mig grunaði þetta; ég vildi aldrei lofa honum að vera. En hvað um það, dóttir, hollur er haustskaði, og settu upp ketilinn ei að síður.“ Hún tekur til elds, en Trappa fór að klæðast og nú læðist Lúpus út og kemur til bræðra sinna og segir þeim frá þessu. Hlógu þeir nú mjög að öllu saman. Og nú ganga þeir til miðdags og taka þeir þá til matar. Þeir gefa nú Lúpusi mat með sér, en köstuðu roðapoka hans og nú hlær Lúpus ekki sem hina fyrri daga.

Þá tekur Sigurður til orða við hann: „Meiri gæfu höfum vér af þér haft en ég ætlaði, eða hvurt veiztu hvar vér munum hafa náttstað í nótt?“ Lúpus kvaðst mundi mega nærri því geta. Sigurður bað hann þá segja það. Lúpus mælti: „Allskammt héðan er borg mikil og ræður þar fyrir konungur sá er þessu landi stjórnar. Hann hefir átt dætur tvær við drottningu sinni, en er Rauður son Tröppu flagðkonu hafði með svikum gjörzt ráðgjafi konungs lagði hann það á dætur konungs að þær skyldu verða að hestum og eta gras út á skógi, en ganga hvurja nótt í skíðgarð konungs og spilla þar öllu og skyldi enginn þeim varna mega, fæddur eða ófæddur. En þá sömu stund var ég að fæðast og mun ég ekki vera undir þessum álögum. Mun ég geta varið skíðgarðinn fyrir hestunum. Ekki man konungur til dætra sinna og ollir því fjölkynngi Rauðs. En því lagði hann þetta á konungsdætur að hann vildi eiga aðra hvurja þeirra, en hvurug vildi þýðast hann. Mikið mein þykir konungi að hestum þessum og gjörir hann það að ráðum Rauðs að þegar nokkrir útlendir menn biðja konung veturvistar, þá gjörir konungur þeim þann kost að þeir skuli vakta skíðgarðinn fyrir hestunum og gjalda svo veturvistarlaunin, en ef þeir fái það eigi gjört láti hann drepa þá. Þetta hefir enginn getað hér til og hefir konungur því látið drepa alla þá er hafa beðið hann veturvistar. Nú munu þér í kvöld koma til borgarinnar, en ég mun hafast við í skóginum og fara ekki heim til borgarinnar. Þér munu biðja konung veturvistar, og mun hann gjöra yður sama kost og hann gjörir öðrum mönnum, að þér vaktið skíðgarð hans, og muntu, Sigurður, vaka yfir honum í nótt. Mun ég þá koma til þín, og sjáum hvað í gjörist.“ Þeir þakka honum ráð sín og ganga þeir nú til þess er kvölda tók. Sjá þeir þá borgina fyrir sér. Þá mælti Lúpus: „Nú munu vér skilja um sinn og farið sem ég hefi sagt yður.“ Þeir kváðust á það hætta mundu. Kveðja þeir hann nú og fer hann í skóginn, en þeir ganga heim í borgina og til konungshallar. Gengu þeir fyrir konung og kvöddu hann sæmilega. Hann tók því allvel. „Svo er háttað, herra,“ segir Sigurður, „að vér vildum þiggja veturvist af yður.“ „Kostur skal þess,“ segir konungur, „þér skulu vaka yfir skíðgarði mínum og geyma svo að þar spillist ekkert, en ef nokkuð spillist þá skal líf ykkar við liggja.“ Sigurður mælti: „Til mun ég hætta að vaka í nótt.“ Konungur kvað svo vera skyldi og vakir Sigurður um nóttina, og þegar menn eru í svefn komnir kemur Lúpus til hans, og verður hann honum feginn. Litlu síðar komu hestarnir þar. Lúpus gekk móti þeim og mælti við þá: „Hvurt ætli þið að fara?“ Þeir töluðu manns máli og sögðu að þeir ætluðu í skíðgarð konungs. Lúpus mælti: „Farið þangað þá.“ En þeir kváðust það ekki mega, „og veldur þú því,“ segja þeir. Lúpus mælti þá: „Svo farið þið aftur út á skóg og komið hér ekki oftar.“ Þeir hétu því og fóru burt síðan. Nær degi fer Lúpus aftur út á skóginn og bað Sigurð vitja sín ef hann þættist í vanda kominn. Um morguninn er konungur reis á fætur, sá hann að skíðgarðurinn hafði trúlega varinn verið. Þykir honum þetta mikilsvert og gjörir hann þá bræður, Sigurð og Sigmund, að hirðmönnum sínum. Og er Sigmundur nú úr sögunni.

Þegar Rauður vissi hvar komið var gekk hann fyri konung og mælti: „Þessi Sigurður er annað tveggja hinn mesti garpur eða hann er mjög fjölkunnugur, og þykir mér það miklu líklegra. Er það mitt ráð að þér leggið fyrir hann þraut nokkra, þá er ekki sé auðunnin.“ Konungur spurði hvur sú þraut skyldi vera. Rauður mælti: „Muni þér ekki, herra, að áður áttu þér hring einn góðan sem var betri en aðrar gersemar yðar, en er nú horfinn?“ Konungur kvaðst það muna að hann átti hringinn, en ekki kvaðst hann vita hvað af honum væri orðið. Rauður mælti: „Skipa þú Sigurði að sækja hringinn og bið hann segja sér sjálfan hvar hans er að leita.“ Þetta þótti konungi gott ráð og kallar hann nú Sigurð fyrir sig og mælti: „Þess vil ég biðja þig, Sigurður, að þú sækir gullhring minn hinn góða er ég hefi misst.“ Sigurður mælti: „Hvar er hans að leita?“ Konungur mælti: „Það veit ég alls ekki, og muntu verða að segja þér það sjálfur.“ Sigurður kvað slíkt forsendingu. Fer hann síðan af stað og gengur út á skóg og finnur Lúpus og segir honum hvar komið er. Lúpus kvað hringinn hjá Tröppu vera mundi. Bað hann þá Sigurð fara í bæli það er hann hafði sér gjört, en sjálfur fer hann til hestanna og spyr þá ráða að ná hringnum. Þeir kváðu Rauð hafa stolið hringnum og gefið móður sinni. „Og er það eitt ráð til að ná honum að þú farir nú strax til hellis Tröppu og gangir upp á hellinn að strompinum sem á honum er. Þegar þú lítur inn um hann muntu sjá eld á miðju gólfi, og mun Trappa standa á höndum og fótum yfir eldinum nakin og baka sig um kríkana. Dóttir hennar mun í horni sitja öðrumegin. Nú ef þú vilt hringnum ná verður þú að herða upp hugann og fara af öllum klæðum og kasta þér ofan um strompinn niður í eldinn að baki Tröppu, og mun dóttir hennar það ekki sjá fyrir reyknum. Far þú síðan eftir því, sem þér þykir ráðlegast.“ Hann þakkar þeim ráð sín, og eftir það fer hann sem fljótast til hellis Tröppu og fer nú að öllu sem fyrir hann var lagt. Og er hann kastaði sér niður í eldinn verður Trappa vör við hann, þreif hann þegar upp og mælti: „Hvurju gegnir þetta? Kom þar krakki niður úr mér og veit ég ekki hvurnig hann hefir komið í mig.“ Dóttir hennar mælti: „Lát mig sjá hann, móðir!“ Hún fær hann dóttur sinni. Þá mælti dóttirin: „Gjörvulegur sveinn og gæfusamlegur, og skal ég ala hann upp svo hann verði maður minn.“ „Nei,“ segir Trappa, „illa lízt mér á hann og vil ég stinga honum undir jaxlinn.“ Dóttirin mælti: „Þú veizt þó, móðir, hvur kvöl það er að lifa mannlaus og trúi ég aldrei að þú synjir mér um þetta.“ Trappa mælti þá: „Þú skalt ráða, dóttir, en láttu strákinn ekki orga.“ Hún hét því. Býr hún nú um hann sem henni þótti vænlegast og orgar hann mjög. Hún fær honum lykla og annað leikfang og þagnar hann þá um stund, en tekur þegar að orga aftur. Þá mælti dóttirin: „Gjörðu það nú fyrir mig, móðir mín, að ljá mér hringinn sem Rauður son þinn gaf þér; mun drengurinn una við hann.“ Trappa mælti: „Það verður að vera í þetta sinn.“ Er honum nú fenginn hringurinn, og nú gjörist hann stilltur og rólegur. Líður nú fram til kvölds og hátta þær mæðgur. Tekur Trappa þá hringinn, en Lúpus orgar úr hófi. Dóttirin mælti: „Lofaðu honum að hafa hringinn í nótt svo við getum sofið fyrir honum.“ Trappa var þess alltreg, en lét þó svo vera um síðir. Og nú þegir Lúpus og skoðar hringinn, en þær sofna báðar og sem þær hafa svefninn fest læðist Lúpus frá þeim og út með hringinn. Hann fer upp á hellisglugg og liggur þar til þess þær vakna og þykjast sakna vinar í stað er burt var sveinninn og hringurinn. Trappa mælti: „Þetta grunaði mig og hefir þetta verið strákurinn Lúpus. Ég vildi stinga honum undir jaxlinn og þá hefði betur farið.“ Eftir það þagna þær og stökkur Lúpus þá af stað og léttir ekki fyrr en hann kemur til Sigurðar og fær honum hringinn og bað hann færa konungi. Og eftir það leggst hann í bæli sitt, en Sigurður fer á konungs fund og færir honum hringinn. Konungur varð glaður við og þakkaði honum.

Og er Sigurður var burt farinn tekur Rauður til orða: „Nokkra aðra þraut megi þér leggja fyri Sigurð, herra, ef hann skal ekki verða yður of stór að lyktum.“ Konungur spyr hvur sú þraut skyldi vera. Rauður mælti: „Þér munu muna, herra, að þér áttu fyrrum sverð það er allra sverða var bezt, en er nú horfið. Sýnist mér ráð að senda Sigurð eftir því,“ og játti konungur því. Lætur hann þegar kalla Sigurð fyri sig og mælti: „Fyrst þú máttir sækja hringinn muntu mega sækja sverð er ég hefi misst, allra sverða bezt, og seg þér sjálfur hvar það er.“ Sigurður kvað það óreynt, lézt ekki vita því konungur sendi hann eina forsending eftir aðra. Hann gengur út og fer til Lúpusar og segir honum hvar þá var komið. Lúpus kvað sverðið mundi hjá Tröppu vera. Bað hann Sigurð leggjast í bælið, en fór sjálfur á fund hestanna og spyr ef þeir viti nokkuð til sverðsins. Þeir kváðu Rauð hafa stolið því og gefið Tröppu, „og nær þú því aldrei,“ segja þeir, „utan þú sért svo hugaður að ganga til Tröppu og segja að nú vilir þú bæta henni það er þú hefir gjört henni á móti, og engum unna af þér átunnar utan henni.“ Lúpus fer þegar og gengur þar til hann kemur að Tröppuhelli. Hann gengur inn til Tröppu og mælti: „Nú er ég þar til hingað kominn, Trappa, að ég vil bæta þér allt það er ég hefi þér á móti gjört, og ann ég engum að njóta af mér átunnar utan þér.“ Trappa varð léttbrýn við og mælti til dóttur sinnar: „Þó er strákgreyið Lúpus ekki jafnillur og ég hugði; hann vill nú gefa mér af sér átuna í bætur fyri það er hann hefir mig móðgað. Skal nú gjöra veizlu af honum og bjóða til vinkonum mínum. Máttu gjöra hvort er þú vilt, bjóða þeim eða skera strákinn og sjóða.“ Hún kaus að annast strákinn. Trappa mælti: „Þá skaltu hirða það sem er undir stráknum og hnýta því við ketilhödduna, því þess ætla ég að neyta sjálf.“ Og nú fer Trappa burt, en dóttirin kallar Lúpus með sér til eldaskála og tekur þar sax og bregður. Lúpus mælti: „Ekki vil ég með þessu saxi drepinn vera. Vil ég þú drepir mig með hinu bezta sverði er móðir þín á.“ Dóttirin svarar: „Það sverð á hún bezt er Rauður gaf henni og vil ég ekki það taka.“ Hann bað hana víst það gjöra, „og mun það ekki spillast,“ segir hann. Hún lýkur þá upp kistu mikilli og eru þar margar gersemar í. Þar tekur hún sverðið. Lúpus mælti: „Þetta er góður gripur og muntu lofa mér að skoða það áður ég dey.“ Hún varaðist það ekki og fær honum sverðið. Hann brá því þegar og höggur á háls henni svo af tók höfuðið, fer síðan í klæði hennar, en brytjar búkinn í ketilinn, fyllir síðan vindaugu öll á eldaskálanum, og fyllist hann þegar af reyk. Litlu síðar kemur Trappa í eldaskálann og mælti: „Kaf er hjá þér, dóttir, farðu út og snúðu skjólinu.“ Lúpus fer út og rekur brugðið sverðið um þvert í eldhúsgöngin, gengur síðan upp á strompinn og heyrir að Trappa talar inni og segir við sjálfa sig: „Nú skal éta heitt og feitt undan stráknum.“ Þá hló Lúpus og mælti: „Fyrr muntu hafa heitt og feitt undan dóttur þinni.“ Þá brá Tröppu mjög við og mælti: „Þetta er þá strákurinn Lúpus.“ Hún æðir þá út í grimmd mikilli, en í göngunum rekur hún sig á sverðseggina og fellur í tvo hluti. Lúpus fer þá inn og tekur sverðið og það fémætt er hann má með komast, og fer burt sem skjótast. Hann sér að tröll koma úr öllum áttum, og þegar þau er síðar komu vissu að Trappa var dauð ætluðu þau að hin er fyrri komu hefði drepið hana, og börðust þau út af því og drápust öll niður.

Lúpus fer til Sigurðar og fær honum sverðið. Sigurður færir það konungi og er Rauður sér það bregður honum við og mælti: „Undarlegur maður mun þessi Sigurður, herra. Bjóðið honum að segja ævisögu sína.“ Konungur kvað svo vera skyldi. Sigurður mælti: „Það vil eg gjöra, en þó mun Rauður fyrr verða að segja sína.“ Konungur kvað hann ekki mundi fælast það og bað hann svo gjöra, og nú segir Rauður hvur ætt hans var og hvursu hann með brögðum varð ráðgjafi konungs, hvursu hann lagði á dætur konungs og stal hringnum og sverðinu. Nú segir Sigurður sína ævisögu og er hún áður skrifuð. Lætur konungur nú sækja Lúpus og setur hann hið næsta sér og gaf honum tignarklæði og mælti: „Þú ert vitur maður, og skaltu dæma hvurt straff Rauður skal líða.“ Lúpus mælti: „Hann skal tvo kosti kjósa; annar er að hann leysi dætur yðar úr álögum og sé svo hálshöggvinn, annar að hnýtt sé fótum hans aftan í ótemjur tvær og þær síðan fældar á skóg út.“ Rauður kaus að leysa konungsdætur, og svo gjörir hann og er síðan drepinn. Eftir það gefur konungur þeim Sigurði og Lúpusi dætur sínar og afhendir þeim ríkið. Þeir skiptu því með sér og ríktu síðan með farsæld og heiðri til ellidaga, og lýkur svo sögunni.