Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Kerlingin sem át draflann dauð

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Kerlingin sem át draflann dauð

Sigurður og Gunnhildur hétu hjón er buggu á Seltjarnarnesi (ég hefi hverki heyrt föðurnafn þeirra né bæjarnafn) um aldamótin 1800. Þar var tvíbýli. Hjá Sigurði og Gunnhildi var niðursetningskerling sem sett var hjá þeim báðum bændunum. En er hún hafði útent niðursetu sína hjá Gunnhildi og þeim hjónum þá vildi nábúi þeirra ekki taka á móti kerlingu og rak hana aftur með ófögrum viðtektum. Kerling varð aum af þessu og varð það mjög minniligt, einkum þar hún var krönk um þetta bil. Þau Sigurður og Gunnhildur tóku við kerlingu og lofuðu að þau skyldu ekki láta hana hrekjast. Þau Sigurður áttu rauða kvígu sem var að stálma. Kerling talaði oft um að sig langaði mjög að fá ábresturnar úr henni Reyður; ósköp hlakkaði hún til þess. Kerling lasnaðist svo mjög dag frá degi og varð þessi krankleiki dauðamein hennar.

Þetta var snemma um veturinn því kvígan átti að bera á öndverðum vetri. Nú seint um daginn andaðist kerling. Var nú kveikt og kerling lögð til og veittar nábjargir. Að stundu liðinni sezt kerling upp og fer að þreifa fyri ofan sig og upp á hillunni. Sigurður rýkur að henni og hratt henni aftur á bak og spyr hvern fjandann hún atli. Að stundu liðinni sezt hún enn upp og er að þreifa í kringum sig. Sigurður hratt henni enn aftur á bak með ekki fegri ummælum, því maðurinn var svolaligur en hraustmenni. Á meðan þetta fór fram datt Gunnhildi það í hug að taka nokkuð af því sem úr kvígunni kom og flóa. Kerling hafði einatt verið að segja meðan hún lá: „Það vildi ég að ég dæi nú ekki fyrri en hún Reyður þín er borin, Gunnhildur mín!“ Á meðan Gunnhildur er að flóa sezt kerling enn upp og þreifar í kringum sig. Gunnhildur kemur í því inn með ábresturnar, fullan tveggja marka ask. Matar hún nú kerlingu úr askinum þar til lokið er, en kerling rennir niður. Eftir það hnígur hún aftur á bak í rúmið og bærði ekki framar á henni. En á meðan kerling var að þessu bisi þá drapst snemmbær kýr hjá nábúa hans og valinn hestur.