Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Sagan af Jóni óhrædda

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Sagan af Jóni óhrædda

Maður er nefndur Þórólfur; hann bjó á bæ þeim í Hrútafirði er heitir að Borðeyri. Hann átti son einn barna; sá hét Jón; ólst hann upp með föður sínum. Þegar í æsku sinni var hann fremur undarlegur og ekki við alþýðuskap; hann hafði þann eiginlegleika að hann hræddist aldrei svo að menn yrðu varir við og þegar heimilisfólkið sagðist hafa orðið hrætt við eitthvað hló hann að því og sagðist ekki vita hvað það væri að verða hræddur; sagðist hann aldrei verða hræddur. Mjög var hlegið að honum fyrir þetta og sárnaði honum það fremur svo að hann á endanum sté á stokk og strengdi þess heit að hætta ekki fyrri en hann vissi hvað hræðsla væri. Þegar faðir hans varð var við þessa fyrirætlun hans ávítaði hann hann harðlega fyrir heimsku þessa. Jón mælti: „Nær væri þér að leggja mér einhver góð ráð en atyrða mig fyrir orðinn hlut.“ Þórólfur mælti: „Prestur einn býr í Árnesi á Ströndum norður. Vil ég ráða þér að fara til hans og biðja hann að leggja þér ráð, en geti hann það ekki þá eru mín ráð þrotin.“

Jón þakkaði honum þessi ráð. Bjó hann sig síðan á stað. Segir ekki frá ferð hans fyrri en hann kom að Árnesi; var það að síð dags, ber að dyrum; stúlka kom til dyra og spyr hann að nafni, en hann sagði svo sem var. Hann spyr hvort prestur sé heima. Hún segir hann heima vera. Hann gjörir boð fyrir prestinn, en hún fer inn aftur og skilar því sem fyrir hana var lagt. Litlu síðar kemur prestur út. Jón heilsar honum. Prestur tekur kveðju hans og spyr hann að erindum. Jón sagði slíkt sem var og segir sér hafi verið vísað til hans og biður hann leggja sér ráð. Prestur býður honum gistingu og það þekktist Jón; fór hann þá með presti inn í bæinn. Þegar hann var búinn að snæða og var kominn úr vosklæðum vekur hann aftur máls á erindi sínu við prestinn, en hann tók því mjög þunglega. Jón herðir þá að honum að leggja sér ráð. Lætur þá loks til leiðast og mælti: „Prestur var hér á staðnum fyrir þremur mannsöldrum; hann var peningamaður mikill. Áður en hann dó lét hann búa lykil til að kirkjunni og sagði svo fyrir að hann væri lagður í kistu sína þegar hann dæi. Ekki vissu menn til hvers hann gjörði þetta. Nú dó presturinn; þóttust menn þá vita að hann mundi hafa grafið peninga sína í kirkjunni því að engir peningar komu fyrir eftir hann. Hafa margir reynt að vaka hér á nóttu og komast að þessum peningum, en þeir hafa fundizt vitstola í kringum bæinn. Vil ég ráða þér að reyna ekki til þess því að illt muntu af því hafa.“ Jón sagði að gaman væri að freista þess. Sá þá prestur að ekki tjáði að letja hann og var hann lokaður úti um kvöldið þegar fólkið fór að hátta.

Hann reikaði þá út að kirkjugarðinum og beið þar lengi þangað til hann sá að opnaðist eitt leiði í kirkjugarðinum og reis þar upp maður hjúpaður. Sá gekk að kirkjudyrum, lauk upp og fór inn. Jón veitti honum eftirför. Hann gekk inn í kirkjuna og settist í krókbekkinn á hurðarbaki. Hinn dauði gekk innar á kórgólfið, tók þar upp tvær fjalir úr gólfinu og dró þar upp úr skrín eitt mikið fullt af peningum. Hann hvolfdi úr því á gólfið og kastaði svo peningunum út um alla kirkju og lét þá velta og skoppa um alla kirkjuna. Þetta lét hann ganga lengi nætur, en þegar fór að líða undir daginn fór hann að tína saman aftur. Þá stóð Jón upp og kastaði út um allt aftur jafnóðum og hinn tíndi saman. Hinum dauða tók að leiðast þetta og bað Jón hætta, en Jón gaf sig ekki að því. Létu þeir þetta ganga þangað til dagur ljómaði. Ætlaði hinn dauði þá að hlaupa frá hrúgunni og komast í gröfina. Það sá Jón og hljóp út og var fyrri að gröfinni. Tók hann tvær spýtur er voru þar í garðinum og lagði þær í kross yfir gröfina. Komst hinn dauði þá ekki í hana, en kom inn aftur; var hann þá ófrýnilegur og spurði Jón því hann verði sér gröfina. Jón sagði að hann fengi ekki að komast í gröfina nema hann gæfi sér peninga sína alla og lofaði að vitja þeirra aldrei oftar. Hinn var tregur til að lofa því, en þó fór svo um síðir að hann lofaði því ef hann lofaði sér í gröfina, því að dagur var runninn. Jón fór þá og tók krossinn af gröfinni og lét hinn dauða fara niður í hana. Mokaði hann síðan að honum moldu, lagði kross í miðja mold og bjó um sem bezt. Síðan fór hann inn í kirkjuna og hirti peninga sína og bar skrínið heim að bæjardyrum og beið þar þangað til á fætur væri komið. Honum þótti seint á fætur komið. Loksins kemur prestur út við annan mann því að hann hélt að Jón mundi vera vitlaus. Þegar hann sá Jón þar brá honum mjög í brún. Jón bauð honum góðan daginn. Prestur gegndi eigi, en mælti: „Geturðu nefnt guð?“ Jón svaraði: „Hafi ég getað það áður þá get ég það eins enn.“ Prestur spurði hann þá að hvort hann hefði ekki orðið hræddur. En Jón sagðist ekki hafa haft neitt hræðsluefni. Prestur spurði hann að hvort hann hefði ekki orðið var við neinn. Jón sagðist hafa fundið mann. Hefði hann verið vænn við sig og gefið sér þetta sem hann sæi hér, og sýndi honum peningana. Sagðist hann vilja gefa honum þá ef hann greiddi fyrir erindi sínu. Prestur var tregur til þess, en þó kom svo um síðir að hann sagði: „Prófastur einn býr í Vatnsfirði vestur; vil ég ráða þér að fara til hans og bera honum kveðju mína því ef hann getur ekki greitt fyrir erindi þínu þá get ég ekki séð neitt ráð fyrir þér. En peninga þessa vil ég ekki þiggja því lítil blessun mun þeim fylgja, en fús er ég að geyma þá þangað til þú ráðstafar þeim frekar. Vil ég helzt að þú farir ekki lengra; sýnist mér það þarflaus keppni.“

Jón þakkaði honum góð ráð, en sagðist vilja halda áfram. Kvaddi hann síðan prestinn og hélt af stað. Segir ekki frá ferð hans fyrri en hann kom í Vatnsfjörð; var það seint um kvöld – og barði að dyrum. Hann gjörði boð fyrir prófastinn; kom hann vonum bráðar. Jón heilsaði honum kurteislega, bar honum kveðju prestsins í Árnesi og bar upp fyrir honum erindi sín. Prófastur tók því þunglega, en bauð honum að vera þar um nóttina og það þá Jón. Um kveldið innti hann að erindi sínu aftur við prófastinn, en hann tók því enn þunglegar en fyrri og sagðist hvorki vilja né geta lagt honum ráð, en Jón skoraði fastlega á hann. Prófastur segir þá loksins: „Þar eð þú sjálfur vilt ógæfu þína þá skal ég segja þér frá sögu einni. Hef ég von um að þú munir verða búinn að fá nóg þegar þú ert búinn að heyra hana.“ Byrjaði hann sögu sína þannig: „Stofa er hér niðri í bænum; hún er opin og getur hver gengið um hana sem vill. Eikarborð eitt mikið gengur um hana þvera og fyrir innan það stendur skatthol og tveir skápar standa uppi á því; lyklarnir standa í skránum, en enginn getur lokið upp, en ellefu hafa reynt að vaka þar um nóttu og hafa þeir fundizt höfuðlausir hérna í bæjardyrunum. Hafa menn það álit að stofuna muni eiga prófastur einn er hér var fyrir hundrað árum og muni hann vitja þangað á hverri nóttu. Vil ég ráða þér fastlega til að leggja þig ekki í þessa hættu.“ Jón sagði að gaman væri að reyna að vaka þar í nótt, en prófastur réð honum mjög frá því, en það tjáði ekki að letja hann. Lét þá prófastur loks til leiðast, fékk honum álnarlangt vaxkerti og fylgdi honum niður í stofuna, bauð honum síðan góðar nætur og fór að hátta.

Nú er að segja frá Jóni að hann fer inn fyrir eikarborðið og sezt á bekk er var fyrir innan borðið; lætur hann ljósið standa á borðinu og bíður svo búinn. Þegar lítil stund var liðin sá hann sex menn molduga koma inn í stofuna; báru þeir líkkistu á milli sín. Þeir settu kistuna á borðið og fóru út aftur. Litlu síðar laukst upp kistan og reis upp úr henni digur dólgur. Hann varð mjög illilegur er hann sá manninn og ljósið og vildi slökkva. Jón reis þá upp og dró til sín ljósið og beiddi hann að lofa því að lifa; sagði hann að sér þætti þar ekki of skemmtilegt þótt ljósið fengi að lifa hjá sér. Stóðu þeir þannig lengi og gjörðu ekki að. Loksins sá Jón að hinn dauði ætlaði að fara niður í kistuna. Reis Jón þá upp og lagðist ofan á kistuna svo að hann komst ekki ofan í hana. Hinn dauði spurði hann því hann bannaði sér kistuna, en Jón sagðist ekki sleppa honum ofan í hana nema hann sýndi sér í skattholið. Hinn var tregur til þess, en þó kom svo að hann sneri lyklinum og lauk upp. Sá Jón þar í alls konar silfur, borðbúnað o. fl. Skellti hinn dauði síðan aftur. Vildi hann þá komast í kistuna, en Jón sagði að hann fengi það ekki fyrri en hann sýndi sér í annan skápinn. Hann var tregur til þess, en gjörði það þó á endanum. Þar voru í peningapokar og sumum peningunum var lauslega hlaðið upp. Lét hinn dauði því næst aftur skápinn og sagðist nú vilja komast ofan í kistuna því að hann sýndi honum ekki meira og lægi þar við líf Jóns ef hann neyddi sig til þess. En Jón sagði að hann fengi ekki að fara ofan í kistuna nema hann sýndi sér í hinn skápinn. Hinn dauði tók því mjög fjarri og sagði að þeir yrðu að glíma um það. Jón var tilleiðanlegur til þess. Hinn dauði sagði að þeir skyldu fara fram í bæjardyr, en þeim kom ekki saman því að hinn dauði vildi að Jón færi á undan, en Jón vildi ekki fara á undan því að hann sá glögglega að hinn mundi ætla að drepa sig með því að hlaupa á herðar sér. Um þetta þráttuðu þeir lengi þangað til draugnum fór að leiðast. Lauk hann þá upp skápnum í reiði sinni og sýndi Jóni í hann. Þar sá Jón ellefu mannshöfuð. Draugurinn sagði að hann skyldi verða sá tólfti og bauð honum til glímu út í bæjardyr, en að hinu sama rak og fyrri að Jón vildi ekki fara á undan. Þegar draugurinn sá að þetta dugði ekki varð hann reiður og bauð Jóni með harðri hendi að hleypa sér ofan í kistuna, en hann sagðist ekki gjöra það nema með því móti að hann gæfi sér það sem þar væri inni. Draugurinn var mjög tregur til þess, en þá sá hann að dagur var runninn. Lofaði hann honum því þá öllu ef hann vildi lofa sér niður í kistuna. Jón sleppti honum þá ofan í og negldi aftur kistuna. Þegar lítil stund var liðin komu hinir sex er höfðu borið kistuna inn og báru hana út aftur. Jón veitti þeim eftirför, mokaði mold í grafir þeirra og bjó um sem bezt hann kunni. Þegar hann hafði lokið þessu starfi fór hann inn aftur og settist í sæti sitt; var þá ljósið því nær útbrunnið. Þar beið hann þangað til prófastur kom ofan. Prófasturinn varð mjög glaður er hann sá hann heilan. Spurði hann hann þá hvort hann hefði ekki orðið var við neitt eða orðið hræddur. Jón kvað nei við og sagði honum hvað fyrir sig hefði borið og að hann hefði gefið sér það sem hér væri inni. Bauð Jón þá að gefa prófastinum það allt ef hann legði sér ráð svo hann gæti orðið hræddur, en prófastur sagðist engin ráð kunna, en bauð honum dóttur sína og mikinn mund með henni ef hann vildi hætta við áform sitt og ílengjast þar. Jón þakkaði honum fyrir gott boð, en sagðist vilja halda áfram og beiddi hann enn á ný að leggja sér ráð. Prófasturinn sagðist engin ráð kunna, en gjörði honum aftur sama boð og áður, en Jón vildi með engu móti þiggja það. Hann beiddi þó prófastinn að geyma fjármuni sína þangað til hann vitjaði þeirra, en eiga þá að öðrum kosti, kvaddi hann síðan og hélt af stað. Prófastsdóttur hafði litizt vel á manninn og horfði á eftir honum. En þegar Jón var kominn út fyrir túnið sá hún að hann fleygði sér niður og sofnaði, því að hann var bæði þreyttur og syfjaður. En þegar hún sá að hann mundi vera sofnaður hljóp hún til hans og gól í eyra honum. Honum varð bilt við, hrökk upp og sagði: „Æ, hvað er þetta?“ Hún svaraði: „Þetta er nú að verða hræddur. Kom nú heim með mér og þigg boð föður míns.“ Hann trúði þessu, fór með henni heim og ílengdist þar. Nokkru síðar átti hann prófastsdóttur og reisti bú þar í grennd við tengdaföður sinn. Seinna sótti hann peninga sína til prestsins í Árnesi og varð auðmaður mikill. Mælt er að hann hafi aldrei orðið eins óhræddur eftir og áður. – Lýkur hér sögunni af Jóni hinum óhrædda.