Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Klaufi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Klaufi

Vernharður prestur Guðmundarson prófasts Vernharðssonar hélt Otrardal 41 vetur. Var hann kallaður vel að sér, margvís og vel skáldmæltur. Hann dó 1797, vetri minnur en níræður.

Það eru almennar sagnir vestra að eitt sinn yrði honum sundurorða við mann þann vestra er Ármann hét; var hann Tálknfirðingur einn og bjó á Eysteinseyri; en sökum þess þeir Ármann höfðu deilt mjög vildi hann hefna harðlega á presti og vakti upp ella magnaði sendingu er menn kölluðu Klaufa því mælt er hann hefði nautsklaufir, að því er skyggnir menn lýstu honum. Draug ella vofu þessa sendi hann presti að ásækja hann. Var það lengi fyrst að prestur fékk varið sig og konu sína svo fátt varð um það til frásagna, en nokkuð drap hann af fénaði prests. Leitaðist prestur oft við að fyrirkoma Klaufa að fullu og öllu, en fékk ei að gjört, því jafnan voru illar aðsóknir prests því altíð fylgdi Klaufi honum. Drap hann þá oft naut fyrir bændum þar sem hann reið um; þótti presti mikið mein að því og tók það ráð að lokunum að fá það af Tálknfirðingi þeim er Grámann hét, kunnáttumanni miklum, að freista þess að koma Klaufa fyrir. Kallaði Grámann það torsótt mundi verða, en við tók hann að leitast, en svo var hann magnaður að engin jörð var óhult fyrir honum nema þúfa ein í Lambeyrarlandi, og þar fékk Grámann hann niður færðan. En svo var fjandi sá magnaður að engin kvik skepna og ekki fuglinn fljúgandi mátti snerta þúfu þessa, því jafnskjótt hneig hún dauð og ekkert lifandi grasstrá hefur sprottið upp úr þúfu þeirri allt til þessa dags.