Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Oddur í Presthúsum

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Oddur bjó í Presthúsum Magnússon allt fram undir 1820. Hann var einu sinni beðinn að vera líkmaður og bera barn til moldar. Hann neitaði því og sagðist ekki mega vera að því þar eð hann ætlaði í púlsmennsku inn í Keflavík. Hann fór um kvöldið inn í Keflavík; en í bítið um morguninn var hann kominn aftur. Spurðu menn hann þá að hvað ylli því að hann kom svo fljótt aftur. Sagði hann barnið hefði komið og óttað sér næsta mjög ef hann bæri það ekki. Oddur var maður „fáorður og óskrafinn“. Einu sinni er tilrætt varð um þetta hafði hann sagt: „Ég held það hafi ætlað að ótta mér.“ Hann bar barnið til moldar um daginn og bar ekki framar til tíðinda.