Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Skrímslið í Skorradalsvatni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Skrímslið í Skorradalsvatni

Miðvikudaginn 9. október 1861 voru tveir menn, Jón Guðmundsson á Háafelli og Eyjólfur Guðmundsson á Fitjum, á ferð frá Háafelli og fram að Fitjum. Sáu þeir þá á leiðinni hér um bil mitt á milli bæjanna ljósbleikan blett á vatninu (Skorradalsvatni) í lygnu veðri. Tóku þeir eftir því að þær litlu öldur eins og klufust um þennan blett. Þetta var ekki lengra frá landi en svo að kasta mátti grjóti, á að gizka þrjátíu faðma. Köstuðu þeir steinum á þennan blett og þókti þeim hljóð það, þá steinninn kom á blettinn, líkast því þegar steini er kastað í stein niðri í vatni. Færðist þetta þá undan svo boðar komu af og það sást þá eins og dökkgrár hryggur á fiski, og breyttist alveg liturinn. En seinast þá þeir fóru frá því sáu þeir aðeins hinn sama bleika blett og í fyrstu, jafnstóran. En þá hann barst vestur eftir vatninu sýndist þeim tveir halar á því, sem litu út líkt og mynd sýnir sem er dregin upp af öðrum sjónarvottinum.

Sýndist þeim það vera lifandi skepna. Oddarnir (halarnir) voru aftanvert að sjá eftir því sem það synti.