Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Grímseyingurinn og bjarndýrið

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Grímseyingurinn og bjarndýrið

Einu sinni vildi svo til um vetur að eldur dó í Grímsey svo ekki varð kveikt upp á nokkrum bæ. Þá voru logn og frosthörkur svo miklar að Grímseyjarsund var lagt með ísi og kallað manngengt. Grímseyingar réðu það þá af að senda menn til meginlands til að sækja eld og völdu til þess þrjá hina vöskustu menn í eynni. Hófu þeir ferðina snemma morguns í heiðríku veðri og fylgdi þeim fjöldi eyjarskeggja út á ísinn, báðu þeim lukkulegrar ferðar og fljótrar afturkomu.

Það segir nú ekki af ferðum sendimanna fyrr en þeir á miðju sundi koma að vök einni sem ekki sá fyrir endann á og var svo breið að tveir gátu með naumindum stokkið yfir hana, en einn treysti sér ekki til þess. Þeir réðu honum þá að hverfa aftur til eyjarinnar og héldu áfram ferð sinni, en hann stóð eftir á vakarbarminum og horfði á eftir þeim. Honum var nauðugt að hverfa aftur við svo búið og ræður því af að ganga með vökinni ef hún kynni að vera mjórri í einum stað en öðrum. Þegar á leið daginn fór loft að þykkna og gekk upp sunnanátt með stormi og regni. Ísinn tók að leysa sundur og maðurinn varð loks staddur á jaka einum sem rak til hafs. Um kveldið ber jakann að stórri spöng og gengur maðurinn upp á hana. Sér hann þá bjarndýr skammt frá sér sem liggur þar á ungum. Hann var orðinn kaldur og svangur og kveið nú fyrir lífinu. Þegar bjarndýrið sér manninn horfir það á hann um hríð; síðan stendur það upp, gengur til hans og allt í kringum hann og gefur honum merki að hann skuli leggjast niður í bælið hjá ungunum. Hann gjörir það með hálfum huga. Síðan leggst dýrið niður hjá honum, breiðir sig út yfir hann, kemur honum á spenana og lætur hann sjúga sig með ungunum. Nú líður nóttin. Daginn eftir stendur dýrið upp, gengur spölkorn frá bælinu og bendir manninum að koma. Þegar hann kemur út á ísinn leggst dýrið niður fyrir fætur hans og bendir honum upp á bakið á sér. Þegar hann er kominn því á bak stendur dýrið upp, hristir sig og skekur unz maðurinn dettur niður. Það gjörði þá ekki frekari tilraun að sinni, en manninn furðaði mjög á þessum leik. Nú liðu þrír dagar og lá maðurinn á næturnar í bæli dýrsins og saug það, en á hverjum morgni lét það hann fara sér á bak og hristi sig unz hann gat ekki lengur haldið sér. Fjórða morguninn gat maðurinn haldið sér föstum á baki dýrsins hvernig sem það hristi sig. Þá leggur það á áliðnum degi til sunds með manninn á bakinu og syndir með hann til eyjarinnar. Þegar maðurinn kemur í land gengur hann upp á eyna og bendir bjarndýrinu að koma á eftir sér. Hann gengur heim til sín á undan því og lætur þegar mjólka beztu kúna í fjósinu og gefur dýrinu að drekka nýmjólk eins og það vildi; síðan gengur hann á undan því til fjárhúss síns, lætur taka tvo vænstu sauðina og drepa, bindur þá saman á hornunum og lætur um þvert bak á dýrinu. Þá snýr það til sjávar og syndir út til unganna. En þá var gleði mikil í Grímsey því meðan eyjarmenn horfðu undrandi eftir bjarndýrinu sáu þeir skip koma úr landi er sigldi hraðbyri til eyjarinnar; væntu þeir þar hinna sendimannanna með eldinn.