Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Karlinn sem enginn vildi hýsa

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Karlinn sem enginn vildi hýsa

Þegar frelsarinn umgekkst á Gyðingalandi þá var þar einn kall sem hafði gjört kontrakt við þann vonda. Þessi kall kom einu sinni þangað sem herrann var og gjörði honum eitthvað gott. En herrann spurði hvört kall vildi nú ekki að hann gæfi honum eilíft líf. „Nei, það vil ég ekki,“ segir kall, „annað vil ég þú gefir mér heldur; ég vil að þú gefir mér þann staf sem aldrei brotnar, þann belg sem aldrei rifnar og það band sem aldrei slitnar.“ Þetta fékk nú kallinn og fór með það sinn veg ánægður.

Þegar andarnir sem kallinn hafði gjört kontraktina við komu og vildu fara að taka hann sem eign sína þá gekk hann móti þeim með belginn og segir þeir skuli nú gjöra seinustu bón sína, sem sé að fara snöggvast ofan í þennan belg. Hann segist skuli sleppa þeim strax úr honum aftur. Þeir voru tregir til að gegna þessu, en kall telur alla vega um við þá og lofar þeim öllu fögru ef þeir fari í belginn, en ef þeir gjöri það ekki þá segist hann bregða við þá loforð sitt og svo framvegis. Loksins þegar hann var búinn að koma þeim til að fara ofan í belginn þá var nú kall ekki lengi að bregða snærinu fyrir ofan og batt trúlega. „Jæja,“ segir hann, „þarna skulu þið nú gista, þetta er ukkur mátulegt.“ Svo tók hann stafinn og barði með honum belginn hlífðarlaust nótt og dag. Aldrei brotnaði stafurinn né rifnaði belgurinn eða slitnaði snærið. Andarnir voru vælandi að þrábæna hann um að lofa sér að fara úr belgnum, en kall barði því ákaflegar og sagði þetta skyldu þeir nú hafa þangað til þeir væru búnir að heita því með eiði að gjöra honum aldrei illt eða neinar ónáðir, hvörki í þessum eða öðrum heimi; þar hjá sé ekki óhult að reiða sig á orð þeirra. Samt þegar þeir voru búnir að margsverja kalli þetta þá hleypti hann þeim úr belgnum og geymdi hann svo vandlega.

Einu sinni kom sá tími að kall deyr og þá vitjaði nú sálin hans upp til himnaríkis, en fékk þar ekki inngöngu af því hann afsagði það forðum. Svo fór hún ofan að vonda staðnum og fékk ekki að vera þar vegna eiðsins sem hann hafði tekið af öndunum í belgnum. Svo fór hann aftur upp til himnaríkis og klúkir þar á hurðarbaki. Þeir sem fundu belginn eftir kallinn liðinn héldu að í honum væri falið eitthvört dýrmæti, en það var þá einber mygluhéla í honum.