Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfkonurnar í Ekru

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Í fyrndinni var prestur nokkur í Vesturhópshólum er Jón hét, kennimaður góður og stilltur vel, en nokkuð fár og undarlegur í skapi. Það var vandi hans að hverfa hverja nýársnótt og vissi þá enginn hvað af honum varð. Bróðir prests yngri en hann var á vist með honum og gekk mjög á bróður sinn hvar hann dveldi hverja nýársnótt. Prestur duldi hann þess lengi, en sagði honum þó loksins að hann ætti kost á að koma með sér, en líf hans og velferð lægju við að hann léti allt vera sem aðrir vildu og gekk maðurinn að þessum kostum. Um gamlaárskvöld gengu þeir upp í brekku þá er Ekra heitir og liggur framan í hólunum fyrir ofan bæinn og hann dregur nafn af. Bar prest þar að þúfu nokkurri, opnuðust þar dyr, gekk prestur inn og bróðir hans með honum. Mættu þeim þar tvær konur. Var önnur ungleg, en önnur nokkru eldri og var sú fyrir. Hugði maðurinn þær væru mæðgur. Þær tóku presti mjög vingjarnlega, en bróður hans fálegar og þó vel þegar prestur hafði sagt deili á honum. Aldrei hafði hann á ævi sinni séð jafnreisugleg hús eða eins skrautlega um búið. Skemmtu þeir sér um kvöldið við vín og vist og hljóðfæraslátt. Síðan var gengið til sængur og háttaði prestur hjá hinni eldri konunni, og gekk það allt af með kyrrð og ró, en bróðir hans hvíldi hjá hinni yngri. Valla voru þau þó komin í sæng saman fyr en manninum fannst leggja slíkan hita af konunni sem hann mundi stikna kvikur. Þoldi hann þá ekki í rúminu og hljóp á fætur. Þá þótti hinni yngri konunni sér gjörð svívirða og reiddist mjög og kvað hann aldrei verða skyldu óstelandi. „En mældu ekki um bótalaust,“ segir hin eldri. Þá segir hin: „Komist hann svo af þrjú ár að honum verði ekki mein gjört skal hann aftur verða samur maður.“ Eftir þessa nótt gekk að orðum álfkonunnar að maðurinn eirði hvergi nóttu lengur og stal öllu sem hönd á festi. Skildi hann það eftir hingað og þangað óhirt og ófalið. Seint á hinu þriðja ári var hann tekinn og hengdur við Blönduós, en snaran slitnaði og þóttust sumir sjá bláklædda konu með skærum klippa snöruna sundur, og gekk svo þrisvar. Var manninum þá drekkt.