Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Þorleifur villist

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Einu sinni var séra Þorleifur á ferð yfir Heljardalsheiði og með honum unglingspiltur er Magnús hét; hann var sveinn séra Þorleifs. Þeir höfðu áburðarhesta. Á heiðinni gjörði á þá snjóveður allillt, svo þeir villtust. Sá Þorleifur ekki fært að halda áfram og tók ofan af hestunum og hlóð saman farangri þeirra, en þeir voru að ganga um gólf þar hjá. Séra Þorleifur var í múknum eins og þá var siður presta í þann tíma að þeir riðu ætíð í hempunni. Þegar þeir vóru búnir að ganga um gólf litla stund segir Magnús að sig syfji svo mikið að sér sé ómögulegt að standa á fæturnar eða vaka. Þorleifur segir að hann megi ekki sofna hvað mikið sem hann langaði til þess, „og skalt þú nú halda utan um mig svo þú sofnir síður.“ Magnús gjörði það og gekk prestur nú enn um gólf og var Magnús að bera sig að halda sér við hann. En þó fannst honum sér hverfa hugur, en hrökk aftur upp við það að hann heyrir séra Þorleifur segir heldur alvarlegur: „Láttu hann kjurran, kall minn.“ Ei vissi hann hvað það hafði að þýða, en hugði þó að eitthvað hefði átt að gjöra sér illt. Var nú farið að birta veðrið og sáu þeir fjall eitt eða hnjúk ei alllangt frá sér, en ekki gat prestur þekkt hvar þeir voru þá staddir. Hann segir við Magnús að nú skuli hann leggja sig til svefns og býr um hann í böggunum, fer síðan úr múknum og breiðir hann ofan á Magnús og sofnar hann skjótt; en sjálfur er hann að ganga um gólf sem fyrr. Þegar stund leið vaknar Magnús og segir að sig hafi dreymt að maður kæmi að sér illilegur mjög og furðu mikill vexti og segði að þeim væri betra að halda áfram en að liggja þar. „Sagði hann okkur að stefna annars vegar við hnjúkinn“ – og nefndi hvorumegin það skyldi vera. „Ekki fer ég þá leið,“ sagði Þorleifur, „og reyndu að sofna aftur og vita hvurt þig dreymir ekkert.“ Þetta verður, að Magnús sofnar enn; og er hann hafði sofið um hríð vaknaði hann og sagði: „Enn dreymdi mig að maður kom til mín; að öllu leizt mér betur á hann en þann fyrra. Hann sagði að við skyldum halda áfram og vísaði hann mér að fara hinumegin hnjúksins.“ „Þá leið skulum við fara,“ segir prestur. Síðan láta þeir upp á hestana og héldu áfram eftir tilvísan síðara draumsins og komust með heilu og höldnu til byggða. En þeim megin hnjúksins er fyrri draummaðurinn vísaði Magnúsi voru flug og gljúfur ófær; höfðu þangað stundum villzt menn og farizt og þótti þar jafnan reimt. Var þetta sem fleira eignað hamingju séra Þorleifs.

Magnús þessi sigldi og lærði skómakaraverk, varð síðan bóndi að Skinnalóni á Sléttu og fékk þeirrar konu er Hildur hét. Þau tóku til fósturs Þorbjörgu dóttur Stefáns prests Lárussonar Schevings. Hún var móðir Hildar móður Bjarnar Halldórssonar á Úlfsstöðum, er mér hefur flest sagt um séra Þorleif Skaftason.