Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Ákvæði Þormóðs og kveðskapur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Ákvæði Þormóðs og kveðskapur

Alsagt er það að Þormóður orkaði ekki minna með ákvæðum sínum en fjölkynngi og eru nokkrar þær vísur enn til eftir hann en sumra er áður getið. Einu sinni kom hann fram á kaupskip í Stykkishólmi og vildi ganga í káetu fyrir kaupmann, en matsveinninn á skipinu bannaði Þormóði það með illyrðum. Þormóður tróð sér þar inn engu að síður og kvað þegar hann kom fyrir kaupmann:

„Kokkurinn yðar, kaupmaður minn,
sé kyrktur eins og lundi;
hann gerði mér banna að ganga inn,
gikkurinn líkur hundi.“

Litlu síðar heyra þeir kaupmaður og Þormóður eitthvert snörl uppi á þilfarinu, og þegar að er gáð verða þeir þess varir að farið er að korra í matsveininum eins og verið væri að kyrkja hann. Kaupmaður varð lafhræddur því hann grunaði hvað olli, skenkti á stóran bikar og rétti Þormóði og bað hann í öllum bænum að gera bragarbót. Þá kvað Þormóður:

„Meðan lífs ei húmar húm
hraustar sért og virkur;
þitt um andar rýmki rúm
réttur líkams styrkur.“

Við þessa vísu er sagt að matsveininum létti þegar.

Í öðru sinni var Þormóður staddur úti á skipi í Stykkishólmi og kom honum til hugar að fá sér tóbakspípu. Fór hann svo þangað á skipið sem matsveinninn hafði beykistöðu sína, en hann var hollenzkur að ætt. Meðal annars sá Þormóður hjá honum tvær tóbakspípur og leggur fölur á þær. Matsveinninn þóttist ekki geta fargað þeim því hvorki ætti hann fleiri enda væri báðar brákaðar. Þormóður lézt ekki trúa því að hann ætti ekki fleiri, en matsveinninn sór sig um það og sárt við lagði. Þormóður kvað:

„Ef kokkurinn á ei utan tvær
engin sjást á lýti;
mélinu smærra moli þær
morðinginn í víti.“

En varla hafði Þormóður sleppt orðinu fyrr en báðar pípurnar duttu niður á gólf og þar með fjögur eða fimm tóbakspípuhöfuð önnur ofan af hillu, og fór allt í þúsund stykki. Eftir það varð engin viðstaða á fyrir Þormóði að fá tóbakspípuna hjá matsveininum og góðgjörðir að auki.

Kaupmaður sá var í Stykkishólmi sem Mórus hét. Þormóður bað hann að lána sér mélstamp, en kaupmaður synjaði. Þá kvað Þormóður:

„Mig kynjar ei þó kári blási kuldagolu
fyrst Mórus ekki mér vill lána mélstamps-holu.“

Svo er sagt að kaupmenn væri hræddir við ákvæði Þormóðar og léti allt uppi fyrir honum og það þó sumir þeirra skildu ekki hvað Þormóður kvað, og svo er sagt að Mórusi færi þegar hann heyrði stökuna.

Það segja þó aðrir að Mórus hafi ekki látið sér segjast við þessa vísu og kvæði Þormóður þá aðra; hún er svo:

„Sunnanvind af svörtum tind
sendu niður hingað
svo hverri kind á laxalind
liggi við að springa.“

Við það brá svo að það dró upp myrkvan skýflóka á suðurfjöllin og fylgdi þar með svo óstjórnlegt veður að við ekkert varð ráðið. Lá þá kaupskipið á höfninni og var ekki annað sýnna en að það mundi þá og þegar slitna upp. Bauð kaupmaður þá Þormóði svo mikið lán sem hann vildi til þess að gera bragarbót, og Varð það að sætt með þeim að Þormóður fékk mélstampinn, en kvað þetta:

„Kristur minn, fyrir kraftinn þinn
kóngur í himnahöllu,
gefðu þann vind á græðishind
að gangi í lagi öllu.“

Við þetta slotaði veðrinu þegar í stað.[1]

Getið er þess að Þormóður var einu sinni sem oftar staddur í Stykkishólmi og léki kaupmanninum einhvern hrekk svo að hann sá sér ekki annað færi en forða sér út á skip. Um sama leyti var þar staddur Björn eldri Jónsson frá Langadal, móðurbróðir Þormóðar; hann bjó í Vogi og þótti fjölkunnugur. Kaupmaður keypti að Birni að gera galdraveður að Þormóði þegar hann færi heim. Það veður var svo mikið að Þormóður gat við ekkert ráðið og gat með nauðum náð landi í Deildarey skammt frá Staðarfelli og varð að liggja þar þrjú dægur. Þá kvað hann vísu þessa:

„Gæti ég flogið greitt sem örn,
gista hér ei skyldi;
upp að Vogi eldra Björn
eg þá finna vildi.“

Ekki er þess getið hvort Þormóður hefndi þessa á Birni eða ekki.

  1. Seinni vísan er mjög lík einni af vísum Þórðar á Strjúgi. Sumir eigna Þormóði vísuna: „Ég krefst þess af þér,“ o. s. frv. sem fyrri er eignuð Þórði.