Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Tjörnin á Klakki

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Tjörnin á Klakki

Margir eru þeir staðir sem gott og fengsamt hefir þókt að dvelja á á Jónsmessunótt, og einn af stöðum þessum er kringum tjörn þá sem er upp á fjallinu Klakk (milli Kolgrafa- og Grundarfjarða). Á öllum öðrum tímum en á Jónsmessunótt sér enginn maður annað en að grjótið kringum tjörnina sé blágrýti og urð, en á Jónsmessunótt glóir það allt af gimsteinum og af þeim getur þá hver sem vill fengið slíkt er hann getur borið.

Um tjörn þessa gengur og önnur saga allólík þessari. Mun hún fullt eins gömul og ef til vill áreiðanlegri þjóðsaga, og er hún svona:

Upp á Klakki er tjörn ein og er hún tvíbytna; er þar flóð og fjara eins og í sjónum. Er í henni og enda kringum hana mikið af náttúrusteinum og eru steinar þessir bæði góðir og illir, heillasteinar og og óheilla. Þarf mikinn lærdóm og kunnáttu til að þekkja þá hvern frá öðrum og er það á fárra færi; líka er mesti vandi að geyma þá og nota. En hver sem er fær um þetta getur á Jónsmessunótt fengið hverja þá náttúrusteina sem hann vill, svo sem lausnarstein, óskastein, varnarstein mót öllu illu o. s. frv. Hoppa þeir þá upp á móti manni, einkum hinir góðu steinarnir, og er þá hægt að höndla þá. Fást þaðan einir hinir beztu óskasteinar (því ekki eru þeir allir jafnkröftugir). Til marks um það er saga þessi:

Einu sinni fekk bóndinn á Hömrum í Eyrarsveit óskastein þaðan og fór strax að reyna kraft hans. Óskaði hann sér þá að hann ætti hey eins hátt og Mönin sem er fjall ofan Hamra. Að orðinu slepptu stóð svona hátt hey hjá honum. Af undrum þessum varð hann svo hræddur að nærri lá að hann gengi frá vitinu. Óskaði hann sér þá að hey þetta stæði í björtu báli, og kastaði óskasteininum út í sjóinn. Jafnskjótt stóð þetta nýja hey í ljósum loga.