Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Jón Gissursson

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Jón Gissursson

Einar prestur Þórðarson á Hvammi í Hvammssveit [1754-1801] messaði eitt sinn í Hjarðarholti og sakramenteraði prestinn þar. Þegar embættisgjörð var lokið og prestar komnir í stofu og setztir að máltíð bregður síra Einari snögglega og setti dreyrrauðan í andliti. Stendur hann upp frá borðum. heimtar hest sinn og segir: „Líf manns liggur við, fari ég ekki strax af stað.“ Hesturinn stóð búinn á hlaðinu. Prestur kveður engan, hleypur út og stökkur í skyndi í söðulinn, keyrir hestinn í ákafa og ríður strax, hvarf upp á Hjarðarholtsásinn, Ljárskógaleið; fer nú sem mest mátti. En er hann kemur á grundina fyrir innan Ljá hittir hann þar pilta tvo og eru þeir að fljúgast á; hétu þeir Jón Gissursson og Jón Steingrímsson, en þótt þeir væri nafnar var þeim ólíkt farið. Jón Gissursson var þar kominn afturgenginn til að launa nafna sínum fornan fjandskap. Höfðu þeir nafnar verið á sama skipi inn Hvammsfjörð; vóru báðir kaldlyndir og deildu illdeilu. Hézt Jón Gissursson við nafna sinn, steypti sér svo útbyrðis að því búnu og týndist í sjónum. Eftir dauða hans þóttu reimleikar vaxa í dalnum og var það orð á haft að Jón mundi því valda og væri hann afturgenginn. Í þetta sinn reið Jón Steingrímsson frá kirkju í Hjarðarholti einsamall; ætlaði hann erinda sinna inn á bæi, en mætti þarna nafna sínum. – Þegar prest bar að var hann mjög að þrotum kominn af viðeign draugsins, en prestur skildi þá og sá svo fyrir að Jóni Steingrímssyni varð aldrei framar mein af nafna sínum. Jón Steingrímsson bjó lengi á Hömrum í Laxárdal, varð gamall og deyði úti í kafaldsbyl í kindaleit nálægt árinu 1830. Þegar sagan gjörðist var hann ungur, en síra Einar þá roskinn maður.