Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Sauðamaðurinn frá Tungu í Fnjóskadal og tröllskessan á Bleiksmýrardal

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Fram af sveit þeirri sem Fnjóskadalur heitir liggja þrír dalir óbyggðir sem eru afréttir; heitir sá austasti Timburvalladalur, svo næsti Hjaltadalur, en sá er vestast liggur Bleiksmýrardalur. Sumir segja hann beri nafn af því þar hafi fyrst fundizt sorta er menn hafi gjört blek af og heiti hann að réttu Bleksmýrardalur og Bleksmýri þar sem kölluð er Bleiksmýri. En aftur segja aðrir að dalurinn taki nafn af bleikum hesti sem Sveinn ríki átti er bjó á Illugastöðum í Fnjóskadal og hann lét ganga á dalnum þar sem heitir Bleiksmýri; eru hér á nokkrar missagnir því miklu fyrr var nefndur Bleiksmýrardalur en Sveinn ríki var á dögum.

Bleiksmýrardalur er mjög langur, en nú óbyggður; hafa þar þótt landkostir góðir og afrétt ágæt; en mjög er hann nú genginn af sér vegna sandfoks og skriðufalla og hrís og skógur eyddur og fallinn.

Svo er mælt að fyrrum hafi Bleiksmýrardalur verið byggður; sér þar enn merki til á nokkrum stöðum um gömul seljastæði sem byggð hafa verið og bæjarstæði sem nefnt er Flaustur, og á þar að hafa verið kirkja.

Á dalnum hafa líka í fyrndinni tröll átt að taka sér byggð og eru þar eftir í munnmælum nokkur örnefni. Skal hér ritin saga af skessu nokkurri sem bjó í hellir einum fram á dalnum í gili því er síðan er kallað Skessugil; er það mjög klettótt með hömrum umhverfis; ganga menn því mjög sjaldan í það.

Á bæ þeim í Fnjóskadal er Tunga heitir bjó bóndi nokkur og ekki er getið nafns hans; sá bær stendur að austanverðu við Bleiksmýrardalsmynni. Bóndi var auðugur af gangandi fé. Jón hét sauðamaður hans, ungur og uppvaxandi er þetta var tíðinda; hann gætti fjár bónda og hélt því til haga austanvert á dalnum fram á Tungu. Eitt sinn varð honum vant nokkurra sauða og leitar hann lengra fram á dalinn. Kom þá að honum tröllskessa ógurlig; tekur hún hann og ber í fangi sér fram dalinn þar til hún kemur að miklu klettagili; þar átti hún byggð í hellir einum; þangað ber hún Jón. Talaði hún þá hún vildi taka hann sér til bónda því hún bjó þá ein er foreldrar hennar voru önduð; Jón færðist ætíð undan; setti hún hann þá fastan og var hann þar í varðhaldi hjá henni þau missiri. Hún veitti honum nóg til matar og tryllti hann með fjölkynngi svo að hann varð stærri og meiri en aðrir menn; samt vildi hann aldrei bregða til samfara við skessuna og leiddist honum mjög í híbýlum hennar. Eitt sinn sagðist Jón vera sjúkur mjög. Leitaðist þá skessan allra bragða við að bæta vanheilsu hans, en það tjáði ekki. Hún spyr hann þá af hvörju honum mundi helzt batna. Hann kvað sér ekki batna af öðru en tólf ára gömlum hákarli sunnan úr Skálholti. Eftir þetta býr skessan sig til ferða að sækja hákarlinn; læsir (lokar) hún þá hellinum og ber grjót á hurðina og býr vel um og sterklega og fer leiðar sinnar.

Nú er að segja frá Jóni að hann hyggur sér ráð að komast úr hellinum meðan skessan er í burt. Reynir hann nú og neytir alls afls og orku að hrinda upp hurðinni, og af því honum hafði mjög aukizt afl hjá skessunni getur hann um síðir brotizt út úr hellinum; tekur hann nú á rás og hleypur sem fætur toga heim til byggða. En þegar hann kemur þar móts við sem heitir Gönguskarð (það liggur vestur úr Bleiksmýrardal og má fara þar um til Eyjafjarðar) sér hann hvar skessan kemur eftir skarðinu; herðir hann þá hlaup sín, og í þessu kemur skessan auga á hann og kallar eftir honum: „Tólf ára gamall hákarlinn, Jón, og þrettán ára þó.“ Jón gefur sig ei að því, en hleypur sem hann má og skessan eftir honum þar til hann kemur að bænum Tungu; var það á helgum degi og fólk flest að kirkju; hleypur þá Jón vestur yfir Fnjóská; veitir skessan honum harða eftirför og þar til þau koma að Illugastöðum; var þá fólk gengið í kirkju og prestur tekinn til embættisgjörðar. Nú fer tvennum sögum: sumir hafa sagt að Jón hafi hlaupið sunnan á kirkjugarðinn og yfir hann og þegar hann hljóp inn af garðinum hafi hún stigið öðrum fæti upp á garðinn og ætlað að ná honum, en þá sprakk skarð í garðinn undan fæti hennar svo hún hrapaði ofan aftur, og þá mælti hún: „Tolldu aldrei,“ og síðan á aldrei að hafa tollað í því skarði, þó hlaðið hafi verið, en Jón komizt í kirkju og skessan misst hans. Aftur segja aðrir að Jón hafi hlaupið í kirkjuna og strax hafi menn gengið út og hafi þá skessan verið komin heim á túnið þar sem kallaður er Pétursvöllur og þá hafi verið hringt klukku, svo skessan snúið aftur og fretað mjög og horfið síðan. En það er af Jóni að segja að hann lifði þar eftir í þrjú dægur og andaðist síðan; var hann jarðaður í Illugastaðakirkjugarði. Mjög löngu síðar kom upp úr garðinum lærleggur Jóns að menn héldu. Var hann svo mikill að hann tók af jörð jafnhátt þjóhnöppum á meðalmanni.

Lýkur svo þessu ævintýri.