Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Sigurður og draugurinn

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Sigurður og draugurinn

Einu sinni var bóndi á bæ; hann átti einn son sem Sigurður hét. Hann var af öllum álitinn undarlegur og óþokki mesti og svo óþekkur að enginn gat um hann tætt. Eitt sinn kom maður á bæ þennan sem Sigurður er nefndur. Hann biður bónda veturvistar og fær það. Ekkert getur aðkomumaður starfað nema leikið á hörpu. En kunningsskapur verður mikill með þeim nöfnum svo að bóndason unir hvergi annars staðar en hjá komumanni þessum.

Líður nú veturinn og um vorið fer vetrarsetumaðurinn í burtu. Eftir burtför hans af heimilinu leiðist bóndasyni svo að hann unir sér hvergi og um haustið leggur hann af stað að leita að Sigurði vetrarsetumanni. Hann kemur á hvern bæ, fer sveit úr sveit og sýslu úr sýslu og spyr alstaðar að Sigurði nafna. Loksins kemur hann að prestssetri nokkru; þar spyr hann að Sigurði nafna. Veit enginn um hann, en honum er þó sagt að þar hafi nýlega komið maður sem Sigurður hafi heitið, en hann sé nýdáinn. Hann spyr hvar hann sé. Honum er sagt hann sé hérna úti í kirkjunni nýlega kistulagður. Hann biður að lofa sér þangað. Hann fær það og situr nú yfir kistunni fram á nótt. Um nóttina fer Sigurður úr kistunni og út og er nú lengi í burtu, en Sigurður bóndason er hjá kistunni á meðan.

Svo var ástatt í bænum að kona prestsins var nýbúin að ala barn. Undir morgun kemur Sigurður draugur og vill fara í kistuna. Bóndason segir hann fái það ekki nema hann segi sér hvað hann hafi verið að gjöra. „Ég var að leika mér að peningum mínum,“ segir draugur. „Nú vil ég fá að fara í kistuna,“ segir draugur. „Ekki fyrr en þú segir mér hvar peningarnir eru,“ segir Sigurður. „Það færðu ekki að vita,“ segir draugur. „Þá færðu ekki að fara í kistuna,“ segir Sigurður. Þá segir draugur að þeir séu undir baðstofuhorninu. „Hvað eru þeir miklir?“ segir Sigurður. „Það er eitt kvartél,“ segir draugur. „Gjörðirðu nú ekkert meira?“ segir Sigurður. „Nei,“ segir draugur. „Þú gjörðir víst meira,“ segir Sigurður, „og ekki færðu að fara í kistuna nema þú segir mér það.“ „Ég drap prestskonuna,“ segir draugur. „Því gjörðirðu það?“ segir Sigurður. „Ég vildi komast yfir hana á meðan hún lifði,“ segir draugur, „en hún meinaði mér það.“ „Hvernig fórstu að því?“ segir Sigurður. „Ég strauk allt lífið úr henni í litla fingurinn,“ segir draugur. „Verður hún ekki lífguð aftur?“ segir Sigurður. „Jú,“ segir draugur, „ef bandið sem ég batt um litla fingurinn verður losað svo hægt að ekki dreyri blóð.“ „Nú vil ég fá að koma í kistuna,“ segir draugur. „Ekki nema þú lofir mér því að fara aldrei úr kistunni aftur,“ segir Sigurður. „Ég vil fá að fara í kistuna,“ segir draugur. „Lofaðu mér þá hinu,“ segir Sigurður. Það verður úr að draugur lofar að fara aldrei framar úr kistunni. Fer hann þá í kistuna og lýkst hún aftur. Um morguninn kemur Sigurður inn í bæ, er þá fólkið mjög angurvært. Sigurður spyr hvað gangi að fólkinu. Honum er sagt að kona prestsins sé nýdáin. Hann biður að lofa sér að sjá hana og er honum vísað til hennar. Hann losar bandið á litla fingri prestskonunnar og strýkur konuna alla svo hún fer að smálifna við. Síðan segir hann prestinum frá viðskiptum hans og draugsins og sýnir honum peningana til sannindamerkis. Er hann nú í miklum metum hjá presti og verður nú hans maður. Er svo sagt að prestur hafi gjört úr honum hinn nýtasta mann og að Sigurður þessi hafi hagað sér vel upp frá þessu. Lýkur svo sögunni.