Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Dísa býst í gandreið

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Dísa býst í gandreið

Þórdís Markúsdóttir á Stokkseyri sem almennt er kölluð Stokkseyrar-Dísa eða Galdra-Dísa ætlaði einu sinni að búa sér til gandreiðarbeizli og var búin að fara út milli pistils og guðspjalls tvo sunnudaga. Hugðu allir illt til þess ef hún kæmi því fram, því svo er sagt að meðan hún var á Stokkseyri lagðist enginn óhræddur í rúm sitt á kvöldi þar um kring fyrir glettingum hennar. Þó þóttust menn vita að hún mundi verða hálfu verri ef hún gæti farið á gandreið hvurt hún vildi. Þótti hún vís til að taka einhvurn manninn til að ríða. Svo vildi vel til að áður en þriðji sunnudagur kom, kom út á Bakka til kaupstaðar maður austan úr Skaftafellssýslu sem menn héldu að kynni margt. Hann fengu menn til að vera í Stokkseyrarkirkju sunnudaginn og hindra Dísu. Hann var fús til þess og settist hann við dyrastafinn. Eftir pistilinn stendur Dísa upp og ætlar út, en maðurinn stóð upp og fór fyrir dyrnar. Þá settist hún niður aftur. Þetta gekk þrjár reisur og reyndi hún það ekki oftar. Var þá lokið ætlan hennar með beizlið, því ekki má neinn sunnudagur líða á milli, þá er allt ónýtt.

Mikið orð er gjört á illsku og göldrum Dísu og eru margar sögur um hana, en engar sem við koma göldrum nema ef telja skal að menn urðu einu sinni varir við að hún vakti upp tvö börn og sendi þau eitthvað, enginn vissi hvurt, en þau sáust ganga grátandi vestur Hölluhól; það er hæð við bæjarhornið á Stokkseyri.

Séra Eirekur á Vogsósum átti eitthvurt sinn tal við Þórdísi og sagði við hana: „Lukkumaður verðurðu meðan þú lifir, heillin góð, en til helvítis ferðu þegar þú deyr.“ „Heldurðu það, Eirekur prestur?“ sagði Þórdís. „Efaðu það aldrei, heillin góð,“ sagði Eirekur. Þá segir hún: „Svo skal dansa!“

Þegar Þórdís dó voru menn hræddir um að hún mundi ganga aftur. Segja sumir að menn léti hana á grúfu í kistuna, svo hún færi niður þegar hún vildi upp, en það er í almæli að þegar kistan var borin út þótti hún undarlega létt, og voru menn hræddir um að hún væri burt úr kistunni, en aldrei varð vart við hana afturgengna.

Löngu seinna kom danskur kapteinn að Stokkseyrarkirkju. Hann gekk um kirkjugarðinn, hristi höfuðið og sagði: „Hér hafa margir verið grafnir lifandi.“ Hann kom að leiði Þórdísar og spurði hvur þar lægi. Honum var sagt það. Þá sagði hann: „Þið skuluð hafa mig fyrir því að hér eru engin mannsbein undir.“