Þúsund og ein nótt/Þriðja ferð Sindbaðs farmanns

Úr Wikiheimild

„Nú átti ég góða daga og gleymdi innan skamms hættum þeim, er ég hafði ratað í á fyrri ferðum mínum. Ég var enn í broddi lífsins og eirði illa kyrrlætinu; hugði ég hættur þær, sem ég nú ætlaði að leggja út í, miklu minni en voru. Fór ég því frá Bagdad með dýran varning og lét flytja til Balsora. Þar tók ég mér fari með öðrum kaupmönnum. Höfðum vér langa ferð og komum á margar hafnir og verzluðum að góðum mun.

Einu sinni er vér vorum í rúmsjó brast á skelfilegt ofviðri og hröktumst vér afleiðis. Hélzt veðrið í marga daga og rak oss loksins til hafnar á ey nokkurri; mundi skipstjórnarmaður hafa mikið til gefið, að vér fengjum umflúið hana, en oss var nauðugur einn kostur að leggjast þar.

En er seglum var hlaðið, mælti skipstjórnarmaður: „Þessa ey og nokkrar fleiri, sem í nánd liggja, byggja loðnir villimenn, sem munu veita oss atgöngu. Eru þeir að vísu dvergar, en svo vill hörmulega til, að vér eigum við slíkt ógrynni, sem engisprettur væru; og drepum vér einn, munu þeir allir veitast að oss og drepa oss.“


94. nótt[breyta]

Þegar skipstjórnarmaður hafði mælt þetta, sló dauðans ofboði yfir alla skipverja; urðum vér þess brátt vísari, að hann hafði sagt helzt til satt.

Vér sáum drífa að ótölulegan grúa andstyggilegra villimanna; var kroppur þeirra alþakinn rauðum hárum og voru þeir ekki meira en tvö fet á hæð. Fleygðu þeir sér út í sjó, syntu út að skipi voru og slógu skjótt hring um það. Þeir kölluðu til vor, en vér skildum eigi mál þeirra; læstu þeir krumlum sínum í borðstokkana og kaðlana og klifruðust á allar hliðar upp á þilfarið með slíkum fimleik og flýti, að fætur þeirra sýndust hvergi við koma.

Þið getið því nærri, að vér horfðum dauðhræddir á þessar aðfarir. Þorðum vér ekki að aftra þeim, hvorki með orðum né vopnum og grunaði oss þó, að þeim mundi ekki gott í hug.

Þeir undu upp segl og hjuggu sundur akkerisstrenginn, því þeir nenntu ekki að draga upp akkerið; því næst héldu þeir til lands og létu oss alla af skipi ganga. Síðan fluttu þeir skipið til eyjar þeirrar, er þeir voru komnir frá. Sneiddu allir ferðamenn með mestu varkárni hjá ey þessari, er vér nú vorum á, og þótti háski að dvelja þar; mun það bráðum skýrast af sögunni hvernig á því stóð; en vér áttum nú ekki annars úrkosti en að una óláni voru.

Nú gengum vér frá sjónum á land upp og fundum nokkra ávexti og jurtir; neyttum vér þeirra til þess að treina lífið sem lengst, því vér þóttumst allir eiga dauðann vísan. Sáum vér þá allfjarri stórt hús og stefndum á það. Var það fögur og há höll og dyr á með vængjahurðum úr svartviði; voru þær hnignar á gátt.

Gengum vér inn og komum í hallargarðinn og sáum gagnvart oss stórt herbergi, með anddyri fyrir framan; lágu þar öðrumegin mannabein í hrúgu og hinumegin fjöldi steikarateina. Varð oss felmt við sjón þessa; vorum vér þreyttir undir, því vér höfðum gengið langan veg, og urðu því fætur vorir magnþrota og hnigum vér til jarðar í dauðans angist og lágum þannig lengi hreyfingarlausir.

Sól rann til viðar og meðan vér sátum í hryggilegustu örvílnan, var dyrum herbergisins hrundið upp með harki miklu og kom út risi svartur og ógurlegur, og á stærð við hávaxið pálmatré. Var óvættur þessi eineygð og stóð augað blóðrautt í miðju enninu; sindraði af því sem glóandi koli; kjafturinn var víður sem á hrossi, og sköguðu út framtennur geysi langar og hvassar. Neðri vörin lafði niður á bringu, en eyrun voru eins og á fíl og breiddust út á axlir; neglurnar voru bjúgar og langar eins og klær á stærstu hræfuglum. Í því vér sáum þenna skelfilega risa, hnigum vér í óvit og lágum eins og dauðir.

Eftir langan tíma röknuðum vér við og sáum risann sitjandi í anddyrinu og virti hann oss fyrir sér í krók og kring. En er hann þóttist hafa horft nógu lengi á oss, kom hann til vor, þreif í hnakkagróf mér og hringsneri mér fyrir sér eins og þegar slátrari handleikur sauðkind. Þegar hann hafði skoðað mig vandlega og séð, að ég var skinhoraður og ekki annað en sinar og bein, lét hann mig lausan og fór að skoða hina, hvern af öðrum, á sama hátt.

Af því nú skipstjórnarmaður var okkar feitastur, þreif hann um hann með annarri hendinni og tók hann upp, - það var eins og ef ég tæki upp spörfugl, svo lítið varð honum fyrir því; stakk hann síðan steikarateini gegnum kvið honum. Því næst kveikti hann mikið bál og steikti hann; að því búnu fór hann inn í herbergi innar af og át hann þar með kveldverði sínum.

Þegar hann hafði étið, kom hann aftur fram í anddyrið, lagðist niður og sofnaði; hraut hann þá svo gríðarlega, að oss þótti sem vér heyrðum reiðarþrumur drynja. Var oss allrar hvíldar varnað og vöktum vér liðlanga nóttina, yfirkomnir af dauðans angist, sem nærri má geta. Vaknaði risinn með dögun, stóð upp og lét oss eina eftir í höllinni.

En er vér hugðum hann kominn svo langt burt, að hann eigi heyrði til vor, þá kváðum vér upp úr hinni kvalafullu þögn, því vér höfðum bundizt allra kveinstafa um nóttina; glumdi nú undir í höllinni af kveini og andvörpum og gerðum vér hver öðrum skapþyngra með harmalátum vorum.

Þó að vér værum allmargir og óvinur vor væri ekki nema einn, kom oss samt í fyrstunni ekki til hugar að reyna að drepa hann og frelsa oss þannig, og var það þó hið vænlegasta úr því sem komið var.

Ræddum vér nú um ýmiss úrræði, en réðum ekkert af. Gáfum vér því ráð vort í guðs hönd, ráfuðum allan daginn um eyna og nærðumst af jurtum og ávöxtum eins og daginn áður. Um kvöldið leituðum vér skjóls, en fundum hvergi og hlutum vér því, svo þvernauðugt sem oss var, að hverfa til hallarinnar aftur.

Risinn sveikst ekki um að koma, og át hann nú aftur einn af félögum vorum, sofnaði síðan, hraut til morguns og skildi við oss eins og daginn fyrir.

Þótti oss komið í slíkt óefni, að margir vildu heldur steypa sér í sjó fram en bíða svo ofboðslegs dauðdaga og skoruðu þeir á hina, að hlýða ráði þessu.

Þá tók einn af oss til orða og mælti: „Oss er bannað, að ráða sjálfum oss bana, en þó heimilt væri, er samt eigi viturlegra að hyggja á ráð nokkurt, að vér megum frelsa oss frá þessari óvætt, sem ætlar oss ógurlegan dauða?“

Hafði mér dottið í hug bragð nokkurt og sagði ég förunautum mínum, en þeir féllust á ráð mitt. „Þér vitið, bræður góðir,“ mælti ég, „að skógur mikill er fram með sjávarströndinni; nú ef þér viljið að mínum ráðum fara, þá skulum vér smíða marga fleka svo trausta, að þeir geti borið oss. Að því búnu berum vér þá ofan að flæðarmáli og látum þá liggja þar þangað til þörf gerist.

Síðan reynum vér til að fyrirkoma risanum; takist oss það, er oss óhætt að bíða hér þangað til eitthvert skip siglir fram hjá og flytur oss frá þessari voðalegu ey. En ef ráð vort fer út um þúfur, hlaupum vér út á flekana og leggjum til hafs. Að vísu er það lífsháski, að hætta sér út á hinar æðandi öldur hafsins á svo aumlegum farkosti, en ef dauðinn liggur fyrir oss, er þá ekki sjávardjúpið betri gröf en vömb þessa ferlíkis, sem hefur étið tvo af förunautum vorum?“

Gerðu menn góðan róm að tillögu minni og smíðuðum vér fleka, sem borið gátu þrjá menn.

Þegar kvölda tók, gengum vér aftur til hallarinnar og lét risinn ekki lengi standa á sér. Hlutum vér að þola þá skapraun, að sjá hann steikja einn af félögum vorum.

En takið nú eftir, hvernig vér hefndum okkar á risanum. Þá er hann hafði lokið hinum hryllilega kvöldverði, lagðist hann aftur á bak og sofnaði. Jafnskjótt sem vér heyrðum hann hrjóta, eins og hann átti vanda til, gekk ég til með níu hinum áræðnustu, tókum vér sinn steikarateininn hver og stungum þeim í eldinn þangað til þeir voru orðnir hvítglóandi; síðan rákum vér þá í auga dólgsins, allir í einu, og blinduðum vér hann þannig.

Grenjaði hann þá hástöfum af sársauka, stökk í háa loft og fálmaði í allar áttir til þess að hremma einhvern okkar og svala á honum heipt sinni; gafst oss tími til að hafa oss undan honum og kasta oss þar niður, sem honum var ómögulegt að finna oss. En er hann hafði til einskis leitað, þá skjögraði hann til dyranna og gekk burt með hræðilegu öskri....


95. nótt[breyta]

Vér gengum út úr höllinni á eftir risanum og héldum ofan að sjó til flekanna og biðum lýsingar, því vér ætluðum út á þá, ef svo skyldi fara, að risinn kæmi með nokkrum af sínu liði. Samt glöddum vér oss við þá von, að ef hann eigi kæmi eftir sólaruppkomu og öskur hans hætti, er drundi án afláts, þá mundi hann fortakslaust vera dauður; ætluðum vér, ef svo væri, að halda kyrru fyrir á eynni.

En jafnskjótt, sem birti af degi, sáum vér hinn grimmúðuga dólg og leiddu hann tveir risar, álíka tröllslegir og sjálfur hann; voru í för með þeim allmargir aðrir risar og fóru þeir hart á undan hinum.

Þustum vér þá að vörmu spori út á flekana og rerum frá eynni. En er risarnir sáu það, þrifu þeir upp stóreflis steina, æddu ofan á strönd og óðu út í sjóinn upp í mitti og gerðu svo vissa hæfing eftir oss, að allir flekarnir nema sá, sem ég var á, brotnuðu í spón, en mennirnir drukknuðu. En ég reri af alefli með báðum förunautum mínum og dró því lengst undan, svo að steinkastið náði oss ekki.

Þegar vér vorum komnir út á rúmsjó, hröktumst vér í stormum og hafgangi; kvöldumst vér af hræðilegri óvissu þenna dag og næstu nótt, því vér vissum ekkert, hvað af oss mundi verða.

Næsta morgun vildi svo heppilega til, að oss kastaði upp á ey nokkra og björguðum vér oss á land fullir fagnaðar. Fundum vér þar beztu ávexti og urðu þeir oss til mikillar hressingar.

Um kvöldið sofnuðum vér á ströndinni, en hrukkum upp við skruðninga mikla; var þetta höggormur álíka langur og pálmaviður og skrjáfaði í hreistri hans, er hann skreið á jörðinni. Hann var svo nærri oss, að hann þreif í kjaft sér annan förunaut minn, skók hann hvað eftir annað, sló honum niður við og gleypti hann síðan. En ég og hinn förunautur minn, flýðum sem fætur toguðu og heyrðum við nokkru síðar skruðninga; réðum við af hljóðinu, að höggormurinn mundi þar æla upp beinum hins ólánsama manns, er orðið hafði honum að bráð.

Morguninn eftir sá ég hann og sló yfir mig miklum ótta. „Guð minn,“ hrópaði ég, „hvað er nú fyrir hendi? Vér fögnuðum í gær, sloppnir undan grimmd risans og ofstopa hafsins, og nú erum við komnir í jafnvoðalegan háska.“

Þegar við reikuðum um kring, sáum við hávaxið og digurt tré og ásettum við oss að láta fyrirberast uppi í því næstu nótt. Snæddum við ávexti eins og daginn áður og klifruðumst upp í tréð um kvöldið.

Leið ekki langt um áður við heyrðum höggorminn koma hvæsandi að trénu og tók hann að vega sig upp eftir stofninum. Fyrst varð fyrir honum förunautur minn, því hann sat neðar; gleypti höggormurinn hann óðar og hafði sig síðan á burt.

En ég kúrði uppi í trénu til morguns og var ég þá nær dauða en lífi, er ég klifraðist ofan. Ég gat heldur enga von haft um, að ég mundi fara betri för en félagar mínir og hryllti mig við þeirri tilhugsun. Ég var kominn af stað og ætlaði að steypa mér út í sjó; en af því að ljúft er að lifa sem lengst, stríddi ég við þetta örvæntingar aðsvif og gaf mig undir vilja drottins, sem ræður lífi voru.

Allt fyrir það hafði ég svo mikla rænu, að ég bar saman smáviði, rætur og þyrna og hlóð úr garð, fastan og þéttan, allt umhverfis tréð. Uppi yfir mér gerði ég eins og þak, til varnar höfði mínu, úr hrísvöndlum. Þegar náttaði, fór ég upp í vígi þetta með þeirri huggun, ef huggun skal kalla, að ég hefði gert allt, sem í mínu valdi stóð, til að afstýra hinum grimmu forlögum, sem yfir mér vofðu.

Höggormurinn kom eins og hann var vanur og skreið kringum tréð, því hann ætlaði að gleypa mig, en hann komst eigi inn yfir varnargarðinn, og var hann þar á kreiki allt til morguns, eins og köttur, sem snuðrar kringum músarholu, og varð honum ekkert ágengt.

Þegar eldi aftur, leitaði hann burt, en ég þorði ekki úr bæli mínu fyrr en sól var á loft komin. Hafði ótti sá, er mér stóð af hinum eiturfnæsandi höggormi, gengið svo nærri mér, að mér þótti dauðinn betri en slíkar ógnir. Klifraðist ég þá ofan úr trénu og skundaði til sjávar til þess að fyrirfara mér....


96. nótt[breyta]

Guð miskunnaði mér í örvæntingu minni, því rétt í því ég ætlaði að kasta mér út í sjóinn sá ég skip alllangt undan landi. Æpti ég þá af öllum kröftum svo að til mín mætti heyra, og tók sundur höfuðbúnað minn og veifaði honum svo, að til mín sæist. Þetta varð eigi heldur árangurslaust; allir skipverjar sáu mig, og sendi skipstjórnarmaður bát eftir mér.

Þegar ég var kominn út á skip, spurðu mig kaupmenn og sjómenn, hver í kapp við annan, hvaða ævintýri hefði borið mig að eyðiey þessari; en er ég hafði sagt þeim allt, sem farið hafði, kváðust þeir sem elztir voru, oftsinnis hafa heyrt getið um risa, er byggðu ey þessa, og hefði það verið fullyrt, að þeir væru mannætur og ætu menn bæði hráa og steikta. Sögðu þeir og, að á ey þeirri, er ég nú seinast slapp frá, væri fjöldi höggorma samkynja þeim eina, er ég hafði séð, og leyndust þeir um daga, en kæmu fram um nætur.

Þeir samfögnuðu mér, að ég skyldi hafa sloppið úr svo mörgum hættum; síðan báru þeir á borð fyrir mig, það sem þeir höfðu bezt fyrir hendi. En er skipstjórnarmaður sá, hversu klæðnaður minn var rifinn, var hann svo mannlyndur, að hann tók fatnað af sér og gaf mér.

Nú vorum vér um tíma á sjóferð þessari; komum vér við í mörgum eyjum og náðum loksins til Selahath. Þaðan kemur sandelsviðurinn, sem hafður er í mörg læknismeðul. Lögðumst vér þar við akkeri á höfninni og tóku kaupmenn að skipa upp vörur sínar til þess að selja þær, eða láta í skiptum fyrir aðrar vörur.

Kallaði þá skipstjórnarmaður til mín og mælti: „Bróðir, hjá mér eru vörur, er kaupmaður nokkur átti, sem var um tíma á skipi mínu og nú er dauður; ég ætla að selja þær fyrir reiðu peninga og standa erfingjum hans skil á þeim, þegar ég finn þá.“

Varningsstrangar þeir, er hann átti við, lágu á þilfarinu í framstafni og benti hann mér á þá svo mælandi: „Þetta eru vörurnar, sem ég átti við; ég vona að þér takið að yður söluna móti tilhlýðilegri þóknun.“

Líkaði mér vel og þakkaði ég honum fyrir, að hann hafði útvegað mér nokkuð að starfa.

Skrifari skipstjórnarmanns færði í bók alla varningsstranga með nöfnum eigendanna og er hann spurði skipstjórnarmann, hvaða nafn skyldi setja við vörur þær, er mér voru fengnar í hendur, sagði hann:

„Skrifaðu Sindbað farmann.“

Ég gat ekki að því gert, að ég komst við, þegar ég heyrði nafn mitt, en er ég virti skipstjórnarmann vandlega fyrir mér, sá ég að hann var hinn sami, sem hafði skilið mig eftir á eynni, þar sem ég var sofnaður á lækjarbakkanum. Var hann orðinn umbreyttur mjög frá því, er ég sá hann, og hafði ég því ekki borið kennsl á hann í fyrsta áliti. En hitt er engin furða, að hann, sem hugði mig dauðan, þekkti mig ekki.

„Skipstjórnarmaður,“ mælti ég, „hét kaupmaðurinn Sindbað, sem átti þessar vörur?“

„Já,“ anzaði hann, „svo hét hann, hann var frá Bagdad og hafði tekið fari með mér til Balsora. Þá var það einhvern dag, að vér lentum við ey nokkra og sóttum þangað vatn og fengum oss hressingu; atvikaðist það þá einhvernveginn af misskilningi mínum, að ég sigldi burt svo að ég vissi ekki, að hans var vant. Hvorki ég né kaupmenn söknuðu hans fyrr en fjórum stundum síðar. Stóð blásandi byrinn beint á eftir oss, svo að oss var ómögulegt að snúa við og sækja hann.“

„Þér ætlið hann þá dauðan?“ sagði ég.

„Að vísu hygg ég svo,“ mælti hann.

Þá sagði ég: „Horfið nú grandgæfilega á mig, skipstjórnarmaður, og munuð þér kannast við, að ég er sá hinn sami Sindbað, sem þér skilduð eftir á eyðieynni. Ég lá sofandi á lækjarbakka og sá engan af förunautum mínum, þegar ég vaknaði.“

Meðan ég mælti þetta, horfði skipstjórnarmaður á mig rannsakandi augum....


97. nótt[breyta]

Þegar skipstjórnarmaður hafði virt mig fyrir sér vandlega, kannaðist hann loksins við mig. „Guði sé lof,“ hrópaði hann, „það fær mér frábærs fagnaðar, að hamingjan hefur bætt úr yfirsjón minni. Þarna er varningur yðar, sem ég jafnan hef kostgæfilega varðveitt og ætíð reynt að koma út, hvar sem ég hef á höfn komið; takið við honum aftur ásamt andvirði þess, sem selt er.“

Tók ég þá aftur við eigum mínum og vottaði skipstjórnarmanni þakklátssemi mína svo sem hann átti skilið.

Frá eynni Selahath héldum vér til annarrar eyjar og birgði ég mig þar að negulnöglum, kanel og öðrum kryddvörum.

Þegar vér fórum þaðan, sáum vér skelpöddu, tuttugu álnir á lengd og jafnmargar á breidd; þar bar og fyrir oss fisk, sem var í sköpulagi eins og kýr, enda mjólkar hann líka. Roð hans er ákaflega stinnt; er það verkað og eru klæddir með því skildir; annan fisk sá ég líka og var hann líkur úlfalda að lit og sköpulagi.

Eftir langa ferð lentum vér loks í Balsora og fór ég þaðan og hingað til Bagdad með slíkt ógrynni auðæfa, að ég ekki vissi sjálfur aura minna tal. Gaf ég enn sem fyrri fátækum ölmusur og keypti stórjarðir, og átti ég þó ærið margar undir.“

Lauk þá Sindbað að segja af hinni þriðju ferð sinni. Hann lét aftur telja Hindbað hundrað gullpeninga og bauð honum til veizlu næsta dag, og hét honum þá, að segja frá hinni fjórðu ferð sinni.

Fór þá Hindbað og hinir aðrir gestir, og er þeir voru komnir næsta dag, tók Sindbað til máls, eftir að borð voru upp tekin, og sagði framhald ævintýra sinna.