Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Síra Sigurður í Holti og Síra Páll í Stóradal

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Síra Sigurður í Holti og síra Páll í Stóradal

Síra Sigurður Jónsson var prestur í Holti undir Eyjafjöllum (fæddur 1700, deyði 1778) og prófastur í Rangárþingi (föðurbróðir Jóns prófasts Steingrímssonar á Felli). Hann var gáfumaður, kennari góður og vandlætingasamur upp á siðferði sóknarbarna sinna, glaðværðarmaður, en þar hjá nokkuð kíminn. Þá var hann prófastur í Rangárþingi og prestur í Holti er það var upp á boðið 26. október 1770 að þriðji í hverri stórhátíð og fleiri helgir dagar skyldu af teknir og skyldi ekki framar messa á þeim dögum. Þessari konunglegu tilskipun framfylgdi hann og tilhélt prestum í sínu prófastsdæmi að fylgja, enda er ekki getið um að neinir hafi verið tregir að hlýðnast konungsbréfi þessu nema síra Páll prestur Magnússon í Stóradal (frá 1769-1781). En sá kappsmaður var síra Sigurður prófastur að hann hét síra Páli embættistöpun ef hann ekki hlýðnaðist oftnefndu konungsbréfi. En – allt um það – síra Páll varð ekki barnið blauta; sagðist ekki mundi hætta messugjörð á þessum dögum svo lengi sem sóknarmenn sínir sæktu svo kirkjuna að messufært yrði, enda mundi bráðum takast af hon[um] sem yfirboðara sínum að vanda um messugjörð sína, því hann segði honum fyrir satt að hann mundi hafa annað að starfa að ári um þetta leyti; svo skyldi hann til ætla.

Litlu síðar féll upp á síra Sigurð áköf sturlan og sinnisveiki sem honum fylgdi til dauðadags, og hefir það þókt loða við niðja síra Sigurðar, Jarðþrúði dóttur hans og fleiri.

Út af þessari þeirra umræðu hefir sú trú kviknað að síra Páll hafi með gjörningum gert síra Sigurði sjúkleika þenna.