Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Páll Vídalín verst draugum

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Páll Vídalín verst draugum

Kveðið milli Lækjamóts og Þorkelshóls (v. Þórukots) í Víðidal. Fyrst heyrði hann sem harðan rjúpuþyt og síðan sýndist honum naut flegið aftur að bógum og draga húðina:

„Dimmt mér þókti Dals við á,
dró af gaman að hálfu;
að mér sóktu þrjótar þá
þrír af Satans álfu.


Ég hræðist ekki myrkrin mjög,
minnst hef ég beyg af kálfum;
fram skal enn og fara sinn veg,
þó fjandanum rigni sjálfum.“

Draugurinn Skotta var send til lögmanns í þrjár nætur að sækja eitthvert fræðikver. Þau héldust á um buxur sem kverið var í; varð Skotta að sleppa. Vísuna kvað hann þriðju nóttina þá þau héldust á um buxurnar sem kverið var. Varð þessi vofa (sem var ein Skotta) svo reið að hún kastaði hurðunum upp á gátt; þær voru lokaðar um kvöldið; þá var hann skólameistari:

„Oft hef ég slíkan óvin minn
illúðlegri séðan;
ég forakta þig fjandinn þinn,
farðu í burtu héðan.“

Í septemher 1724 kom svonefndur Andrés sendisveinn að Víðidalstungu og var sagt að hann hefði þá verið svo nærgöngull að hann gekk framan að borðinu og lagði aðra klóna upp á það, en hina á stól er þar stóð. Þá kvað Páll:

„Hvað viltu nú hingað inn,
hvað ber þér til rauna?
Þú ef kemur í þriðja sinn
það skal ég fullu launa.“

Þegar Páll var skólameistari var hann einu sinni á ferð á náttarþeli um Hagann í Húnavatnsþingi; þar eru flatlendismýrar miklar og sagt draugasamt. Með honum reið skyggn maður og kvartaði um að hann kæmist ekki fram fyrir draugum sem sprytti eins og eldibrandar kringum hestinn. Skólameistari kvaðst vilja kenna honum eina fjandafælu og kvað þá eftirfylgjandi vísu:

„Um Hagann draugar svipa sér
svo sem eldibrandar;
þykir gaman að þessu mér;
það eru skozkir fjandar.“

Einhver kvaðst hafa heyrt draugahljóð í Hólakirkjugarði í Hjaltadal; þá kvað lögmaður fimm vísur, af hverjum þessar tvær eru til; vísunum fjölgaði sem hljóðunum:

„Svo var röddin drauga dimm.
sem dunur í fjallaskarði;
nú hefi ég heyrt þá hljóða fimm
í Hólakirkjugarði.


Á stólnum draugar syngja svo,
sem mig ekki varði;
nú hefi ég heyrt þá hljóða tvo
í Hólakirkjugarði.“

Draugavísa annaðhvort á Lyngdalsheiði, við Apavatn eða heldur einhverstaðar í Grímsnesi:

„Nú erum við frá (hjá) Narfabæli,
nafn það gaf þinn bróðir sæli
þegar hann veg til vítis óð,
en þó draugur skeggið skæli,
skoppist um og velti á hæli,
forakt eitt hann fær hjá þjóð.“