Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Bræðurnir, nautslærið og kvörnin

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Einu sinni voru utanlands tveir bræður. Var annar vellauðugur, en annar bláfátækur með fjölda barna. Fór hann oft til bróður síns og bað hann að rétta sér hjálparhönd og gaf hinn honum ætíð eitthvað. Einu sinni sem oftar var hann bjargarlaus og fer nú til bróður síns, biður hann nú að gefa sér eitthvað til lífsbjargar. Hinn varð hálfillur við og segir það sé leiðinleg rella í honum, rýkur samt burtu og kemur aftur með nautslær og kastar í hann og segir: „Farðu með þetta til skrattans.“ Hinn tekur lærið og fer með heimleiðis og þegar konan sá að maður hennar kom með bakbyrði hlakkaði hún undur til að það mundi vera matbjörg og fagnar honum undur vel þegar hann kom heim. En bóndi var heldur fálátur og segir hún skuli láta sig hafa skó og vettlinga. Konan spyr hvurt hann ætli og hann segir: „Bróðir minn sagði mér að fara með þetta til skrattans.“ Konan segir: „Æ, elskan mín, þú mátt ekki taka svo þetta sem bróðir þinn hefur sagt í reiði, því honum hefur leiðzt úr þér bónastaglið.“ Bóndi segir: „Ég fer hvað sem þú segir.“ Konan fór að gráta og taldi hann frá þessu eftir því sem hún gat, en bóndi anzar því ekki og þrífur einhvur skótetur og vettlinga og fer af stað. Kemur hann um kvöldið að bæ litlum, en þrifalegum og snotrum. Hann klappar á dyr. Þar kemur út maður ellilegur og kríthvítur af hærum. Bóndi heilsar honum og tekur hinn því. Bóndi segist ætla að biðja hann gistingar og biður hann að geyma lærið. Hinn segir: „Hér koma fáir, og er líklegt að ég úthýsi þér ekki,“ leiðir so bónda inn og setur fyrir hann vist og vín. Spyr hann þá bónda hvað hann sé að fara og hvurnig standi á að hann hafi þetta gripslær með sér. Bóndi segir söguna eins og var, að bróðir sinn hafi sagt sér að fara með það til skrattans og það ætli hann að gjöra. Gamli maðurinn segir: „Hvurt ætlarðu að fara að finna hann?“ Bóndi segir: „Það veit ég ekki, og ætla ég nú að biðja yður að leggja mér ráð því oft hefur maður gott af þeim gömlu.“ Hinn segir: „Mér sýndist þér ráðlegast að snúa heim aftur, en þó skal ég leggja þér ráð á morgun. Er bezt að fela sig guði og sofa áhyggjulaus í nótt.“ Síðan vísar hann bónda til rúms og fer sjálfur að sofa.

Um morguninn vaknar bóndi; er þá gamli maðurinn að lesa bænir sínar. Síðan fara þeir á fætur og færir gamli m[aðurinn] bónda að borða og segir við hann: „Ég lofaði þér í gærkvöld að leggja þér ráð til að koma fram ferð þinni og er þá fyrst að þegar þú fer héðan skaltu fara beint í austur þangað til þú kemur í þröngt og djúpt dalverpi og gengur inn eftir því þar til það lykist af jöklum og dimmt að sjá inn undir. Þú gengur þangað og þegar þú ert kominn í dimmuna muntu heyra vein og ýlfur og litlu síðar kemurðu að holu sem liggur ofan í jörðina og þar sérðu eld niðri. Hér er stafprik er þú skalt bera fram fyrir þig strax þegar þú kemur í dimmuna, og þú munt líka sjá í holunni púka tvo er sitja sinn hvorumegin við dimmrauðan eld og mala í tveimur steinum, hvítum og rauðum, og gaula mjög ámátlega og róla sér, og þegar þú kemur mun sá hvíti verða ofan á; skaltu þá hafa fyrir þér stafinn og hlaupa ofan til þeirra tvær tröppur og kasta lærinu í þá og segja: „Hann bróðir minn sagði að færa ykkur þetta,“ en um leið skaltu með sömu hendinni [grípa] hvíta steininn og hafa þig svo sem fljótast upp og til baka og hafa stafinn fyrir aftan þig, en ef þér heyrist eitthvað koma á eftir þér þá eru hér þrír steinar sem þú skalt kasta aftur fyrir þig, en varast að líta við, og get ég ekki lagt þér ráð ef þessi ekki duga.“

Eftir svo mælt kveður bóndi gamla manninn og heldur þar til hann kemur í dalverpið og inn eftir því þar til að hann luktist yfir höfði honum og varð niðdimmt. Heyrði þá bóndi ýlfur og vein undarlegt. Þó hélt hann áfram og hafði stafinn undan sér þar til hann kemur að holu og sá hann þar dimmrauða eldglóru niðri og tvo púka er sátu sinn hvurumegin við eld og möluðu í steinunum eins og fyrr er sagt. Þótti bónda hryllilegt að fara þar ofan, liðkar sig nú til eins og hann getur og heldur á lærinu í annarri hendi, en stafnum í hinni, og hleypur ofan tröppurnar og kastar lærinu og segir: „Hann bróðir minn sagði að færa ykkur þetta,“ og grípur með sömu hendinni hvíta steininn og hleypur upp, en hefur stafinn eftir sér og heyrir hann þá að púkarnir æpa og segja: „Ljá mér kvörnina mína,“ og heyrist honum þeir koma á eftir sér, en hann flýtti sér það sem af tók og stefndi í birtuna, en þegar þeir komust nálægt honum sögðu þeir; „Ég brenn, ég kvelst.“ En þó fannst honum þeir vera komnir næstum fast að sér, tók þá einn steininn og kastar aftur fyrir sig og æpa þeir þá hálfu meira sömu orð. Þetta gekk þrisvar að honum fannst þeir vera sér of nærri og kastaði steinum, og brá þeim ætíð illa við, en þó báðu þeir alltaf um steininn sinn þar til hann skrapp út í birtuna; þá þögnuðu þeir.

Heldur hann síðan áfram þar til hann kemur seint um kvöldið til gamla mannsins og er hann þá úti og heilsar bóndi honum. Tekur hinn því vel og segir: „Ég held sé bezt að ég taki við því sem ég léði þér.“ Bóndi fær honum stafinn, en segist ekki hafa hugsað um steinana síðan [hann] hafi fleygt þeim í dalnum, en varð þó þreifað í vasa sinn og voru þar þá allir steinarnir og fær hann gamla manninum þá. Býður hann bónda næturgisting og um kvöldið segir hann honum ævisögu sína og byrjaði þannig: „Ég er Gyðingur og var einn af þeim er var við er Kristur var krossfestur. Var ég þá átján vetra, en þegar ég sá teikn þau er urðu við dauða hans og svo er hann reis upp þá umventist ég og fékk ég mér til huggunar flís af krosstré herrans og þrjá af blóðsveitahnyklum þeim er féllu af honum í grasgarðinum, og þetta er stafur sá og steinar er ég léði þér, og hef ég með því mörgum hjálpað. Dró ég mig frá solli veraldarinnar og er nú þrjú hundruð ára gamall og vænti nú dauðans þá og þá. En púkar þeir er þú sást í dalnum er[u] tveir af öndum þeim er Jesús rak út af djöfulóðum mönnum er hann umgekkst hér á jörðunni, en þeir báðu hann að steypa sér ekki í afgrunnið fyrir dómsdag og leyfði hann þeim að vera í þessum dimma dal og hafa sér til þreyju að nudda saman steinunum og ekki komast út úr dimmunni. Nú náðirðu þeim hvíta steininum og fylgir honum sú náttúra að þú þarft aldrei annað er þig vantar eitthvað en segja: „Ég má fara að mala mér það,“ og færðu það þá undireins, en við því vara ég þig hvurt sem þú átt kvörnina sjálfur eða lætur hana í burtu, sem ég vona þú gerir ekki, að nefna aldrei að þú ætlir að mala salt, því það er þér til tjóns.“

Um morguninn skildu þeir og bað hvur vel fyrir öðrum. Er ekki getið um ferð hans fyrr en hann kom heim og fögnuðu kona og börn honum sem nærri má geta. Er ekki að orðlengja að hvað sem hann vanhagaði sagðist hann þurfa að mala sér og fékk það jafnskjótt. Verður hann fljótt flugríkur, en metnaðist þó ekki og útbýtti fátækum af auðlegð sinni. En bróðir hans spurði hann oft hvurnig stæði á því er hann varð svo fljótt auðmaður úr öreiga, en hinn sagði honum aldrei eins og var.

Líða svo ein tuttugu ár. Er það þá eitt sinn að bróðir hans sækir fast á að vita um upptök auðs hans og verður það þá um síðir að bóndi segir honum allt eins og var um kvörnina og náttúru hennar. Hinn biður hann ógnarlega að hjálpa sér um hana, „því þú ert búinn,“ sagði hann, „að mala þér allar þínar nauðsynjar, en mig vantar nú margt“ Verður það úr að hann fær honum kvörnina og varar hann umfram allt við að mala aldrei salt og lézt hinn mundi geta varazt það. Varð hann yfirmáta glaður og fór heim með kvörnina, en hinn lifði í ró og friði við allsnægtir til dauða og var álitinn vænn maður og urðu börn hans lánsmenn. En hinn með kvörnina sparaði ekki að óska sér hvers er hann gat upphugsað, og fékk sér meðal annars skip alveg útbúið til fiskiveiði og fór með því sjálfur og hafði með sér kvörnina.

Einu sinni var afli mikill og kom hann til þeirra er voru að fiska og sagði: „Það er bezt að salta þenna afla, ég má fara að mala mér salt.“ En í því hann talaði þetta tók skipið þvílíkt flug og snerist fjóra hringi og sökk með öllu er á var, nema einn góður sundmaður gat þegar skipið tók snúninginn fyrsta fleygt sér út af því á sjóinn og náði einhverjum spýtnaflekum er flutu af þilfarinu er skipið sökk, og hélt hann sér þar við og lét reka um hafið þar til um síðir að skip kom þar nálægt og hjálpaði honum, og komst þannig af og sagði frá þessum atburði er fyrr er sagður. Og lyktar hér með þessa sögu.