Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Reimleiki í Vatnshorni

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Eftir Flóabardaga voru þau lík sem fundust flutt til Vatnshorns í Hrútafjörð. Þar eftir þótti þar vera of fjölfært og um síðir kom þar so mikil drepsótt og mannfall að lík þeirra sem þar höfðu verið heimamenn urðu ekki í burt flutt fyrir ótta sakir; því hvörjum þótti sér dauði vís sem þar kom, so bærinn eyddist. Og er þetta hafði so fram farið um stund kom einn lausamaður þar sem á Melum heitir þar í firðinum og spyr þetta. – „Ég skal fara til Vatnshorns og vita hvört mér dugir.“ „Gjör þú ei so.“ sagði fólkið. Hann svaraði: „Fyrir víst skal ég fara því að ég treysti guði mínum efanarlaust.“ Heimamenn löttu hann, en hann fór ei að síður. Hann hafði tálgöxi með skó undir belti sínu. Hann fer nú þar til hann kemur mjög heim að bænum: þá sýndist honum sem nokkur ókyrrleikur heim að sjá til bæjarins og so sem hlið eitt milli húsanna. Hann signir sig og tekur öxina og af skóinn, gjörir kross fyrir egginni og gekk djarflega heim að bænum með hörðum orðum móti fjandanum að hann skyldi ei skelfa hann né svíkja. Og sem hann var nær kominn þessu óhreinindi kastaði hann öxinni og þótti sem á nokkuð kæmi og liði undan. Hann gekk eftir, leitaði öxarinnar: fannst hún ekki og aldrei síðan. Þennan mann Skaðaði ekki; tókust af undrin; voru lík til kirkju færð, og byggður bær síðan.[1]


  1. „Tíðfordríf" Jóns hefur sem fyrirsögn fyrir þessari sögu: „Úr gamallri annálsbók“ með rauðu letri og fyrstu línuna af sögunni með bláu letri.