Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Hesturinn prestsins

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Prestur nokkur þjónaði kalli sínu sem hét Klemenz, og var eitt sinn sendur til hans maður að sækja hann til að þjónusta dauðveika manneskju. Þegar maðurinn kom til prestsins var fólk allt á engjum á kirkjustaðnum so að enginn var heima til að sækja hestinn prestsins nema kelling sem var orðin mjög gömul. Hún bauðst til að sækja hestinn. Presti þótti vænt um þetta, en var samt hræddur um kellinguna, því hestarnir voru fram á dal. Kella fór á stað, en svo bar til þá kelling var komin nokkuð áleiðis sló yfir myrkviðris þoku. Kelling heldur áfram sem augun horfðu allan dag til kvölds og þá heyrir hún til smalamanns sem einhvörs staðar var að hóa. Hún gengur á hóið og sér loks manninn, hvörn hún spurði eftir hestinum prestsins. „Hestinum prestsins?“ segir hann, „hvörs þá?“ „Hans séra Klémusar,“ svaraði kella. „Séra Klemusar í Tungu?“ segir smalinn, „ertu að leita að hönum hérna suður í Bakkadal, þar sem hann hefir aldrei komið. Þú ert orðin vitlaus í þokunni og er þér bezt að fara sömu leið til baka.“ Kerling lætur sér þetta að góðri kenningu verða og snýr nú heimleiðis, en vegna þess þokan var, þá fór hún ekki sem réttast, heldur villtist hún lengi næturinnar þar til hún kemur fram á kletta mjög háva. En þegar hún hefur gengið eftir þeim um hríð verður hún vör við einstig eða gjá í klettunum; þar gengur hún ofan eftir þangað til hún komst ekki lengra því þá virtist henni há björg fyrir neðan og nú nemur hún þar staðar á einum stalli og kemst hvörki upp né ofan. Nú tekur hún það ráð að hún fer að hóa og kalla og heldur því iðuglega þangað til um morguninn, þá var smalamaður á ferð niðrí dalnum sem þar var fyrir neðan, en kerling hóar á móti svo hann heyrir og sér til hennar, en vegna þess hann hafði engin tök að ná henni flýtir hann sér heim og segir frá fyrirburði sínum. Þessu næst er safnað mönnum af næstu bæjum sem voru vandlega útbúnir af reipum og köðlum og fara þangað sem kerling er undir og nú sígur einn í reipi niður til hennar, en hinir halda festinni. Þegar hann kom ofan á stallinn til kerlingar spurði hún strax eftir hestinum prestsins, en hann anzaði henni engu til þess og dró hana upp með sér hálfnauðuga því hún vildi vita eitthvað um hestinn prests. Þegar hún kemur upp á björgin þá sýna menn þessir henni afstöðuna hvört hún skyldi halda að bæ sínum, en veður var þokulaust. Nú skilja þeir við kellinguna á brúninni og fara leiðar sinnar og þá snýr kellingin við og gjörir lykkju á leiðina og heldur suður eftir brún þeirri sem hún var á, þvert á móti því sem henni var sagt að fara og allt þangað til [hún] komst þar ofan í dal einn, því þangað til hafði hún gengið eftir klettabrún mikilli, og í þessum sér hún marga hesta og þar þykist hún þekkja hestinn prestsins og þóttist nú vel hafa veitt og vildi nú sem skjótlegast ná hönum, en raunar voru þetta stóðhross. En þegar svo var komið að hún þóttist valla eiga meira eftir en leggja við hann beizlið, þá hlupu hrossin út í buskann og líka með þeim þessi prestshestur sem hún hélt að væri. Eltir hún þau langa hríð þangað til hún leggst fyrir örmagna af sulti, þreytu og svefni, úrkula vonar um að ná mannabyggðum, en þetta var hjá götuslóðum sem lágu eftir dalnum. Í sama vetfangi kemur ríðandi maður og heilsaði kerlingunni með nafni og aumkvaði hana mjög og spurði hana hvernig stæði á ferðum hennar. Hún rakti honum alla sína raunarellu frá upphafi til enda. Maðurinn segir henni að koma með sér, sem hún þáði feginsamlega, en hvört þau hafa tvímennt veit ég ekki. Nú halda þau bæði áfram þangað til þau koma á kvíarnar á kirkjustaðnum þar sem kerlingin átti heima, þá þekkti hún sig fyrst, því hún hafði á hvörju máli gengið á kvíarnar til að mjólka, og þá rétt í sama bili þekkti hún að þetta var presturinn sem reið fram á hana og hesturinn hans sem hún var að leita að.