Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Brynjúlfur læknir á Brekku og séra Jón sonur hans
Brynjúlfur læknir á Brekku og séra Jón sonur hans
Það var einu sinni ekki alls fyrir löngu að Brynjúlfur læknir[1] var á Brekku í Fljótsdal í Norður-Múlasýslu. Hann var maður fornspár og sá margt fyrir. Hann átti tvo syni; hét annar Pétur, hinn Jón og mun hans síðar getið. Pétur var hneigður fyrir [sjó] og var því á hákallajögtum. Ekki er þess getið að það væri neitt að skapi föður hans. Það var eitt sinn að hann réðist á hákallajagt og ætluðu þeir sex á hana. Þegar Pétur kvaddi föður sinn þá er mælt að karl hafi sagt: „Þið farið sex, en komið fimm aftur.“ Svo bar ekkert til tíðinda um sumarið, en eitt sinn um haustið er honum sagt að sjáist til lestar á Hallormsstaðaháls og mundu þar vera skipverjar. Spurði Brynjúlfur þá hvað þeir mundu vera margir; var honum sagt að sæjust sex hestar. „En fimm munu mennirnir vera,“ sagði læknir. Þegar lestin kom neðar á hálsinn er honum sagt að þeir munu vera sex félagar. „Nei,“ segir læknir, „það munu vera sex hestar, en ekki nema fimm mennirnir.“ Þegar þeir eru komnir af hálsinum og nálægt bænum þá er honum sagt að ekki séu nema fimm mennirnir, en einn hesturinn laus. „Það mun vera hestur Péturs sonar míns,“ segir læknir. En þegar lestin kom heim þá fréttist það að Pétur sonur hans hefði farizt um sumarið.
Það er og sagt að eitt sinn kom dr. Brynjúlfur út um morguntíma; þá var föl á jörðu og sér læknir þá að menn höfðu farið hjá um nóttina með eki. Hann gengur að og lítur á förin og mælti: „Þetta eru feigra manna för, já bráðfeigra.“ Þetta var orð og að sönnu; þar höfðu farið tveir menn með eki á Lagarfljót og drukknuðu báðir.
Jón sonur dr. Brynjúlfs var prestur á Dvergasteini og þótti hann fornspár eins og faðir hans. Það var einu sinni að faðir minn sálugi[2] var í kaupstað með föður sínum. Hann var þá eitthvað 12-13 vetra. Hann sagðist hafa haft hatt á höfðinu og gekk hann eftir plássinu; sagðist hann hafa mætt séra Jóni. Hann sagði séra Jón hefði gengið til sín og lyft upp hattinum sem hann hafði og horft í augun á sér og sagt: „Á, ert það þú hnokkinn þinn sem átt að setjast í sætið hans Jóns Brynkasonar?“ Faðir minn sagðist nú ekki hafa hugfest þetta svo sérlega, en þetta hefði rifjazt upp fyrir sér þegar hann var orðinn prestur á Dvergasteini.