Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Peningadraugur

Úr Wikiheimild

Einu sinni dó ríkur bóndi sem menn héldu að hefði átt mikla peninga, en þeir fundust ekki [er] hann var dauður og skipta átti, en eftir að hann var jarðaður varð vart við á kirkjustaðnum að í kirkjugarðinum var ekki allt kyrrt um nætur. Einn vinnumaður á staðnum sem var vel hugaður tók það fyrir að vaka eina nótt út í kirkjugarði. Hann vafði sig í hvítu lérefti og velti sér upp úr vígðri mold og stóð svo skammt frá sáluhliðinu. Þegar dagsett var kom moldargusa upp úr leiðinu bóndans. Síðan kom hann sjálfur upp í náklæðum og gekk að vinnumanni, þefar á honum allt um kring og segir: „Ertú einn af oss?“ „Já,“ segir vinnumaður. „Komdu þá með mér,“ segir draugur, „við skulum skemmta okkur saman í nótt.“ Þeir fara af stað og verður draugurinn fljótari, en vinnumaður hefir hvurgi nærri við. Þá segir draugur: „Þú ert undarlega seinn á fæti ef þú ert einn af oss.“ „Það er af því,“ segir hinn, „að ég var svo fóthrumur í lífinu og þess geld eg nú.“ „Það er bezt ég beri þig,“ segir draugur og leggur hann á bak sér og er nú ekki lengi á leiðinni og kemur að skemmudyrum á þeim bæ sem bóndi hafði búið á. Vart [hafði] þar orðið við ókyrrleik oft áður og var margt skemmt í skemmunni, en ekkert tekið í burtu. Draugurinn brýtur upp skemmuna, fer inn og ruplar og rótar því sem lauslegt var fyrir, smýgur síðan undir kistu og rótar upp mold og dregur þar upp fullan peningakút. Á meðan hafði hinn látið aftur skemmudyrnar og byrgt allar smugur svo engin skíma sást, en þegar hann leit á peningana var sem lýsu brygði yfir þá svo þeir sáust. Nú hellti draugurinn úr kútnum og breiddi peningana út um gólfið, fór síðan að tína þá upp í aftur, en maðurinn tafði hann það sem hann gat. Þetta gekk í þrjár reisur. Þá vissi vinnumaðurinn að dagur var, og segir: „Senn mun öll nótt úti.“ „Ekki er öll nótt úti,“ segir draugsi, „meðan hún er ekki nema hálf. Ég er vanur að hella fjórum sinnnum úr kútnum og láta í hann aftur og þó haft nógan tíma að fara heim og koma mér fyrir aftur.“ Hann hellir úr kútnum enn, því hann varaði sig ekki á því að vinnumaður hafði tafið hann. Vinnumaður lauk þá upp og var þá hár dagur. Þá hleypur draugurinn frá hrúgunni og út, en hinn á undan og hefir nú betur því hinn var máttlítill í dagsbirtunni. Um síðir kom hann að gröfinni, og var maðurinn þar fyrir og hafði knýtt snæri í vettlinga sína og hengdi ofan í gröfina og segir: „Þú skalt nú aldrei fá að fara ofan í gröfina nema þú lofir því að hræra þig ekki framar úr henni.“ „Þú hefir svikið mig,“ segir draugur, „en þó verð ég að lofa þessu svo ég fái að fara í ból mitt.“ Hann hleypti honum þá ofan í og laukst saman gröfin. Maðurinn fór þá strax aftur til bæjarins því það var ekki langt, og tók alla peningana og fór heim og var kominn áður en fólk kom á fætur. Hann sagði frá þessu öllu og fékk hann að halda peningunum. Þótti hann hafa vel til þeirra unnið, enda héldu menn að draugurinn mundi vitja þeirra, en það varð þó ekki.