Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Slægðabelg

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Slægðabelg

Einu sinni var kóngur og drottning er réðu fyrir ríki; þau áttu sér eina dóttur barna; hún var harðla fríð sýnum og vel að sér um allar kvenlegar listir. – Þar skammt frá konungsaðsetunni bjó karl í garðshorni með kerlingu sinni; þau áttu sér einn son; hann var snemma keskinn og kyndugur við ýms brögð; hann ólst þar upp í kotinu við fátæki og var jafnan lítt klæddur. Hann lagði oft leiðir sínar heim til konungshallar og gaf sig þar í leika með öðrum drengjum; átti hann þar ávallt góðu að mæta og hendu menn gaman að brögðum hans, eigi síður kóngur en aðrir.

Einhvern dag kallar kóngur karlsson fyrir sig, biður hann nú leika einhver brögð sér til skemmtunar. Karlsson segist engin brögð kunna. Kóngur spyr hvort hann kunni ekki að stela. Karlsson segir að það sé hvorttveggja að hann kunni það ekki, enda þori hann það ekki heldur, því þá mundi hann skjótt verða drepinn. Kóngur segir að honum skyldi ekki verða mein gert.

Kóngur átti sér einn uxa, manneygðan mjög og illan viðureignar; hann var lokaður inni í einum miklum garði skammt frá koti karls. Kóngur segir að þessum uxa skuli karlsson stela í nótt og eiga hann ef hann fái sigrað hann og komið honum undan, en vera drepinn ella. Karlsson segir að það muni fara um líf sitt sem auðið sé, en telur þess litla von að hann muni fá þessu orkað. Fer hann nú heim um kvöldið og er mjög hugsandi hvað hann skuli nú til bragðs taka. Það verður nú ráð hans að hann bregður móður sinni á einmæli og segir henni hverja þraut kóngur hafi lagt fyrir sig og svo hvað við liggi. Kerling var forn í skapi og haldin margkunnandi. Hún segir að hann muni verða að freista að leysa líf sitt og ná uxanum, megi þeim og verða það allmikil björg ef auðna sé með. Hún fær nú syni sínum einn lítinn poka og segir honum að ef svo takist vel til að hann fái komizt upp á garðinn þá muni boli skjótt þar koma og vilja ná til hans; skuli hann þá sá dufti því er í pokanum sé í augu honum og höfuð, og þyki sér þá meiri von að hann kunni að linast svo að hann fái yfir hann stigið.

Nú sem nótt kemur þá fer karlsson til garðsins þar sem uxinn var inni læstur. Ekki hafði hann vopna nema tygilkníf einn lítinn. Garðurinn var rambyggður og geysihár svo að hann varð að gera sér spor með knífi sínum áður hann fengi komizt upp. En jafnskjótt sem hann er kominn upp á garðinn þá geysist boli að honum með öskri og illum látum; ræðst hann þegar á garðinn með ógurlegum atgangi, en fær ekki áunnið sökum þess að garðurinn var svo ramgjörr. Hann teygir nú upp hausinn og lætur tunguna ganga um fætur karlssyni. Tekur þá karlsson til poka síns og sáir duftinu í haus honum og augu, en ristir með hnífkuta sínum skurði marga í tungu hans. Bregður nú bola illa við þetta allt saman og verður hann blindur og valtur á fótum og því næst fellur hann dauður niður. Karlsson stekkur nú inn af garðinum og tekur að birkja uxann; veitti honum það næsta erfitt, því að hnífur hans var svo lítill þó hann væri beittur. Um síðir fær hann murkað höfuð af bola og flær nú af honum belg. Eftir það sundrar hann skrokkinn og kemur öllu upp á garðinn, fer síðan eftir hestum er karl faðir hans átti og flytur uxann heim í kotið og hefir hann lokið þessu öllu fyrir dag; þykist hann nú vel hafa veitt.

Daginn eftir gengur hann heim til hallar kóngs eftir vanda og kemur nú nokkuru seinna en hann var vanur. Kóngur lætur þegar kalla hann fyrir sig og spyr hvort hann sé búinn að stela uxanum. Karlsson telur þess litla von, en segir þó að kóngur megi láta fara til garðsins ef hann vili, og vita hvort uxinn sé kyrr. Kóngur gerir nú svo og vitnast þá brátt að uxinn er á brott horfinn, en garðurinn heill og læstur og engi vegsummerki önnur en blóðbæli mikið og traðk einhvers staðar út við garðinn. Kóngur biður þá karlsson segja sér satt frá hvort hann hafi stolið uxanum eða hvar hann hafi fólgið hann. Karlsson segist að vísu hafa stolið honum og drepið hann og flutt hann síðan heim til foreldra sinna. Kóngur sendir nú menn til kotsins að prófa sannindi þessa máls og fundu þeir fólann þar sem karlsson hafði til vísað. Varð þessi saga brátt hljóðbær, en kóngur þóttist mjög halloka orðinn fyrir karlssyni og þykktist heldur með sjálfum sér. Og nú segir kóngur að karlsson skuli ei þrautlaust sleppa við svo búið því að í nótt skuli hann stela rekkjuvoðum úr rúmi sínu, þeim er hann hvíli við með drottningu sinni, og sýna sér þær á morgun með skírum jarteiknum, en að öðrum kosti muni hann vera drepinn. Karlsson segir að líf sitt muni á valdi konungs, en telur þess litla von að hann megi leysa þessa þraut. Skilja þeir síðan talið; fer karlsson heim og gerir nú ráð sitt. Hann tekur pott einn lítinn og gerir í graut; og sem hann hefir lokið grautargerðinni og myrkt er orðið af nótt þá fer hann heim til konungsbæjar; var honum þar kunnig öll híbýlaskipan. Allir menn voru í svefni á bænum. Þau kóngur og drottning sváfu í skemmu nokkurri er stóð ein sér. Þangað gengur nú karlsson og fer með höggum og harki allt umhverfis skemmuna bæði um þak og veggi. Þau kóngur og drottning vakna brátt við dunurnar og þykjast eigi vita hverju gegni slík ólæti. Aukast nú dynkirnir svo að nálega brakar í hverju tré. Kóngur stekkur nú ofan úr sænginni og kastar sér í klæðin, tekur síðan vopn í hönd sér og snarast út og vill forvitnast hvað um sé. Níðamyrkur var á sem mest. Víkur kóngur nú annan veg hjá skemmunni og því næst í kringum hana og verður við ekki var.

En það er frá karlssyni að segja að hann snarast inn í skemmuna með pott sinn í hendi og að rekkju þeirra konungs og steypir í ból hans grautnum svo að drottning varð eigi við vör því að hún bældi sig niður fyrir hræðslu sakir. Eftir það hleypur karlsson upp undir rekkjuna og dylst þar. Kemur nú kóngur brátt inn og kveðst við ekki hafa var orðið; vill hann þá leggjast niður aftur hjá drottningu; en nú verður þeim báðum kynlegt við er þau finna hver óþverri kominn er í rúmið og þykjast ei vita hverjum brögðum þau eru beitt; var ei traust að hvort kenndi öðru. Drottning segir að það muni bezt ráð að láta kyrrt yfir þessum endimum; tekur hún nú rekkjuvoðirnar með öllum löðrum og kastar þeim upp undir rúmið svo að ekki mætti sjá þær, en lézt síðan myndi láta þernu sína þá er hún treysti bezt þvo þær svo ekki bæri á. Eftir það leggjast þau kóngur og drottning til svefns og sofna þau brátt. En sem karlsson heyrir að þau muni sofnuð þá skríður hann undan rúminu, lýkur upp skemmunni hóglega og heldur nú leiðar sinnar með rekkjuvoðir kóngs svo að engi maður fær njósn af ferð hans.

Daginn eftir gengur karlsson fyrir kóng og kveður hann. Kóngur segir að nú muni hann vera búinn að stela rekkjuvoðum sínum. Karlsson tekur lítið af öllu þar um. Kóngur hótar honum þegar dauða. Karlsson segir það hverjum boðið að lengja líf sitt meðan kostur er. Segir hann nú upp alla sögu um næturför sína til svefnskemmu kóngs og viðurtal hans og drottningar og sýnir síðan rekkjuvoðirnar með öllum verka til sannindamerkis. Mátti kóngur þá ekki rengja sögu hans; fylldist hann nú upp mikillar bræði við karlsson af allri saman þessari smán og gabbi er hann var orðinn fyrir og hyggst nú skulu leggja fyrir hann þá þraut er hann fái eigi leysta. Hann mælti því við karlsson: „Nú skaltu stela sjálfum mér í nótt, en að öðrum kosti skaltu hafa hinn versta dauðdaga fyrir klæki þína og dirfsku.“ Karlsson segist ei muni freista þess er óvinnandi sé, en kóngur muni sjálfur ráða verða gjörðum sínum.

Nú fer karlsson heim og þykir nú heldur vandast leikurinn. Kóngur var maður trúrækinn og vel kristinn; var það vandi hans að hann gekk jafnan einn saman til kirkju kvöld og morgun og gerði þar bæn sína fyrir altari. Nú verður það ráð karlssonar að hann lætur kerlinguna móður sína smíða sér skyrtu skósíða úr rekkjuvoðunum þeim er hann stal frá kóngi, en þær voru af hinu hvítasta líni; og sem nótt kemur og allir eru sofnaðir á konungsaðsetunni þá stendur karlsson upp, tekur belginn, þann er hann hafði áður flegið af uxanum og hert, og skyrtuna og hefir þetta hvorttveggja með sér, fer síðan til kirkju og kemst þar inn. Hann tekur nú uxabelginn er harður var og uppblásinn, gerir sem víðast á honum opið, leggur hann síðan niður á gólfið fyrir framan altarið svo að opið horfir fram til kirkjudyra, en sjálfur fer hann í skyrtuna og er nú allur hvítur sem engill væri. Bíður hann nú morguns með þessum búnaði. En sem líður að degi fer hann fyrir sjálft altarið og stendur þar. Hann hafði söngrödd bæði mikla og fagra. Hefir hann nú upp röddina og syngur þetta í sífellu:

Hver sem fer í belginn minn langa
hann skal til himnaríkis ganga.

Og er hann hefir skamma hríð sungið þá er lokið upp kirkjunni og kemur kóngur inn að biðjast fyrir svo sem hann átti vanda til. En er hann sér mann standa fyrir altari, skrýddan snjóhvítum klæðum, syngjandi með hinni fegurstu raust og skilur söng hans þá verður hann frá sér numinn af undran og lotningu og ætlar þetta víst vera engil af himnum, sendan til að flytja sig til dýrðlegs samfélags sælla anda til launa fyrir trúrækni sína. Verður hann nú svo hrifinn af þessari háleitu sjón að hann vendir þegar innar að belgnum og skríður inn í hann endilangur í vissri von um að engillinn muni þegar hefja sig upp til himna. En jafnskjótt og kóngur er skriðinn inn í belginn bregður karlsson við og grípur fyrir munna belgsins og keyrir þar fyrir band og herðir að sem ramlegast, tekur síðan til og dregur belginn út úr kirkjunni og fer nú með hann allóþyrmilega. Dragnar nú kóngur í belgnum og eigi lengi áður hann fer að æpa og biðja sér vægðar. Karlsson segir hann skuli nú taka maklega skrift og dregur hann enn um hríð. Kóngur biður hann vægðar og lífs á margar lundir, en karlsson er því harðari og kveður það maklegt að hann láti þar líf sitt með hæðilegum dauða. Kóngur biður því ákafar svo að þar kemur að karlsson kveðst muni gefa honum líf ef hann gifti sér dóttur sína með hæfilegum mundi og heiti sér því með svardaga að hefna sín eigi eða gera sér nokkurt mein fyrir þessa meðferð. Kóngur vill nú allt til vinna að leysast úr þessari prísund og heitir honum þessu öllu. Leysir nú karlsson frá belginum og lætur kóng upp standa; var hann þá orðinn stirður mjög og knúskaður. Sver hann nú eið eftir því sem karlsson skildi fyrir. Segir kóngur að það sé nú reynt að eigi megi sigra hann í brögðum; kvaðst hann nú mundu lengja nafn hans og kalla hann Slægðabelg. Karlsson lét sér það heiti vel líka ef hann hefði þá vináttu hans með mægðum og þeirri virðing sem hann vildi kjósa. Kóngur kvað svo vera skyldu og lézt skyldu gera sóma hans í öllu sem sonar síns. Eftir það fer karlsson heim með kóngi og dvelst með honum um hríð og þó í litlu yfirlæti; er Slægðabelg jafnan grunsamt um skaplyndi kóngs hve vel hann muni efna orð sín eða hversu hollur hann muni sér.

Kóngur átti sér bróður; hann réði fyrir öðru ríki og var þar langt í milli. Einn tíma kemur kóngur að máli við Slægðabelg og mælti: „Nú vil ég senda þig til bróður míns með bréfum mínum og fríðu föruneyti; hann er hinn mesti íþróttamaður og spekingur að viti. Mun ég biðja hann að hann mennti þig sem bezt hann kann í hvers konar íþróttum og riddaraskap og svo eigi síður í stjórnvísi og allri kurteisi svo að þú sért svo að öllum listum búinn sem konungssyni byrjar að vera. Væntir mig að bróðir minn taki vel við þér fyrir mín orð og skaltu dveljast með honum meðan honum þykir hæfilegt.“ Slægðabelgur biður kóng ráða.

Er nú búin ferð hans og þó með litlum kostum. Fylgja honum nokkurir menn og fer sá með bréfum kóngs er helzt var fyrir þeim. Fara þeir Slægðabelgur nú leiðar sinnar og segir ekki af ferð þeirra fyrr en þeir taka sér náttból í einhverjum stað. En sem fylgdarmenn Slægðabelgs eru sofnaðir kemur að honum fýst mikil að forvitnast hvað ritað sé á bréfi kóngs, því að alltjafnt var honum illur grunur á orðheldi hans við sig. Hann leitast nú fyrir og fær brátt náð bréfinu af þeim er það skyldi geyma; hann opnar nú bréfið og les. Bregður honum þá heldur í brún er sá boðskapur stendur í bréfinu næst eftir kveðjusending að kóngur biður bróður sinn að hann láti fyrirkoma þeim manni er hann nú sendi honum svo að víst sé að hann komi aldrigi framar í sitt ríki. Kvaðst hann af því biðja hann þessa að hann megi ei láta drepa hann sjálfur fyrir sakir nauðungareiða er hann sé bundinn í við hann enda þó hann hafi margfaldlega fyrirgert lífi sínu. Slægðabelg þykir nú sannast grunur sinn; hugsar hann nú skjótt ráð sitt. Hann var ritari góður og kunni að stæla eftir hvers manns hönd. Hann sezt nú niður og ritar annað bréf undir nafni kóngs til bróður hans. Þar sagði svo að hann sendi bróður sínum þenna unga mann er hann hefði kjörið sér í sonar stað, og beiddi hann að halda hann í alla staði sem sinn eigin son og kenna honum allar þær íþróttir og listir sem kurteisum kóngssyni byrjaði að kunna. Kvaðst hann svo þekkja hans bróðurlegt ástríki við sig að hann tryði honum bezt til þessa. Því næst læsti Slægðabelgur þessu bréfi og kom því aftur á þann stað sem bréf kóngs hafði verið, en sá ráð fyrir því. Hafði hann lokið þessu starfi öllu er fylgdarmenn hans vöknuðu. Segir nú ekki af ferð þeirra fyrr en þeir koma til bróður konungs. Þeir ganga fyrir hann og kveðja hann vel og bera honum bréf konungsins bróður hans. Og sem hann hefir lesið það þá fagnar hann Slægðabelg blíðlega og biður hann velkominn með sér; kveðst skulu alla stund á leggja að fullgera boðskap og vilja bróður síns.

Snúa nú fylgdarmenn Slægðabelgs heim aftur að afloknu erindi, en hann dvelst þar eftir með kóngi í hinu mesta yfirlæti. Fær kóngur til hina ágætustu meistara er í hans ríki voru að kenna honum alls konar íþróttir, vígfimi og riddaraskap og hvers kyns listir þær er kurteisir kóngssynir tömdu sér í þá daga og þar með ýmsar bóklegar menntir, stjórnvísi og annan fróðleik. Nam Slægðabelgur allar listir vel og greiðlega og þar kom að engi fannst hans jafningi að hvoru tveggju: vizku og íþróttum. Unni kóngur honum mikið og svo öll alþýða út í frá.

En sem hann hefir dvalizt þar með kóngi nokkura hríð og þykist nú mjög orðinn fullnuma í öllum karlmannlegum listum þá gengur hann einn tíma fyrir kóng og biður hann gefa sér orlof að finna bróður hans fóstra sinn er að sönnu sé sinn annar faðir. Kóngur tekur því blíðlega og segir hann skuli til þeirrar ferðar hvorki skorta fylgd né farareyri. Lætur hann nú búa ferð hans með miklu skrauti og fríðu föruneyti. Kveður Slægðabelgur nú fóstra sinn með miklum virktum og heldur síðan leiðar sinnar með liði sínu.

Segir ekki af ferð hans fyrr en hann kemur heim og fyrir aðsetursstað konungs. Þar slær hann landtjöldum svo skrautlegum að landsmenn undrast næsta. En sem kóngur verður þess vís að útlendur höfðingi er kominn í ríki hans þá gerir hann sendimenn á fund hans og býður honum heim til hallar til virðulegrar veizlu með öllu liði sínu. Slægðabelgur hafði lagt svo undir við menn sína að þeir skyldi bregðast kunnuglega við hvað sem hann segði kóngi um hag sinn. Slægðabelgur heldur nú heim til hallar kóngs með öllu liði sínu. Var hann harðla skrautlega búinn að vopnum og klæðum og allir hans menn og fóru með miklum prís og ríkilæti. Kóngur tekur honum virðulega og leiðir hann í hásæti hjá sér og hefst þar nú upp hin bezta veizla með gleði og glaumi. Fréttir kóngur Slægðabelg eftir um ætt hans og átthaga því að eigi kenndi hann nú karlsson. Hann segir honum öll skil á því og þó allt annað en var; lézt hann vera konungsson af fjarlægu landi og nú þangað kominn fyrst að upphafi til að kynna sér tign hans og ríkdóm er svo mikið orð færi af víða um lönd, og því næst kvaðst hann hafa spurn af að kóngur ætti þá dóttur er mikið afbragð væri annara kvenna bæði að fegurð og vizku og öllum kvenlegum listum; sé það nú einkum erindi sitt að biðja hennar sér til handa með hennar ljúfum vilja. Kóngur tók því vel og kvað sér lítast svo sem dóttur sinni mundi ei fremra gjaforðs von því að hann vænti þess að þar mundi raun fara eftir álitum sem konungsson væri. Kóngsson lét að kóngi mundi kostur að sjá lítinn vott íþrótta sinna ef hann vildi lítillæti til hafa. Kóngur sagði að það myndi allmikil skemmtan. Síðan lét kóngur blása til móts á fögrum velli fyrir utan höllina. Var þar haldin burtreið og alls konar leikar framdir. Sá kóngur á leikinn með dóttur sinni. Bar hinn útlendi kóngsson langt af öllum öðrum, hvers sem freistað var. Lék hann þar marga fimleika þá er engi þarlendur maður hafði fyrr séð með slíkri list og prýði að allir undruðust. Sögðu þar allir eitt um að hann mundi hvergi eiga sér jafningja; en þó fannst kóngsdóttur mest um og felldu þau kóngsson þegar mikla ást hvort til annars. Því næst var gefinn upp leikurinn og settust menn til drykkju. Reis þar nú upp hin dýrasta veizla. Bauð kóngur þar til öllu stórmenni úr ríki sínu og veitti hann brúðkaup dóttur sinnar með hinni mestu rausn og sæmd.

En um kvöldið leiddi kóngur sjálfur brúðhjónin til sængur svo sem vandi var til. Og sem þau eru komin í sængurherbergið þá fellur kóngsson á kné fyrir kóngi og mælti: „Allt á guðs valdi og yðru, herra.“ Kóngur reisir hann upp blíðlega og spyr hví hann fari svo með. Kóngsson svarar og segir að hér megi hann nú líta Slægðabelg karlsson er hann hafi sent bróður sínum til dráps; segir síðan kóngi upp alla sögu hvernig hann skipti um bréfin eins og fyrr er ritað. Biður hann nú kóng að fyrirgefa sér hvernig hann hafi leikið á hann bæði fyrst og seinast. Kóngur segir að þetta hafi allt betur ráðizt en til hafi verið stofnað af sinni hálfu. Kvaðst hann nú og gjarna vilja biðja Slægðabelg fyrirgefningar á því er hann hafi viljað verða eiðrofi við hann og ráða honum banaráð; kvaðst það nú allt skulu bæta með heilum huga og föðurlegri blíðu. „Skaltu nú,“ segir hann, „þegar taka ríkið hálft til móts við mig með konungsnafni, en síðan allt eftir minn dag.“ Sezt nú Slægðabelgur að ríki sínu og takast brátt upp góðar ástir með þeim drottningu og honum. Gátu þau börn saman og unntust til ellidaga.

Lýkur svo þessari sögu.