Þúsund og ein nótt/Framhald sögunnar af fiskimanninum og andanum

Úr Wikiheimild

38. nótt „Herra! Þegar fiskimaðurinn hafði sagt andanum, sem var innibyrgður í flöskunni, söguna af gríska konunginum og Dúban lækni, mælti hann enn fremur: „Þú sér af því, andi, að gríski konungurinn hefði lifað, hefði hann gefið lækninum líf. En þú vildir tortíma mér, þrátt fyrir allar bænir mínar, nú skal ég vera miskunnarlaus eins og þú og sökkva þér í sjávardjúp.“

Þegar andinn heyrði þessi orð, andæpti hann og bað: „Fiskimaður! Ég særi þig við nafn hins hæsta, gerðu það ekki. Láttu þér farast vel og hugsaðu eftir því, að það er ódrengilegt, að hefna sín, og að mönnum ber að launa illt með góðu. Hafi ég gert illa, þá breyttu við mig eins og Immameh við Atikeh.“ (Immameh og Atikeh eru kvenmanna nöfn, en sagan er ókunn.)

„Og hvernig breytti hún?“ spurði fiskimaðurinn, en andinn kvaðst vera illa fyrirkallaður að segja sögur, þar sem hann var innilokaður í flöskunni, hann skyldi gera það, ef hann sleppti sér út.

„Nei,“ sagði fiskimaðurinn, „ég hleypi þér ekki út svo fljótt. Ég gerði þér gott, og þú ætlaðir að drepa mig, þó ég lægi flatur fyrir þér á jörðinni og grátbændi þig að vægja mér. Þú skalt fara í sjóinn og kúra á mararbotni þangað til á dómsdegi.“

„Láttu þér hug við ganga,“ svaraði andinn, „vertu drenglyndur og gefðu mér frelsi; ég lofa að gera þér aldrei mein, heldur skal ég hjálpa þér til að verða vellríkur.“

Þetta fagnaðarboð sneri huga fiskimannsins og lét hann andann lofa sér því með eiði að sverja við guðs nafn; síðan opnaði hann flöskuna. Rauk gufa upp úr henni eins og áður, þangað til hún varð tóm; því næst þéttist gufan og brást í líki ógurlegs anda; varð honum það fyrst að verki, að hann sparkaði til flöskunnar svo að hún hraut langt út á sjó. Varð þá fiskimaður skelkaður og hélt að þetta væri ekki góðs viti.

Samt herti hann upp hugann og sagði: „Ætlarðu að rjúfa eiðinn, sem þú sórst mér? Á ég að segja eins og Dúban læknir við gríska konunginn?“

Andinn hló við og mælti: „Vertu óhræddur, ég skal ekkert gera þér. En taktu netið þitt og fylgdu mér.“

Síðan héldu þeir af stað og var fiskimaður hálfsmeikur. Gengu þeir fram hjá borginni og upp á hátt fjall og komu niður á víða völlu milli fjögra hóla, lá stöðuvatn eitt á miðju sléttlendinu. Lét andinn þar staðar numið, og sagði fiskimanninum að kasta út netinu.

Hann gerði það og var vongóður um veiði, því þar var krökkt af fiski í vatninu, en það þótti honum kynlegt, að þeir voru allavega litir, hvítir, rauðir, bláir og gulir. Veiddi hann og fjóra fiska, sinn með hverjum lit, og varð glaður við.

„Farðu með þá til soldáns,“ mælti andinn, „hann mun gefa þér svo mikið fé fyrir þá, að þú verður ríkismaður. Annars bið ég þig virða mér til vorkunnar, sem hef legið átján hundruð ár á hafsbotni, að ég er orðinn svo ókunnugur á landi, að ég get ekki launað þér á annan hátt. Þú skalt veiða hér á hverjum degi, en gerðu það aldrei nema einu sinni á dag. Guð veri með þér!“

Að því mæltu stappaði andinn á jörðina og laukst hún upp og gleypti hann.

Fiskimaður furðaði sig stórlega á ævintýri sínu og andans, og fór til borgarinnar; gekk hann rakleiðis til hallar soldáns, og fékk honum hina fjóra fiska....


39. nótt[breyta]

Soldán lét sér mikið finnast um fiskana, sem fiskimaðurinn færði honum. Hafði hann aldrei á ævi sinni séð neina slíka, og skipaði að fá þá nýju eldabuskunni til matreiðslu; Grikklands keisari hafði gefið honum eldabuskuna nokkrum dögum áður.

„Hún skal nú reyna sig á þessum fiskum,“ sagði soldán.

Vezírinn fékk henni fiskana sjálfur, og lagði ríkt á við hana að vanda sig. Þegar hann kom aftur til soldáns, lét soldán gefa fiskimanni fjögur hundruð gullpeninga. Hafði mannskepnan aldrei átt svo mikið fé í einu og fór því glaður og kátur aftur heim til sín, því nú gat hann fullnægt öllum þörfum sín og sinna.

En á meðan gerði eldabuska soldáns fiskana til og lagði þá á steikarapönnu yfir glæður. En er þeir voru stiknaðir öðrumegin, sneri hún þeim við. Óðara en hún var búin að því, klofnaði eldhússveggurinn og gekk þar út kona há og vel vaxin og yndisleg að líta; voru augabrúnir og augnahár hennar pentuð svörtum lit, en varir hennar sællegar og blómlegar. Hún hafði bláan silkimotur á höfði, hún var prýdd eyrnagullum, armböndum og dýrindis steinhringum, en í hendinni hélt hún á myrtusviðarsprota.

Drap hún honum á fiskana og mælti: „Fiskar, haldið þið sáttmálann enn?“

Eldabuskan stóð forviða meðan vitrunin tók sömu orðin upp aftur í annað og þriðja sinn.

Þá teygðu fiskarnir upp höfuðin og sögðu: „Þegar þú kemur, þá komum við aftur, þegar þú kemur, komum við, þegar þú fer, förum við.“

Síðan velti konan pönnunni við og hvarf eins og hún var komin, en veggurinn laukst aftur saman.

Nú herti eldabuskan upp hugann og ætlaði að taka upp fiskana í skyndi, en þá voru þeir brunnir til kaldra kola.

Kallaði hún þá upp, grátandi og angistarfull: „Drottinn minn! Hvernig ætli að fari fyrir mér?“

Í því kom stórvezírinn að og skipaði að bera fiskana á borð. Sagði hún honum þá grátandi, hvernig farið hafði; varð hann hlessa á því, sem von var.

„Sé þetta satt,“ hugsaði hann með sér, „þá er það eitthvað ekki einleikið.“

Til þess að komast eftir, hvernig á þessu stæði, bar hann eitthvað fyrir soldán, hvers vegna fiskarnir væru ekki á borð bornir, en lét undir eins sækja fiskimanninn, og skipaði honum að koma með fjóra fiska aðra eins og hina fyrri. Lofaði fiskimaður að koma með þá að morgni næsta dags, og gat hann efnt loforð sitt, því undir eins og hann hafði kastað út netinu, fann hann fjóra samkyns fiska.

Fór vezírinn til eldabuskunnar með þá og skipaði henni að steikja þá að sér áhorfandi. Voru þeir nú hreinsaðir og lagðir á steikarapönnuna yfir eldsglæður; en er þeir voru stiknaðir öðru megin var þeim snúið við.

Þá fór eins og fyrri, veggurinn klofnaði, og sást sama konan koma með myrtusviðarsprota; drap hún honum á fiskana og mælti hin sömu orð. Þegar hún hafði þrítekið þau, teygðu fiskarnir upp höfuðin og svöruðu eins og í fyrsta skipti. Konan velti pönnunni við og fór eins og hún var komin.


40. nótt[breyta]

Vezírinn varð steinhissa, en datt þó ekki í hug, að efast um, að svo væri, og sagði, að ekki mætti leyna soldán slíkum fádæmum. Fór hann því og sagði herra sínum frá. Þótti honum sjón sögu ríkari, og vildi hann ganga úr skugga um það; lét hann því skipa fiskimanninum að koma aftur með fjóra samkyns fiska, að þremur dögum liðnum.

Gerði fiskimaður það og varð soldán glaður við og lét borga honum önnur fjögur hundruð gullpeninga. Síðan skipaði hann stórvezírnum að steikja fiskana sjálfur, að sér ásjáandi.

Svaraði stórvezírinn: „Ég heyri og hlýði,“ hreinsaði fiskana og lét á steikarapönnuna og sneri þeim, þegar þeir voru stiknaðir öðrumegin.

Klofnaði þá veggurinn á ný og gekk þar inn svertingi geysistór og digur. Hélt hann á grænni kylfu í hendinni og mælti ógurlegri röddu: „Fiskar! Haldið þið sáttmálann?“

Réttu þeir þá upp höfuðin og svöruðu: „Já, já! Þegar þú kemur aftur, komum við aftur, þegar þú kemur, komum við, og þegar þú fer, förum við.“

Því næst hvolfdi svertinginn pönnunni, fiskarnir brunnu, en hann hvarf út um vegginn og luktist hann saman aftur. Þegar soldán var kominn til sjálfs sín aftur eftir þenna mikla fyrirburð, ásetti hann sér að komast eftir leyndardómi þeim, sem fiskar þessir voru háðir.

Boðaði hann fiskimann á sinn fund og spurði hann: „Hvar hefurðu veitt þessa merkilegu fiska?“

„Í vatni einu,“ anzaði fiskimaður, „sem liggur hinu megin fjallsins fyrir framan borgina milli fjögra hólanna.“

„Hvað margar dagleiðir eru þangað?“

„Herra! það er lítil bæjarleið,“ segir fiskimaður.

Furðaði hver maður sig á þessu, því enginn vissi neitt til, að vatn væri í þeirri átt og á því svæði, sem fiskimaður tilgreindi. En soldán sté jafnskjótt á hest sinn og skipaði hirð sinni og föruneyti að fylgja sér á þenna stað. Tók nú öll sveitin sig upp og fór fiskimaður í fararbroddi; lá leiðin yfir háfjallið og þaðan ofan á hið víða sléttlendi, sem enginn maður vissi af.

Að stundarkorni liðnu kom sveitin að vatninu milli hinna fjögra hóla; úði það og grúði af hinum ferlitu fiskum. Lét soldán þar staðar numið og undraðist mikillega; síðan spurði hann, hvort nokkur hefði orðið var við þetta vatn, svona nálægt borginni.

Kváðu allir nei við og mælti soldán enn fremur: „Viti það himinn, að ekki skal ég fyrr aftur heim snúa til borgarinnar og setjast í hásæti mitt, en ég veit allt með sönnu, hvernig á vatninu og fiskunum stendur.“

Skipaði hann þá, að setja þarna tjöldin, fór sjálfur í sitt tjald og kallaði á vezír sinn til ráðaneytis. Var vezírinn vitur maður og fróður, og trúði soldán honum einum fyrir leyndarmáli því, að hann ætlaði sér að grennslast eftir vatninu og fiskunum um nóttina.

„Seztu við tjalddyr mínar,“ sagði hann við vezírinn, „vísaðu hverjum manni burt og segðu ég sé veikur og vilji vera aleinn, en hinu skaltu leyna.“

Gat vezírinn ekki haft á móti því, en soldán fór í dularbúning, tók sverð sitt og gekk út í náttmyrkrið, einsamall og ókennilegur. Gekk hann yfir einn hólinn og eftir flötinni, sem þar var fyrir neðan, þangað til honum gerðist erfitt af sólarhita, og hann varð að hvíla sig. Síðan fór hann leiðar sinnar, og að morgni hins annars dags kom hann auga á eitthvað dökkt langt í burtu; sá hann skjótt að þetta var glæsileg höll úr fáðum marmara.

Var vængjahurð fyrir hliðinu og önnur upplokin, svo að soldán hefði getað gengið inn hindrunarlaust, en samt drap hann þrisvar á dyr. En enginn svaraði né kom til dyra, og gat honum þó ekki skilizt, að slík höll væri auð af mönnum.

Fór hann þá inn í forgarðinn og kallaði: „Þér íbúar þessarar hallar, hér er kominn ferðamaður og þarf hressingar.“

Þannig kallaði hann þrisvar og kom fyrir ekki; herti hann því upp hugann og fór lengra, þangað til hann kom inn í víðan garð í miðri höllinni. Var þar glæsilegur lystihver og stóðu þar fjögur ljón úr skíru gulli, sem spýttu vatni upp úr gininu og var það eins og perlur eða gimsteinar tilsýndar, þegar það féll niður. Var þar og fjöldi af ágætum fuglum, og spennt út net hátt uppi, svo að þeir gætu ekki flogið burt. Undraðist soldán enn meir, er hann sá allt þetta; þótti honum leitt að sjá engan mann, er gæti gert hann nokkurs vísari. Settist hann niður í forgarðinum þungt hugsandi, en þá heyrði hann allt í einu raunalega rödd, og kvað hún þessar vísur:

Þér, urðir grimmu, líkn ei ljáið
langþjáðum mér, né aumur sjáið
á þeim, er lengi lausnar beið!
Aumkvaðu beðja, milding mikinn
meinráðum ástar köldum svikinn,
auðmilding, sem á nú í neyð.
Fyrrum vinhlýja vestankælu,
um vanga þinn, er leið í sælu,
afbrýði sál mín ástarheit;
forlaga myrkur menn ei skilja,
margur blindast af þeirra vilja,
örlaga fjötur enginn sleit.
Gefst þá bogmanni hjálp að hljóta,
í háska sem að ör vill skjóta,
og strenginn slitinn sundur sér?
Þegar ofstopann ólán fellir
og aldan ströng oss flötum skellir,
segið mér þá, hvar athvarf er.

Spratt þá soldán upp og gekk á hljóðið; kom hann að dyrum er tjald var hengt fyrir. Lyfti hann tjaldinu og sá andspænis móti sér unglegan mann, fríðan sýnum og skrautbúinn; sat hann á háum legubekk og voru upp að honum tröppur. Hin fagra ásjóna hans var myrkvuð af skugga sorgarinnar, og hafði hann svartan díl á annarri kinninni. En svo segir skáldið:

Merki svart
maður engi
lýti ljósra kinna;
blakkur blettur
blöðum skreytir
ungrar anemónu.

Varð soldán feginn að hitta þar mann, og heilsaði honum. Hinn ungi maður, sem var í gullsaumuðum klæðum, tók kveðju hans og sat grafkyrr, en beiddi hann að fyrirgefa sér, að hann stæði ekki upp á móti honum, og væri sér þess varnað af meinlegum kvilla.

Soldán kvað það alls ekki saka og mælti: „En eins bið ég yður, herra! Þiggið hjálp mína, ef hún má yður nokkuð duga og létta hörmungum þeim, er þér kvartið yfir, og segið mér enn fremur, hvernig stendur á vatninu hérna skammt frá borginni, sem fullt er af ferlitum fiskum? Hvernig stendur á höllinni og einlífi yðar á þessum stað?“

Svaraði þá maðurinn engu, heldur tók að gráta beisklega. Þótti soldáni þetta kynlegt og mælti: „Segið mér, hver er orsök yðar miklu sorgar, af hverju grátið þér?“

„Æ, herra!“ anzaði hinn, „hver mundi sá vera, að ekki táraðist, ef hann væri í mínum sporum?“ Að svo mæltu brá hann upp skikkju sinni, og sá þá soldán, að hann var ekki sem aðrir menn lengra en ofan að beltinu, en fyrir neðan var líkami hans svartur marmari.“


41. nótt[breyta]

Soldáni brá ógurlega við, eins og nærri má geta, þegar hann sá, hversu hörmulega hinn ungi maður var á sig kominn. Hann dauðlangaði til að heyra sögu hans, því hann þóttist viss um, að hún mundi eitthvað riðin við vatnið, sem ferlitu fiskarnir voru í.

Kvaðst hinn ungi maður líka fús á að segja honum sögu sína, svo sárþjáður sem hann væri, og beiddi soldán að bregða sér ekki við; því næst byrjaði hann á

Sögunni af hinum unga konungi á svörtu eyjunum...