Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Unnustinn

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Einu sinni var piltur og stúlka á bæ einum; þau voru trúlofuð og unnust mjög. Um veturinn átti hann að fara til útróðra og áttu þau tal með sér áður hann fór. Lofaði hann þá unnustu sinni að hann skyldi skrifa henni oft og rækilega. Fór hann síðan á burt og leið svo fram undir jól. En um jólin fór stúlkuna að dreyma mjög unnusta sinn og kvað svo mjög að því að hún gat varla sofið nokkra rólega stund. Var hann að segja henni frá ýmsu bæði um sjálfa hana og aðra. Þar á bænum var kerling ein; fór stúlkan til hennar og sagði henni frá draumum sínum og að hún mætti ei sofa með værð nokkurri. Kerling lét lítt yfir, en sagði þó við stúlkuna: „Fara skalt þú að sofa í kveld, en ég skal búa um hurðina á húsi því er þú sefur í.“ Um kveldið fór stúlkan að sofa; dreymdi hana þá að unnusti sinn koma á gluggann og mæla: „Illa gjörðir þú að loka hurðinni fyrir mér; er nú svo komið að ég má eigi framar til þín koma, en þar eð svo er þá vildi ég vera draumamaður þinn og var það illa gjört af þér að loka fyrir mér húsum.“ Síðan kvað hann vísu þessa:

„Vér höfum fengið sæng í sjó
sviptir öllu grandi;
höfum þó á himni ró
hæstan guð prísandi.“ –

Fór hann síðan á burt, en stúlkan vaknaði. Var hún þá svo óð að hún hljóp út og ætlaði að fyrirfara sér. En sumt fólk var þá enn ei til sængur gengið og náði það henni. Varð stúlkan síðan jafngóð aftur og vitjaði maðurinn hennar aldrei síðan.