Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Fjandinn í kvenmannslíki

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Hér um bil árið 1835 heyrði ég í Austurfljótum frá því sagt að það var eitt sinn á bæ einum nálægt Kröflu að konan dó snemma sumars hjá fátækum bónda sem átti þrjú börn. Bóndinn var nú í mestu vandræðum með það hvar hann ætti að fá sér ráðskonu. Um þetta bil kemur til hans ókunnugur kvenmaður og réðst það úr að hún varð bústýra hans um sumarið. Fórst henni það allt vel. Þreif hún börnin vel og safnaði sméri og skyri svo bónda þókti undrum gegna. En aldrei lét hún börnin kvöld né morgun lesa vers sín né bænir og aldrei fór hún til kirkju, enda var kirkjuvegur langur. Bóndi þar á mót fór til kirkju eins og hann átti vanda til. Eitt sinn þegar bóndi kom til kirkju spyr prestur hann hvaða ráðskonu hann hafi fengið. Bóndi segir honum það sé ókunnug kona. Prestur spyr því hún komi aldrei til kirkju. Bóndi ber við heimilisönnum, en segist þó skuli nefna það við hana. Næsta messudag nefnir bóndi við hana að fara til kirkju, en hún er ekki viðlátin með það. Fer svo tvo eða þrjá messudaga. Herðir nú prestur að bónda að láta hana koma og vera til altaris um haustið, og vinnur bóndi það af henni að hún einn sunnudag fer til kirkju til þeirrar ferðar. Nú kemur hún til prests í skriftastólinn. „Játaðu þig,“ segir prestur. „Ég drakk mysu í morgun,“[1] segir hún. „Þú getur játað þig fyrir því,“ segir hann. „Það voru mörmolar með,“ segir hún. Varð hún þá um leið svo útlits að prestur þóktist sjá að þetta væri fjandi. Tók hann hana þá og leiddi út úr kirkjunni og upp að Kröflugjá og sökkti henni þar niður í gjána. Síðan gerði prestur bóndanum áminning og sagði honum þetta hefði verið fjandinn og ætlað að sökkva bæ hans með honum og börnunum. Voru þá eyðilögð matarsöfn ráðskonu þessarar, en börnunum komið niður hjá góðum mönnum.


  1. Meining orðanna virðist mér sú að þegar prestur segir henni að játa syndir sínar segist hún hafa drukkið mysu í morgun, þ. e. að hún sé ekki fastandi (eins og siður var til við altarisgöngu) og geti því ekki verið til altaris í dag. [Hdr.]