Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Þormóður opnar sölubúðir kaupmanna

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Þormóður opnar sölubúðir kaupmanna

Um þær mundir sem Þormóður var uppi var sú venja hér á landi að engin var þá vetrarverzlun hér eða að minnsta kosti ekki þar vestra í Stykkishólmi og Ólafsvík því „eftirliggjarar“ voru þá enn ekki farnir að vera hér á vetrum. En þó höfðu kaupmenn vörubúðir sem þeir Verzluðu í á sumrin, en voru lokaðar og forsiglaðar á haustin þegar þeir fóru héðan af landi. Þannig stóðu þær óhreyfðar allan veturinn nema ef svo bar undir að bjargarskortur varð manna á milli; þá mátti hlutaðeigandi sýslumaður sem hafði lykla að búðunum opna þær og lána nauðstöddum eftir máli og vigt matvæli mót fullu verði, en loka aftur og forsigla síðan. Stundum bar það við á vetrum að menn urðu bjargþrota í grennd við Stykkishólm, en fáir voru sem gátu miðlað af eigin forða svo mörgum sem þurfandi voru þó sumir væru vel sjálfbjarga eins og Þormóður þótti jafnan.

Einu sinni lögðu fátæklingar mjög að Þormóði að opna búðirnar í Stykkishólmi og báru sig mjög aumlega og sögðust mega deyja í sulti þó þar væru matarnægðir til nógar af því þeir ættu ekkert fyrir að gefa þó sýslumanns væri leitað, en það þóttust þeir vita að ekki mundu skrár og læsingar standa fyrir Þormóði. Sagt er að Þormóður væri mjög tregur til þessa, en léti þó til leiðast fyrir þrábeiðni aumingja svo hann bar lásagras að læsingum og opnaði með því búðirnar, og er sagt hann léti þá síðan sjálfráða, en færi hvergi inn sjálfur. Af þessu fóru hatursmenn Þormóðar að flimta með það að hann stæli úr kaupmannsbúðunum í Stykkishólmi, bæði handa sér og öðrum, og vinir hans gátu ekki heldur svarið fyrir hug sinn um það að hann mundi hafa hjálpað nokkrum nauðstöddum á þann hátt. Þessi kvittur varð hljóðbær og kom fyrir sýslumanninn í Snæfellsnessýslu sem þá var að því er sagnir segja Guðmundur Sigurðsson á Ingjaldshóli,[1] og er það einmitt sami maðurinn sem Espólín segir um að í hans tíð hafi vöruhúsagluggar í Ólafsvík verið brotnir til stuldar, og vissi enginn hver gert hefði; en síðan er sýslumaður skyldi miðla mönnum korni til bjargar bryti hann hvorki innsigli né lyki upp, en færi inn um glugga og tæki þar út kornið og þætti það óhöfðinglegt, og hann yrði sjálfur grunaður um að vita til og það yrði honum að brigzli.

Guðmundur kallaði Þormóð fyrir sig og bar það á hann að hann hefði farið í vörubúðirnar í Stykkishólmi og stolið þaðan. Þormóður lét sér ekki bilt við verða, játaði hvorki né bar af sér kæru sýslumanns, en mælti fram vísu þessa:

„Að mér berast efnin vönd,
er ég í máta glaður;
hafið þér séð hann Glugga-Gvönd
göfugi sýslumaður?“

Er mælt að sýslumaður hafi þekkt þar skeyti sitt í vísunni og sleppt Þormóði óátöldum.

En þó Þormóður kæmist svo hægt frá tiltektum sínum við sýslumann sem nú var sagt var þó ekki allt þar með búið; því þegar Stykkishólmskaupmaður[2] kom hingað sumarið eftir var honum borin sólarsagan af Þormóði og eftir það gerði kaupmaður sér allt far um að rýnast eftir um Þormóð og hvort hann væri valdur að stuldinum. En aldrei gat hann orðið neins vísari um það því í hvert sinn sem hann gerði tilraunir til þess sá hann aldrei annað en fleginn kálf sem dró á eftir sér húðina á halanum; svo villti Þormóður sjónir fyrir kaupmanni.

Nú leið og beið til þess Þormóður kom út í Hólm; var þá kaupmaður hinn reiðasti og hafði í heitingum við hann nema hann vildi bæta sér tjónið að fullu. Þormóður vildi engu bæta þar sem hann þóttist ekkert hafa brotið. Kaupmaður sagði að þó hann slyppi í þetta sinn skyldi hann fá makleg málagjöld að sumri. Þormóður varð ekki smásmeykur við það og sagði: „Fyrr muntu hanga höfuðlaus í Hetlands- (Hjaltlands-)skaga.“ Við það skildu þeir og hafði kaupmaður ekki meira af honum.

Pétur hét ungur maður sem var á skipi með kaupmanni og hafði hann oft vikið góðu að Þormóði. Þormóði var því vel til hans, kom að máli við hann um sumarið og réð honum til að ráðast burt af skipinu, en það vildi Pétur ekki. Þá réð Þormóður honum að hann skyldi aldrei vera varbúinn á útsiglingunni til hvers sem hann þurfti að taka eða ef eitthvað kynni á að bjáta. Sama daginn og skipið lagði út úr Stykkishólmi, einum eða tveimur dögum fyrir allra heilagra messu, og á því kaupmaðurinn og Pétur, var Þormóður staddur í kaupstaðnum og fór út í Stykkið og kvað vísur nokkrar og er þetta upphafið:

„Stykkishólmi stefnir frá
straumabjörninn[3] þungi;
að honum veltist bylgjan blá,
bylti veðra drungi.
Ránar dætur ríði á slig
rasta hesti búna,
hvíthaddaðar svelgi í sig,
sökkvi haukur húna.“

Einn morgun snemma vetrar eftir að Stykkishólmsskipið sigldi héðan var Þormóður árla á fótum og kom inn í skála um það leyti sem fólk var að fara á fætur, settist niður og strauk upp og ofan andlitið eins og hann var vanur þegar honum bjó mikið í skapi og sagði: „Nú fór Stykkishólmsskipið við Hetlandsskaga í nótt.“ En það er af skipinu að segja að það fórst við Hjaltland sömu nóttina og komst enginn lífs af nema Pétur; sumir segja að hann kæmist á land með allt sitt, en aðrir að hann flyti höfuðfatslaus í land á dúnpoka. Sagt er og að hann hafi átt að sjá kaupmanninn höfuðlausan í fjöruklungrinu. Pétur komst til Kaupmannahafnar og varð eftir það nokkur sumur undirkaupmaður í Stykkishólmi, en lengi síðan kaupmaður á Grundarfirði.

  1. Guðmundur var sýslumaður í Snæfellsnessýslu 1734 til 1753. En Gísli Konráðsson segir og ber fyrir því annál Jóns Ólafssonar á Grímsstöðum að farið hafi verið í búðirnar í Stykkishólmi 1711 og stolið þaðan mikilli vöru og þó mest af klæðum svo meira var en til 60 vætta og dróttað að Þormóði í Gvendareyjum, og er að sjá sem það hafi orðið grunsamt af því að sagnir séu um að eftir tökuna fyndist sylgja af kvenlinda og væri á fangamark grafið og segðu það óvinir Þormóðar að sylgjan væri af linda Brynhildar konu hans, en aðrir segja að það væri belti hennar og hafi Jón Sigurðsson sem þá hafði lögsögu í Snæfellssýslu þingað í málum þessum og dæmt Þormóð sýknan saka þó nokkrar líkur bærust á hann. Telji þó sumir að Þormóður sværi yfirskotseið. Vera má að þessi frásögn sé sannari, en mér þykja munnmælin mætari sem koma Guðmundi sýslumanni svo laglega inn í söguna og hafa í því stuðning af Árbókum Espólíns.
  2. Gísli [Konráðsson] segir að hann hafi heitið Benedix Bastjanssen.
  3. „jórinn“ hefur Gísli Konráðsson.