Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Kerlingin sem fór fyrir ofan garð eða neðan á himnum

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Kerlingin sem fór fyrir ofan garð eða neðan á himnum

Tvær förukerlingar tóku sig einu sinni saman um að fara beiningaför í sameiningu. Önnur þeirra lagðist fársjúk á ferðinni og þegar lagskona hennar sér að hún mundi eiga skammt eftir ólifað bað hún hana að bera Sankti-Pétri kæra kveðju sína þegar hún kæmi til himna. Kerlingin sem lá í andarslitrunum svaraði: „Þess er ekki að biðja, því ég er ætíð vön að fara þar fyrir ofan garð eða neðan,“[1] og þá var svo sem auðvitað að henni var töf að því að koma við hjá Pétri.


  1. Aðrir bæta við: öskuhaug, sbr. dr. Maurers Isl. Volkss., 295, bls.