Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Þú nýtur þess, guð, ég næ ekki til þín

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
„Þú nýtur þess, guð, ég næ ekki til þín“

Karl og kerling bjuggu á einum bæ. Eitt sinn um sumar áttu þau undir mikið hey hálfþurrt eða meir, en rigningarlega leit út og fóru þau til með fólki sínu að taka saman áður en skúr kæmi ofan í flatt heyið. Þó hver kepptist við sem betur gat að ná saman heyinu dugði það ekki svo að rigningunni dembdi yfir þegar nokkrir flekkir voru eftir svo hætt var við að taka saman. Kerling reiddist þá bæði rigningunni og þeim sem rigninguna gefur, tók um hrífuhausinn eða neðarlega um hrífuskaftið, otar hrífuhalanum svo langt sem hún nær til upp í loftið og segir: „Þú nýtur þess, guð, ég næ ekki til þín.“ Karlinn hafði reyndar engin stóryrði í það sinn, en þó fannst það á daginn eftir að honum hafði þótt fyrir við rigninguna. Daginn eftir var sumsé glaða sólskin og þegar hann kom heim um morguninn að borða litla skattinn skein sólin beint framan í hann í baðstofunni. Karl gerir sér þá lítið fyrir, fer úr brókinni, stingur henni upp í gluggann og segir: „Þú skeinst ekki svona glatt á heytugguna mína í gær.“