Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Nú verð ég votur, en áður var ég þurr
„Nú verð ég votur, en áður var ég þur“
Einu sinni voru kunningjar tveir og var annar þeirra auðmaður, hafði fyrst alizt upp á sveit, en komst smám saman til efna fyrir atorku sakir. Það er trú að þeir sem eigi peninga grafna í jörðu verði ríkir. Svo var og fyrir þessum auðmanni að hann gróf peninga í jörðu einmitt í þessum tilgangi, en er hann var dáinn dreymdi vin hans hann um nótt og vísaði honum til hvar peningar sínir væru grafnir og bað hann fara til og sækja þá, sagðist nauðigur fara til þeirra á hverri nóttu, enda sagðist hann mundi heimta þá af honum í þrjár nætur í samt, en úr því ekki; bað hann fyrir hvern mun þruma þessi hans tilköll af sér.
Maðurinn fór og gróf upp peningana. Fyrstu og aðra nóttina kom hann og kallaði eftir peningunum. Að því búnu fór hann með þá út á sjó og kastaði þeim útbyrðis.
Hina þriðju nótt kom draugurinn dapur mjög í bragði og var að vinda sjó úr klæðum sínum, átaldi vin sinn fyrir þolleysi hans, því – „nú verð ég votur, en áður var ég þur“.