Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Hér í vörum heyrist bárusnarið

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
„Hér í vörum heyrist bárusnarið“

Eftirfylgjandi vísa er sagt að kveðin hafi verið við sofandi mann er var í fjárleit á Skálafellshnútu (af ósýnilegum) þegar átján skip fórust við Borgarhafnarhálsa þar norðlenzkir höfðu þá verstöðu og íbúðarskála sinn í Kambtúni hjá Hestgerðiskambi sem sagt er verið hafi á dögum Marteins biskups í Skálholti.

Vísan er:

Hér í vörum heyrist bárusnarið,
haldinn baldinn aldan fald ber kaldan,
öflugir tefla afl með reiflum sveifla
og að toga soga boðann voða.
Saltur veltir sultarnoldurs byltum,
á sólarhjóli rólar gjólutólið,
en suma geymir svímadraumahúmið,
þeir sofa um of með lof í stofukofa.

Þessir norðlenzku vermenn – sem þá er sagt haft [hafi] lestfæran veg úr Norðurlandi fram í Kálfadal á Borgarhafnarfjalli – voru orðlagðir fyrir óvandaðan lifnað með kvennafar og þess háttar lystisemdir og fært til að þeir hafi haft þann orðshátt: „Komdu í Kambtún ef þér finnst langt.“ Dæmi upp á traust þeirra á harðfengi sínu er sagt að tveir af þeim hafi vaðzt um það í einhvorjum harðasta frostbyl að þeir skyldu alnaktir komast um nóttina í sæng hjá bóndadóttur á Skálafelli, hafi svo báðir farið af stað; en daginn eftir fundust þeir örendir skammt frá Skálafelli.