Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Ævilok Brúnku

Úr Wikiheimild

Eitt sinn gerði ofsalegt vestanveður. Voru þá Bakkabræður hræddastir um að hún Brúnka mundi fjúka, en um bátinn sinn hugsuðu þeir ekki. Settu þeir þá sig á hana Brúnku og grjótbáru hana alla. Þegar veðrinu slotaði fóru þeir að vitja um hana Brúnku; var hún þá dauð undir grjótfarginu. Þegar þeir þar næst ætluðu til að taka og róa, þá er báturinn fokinn og brotinn. Misstu þeir þannig Brúnku og bátinn í sama ofviðrinu.[1]

  1. Heiðurinn fyrir öll framantalin frægðarverk vona ég enginn geti með réttu tekið frá Bakkabræðrum, enda hefi ég aldrei heyrt þau öðrum tileinkuð. Þar á mót kynni að vera meira vafamál um þau sem hér eftir verða talin og sem hér í Fljótum og nærsveitunum eru sögð um Bakkabræður, enda þó þau séu sumstaðar annarstaðar öðrum afreksmönnum tileinkuð. En þar mér er ókunnugt hverjir mest hafa til matarins unnið, Bakkabræður, Flófífl, Molbúar, eða ég veit ekki hverjir aðrir, set ég þau hér til skoðunar og samanburðar, og getur þá hver trúað því sem honum þykir trúlegast um það hverjum þau séu réttast tileinkuð. J. N. [Hdr.].