Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Galdra-Brandur drepur mývarg

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Galdra-Brandur drepur mývarg

Auk þess sem áður er talið er fátt til frásagna af „mýinu í Grafningnum“ nema alkunnar sögur um kerlingarnar sem misskildu hver aðra;[1] en frá Mývatni er þessi saga komin sem hér fylgir:

Einu sinni var meiri mývargur við Mývatn og nálægar sveitir um fráfærnaleytið en nokkur mundi þá dæmi til svo að hvorki höfðu menn né skepnur viðþol fyrir honum. Þá var uppi í Reykjadal nyrðra maður sá sem Guðbrandur hét, en sumir kölluðu hann Drauga-Brand eða Galdra-Brand, enda var hann talinn fjölfróður og ákvæðaskáld og þótti mikilhæfur í sumu þótt hann væri fátækur. Af því Brandur fékk ekki síður smérþefinn af mýbitinu en aðrir kvað hann einu sinni í logni og sólskinsmolluhita þegar mývargurinn var sem verstur vísu þessa:

„Gylfi hæða galhvassan
gefi vind á landnorðan
með óveðri magnaðan
mývarginn svo drepi hann.“

En svo brá við er hann hafði kveðið vísuna að þá rak á norðangarð sem hélzt í viku með svo miklu frosti og kafaldi að kviðsnjór varð á jafnsléttu kringum Mývatn, fé fennti víða eða króknaði og tvær konur urðu úti. En ekki sást ein fluga við Mývatn eftir það um sumarið.

  1. Sú saga á heima í Kímnisögum.