Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Líkkisturnar í Staðarkirkjugarði

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Líkkisturnar í Staðarkirkjugarði

Árið 1852 gekk um mörg héruð Íslands skæð barnaveiki af andarteppu, misstu margir þá börn sín. Skæðust var veikin í Dölum er á leið sumarið. Dóu þá í Kvennabrekkusóknum nærfellt 40 börn á tveim eða þrem vikum og viðlíka víðar þar um kring. Í Breiðafjarðareyjum gekk hún um sama mund, en lítið kom hún við fyrir vestan Breiðafjörð og ekki annarstaðar en í Múla-, Gufudals- og Reykhólasveitum, mest í hinni síðastnefndu. Litlu fyrir jólin missti presturinn Ólafur Einarsson Johnsen á Stað á Reykjanesi á einni viku sex börn sín af átta börnum sem hann átti. Elztu börnin, Þorlákur og Ingveldur, lifðu og vóru þau um 13-14 ára gömul, hin öll yngri. Mælt er að prestinn hafi dreymt nokkru áður að hann kæmi í kirkjugarðinn á Stað og sæi þar líkkistur nokkrar litlar og hefði spurt ókenndan mann sem hjá honum var hvör ætti kisturnar og maðurinn hefði svarað: „Þú átt þær; það eru rúmin barnanna þinna.“ Þorlák litla dreymdi líka hann þóttist vera í stóru húsi ásamt öllum systkinum sínum. Þótti honum maður koma að glugganum á húsinu er honum stóð ótti af. Þykir honum maðurinn kasta steinum inn um gluggann og að fyrir hvörjum steini yrði eitt barnið. Þykist hann þá biðja manninn að kasta ekki í sig né hana Ingveldi, en sem þau tvö vóru eftir hætti steinkastinu og maðurinn hvarf frá.