Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Séra Jón Vídalín og Þorsteinn karl

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Séra Jón Vídalín og Þorsteinn karl

Þegar séra Jón Vídalín faðir Geirs biskups var prestur til Laufássafnaða [1755-1767] var þar karl skrítinn í sókninni er Þorsteinn hét. Einn sunnudag kemur karl til kirkjunnar með barn er hann ætlaði að biðja prest að skíra; hann leggur reifastrangann úti upp á bæjarvegginn, en gengur inn til prófasts og fer að tala við hann út í heima og geima þar til prófastur segir: „Áttirðu ekkert sérlegt erindi við mig núna, Þorsteinn minn?“ Þá rankaði karlinn við sér og segir: „Jú, jú; ég ætlaði að biðja yður að skíra fyrir mig í dag.“ Prófastur spyr hvar barnið sé. „Ég lagði það hérna úti upp á bæjarvegginn; ég hélt það væri óhætt,“ segir karlinn. „Ósköp eru á þér, maður,“ segir prófastur, „farðu strax eftir því.“ Karl fer út og ætlar að taka það, en þá er það horfið, en fólkið hafði tekið það og borið það inn og veitt því aðhjúkrun. Karl leitar og leitar alstaðar kringum bæinn; hann sér þá hvar liggur hryggur úr löngu, hann tekur hann upp og hugsar það sé hryggurinn úr barninu, fer með hann inn til prófasts og segir: „Bölvaður fari hundurinn yðar, hann hefur fundið barnið og étið það upp nema hrygginn, þér getið séð hann hér.“ Karl fekk seinna að vita hið sanna og ákúrur hjá prófasti um leið.