Þúsund og ein nótt/Sagan af Amíne

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Fairytale left blue.png     Sagan af Sobeide Saga Sindbaðs farmanns Fairytale right blue.png    

„Drottinn rétttrúaðra manna! Ég ætla ekki að taka það upp aftur, sem systir mín er búin að segja yður, og get einungis þess, að þegar móðir mín, sem var ekkja, hafði valið sér hús til íbúðar, gifti hún mig með öllum þeim erfðahluta, sem ég tók eftir föður minn, einhverjum ríkasta manni hér í borginni.

Þegar varla var liðið ár frá því við giftumst, varð ég ekkja og erfði allar eigur manns míns, sem voru eitthvað níutíu þúsund sekkínur. Nægði mér leigan af þeim til að lifa góðu lífi.

En er hinir sex fyrstu sorgarmánuðir voru á enda, lét ég gera tíu fatnaði handa mér, voru þeir svo skrautlegir, að hver um sig kostaði þúsund sekkínur; tók ég þenna klæðnað upp við árslokin.

Það var einhvern dag, þegar ég var ein og sýslaði um hússtörf mín, að mér var sagt, að kona nokkur vildi tala við mig. Skipaði ég þá, að hún væri leidd á minn fund.

Þetta var öldruð kona; heilsaði hún mér, kyssti á gólfið og lá kyrr á knjánum, svo mælandi: „Ég bið yður, tigna frú, umfram allt að fyrirgefa mér dirfsku mína, að ég tef yður; en því að eins hafði ég þor til þess, að ég treysti hjartagæzku yðar.

Svo er mál með vexti að ég á föðurlausa dóttur, sem giftast á í dag. Við mæðgur erum ókunnugar og þekkjum engan hér í borginni; fær það oss mikilla vandræða, því skyldfólk það er frændmargt, sem vér ætlum að tengjast, og viljum vér sýna það, að vér erum ekki ókunnugar, heldur vel metnar. Ef þér gerðuð oss þann greiða, að koma í brúðkaupið, mundum vér því heldur kunna yður þakkir fyrir, sem konur úr vorum átthögum mega af því ráða, að við erum ekki lítilsvirtar, þegar þær heyra, að slík hefðarkona, sem þér eruð, hefur gert oss slíkan sóma. En hvílík læging er okkur það, ef þér synjið mér bænar þessarar; þá vitum við ekkert, hvert við eigum að leita.“

Þannig mælti konan grátandi og komst ég við. „Huggastu, móðir góð!“ sagði ég, „ég skal gjarnan verða við ósk þinni; seg þú mér einungis, hvert ég á að koma; ég þarf að eins dálítinn tíma til að fara í betri föt.“

Gamla konan réði sér ekki fyrir fögnuði og var fljótari til að kyssa fætur mína en ég til að varna henni þess. „Guð launi yður góðsemi yðar,“ mælti hún, „og gleðji hjarta yðar eins og þér gleðjið mitt. En ekki þurfið þér að fara með mér fyrr en í kvöld og skal ég þá sækja yður. Lifið heilar þangað til!“

Þegar hún var farin, valdi ég þann klæðnað, sem mér geðjaðist bezt að; þar að auki tók ég hálsmen úr stórum perlum, armbauga og eyrnahringa með skærustu demöntum í. Ég hafði eitthvert hugboð um það, sem fram átti að koma.

Þegar farið var að rökkva, kom gamla konan aftur. Hún kyssti á hönd mína með gleðisvip og mælti: „Frændkonur tengdasonar míns, sem eru hinar tignustu konur í borginni, eru komnar í boðið og getið þér komið þegar yður lízt; ég er tilbúin að fylgja yður þangað.“

Fórum við þá af stað og gekk hún á undan, en ég fylgdi henni með fjölda skrautbúinna ambátta. Við komum í breitt stræti, nýsópað, og hafði verið stökkt vatni yfir; staðnæmdumst við fyrir utan stórar dyr, fagurlega prýddar ljósum, og stóð þessi áskrift yfir þeim með gullnu letri: „Hér er hið eilífa aðsetur unaðar og gleði.“ Drap kerling á dyr og var þeim óðar upp lokið.

Eftir það var mér fylgt gegnum garðinn inn í stóran sal og tók þar móti mér ung kona fyrirtaks fríð. Hún gekk á móti mér, faðmaði mig að sér og lét mig setjast hjá sér í legubekk, en þar upp af var öndvegi úr dýrmætasta við og prýtt demöntum; því næst tók hún til máls:

„Tignaða kona! Þér voruð sóttar hingað til brúðkaups, en ég vona að brúðkaup þetta snúist á aðra leið en þér ætlið. Ég á bróður, sem er hinn fríðasti sýnum og mesti atgjörvismaður; hefur honum fengið svo mikils orðrómur sá, sem fer af fríðleik yðar, að hann er allur á yðar valdi fyrir ástar sakir, og mun hann verða mesti ólánsmaður, ef þér eigi miskunnið honum. Veit hann um virðingu yðra og það get ég ábyrgzt yður, að hann er svo tiginn, að yður þarf ekki að þykja minnkun í ráðahag þessum. Megni mínar bænir nokkuð, leggst ég á eitt með honum og særi yður, að hafna eigi þessu hjúskapar boði.“

Síðan maður minn andaðist, hafði mér aldrei dottið í hug, að giftast aftur, en mig brast þrek til að veita fríðum manni afsvör. Sá hin unga kona, að ég mundi þiggja boðið, því ég roðnaði og þagði; klappaði hún þá saman lófunum og laukst upp lítið herbergi, og kom fram ungur maður svo prúður og tignarlegur álitum, að ég taldi mig sæla, þar sem ég hafði hlotið svo fríðan mann. Hann settist hjá mér og heyrði ég á tali hans, að enn meira var varið í hann en systir hans hafði sagt.

Þegar hún sá að okkur leizt vel hvoru á annað, klappaði hún aftur saman lófunum og kom inn skjalaritari; hann samdi kaupmála vorn, skrifaði sjálfur undir hann og lét fjögur vitni skrifa undir, sem hann hafði með sér.

Hinn nýi maður minn krafðist einskis annars en þess, að ég skyldi engan karlmann láta sjá mig og við engan tala nema sig; lofaði hann hátíðlega, að héldi ég þenna skilmála, skyldi hann gera mér allt að skapi. Þannig vorum við gefin saman og varð ég brúðurin í brúðkaupi þessu, þó ég væri boðin sem gestur.

Mánuði síðar þurfti ég efni í föt og beiddi því mann minn leyfis að fara út og kaupa. Lofaði hann mér það og lét ég fara með mér kerlinguna, sem ég nefndi áður, og tvær ambáttir.

Þegar við vorum komnar í stræti það, er kaupmenn bjuggu í, segir kerling við mig: „Frúin góð, fyrst þér viljið fá silki, skal ég fara með yður til ungs kaupmanns, sem hefur alls konar silkivefnað; þurfið þér þá ekki að ráfa úr einni búðinni í aðra, því ég skal ábyrgjast yður, að þér fáið hjá honum það, sem ófáanlegt er annarsstaðar.“

Lét ég mér þetta vel líka og komum við í sölubúð ungs kaupmanns, sem var dálaglegur; settist ég þar niður og lét kerlinguna biðja hann að sýna mér hinn fegursta silkivefnað, sem hann hefði. Kerling vildi að ég beiddi hann sjálf, en ég sagði henni, að ég hefði gengizt undir þann skilmála, þegar ég giftist, að tala við engan, nema manninn minn, og mætti ég ekki bregða út af því.

Kaupmaður tók fram margskonar vefnað og sýndi mér, og sá ég þar einn, sem mér leizt afbragðs vel á. En þegar ég lét kerlingu spyrja, hvað hann ætti að kosta, svaraði hann henni:

„Ég sel húsmóður yðar hann hvorki fyrir gull né silfur, en hún skal fá hann að gjöf, ef hún lofar mér að kyssa sig á kinnina.“

Skipaði ég þá kerlingu að segja honum, að mér þætti hann furðu djarfur, að fara slíks á leit; en í stað þess að hlýða, leiddi hún mér fyrir sjónir, að kaupmaður færi ekki fram á neitt stórræði og þyrfti engum orðum að því að eyða, heldur skyldi ég bjóða kinnina þegjandi, og þá væri allt búið.

Mér líkaði silkivefnaðurinn svo vel, að ég var sá einfeldningur, að fara eftir ráðum hennar. Kerling og ambáttir mínar skipuðust fyrir á meðan, svo enginn gat séð mig utan af strætinu; ég strauk blæjuna svo til hliðar að kaupmaðurinn gat komizt að vanga mínum, en í stað þess að kyssa mig, beit hann mig svo grimmilega, að blóðið lagaði úr, og hné ég í óvit af sársauka og hræðslu.

Rann ómegin þetta ekki fyrr af mér, en kaupmaður var hlaupinn burt og hafði lokað búðinni. Þegar ég raknaði við, fann ég, að ég var alblóðug á kinninni.

Kerling og ambáttir mínar höfðu aftur breitt yfir mig blæjuna svo þeir, sem framhjá gengu, ekki skyldu sjá sárið, heldur ímynda sér, að mér hefði orðið óglatt.


87. nótt

Kerlingin, fylgdarkona mín, varð ráðalaus út af þessu óhappi, en leitaðist þó við að hugga mig.

„Fyrirgefið mér, móðir góð!“ sagði hún, „mér er um þetta slys að kenna og ég fylgdi yður til þessa kaupmanns, því hann er sveitungi minn og ég gat ekki ætlað honum slíka illmennsku. En setjið þetta ekki fyrir yður; við skulum engum tíma eyða til ónýtis, heldur fara heim; skal ég þá gefa yður græðslumeðal, sem græðir kinn yðar á þremur dögum svo að alls ekki markar fyrir sárinu.“

Öngvitið hafði dregið svo af mér, að ég gat varla gengið; samt náði ég heim, en hné aftur í ómegin, þegar ég var komin í herbergi mitt. Lagði þá kerling meðalið við kinn mína, og raknaði ég undir eins við og gekk til hvílu.

Um nóttina kom maður minn og sá að bundið var um höfuð mitt; hann spurði, hverju slíkt gegndi. Svaraði ég honum þá, að mér væri illt í höfði, og hélt ég hann mundi láta sér lynda þessa úrlausn, en það fór á aðra leið, því hann tók ljós og sá að ég var særð á vanganum.

„Hvernig stendur á sárinu?“ spurði hann.

Þó ég nú væri mér þess meðvitandi, að ég ekki hefði neitt stórt afbrotið, gat ég samt ekki fengið af mér að segja honum sannleikann; mér þótti ósæmandi, að gera manni mínum slíka játningu. Svaraði ég honum því, að þegar ég hefði farið út með leyfi hans til að kaupa silkivefnað, hefði daglaunamaður einn, sem hefði borið viðarbyrði, gengið svo nærri mér á strætinu, að einn viðarkvistur hefði strokizt með vanga mínum og hruflað hann, en það væri ekkert umtalsefni.

„Það skal ekki verða óhegnt,“ mælti maður minn með reiðisvip, „á morgun skipa ég lögreglustjóranum að taka alla þessa þorpara fasta og hengja þá.“

Þá svaraði ég, því ég var hrædd um, að ég yrði orsök í dauða svo margra saklausra manna: „Herra! Slíkt ranglæti mundi stórum sárna mér; varastu að hafa það í frammi, því sjálf ætti ég ekki fyrirgefningu skilið, ef ég léti slíka óhamingju af mér hljótast.“

„Segðu mér þá hreinskilnislega,“ mælti hann, „hverju á ég að trúa um sárið?“

Þá svaraði ég: „Það kom af vangá sópsölumanns nokkurs, er reið asna; hann kom á eftir mér og horfði til annarrar hliðar; rakst asninn svo fast á mig, að ég datt niður á jörð og skar mig í kinnina á glerbroti.“

„Ef svo er,“ mælti maður minn, „skal sól ekki fyrr upp renna en ég hef sagt stórvezírnum Gíafar frá þessari svívirðingu. Hann skal láta drepa alla sópsölumenn.“

„Fyrir guðs sakir,“ greip ég fram í, „fyrirgefið þeim mín vegna, þeir eru ekki hegningar verðir.“

„Hvað er þetta, kona!“ segir hann, „hverju á ég að trúa? Ég vil fyrir hvern mun, að þú segir sannleikann.“

„Herra!“ svaraði ég, „mig svimaði svo ég datt, það er allt og sumt.“

Við þetta svar brast mann minn þolinmæðina og kallaði hann upp: „Nú hef ég hlýtt nógu lengi á lygar þínar.“

Því næst skellti hann saman lófunum og gengu inn þrír þrælar. „Rífið hana upp úr rúminu,“ sagði hann „og leggið hana á mitt gólfið.“

Gerðu þrælarnir sem hann skipaði og hélt einn um höfuð mér, og annar um fætur mína, en hinum þriðja skipaði hann að sækja sverð.

Þegar þrællinn kom, mælti hann: „Höggðu hana í tvennt og fleygðu henni síðan í Tígrisfljótið, svo að hræ hennar verði fiskum að bráð. Svo refsa ég þeirri, sem ég gaf hjarta mitt, en launaði mér með ótryggð.“

En er þrællinn hikaði sér, mælti maður minn: „Því höggurðu ekki? Hvað aftrar þér? Eftir hverju ertu að bíða?“

Þá veik þrællinn sér að mér með brugðið sverðið og sagði: „Mælið fram trúarjátningu yðar og hugsið yður um, hvort þér viljið nokkra ráðstöfun gera eftir yður látna, því dauðastund yðar er komin.“

Ég beiddi leyfis að tala og var mér þess eigi synjað; stóð ég þá upp hálflotin, horfði ástaraugum til manns míns og sagði grátandi: „Æ, er þá svona komið? Á ég að deyja í blóma æsku minnar?“

Meiru kom ég ekki upp fyrir gráti og andköfum. En maður minn komst eigi við, heldur brigzlaði hann mér í tilbót og hefði fyrir lítið komið að svara honum; lauk hann máli sínu með vísu þessari:

Menskorð, er örmum ver annan,
orð mín skal fregna,
svikið því hverflynd mig hefur
og háðungar leitað:
„Þér varð ég frábitinn fyrri
en fullsödd þú værir;
nú er það af, sem var áður
í elskunnar gengi.“

Ég grét beisklega og svaraði honum með vísum þessum:

Munar þú sorgum mig særir
og sjálfur ert glaður,
sefur og sárgrátna lætur
í svartnætti vaka;
hjartans og hvarmanna milli
hef ég þig fólgið;
aldrei mun tryggðin því tæmast
né társtraumar augum.
Eiða þú vannst mér og várar
og vilmælum ginntir,
en er þér ann ég af hjarta
mér útskúfað lætur.
Viknarðu af ást minni eigi
og andvörpum þungum?
Áttu þá víst, að þú aldrei
andstreymið reynir?
Þig særi eg á legstein minn láta
liðinnar rista:
„Henni hélt ástin í ánauð
til aldurlags stundar.“
Sá ef þar syrgjandi kemur,
er sama hlaut reyna,
leiði hann mun yfir mínu
af meðaumkvun gráta.

En er hann heyrði þetta og sá, hversu ég grét, varð hann enn heiptugri og svaraði mér með vísu þessari:

Frábitinn eg varð þér eigi,
auðgrund, af leiða.
Sjálfskapa ertu hins illa,
því óverknað framdir;
með öðrum þú ástir mér deildir
og una mig hugðir,
en samneyti sannur guð hafnar
og svo gerir elskan.

(Þetta lýtur að einu trúaratriði Mahómetsmanna, sem tekur skýrt fram, að guð sé einn og hafi enga sér jafnhliða, guði eða verur.)

Ég grét án afláts og reyndi til að þíða hjarta hans, en hann gaf orðum mínum engan gaum, heldur kallaði hann til þrælsins og sagði: „Höggðu hana í sundur, ég virði hana að vettugi.“

Þrællinn myndaði sig til að hlýða og taldi ég mér dauðann vísan. Þá kom hin gamla kona allt í einu hlaupandi; hafði hún verið barnfóstra manns míns.

Hún féll til fóta honum, kyssti á tær honum og kallaði upp: „Sonur minn, ég særi þig fyrir elsku mína, er ég ól þig á brjóstum mínum og uppfæddi, gefðu henni líf. Minnstu þess, að sá, sem deyðir, skal deyddur verða, og að þú munt flekka nafn þitt og fyrirgera mannorði þínu, því nærri má geta, að illa mælist fyrir slíkum hermdarverkum.“

Um leið og hún sagði þetta, lét hún svo aumkvunarlega og grét svo ákaft, að manni mínum hlaut að renna til rifja.

Mælti hann þá við fóstru sína: „Svo skal vera; sakir elsku þinnar skal hún hafa líf, en hún skal hafa nokkur merki til minningar um glæp sinn.“

Því næst skipaði hann einum af þrælunum að misþyrma mér og gerði hann það óðara; hann reif skikkjuna af mér og lamdi mig svo mörg högg á brjóst og síður, að hold og hörund marðist og leystist í sundur og féll ég í óvit.

Lét hann síðan þrælinn, er þetta hefndarverk framdi, bera mig í afhús eitt, og þjónaði kerlingin mér þar vel og rækilega.

Ég lá rúmföst í fjóra mánuði. Loksins batnaði mér, en síðan hef ég borið örin, sem þér sáuð í gær. Undir eins og ég var farin að geta gengið út, ætlaði ég að hverfa aftur til húss þess, sem ég hafði átt eftir fyrri mann minn, en þá var autt svæði þar sem það hafði verið; hafði seinni maður minn í heiptaræði látið brjóta og gjöreyða, bæði þetta hús og öll önnur, sem voru í sama stræti.

Er slíkt ofríki vafalaust óheyrt, en hvar átti ég að kæra sakir mínar? Sá, sem olli, hafði búið svo um hnútana, að hann yrði ekki fundinn og sýndi ekki meðferð hans á mér, að hann átti alls kosti við mig? Hvernig skyldi ég þá dirfast að ákæra hann?

Nú leitaði ég allslaus og óhuggandi hælis hjá Sobeide, hinni elskulegu systur minni, og sagði ég henni ófarir mínar. Hún uppörvaði mig til að bera mótlæti mitt með stöðuglyndi og tók hún við mér með slíkum góðleik sem von var á af henni. „Svona er veröldin,“ sagði hún, „hún sviptir okkur oftast nær eigum og ástvinum og oft hvoru tveggja í einu.“

Sagði hún mér, til að færa sönnur á orð sín, hvernig afbrýði beggja systra sinna hefði orðið hinum unga konungssyni að fjörlesti. Hún sagði mér og, að þeim hefði verið breytt í tíkur. Því næst sýndi hún mér ótal elsku merki og kom til mín með yngstu systur mína, sem hafði flutt til hennar þegar móðir okkar andaðist. Þökkuðum við guði, að við allar þrjár höfðum aftur fandizt og ásettum okkur, að vera engum háðar framvegis, heldur halda óslítandi félagsskap.

Höfum við lengi lifað þessu kyrrðarlífi. Ég hef alla hússtjórn á hendi og þykir mér ekki nema gaman að kaupa nauðsynjar vorar. Í gærdag gekk ég út í þeim erindagjörðum og það, sem ég keypti, lét ég daglaunamann nokkurn bera heim til okkar; er hann skýr maður og smáskrítinn og höfðum við hann því hjá okkur til skemmtunar.

Þegar dagsett var, komu þrír förumunkar og beiddust húsaskjóls til morguns. Veittum við þeim það með vissum skilmála, sem þeir gengu að, og er við höfðum látið þá setjast til borðs með okkur; skemmtu þeir okkur með söng, eins og þeim er títt, þangað til barið var að dyrum.

Þar voru þá komnir þrír kaupmenn frá Mússúl, þekkilegir að sjá; höfðu þeir sömu bænar að biðja sem förumunkarnir og veittum við þeim beiðni þeirra með sama skilmála og hinum. En hvorki þeir né hinir héldu skilmálann. Áttum við bæði vald og rétt á að refsa þeim, en létum oss nægja að heimta af þeim, að þeir segðu ævisögur sínar; varð öll hefndin þessu næst, að við vísuðum þeim burt og sviptum þá húsnæði því, er þeir höfðu beðið oss um.“

Kalífinn Harún Alrasjid var nú ánægður, er búið var að seðja forvitni hans, og lét hann í ljósi undrun sína yfir því, er hann hafði heyrt.


88. nótt

Þegar kalífinn hafði fengið hnýsni sinni fullnægt, vildi hann sýna hinum konungbornu förumunkum vott tignar sinnar og göfuglyndis, en konunum blíðu og mildi.

Mælti hann sjálfur við Sobeide og lét ekki stórvezírinn ganga á milli: „Fenguð þér ekki að vita, hvar álfkonan ætti heima, sem þér sáuð fyrst í höggorms líki og sem lagði yður svo þunga byrði á herðar, eða lofaði hún yður ekki, að birtast yður einhverntíma og leysa tíkurnar úr álögum?“

„Konungur rétttrúaðra manna!“ anzaði Sobeide, „ég gleymdi að segja yðar hátign, að álfkonan gaf mér hárlokk og mælti, að ef ég einhverntíma þyrfti hennar við, þyrfti ég ekki annað en svíða nokkur af hárunum; mundi hún þá samstundis birtast mér, þó hún væri stödd fyrir handan Kákasusfjöll.“

„Hvar eru hár þessi?“ spurði kalífinn. En Sobeide kvaðst ávallt hafa geymt þau eins og sjáaldur augna sinna og jafnan borið þau á sér. Tók hún upp lítinn böggul, opnaðan til hálfs, og sýndi kalífanum.

„Heilar svo!“ mælti hann, „látið álfkonuna birtast; þér getið aldrei ákallað hana hæfilegar en þegar það er minn vilji.“

Sobeide féllst á það. Var þá inn borinn eldur og fleygði hún á hann öllum hárlokknum. Í sama vetfangi hristist höllin og stóð álfkonan frammi fyrir kalífanum í líki hlaðbúinnar konu.

„Drottinn rétttrúaðra manna!“ tók hún til máls, „ég er boðin og búin að hlýða skipun yðar. Kona sú, er ákallaði mig eftir yðar boði, hefur gert mér stóran greiða. Til þess að votta henni þakklátssemi mína hefndi ég hennar á hinum svikafullu systrum hennar og breytti þeim í tíkur, en ef yðar hátign vill svo vera láta, skal ég gefa þeim aftur sína náttúrlegu mynd.“

„Fagra álfkona!“ anzaði kalífinn, „svo gleðjið þér mig mest, ef þér auðsýnið þeim þessa náð. Mun ég á síðan leitast við að hugga þær, er þær hafa sætt svo þungri refsingu; þessu næst mun ég biðja yður einnar bænar, og er sú fyrir hönd konu þeirrar, er svo hræðilega hefur verið misþyrmt af manni hennar, sem hún ekki þekkti. Eruð þér svo margfróðar, að þér munuð og vita þetta; gerið það fyrir mín orð, að nefna mannfýlu þá, er lét sér ekki nægja, að vinna fádæmis grimmdarverk á henni sjálfri, heldur svipti hana þar á ofan öllum eigum sínum með rangsleitni. Furðar mig, að mér skuli eigi hafa borizt til eyrna svo herfilegar og þrælslegar aðfarir, sem eru tign minni til spotts og háðungar.“

„Gera skal ég yðar hátign það að skapi,“ anzaði álfkonan, „að gefa báðum tíkunum aftur sína fyrri mynd; skal ég taka örin af konunni, svo engin merki sjáist, að hún hefur verið barin, því næst skal ég nefna þann, sem misþyrmdi henni.“

Kalífinn lét Sobeide sækja báðar tíkurnar og er þær voru komnar, beiddi álfkonan um fulla skál af vatni og var henni færð skálin. Tautaði hún yfir henni einhver orð, sem enginn skildi, og stökkti vatninu síðan á Amíne og báðar tíkurnar. Breyttust þær í tvær forkunnar fagrar konur, en öll örin hurfu gjörsamlega á líkama Amíne.

„Konungur rétttrúaðra manna!“ mælti álfkonan, „nú skal ég segja yður, hver hinn ókunni maður er, sem þér viljið vita deili á. Hann er yður nákominn; það var hann Amín, elzti sonur yðar. Hafði hann heyrt mikið sagt af konunni og felldi brennandi ástarhug til hennar, þó hann þekkti hana ekki nema af afspurn. Beitti hann vélræðum til að ginna hana í hús sitt og gekk að eiga hana.

Má að vísu mæla honum nokkra bót, að hann lét berja hana; hún hafði farið of ógætilega að ráði sínu, og af afsökunum hennar mátti ráða, að henni hefði meira á orðið en í raun og veru var. Hef ég nú sagt allt það, er yður fýsir að vita og ég get úr leyst.“

Að svo mæltu kvaddi hún kalífann og hvarf.

En kalífinn undraðist stórum og var glaður yfir hamskiptun þeim, er orðið höfðu fyrir hans tilstilli. Eftir það breytti konungur þessi svo, að lengi mun í minnum haft. Fyrst gerði hann boð eftir Amín, syni sínum, og sagði honum, að hann vissi allt um hið leynilega kvonfang hans, og gerði honum í annan stað sanna grein fyrir, hvernig kaupmaðurinn var valdur að meiðslum Amíne. Þurfti kalífinn ekki að skora á son sinn, að taka hana í sátt, því hann gerði það samstundis ótilkvaddur.

Því næst lýsti kalífinn því yfir, að hann seldi Sobeide hönd sína og hjarta, og réði förumunkunum til að eiga hinar þrjár systurnar; tóku þeir þessum kosti feginshugar. Gaf kalífinn hverjum þeirra skrautlega höll í Bagdad til íbúðar, veitti þeim æðstu tignarembætti og tók þá í ráðuneyti sitt. Hinn æðsti skjalaritari í Bagdad skrásetti kaupmálana í viðurvist tilkvaddra votta, en Harún Alrasjid báðu menn þúsundfaldrar blessunar fyrir það, að hann hafði orðið lánsgjafi svo margra, sem höfðu þolað ótrúlega eymd.

Þegar Sjerasade lauk sögu þessari, var ekki kominn dagur. Veik hún sér því að soldáni og tók að segja nýja sögu.

Þessi texti er fenginn frá Netútgáfunni