Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Jón Skorvíkingur

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Jón Skorvíkingur

Þessi Jón var kominn af hinni alræmdu Grundarþjófaætt; hann bjó í Skoravík á Fellsströnd. Hann átti mörg börn og hét eitt þeirra Steinunn. Þegar hún var komin til aldurs varð hún þunguð og eignuðu menn föður hennar þungann. Um sama leyti var maður sá á Hellu sem Guðmundur hét; vildi Jón að hann tæki að sér stúlkuna með öllu saman, en Guðmundur neitaði því. Þetta sama haust fór Jón kaupstaðarferð út í Stykkishólm og voru þá Guðmundur og Steinunn með honum. Á leiðinni heim aftur fór Jón að biðja Guðmund að nýju að taka Steinunni að sér, en hann neitaði því enn fastlega; reiddist þá Jón því hann var illur í skapi. Þegar þeir komu inn fyrir Helgafells-Seley gerði sunnanveður mikið; fóru þau þá bæði, Guðmundur og Steinunn, að biðja Jón að fara varlega, en hann tók því mjög illa og sagði hann skyldi nú launa honum óþægðina. Rétt á eftir hvolfdi bátnum; komst þá Guðmundur á kjölinn, en stúlkan flaut litla stund. Skömmu eftir fann Guðmundur að gripið var um fótinn á sér; var Jón kominn þar; hafði hann enn þá mikil hrakyrði við Guðmund og sagði að hann skyldi nú koma með sér, en með því Guðmundur var þrekmaður mikill gat hann losað sig úr greipum Jóns, en lengi voru handarförin eftir á fætinum með bólgu og bláma. Guðmundur komst af, en var lengi veikur eftir þessa ferð og auk þess fylgdi Jón honum jafnan síðan.

Þenna vetur uxu reimleikar mjög í Skoravík; lá við sjálft að börnin mundu tryllast og hver sem var fenginn til að vera þar stökk óðar í burt aftur svo loksins varð að skipta börnunum upp þegar fram á kom. Steinólfur hét maður og var Bjarnason; hann bjó lengi í Skoreyjum og dó þar; hann var mjög fiskinn og lá oftast nær einn á bát sínum fyrir flyðru. Einu sinni bar svo við þegar hann lá sem oftar að hann sigraði svefn svo hann sofnaði með færið í hendinni; loksins vaknar hann og sér hann þá að ófrýnilegum gesti er aukið á framþóftuna; spyr þá Steinólfur hann að heiti, en hinn þagði og leið svo lítil stund; finnst honum þá báturinn fara að síga í sjó að framan og segir hann þá: „Hvað heitir þú, djöfullinn þinn?“ En hinn þagði sem fyrr. Fór nú báturinn að síga meir og meir í sjó svo ótti nokkur kom að Steinólfi og segir hann enn við hinn ókunna: „Dragðu stjórann, djöfullinn þinn;“ en hinn þagði og bjó sig ekki heldur til að taka stjórann. Loksins stóð Steinólfur upp, fór fram eftir bátnum og segir: „Fyrst þú ekki vilt draga stjórann og ekkert gera þá far þú út úr bátnum til fjandans.“ Hvarf þá vofan þegar, en Steinólfur fór í land; virtist honum þessi svipur mundi hafa verið Jón Skorvíkingur.