Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Margt kann Gunna vel að vinna

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Margt kann Gunna vel að vinna“

Það er gömul frásaga að í einhvörju hallæri sem gekk yfir land vort hafi verið svo mikil bágindi í Vopnafirði að forstjórum sveitarinnar kom saman um að samansafna öllum aumingjum og þurfamönnum og reka allt í hóp á fjöll upp allt norður í Heljardal sem liggur inn og suður af Langanesi, til að lifa og deyja þar eftir því sem verkast vildi. Þegar nú þessir aumingjar komu þangað var þeirra helzta tilraun að bjarga lífi sínu upp á þann máta að veiða silung úr vatni þar skammt frá og tína fjallagrös. Enginn vissi nú neitt um þessa vesalinga því enginn vitjaði um þá og ekki er þess heldur getið að neinn hafi komið aftur um sumarið.

Nú líður og bíður þangað til á þriðjudagskvöldið í föstuinngang, þá var komið á gluggann í Hvammi í Þistilfirði og kveðið:

Lyppa, spinna, tæja og tvinna,
tína grös og róla,
margt kann Gunna vel að vinna,
vökrum hesti að dóla.

Þetta var þá ein af aumingjum þeim er reknir höfðu verið í Heljardal og var það sú eina manneskja sem þá var lifandi og lífs af komst úr dalnum. Guðrún þessi staðnæmdist þar sem hún að kom, giftist og var merkiskona og er sagt margt manna frá henni komið.