Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Þórður Magnússon á Strjúgi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Þórður Magnússon á Strjúgi

Þórður frá Strjúgi eða Strjúgs-Þórður var einn af þeim er orti móti Skautaljóðum. Hann var ákvæðaskáld. Það er mælt hann hafi ort Rollantsrímur og lagzt meðan hann var að því. En þegar hann kom á fætur sá hann að rímu hafði verið bætt við. Hann kallaði þá á dóttur sína og mælti: „Þessi er ríman bezt ort, en ekki þurftir þú að gjöra ráð fyrir dauða mínum,“ og sló hann hana löðrung.

Einu sinni kom Þórður í Höfðakaupstað; var þar vegið af honum án þess hann fengi nokkra réttingu á því eða kæmi orði fyrir sig. Hann mælti þá við kaupmanninn: „Gefðu mér í staupið úr ámunni þarna.“ Kaupmaður mælti: „Fjandinn hafi þann dropann sem í henni er.“ Þá kvað Þórður:

„Krefst ég þess af þér sem kaupmaður gaf þér, kölski og fjandi,
í ámuna farðu óstöðvandi
og af henni hrittu[1] hverju bandi.“

Þá sprakk áman, en það sem í henni var steyptist á búðargólfið. Þórður gekk út, leit til skips þess er lá á höfninni, og kvað:

„Kristur minn, fyrir kraftinn þinn,
kóngur himins frægi,
gefðu þann vind á græðishind
að gangi allt úr lagi.“

Sumir segja Þórður hafi þó iðrazt eftir og kveðið vísuna aftur svona:

„Kristur minn, fyrir kraftinn þinn,
kóngur himins og láða,
gefðu þann vind á græðishind
að gott sé við að ráða.“

En þegar veðrið gekk eigi að síður upp mælti Þórður: „Slíks var von því ekki get ég beðið þeim dönsku hundum góðs með eins heitum huga og ég bið þeim ills.“ Lagði Þórður af stað úr kaupstaðnum, reiður mjög og fylgdi maður honum. En þegar þeir voru komnir nokkuð áleiðis tók að hvessa svo að lítt var reitt. Þá kvað Þórður við lagsmann sinn:

„Þó slípist hestur [aðrir: klár] og slitni gjörð
slettunum engum kvíddu.
Hugsaðu fátt um himin og jörð,
haltu þér fast og ríddu.“

Í stormi þessum fórst skipið hlaðið með rá og reiða.

Á efri árum sínum var Þórður eitt sinn á ferð hjá Helgavatni í Vatnsdal. Þetta var á útmánuðum og var hjarn og reiðfæri gott, en fullkomið hagbann. Þá mætti honum maður er bar heybagga mikinn á baki. Þórður kastaði þá fram stöku þessari í gamni:

„Aldrei átti ég á því von
að það svo við bæri
að sterki Ormur Stórólfsson
staðinn upp aftur væri.“

Maðurinn hét Jón og hafði hann fengið bagga þennan í heyþrotum. Tók hann þetta fyrir gabb, en var ákvæðaskáld og svaraði hann í ljóðum með þykkju. Jókst kveðskapurinn svo að Þórður kvað auðnuleysi á Jón, en Jón holdsveiki á Þórð. Mælt er að Þórður hafi kveðið holdsveikina af sér hálfum, en ekki viljað freista drottins með því að kveða hana af sér öllum.

  1. „Sviptu“ hafa aðrir. Vestfirðingar eigna vísu þessa Þormóði í Gvendareyjum og segja að hann hafi kveðið hana við kaupmanninn í Stykkishólmi.