Þúsund og ein nótt/Sagan af Sobeide

Úr Wikiheimild

Sobeide tók þannig til máls: „Drottinn rétttrúaðra manna! Saga sú, er ég ætla að segja yðar hátign, er einhver sú einstakasta, sem nokkur maður hefur heyrt. Ég og báðar svörtu tíkurnar erum þrjár systur, sammæðra og samfeðra, og skal ég segja yður, hversu kynlega það atvikaðist að þær breyttust í tíkur. Báðar konurnar, sem við eru og hjá mér eru til húsa, eru líka systur mínar; við erum samfeðra, en sundurmæðra. Sú heitir Amíne, sem örin hefur á brjóstunum, hin Safie, en ég heiti Sobeide.

Eftir föður okkar látinn var fjármunum hans skipt jafnt á milli okkar. Þegar báðar stjúpsystur mínar höfðu fengið sinn part, sögðu þær skilið við okkur og bjuggu sér með móður sinni. En við systurnar vorum kyrrar hjá móður okkar, sem þá var enn á lífi, en andaðist síðar og lét hverri okkar eftir sig þúsund sekkínur.

Þegar við vorum orðnar fjár okkar ráðandi, giftust báðar eldri systur mínar, fóru burt með mönnum sínum og létu mig sitja eina eftir. Undir eins eftir brúðkaupið seldi maður annarrar þeirra allar eigur sínar; fóru þau síðan til Afríku, bæði með fé það, er hann fékk fyrir þær og fjármuni hennar. Eyddi hann þar öllu fé sínu og konu sinnar og þegar hann var alls laus, rak hann hana frá sér og hafði ósannindi að yfirvarpi sér til réttlætingar.

Nú kom hún aftur til Bagdad og hafði orðið að þola mestu hörmungar og volæði á slíkri langferð; hún leitaði skjóls hjá mér og var þá svo aumkvunarlega til reika, að hvert steinhjarta mátti vikna. Fagnaði ég henni með ástúð, sem hún ætíð mátti eiga von á af mér. En er ég spurði hana, hvað hefði steypt henni í þetta ólán, sagði hún mér grátandi frá hinu illa athæfi manns hennar og hversu ósæmandi meðferð hún hafði orðið fyrir. Komst ég þá svo við að ég tárfelldi með henni; fylgdi ég henni því næst til lauga, og gaf henni klæðnað af sjálfri mér.

„Elsku systir!“ sagði ég við hana, „þú ert okkar elzt og ég álít þig sem móður mína. Meðan þú varst burtu, hefur guð blessað mín litlu efni og atvinnu þá, sem ég hef varið þeim til; hef ég stundað silkiorma rækt og heppnazt vel. Treystu því, að allt, sem ég á, er líka þín eign og skal það vera þér jafn heimilt, sem sjálfri mér.“

Nú lifðum við saman marga mánuði í bezta samlyndi. Oft hugsuðum við til hinnar þriðju systur og furðuðum okkur á því, að við ekkert skyldum frétta af henni; en allt í einu kom hún sjálf og var jafn aumlega stödd sem hin elzta. Hún hafði orðið fyrir sömu meðferð af manni sínum og fékk hún hjá mér sömu viðtökur og hin.

Nokkru síðar gerðu báðar systur mínar mér uppskátt, að þær ætluðu að giftast, til þess að vera mér ekki lengur til byrði. Svaraði ég, að ef þeim gengi ekki annað til, væri þeim þeirra hluta vegna óhætt að vera hjá mér, því eigur mínar nægðu okkur þremur til sómasamlegs framfæris.

„En ég er hrædd um,“ sagði ég, „að þessi gifting sé girndarráð ykkar beggja. Sé svo, hlýt ég að játa, að mér kemur það á óvart; getið þið hugsað til að giftast í annað sinn, sem hafið haft svo lítið lán af hjúskapnum? Þið vitið, hversu góður maður er sjaldfenginn; hlýðið því ráðum mínum og látum okkur búa saman, og gera hverri annarri lífið svo inndælt, sem okkur er unnt.“

Reyndi ég nú að telja þeim hughvarf, en þær höfðu einsett sér að giftast og gerðu það líka.

En nokkrum mánuðum eftir komu þær til mín og færðu sér allt til afsökunar, sem þær gátu, að þær hefðu ekki fylgt mínum ráðum. „Þú ert okkar yngst,“ sögðu þær, „en miklu vitrari en við; viljir þú aftur taka okkur sem ambáttir þínar, skulum við framvegis varast slík glappaskot.“

„Elsku systur!“ svaraði ég, „hjartaþel mitt ykkur til handa hefur ekki breytzt síðan við skildum; njótið því með mér alls, sem ég á.“

Ég faðmaði þær að mér og lifðum við nú saman eins og fyrri.

Nú leið svo eitt ár, að okkur skildi aldrei á, orð né verk, og lét guð efni mín blessast, svo ég ásetti mér að fara sjóferð í verzlunarerindum og eiga nú meira á hættu en áður. Fór ég því með báðum systrum mínum til Balsora og keypti þar skip með fullkomnum útbúnaði og fermdi það varningi frá Bagdad.

Sigldum við burt í hagstæðum vindi og vorum skjótt komnar út í Persalandsflóa. Síðan stýrðum við til Indíalands og vorum tuttugu daga í hafi unz við sáum land. Beint fram undan oss var fjall nokkurt afar hátt og tilsýndar eins og undir því stæði borg ein, mikil og fögur. En blásandi byr bar oss skjótt til hafnar og köstuðum vér þar akkeri.

Ég hafði ekki eirð á að bíða eftir systrum mínum og lét því róa mig eina til lands; gekk ég síðan rakleiðis til borgarhliðanna. Þar sá ég fjölda varðmanna með stafi í höndum, sátu sumir, aðrir stóðu, en allir voru þeir svo voðalegir, að ég varð dauðhrædd. En er ég sá, að þeir hrærðust ekki úr stað, og jafnvel augu þeirra bærðust ekki, þá herti ég upp hugann, kom nær og sá að þetta voru steingjörvingar.

Því næst fór ég inn í borgina og gekk um mörg stræti; sá ég hingað og þangað menn í ýmsum stellingum, en allir voru þeir grafkyrrir og að steini orðnir. Í þeim hluta borgarinnar, sem kaupmenn höfðu búið, voru flestar sölubúðir lokaðar, en í þeim, sem opnar stóðu, sá ég líka steinmenn. En er ég leit upp til reykháfanna, sá ég engan reyk upp stíga og réði ég af því, að allt mundi orðið að steini innanhúss og utan.

Í miðri borginni var autt pláss og mikið um sig. Þar rak ég augun í stórar dyr með vængjahurðum, sem lagðar voru gullplötum og stóðu báðar opnar. Silkifortjald var dregið fyrir og uppi yfir hékk lampi. Þegar ég hafði virt fyrir mér stórhýsi það, er dyrnar voru á, þá efaði ég ekki, að það mundi vera höll konungs þar í landi. Skildi ég ekki í því, að ég skyldi ekki hafa hitt þar nokkurn lifandi mann, og gekk því inn í höllina í þeirri von, að ég mundi loksins einhvern finna. Dró ég fortjaldið frá, en undraðist nú hálfu meira en áður, því ég sá ekki í fordyrinu nema varðmenn í steins líki; sátu sumir, en sumir stóðu eða lágu. Gekk ég því næst inn í víðan garð, og voru þar margir menn, sem sýndust fara eður koma, en hrærðust ekki úr stað, því þeir voru orðnir að steini eins og hinir. Þaðan kom ég í annan og þriðja garð, en hvarvetna var hin sama auðn og alstaðar ríkti ógurleg dauðakyrrð.

Þegar ég kom í hinn fjórða garð, sá ég ljómandi fagra byggingu; voru þar gullgrindur fyrir gluggum og hugði ég því, að þetta mundi vera aðsetur drottningar. Gekk ég þar inn og kom í sal nokkurn mikinn; var þar fjöldi svartra geldinga í steins líki; þaðan kom ég í herbergi harðla ríkulega búið, og var þar kona ein í steins líki. Sá ég, að hún mundi hafa verið drottning, því hún hafði kórónu á höfði og hálsmen úr hnöttóttum perlum, sem voru stærri en heslihnetur. Þegar ég skoðaði perlur þessar nálægt, þótti mér, sem enginn mætti fegra sjá.

Ég var nú nokkra stund að dást að auðæfum og skrautbúnaði herbergis þessa; mest fannst mér um gólftjaldið, svæflana og legubekkinn, sem breitt var yfir indverskt klæði; var dúkurinn sjálfur með gulls lit, en á hann voru glitaðar manna- og dýramyndir með silfurlegum saumi, svo mesta snilld var á....


83. nótt[breyta]

Ég fór úr herbergi steindrottningarinnar og gekk um mörg skrautleg herbergi þangað til ég kom í óvenju stóran sal; var þar hásæti úr gulli og margar tröppur upp að því; það var og skreytt stórum smarögðum. Yfir hásætinu var hvíla úr dýrindis dúkum, alsett perlum. En það undraðist ég mest, að skínandi birta stóð af rúminu. Lék mér forvitni á, hvað því mundi valda; og gekk því upp til hásætisins og sá þar á litlum stóli demant, viðlíka stóran og strútfugls egg, og svo skæran að ekki var minnsti galli á. En svo var hann óumræðilega bjartur, að ekki mátti í gegn sjá við dagsbirtuna.

Fyrir ofan rúmið brunnu tvö ljós, sitt hvoru megin, og þóttist ég af því mega ráða, að einhver lifandi vera væri í þessari dýrðlegu höll, því ekki gátu ljósin logað af sjálfu sér. Marga aðra merkilega hluti varð mér starsýnt á í herbergi þessu; mundi það ekki hafa orðið verði virt, þó ekkert hefði þar verið annað en demantinn.

Því næst gekk ég um enn þá önnur herbergi, því hvarvetna voru dyr opnar eða hurðir hnignar í gátt; voru þau eins fögur og hin, er ég hafði séð. Ég skoðaði einnig eldhúsin, vista- og fatabúrin. Var hvarvetna ógrynni auðæfa saman komið og svo varð ég frá mér numin af því að sjá þessi undur, að ég gleymdi öllu. Ég hugsaði hvorki um skip mitt né systur mínar, heldur einungis um að svala forvitni minni.

Meðan ég var þarna, hallaði út degi og tók að dimma; rankaði ég þá við mér og hugsaði mér, að nú skyldi ég fara. En er ég leitaði burt, villtist ég í herbergjunum og ásetti mér loksins að láta fyrir berast um nóttina í hinu stóra herbergi þar sem var hásætið, rúmið, stóri demantinn og hin logandi ljós, en er morgnaði ætlaði ég að hverfa aftur til skips míns.

Ég fleygði mér niður í rúmið og var ekki trútt um, að hrollur væri í mér, þar sem ég var alein á svo eyðilegum stað; gat ég því ekki sofnað fyrir hræðslu.

Um miðnætur skeið heyrði ég manns rödd eins og einhver læsi hátt í ritningu vorri og því líkast, sem siður er í musterum vorum. Þá varð ég sárfegin og stóð upp, tók ljós og gekk úr einu herbergi í annað á hljóðið, þangað til ég kom að dyrum stofu einnar; var auðheyrt að hljóðið kom þaðan. Setti ég þá ljósið niður og gægðist inn um rifu, sem var í hurðinni. Þar inni var sem í bænhúsi og hvolfstúka í vegginn, sem í musterum, til bænagjörðar. Þar voru og hengilampar og tvær kertistikur með stórum og hvítum vaxkertum, sem logaði á; lengra burtu sá ég litla ábreiðu viðlíka og þær, sem tíðkast meðal vor; þegar vér föllum á knébeð.

Á henni sat ungur maður, fríður sýnum og las með guðrækni í kóraninum, sem lá fyrir framan hann á litlu borði. Við þessa sjón brá mér vel og fór ég að hugsa um, hvers vegna þessi mundi vera sá eini maður, sem á lífi var í borginni, þar sem allt var orðið að steini, og efaði ég ekki, að eitthvað fáheyrt undur mundi valda þessu.

Af því að hurð var opin í hálfa gátt, lauk ég henni upp, gekk inn og staðnæmdist frammi fyrir bænastúkunni svo mælandi með skýrri raust: „Lofaður sértu, guð, sem lézt oss farsællegrar ferðar auðið verða. Haltu hinni sömu vernd yfir oss af miskunn þinni og lát oss aftur komast til vors föðurlands. Bænheyr mig, drottinn, og lát ákall mitt koma til þinna eyrna.“

Hinn ungi maður leit upp til mín og mælti: „Seg mér, góða kona, hver ert þú og hvað hefur leitt þig til þessarar eyddu borgar? Ég skal aftur segja þér, hver ég er og hvað mig hefur hent, hvernig íbúarnir eru komnir í það ástand, sem þú hefur séð, og hvers vegna ég einn komst hjá þessu skelfilega óláni.“

Ég sagði honum þá í stuttu máli, hvaðan ég kæmi, og hverra erinda ég færi, og að ég hefði komizt farsællega til hafnar eftir tuttugu daga útivist. Því næst beiddi ég hann að gera sem hann hefði lofað og sagði ég honum, hversu forviða ég hefði orðið, þegar ég sá hina voðalegu auðn, sem alstaðar var.

„Bíddu ofurlítið við,“ anzaði yngismaðurinn, lét aftur kóraninn, stakk honum í dýrmætt hulstur og lagði inn í stúkuna.

En á meðan virti ég hann vandlega fyrir mér; þótti mér þá yfirbragð hans svo fagurt og þekkilegt, að hjarta mitt hlýnaði af einhverjum yl, sem ég ekki hafði orðið vör við fyrri. Hann lét mig setjast hjá sér og gat ég þá ekki á mér setið, að tala til hans með slíkum svip, að hann vel mátti sjá, hversu mér varð hann að skapi.

„Ástúðlegi yngismaður,“ sagði ég, „enginn getur verið bráðlátari en ég, þar sem ég bíð útskýringar á svo mörgum kynlegum hlutum, sem fyrir mig hafa borið síðan ég fyrst sté fæti í borg þessa, og verður forvitni minni aldrei ofbrátt svalað. Seg mér fyrir alla muni, fyrir hvert kraftaverk komst þú einn lífs af, þar sem svo margir tortímdust með svo kynlegum hætti, að slíks eru ekki dæmi?“


„Ég hef nógsamlega heyrt það á bæn þinni,“ mælti hinn ungi maður, „að þú trúir á sannan guð; skaltu nú heyra nýjan vott almættis hans. Borg þessi var höfuðborg voldugs ríkis, er faðir minn drottnaði yfir. Hann og öll hirðin, borgarmenn og gjörvallir þegnar hans voru Magar og tilbáðu eldinn í stað allsvaldanda guðs.

Þó að foreldrar mínir væru heiðingjar, var ég samt svo lánsamur, að mér í bernsku var fengin góð og rétttrúandi fóstra; hún kunni kóraninn utanbókar, og gat þýtt hann til hlítar.

Oft sagði hún þetta við mig: „Kóngsson minn, það er ekki nema einn sannur guð; varastu að trúa á aðra guði eða tilbiðja þá.“

Hún kenndi mér arabiska tungu og lét hún mig læra að lesa á kóraninum. Þegar skilningsþroski minn leyfði, útskýrði hún fyrir mér alla torskilda staði í þessari ágætu bók, og blés í brjóst mér anda hennar, svo að hvorki faðir minn né nokkur annar vissi af. Þegar hún andaðist, hafði hún frætt mig svo, að ég trúði af hjarta á sannindi hinnar mahómedönsku trúar.

Eftir dauða hennar hélt ég staðfastlega við sannfæringu þá, er hún hafði innrætt mér, og hafði ég andstyggð á eldsdýrkun. Leyndi ég föður minn trú minni eftir ráði hennar, því ella mundi hann hafa ráðið mig af dögum.

Fyrir eitthvað þremur árum og nokkrum mánuðum hljómaði snögglega drynjandi rödd um alla borgina og mælti svo skilmerkilega, að hver mátti heyra, þessi orð:

„Þér borgarmenn! Leggið niður eldsdýrkun og tilbiðjið hinn eina almáttuga, miskunnsama guð!“

Þusti þá fólkið dauðhrætt til föður míns, sem var konungur borgarinnar og beiddi hann að segja sér, hvað hin ógurlega rödd ætti að þýða. Svaraði hann þá: „Látið ekki hræða ykkur né snúa frá trú ykkar.“

Nú treystu menn orðum hans og héldu áfram eldsdýrkun, en að ári liðnu heyrðist hin sama rödd og kom fyrir ekki; leið svo ár þangað til hún heyrðist í þriðja sinn og fór á sömu leið.

En er enginn snerist til réttrar trúar, þá var það á síðasta degi hins þriðja árs um óttu skeið, að allir borgarmenn í einum svip urðu að steinum, hver þar sem hann var, eins og hann stóð og var á sig kominn. Ekki fór betur fyrir föður mínum, konunginum; hann breyttist í svartan stein eins og hann er hér í höllinni og drottningin, móðir mín, hafði sömu afdrif.

Ég er sá eini, sem guð hlífði við þessari skelfilegu refsingu. Upp frá því hef ég þjónað honum enn þá rækilegar en fyrr, og veit ég fyrir víst, að hann hefur sent þig mér til huggunar. Fyrir það sé honum þökk og lof, því mér sárleiðist í þessari einveru.“

Öll þessi saga og þó einkum niðurlagið geðjaðist mér svo vel, að ég varð gagntekin af elsku til hins unga manns. „Kóngsson!“ sagði ég við hann, „guðleg forsjá hefur vafalaust flutt mig til þinna hafna, svo að þér gæfist kostur á að skilja við svo ógeðfelldan stað. Skip það, er ég kom á, getur verið vottur um, að ég er nokkurs metin í Bagdad, og skildi ég þar eftir ærna fjármuni. Dirfist ég því, að bjóða þér skjól hjá mér, þangað til drottinn rétttrúaðra manna og jarl spámannsins, sem þú trúir á, veitir þér tilhlýðilega sæmd.

Þessi nafnfrægi konungur situr í Bagdad; munt þú komast að raun um, jafnskjótt sem hann veit þig kominn til höfuðborgar sinnar, að enginn leitar hans fulltingis árangurslaust. Hitt er ógjörningur, að þú dveljir lengur, þar sem allt hlýtur að vera þér til ama og óyndis. Býð ég þér skip mitt og máttu ráða því, sem þér líkar.“

Hann þáði boð mitt, og það sem eftir var nætur, vorum við að tala um ferð þá, er við áttum fyrir hendi.

Þegar dagur var kominn, fórum við úr höllinni og héldum til hafnarinnar; höfðu systur mínar, skipstjórnarmaður og ambáttir mínar verið sem á glóðum meðan ég var burtu. Sýndi ég systrum mínum kóngssoninn og skýrði þeim frá, hvers vegna ég hefði ekki komið fyrr og hvernig ég hefði hitt hann; sagði ég þeim líka sögu hans og hvers vegna hin fagra borg hefði lagzt í eyði.

Hásetar vorir voru marga daga að skipa upp vörur þær, er vér höfðum meðferðis, og að hlaða skipið í þeirra stað gulli, silfri, gimsteinum og öðru, sem fémætt var í höllinni. Urðum vér þó að skilja eftir öll húsgögn og ógrynni gullgersema, því vér gátum ekki flutt það. Hefði ekki veitt af mörgum skipum, til að flytja öll þau auðæfi til Bagdad, sem við sáum.

En er skip vort var hlaðið gripum þeim, er vér höfðum kosið úr, tókum vér svo miklar vistir og vatn með oss, sem vér hugðumst þurfa til ferðarinnar. En vér áttum töluvert eftir af matvælum þeim, sem vér höfðum með oss frá Balsora. Loksins sigldum vér burt í hagstæðasta byr....


85. nótt[breyta]

Við systurnar og hinn ungi kóngsson lifðum nú saman í mesta dálæti, en því fór verr, að samlyndi þetta stóð ekki lengi. Systur mínar gerðust afbrýðifullar út af elsku þeirri, er við kóngsson bárum hvort til annars. Því var það einhvern dag að þær spurðu mig fremur græskulega, hvað gera skyldi við kóngssoninn, þegar við kæmum til Bagdad.

Skildi ég vel, að þær spurðu ekki að þessu til annars en komast fyrir, hvað mér væri í hug. Svaraði ég þeim því eins og í gamni, að ég mundi kjósa mér hann til eiginmanns, en sneri mér um leið að kóngssyni og mælti: „Kóngsson minn! Ég bið þig að veita mér samþykki þitt; undir eins og við komum til Bagdad, býðst ég til að verða ambátt þín og þjóna þér sem einvöldum herra mínum.“

„Ég veit ekki, hvort þú segir þetta í glensi,“ anzaði kóngsson, „en það er af mér að segja og því játa ég hátíðlega í viðurvist systra þinna, að upp frá þessari stund þigg ég af heilum huga kost þann, er þú býður, en ekki þannig, að ég taki þig í ambáttar stað, heldur að þú verðir eiginkona mín og drottning, og skal ég alls engu ráða um gjörðir þínar.“

Við þessi orð skiptu systur mínar litum og komst ég að því, að þær upp frá þessu báru ekki sama hugarþel til mín sem áður.

Nú vorum við komin út í Persalandsflóa í námunda við Balsora, og hugðum að við mundum ná þangað næsta dag, því við höfðum ljúfasta leiði.

En um nóttina meðan ég svaf, sættu systur mínar lagi og fleygðu mér í sjóinn. Eins fóru þær með kóngsson, og drukknaði hann. En ég hélt mér nokkra stund upp úr kafi og var það sannarlegt kraftaverk, að mig bar á grunn, svo að ég gat fótað mig. Sá ég þá eitthvað dökkt og hugði land vera, þó ég gæti ekki glöggt séð deili á, því dimmt var yfir. Óð ég nær og náði landi; ljómaði þá af degi og sá ég, að ég var komin á litla eyðiey, sem lá eitthvað tuttugu vikur sævar frá Balsora. Þornuðu klæði mín skjótt í sólskininu, og glæddist hjá mér vonin, að ég mundi komast lífs af, því þegar ég reikaði um eyna, fann ég margskonar ávexti og hreint uppsprettuvatn.

Ég hvíldi mig í forsælunni, en ekki vissi ég fyrri til en ég sá digran og langan flugdreka skreiðast að mér; stritaðist hann við og engdist til ýmsra hliða; tungan blakti í gini hans af mæði, og réð ég af því, að eitthvað mundi ofsækja hann. Spratt ég því upp og sá að annar digrari höggormur hafði glefsað í sporð honum og leitaðist við að gleypa hann.

Ég kenndi í brjósti um hann og flýði hvergi, heldur hafði svo mikinn hug í brjósti, að ég þreif stein upp af jörð og slengdi honum af alefli á stærri höggorminn. Kom steinninn í höfuð honum og drapst hann þegar. Óðar en hinn losnaði, þandi hann út vængina og flaug. Horfði ég lengi á eftir honum eins og annarri undrasýn, en er ég missti sjónar á honum, settist ég annarsstaðar í forsælunni og sofnaði.

Þér megið geta nærri, herra, hvað mér varð hverft við, þegar ég vaknaði og sá hjá mér svarta konu, fjörlega í yfirbragði og svipfríða, sem teymdi tvær svartar tíkur í bandi.

Stóð ég þá upp og spurði, hver hún væri, og svaraði hún: „Ég er flugdrekinn, sem þú frelsaðir áðan frá grimmum óvin; hugði ég að ég mundi sýna þér mesta þakklátssemi með því, er ég nú hef gert.

Ég vissi af svikum systra þinna og þegar ég var sloppin fyrir þína drengilegu hjálp, kallaði ég á vinkonur mínar, sem eru álfkonur eins og ég, til þess að koma fram hefndum fyrir þig; fluttum við allan skipsfarm þinn til geymsluhúsa þinna í Bagdad og sökktum síðan skipinu.

Báðar þessar svörtu tíkur eru systur þínar og hef ég brugðið þeim í þetta líki. En sú refsing er ekki nóg og vil ég að þú farir með þær eins og ég legg fyrir þig.“

Að svo mæltu tók álfkonan öðrum handleggnum yfrum mig, en með hinum tók hún báðar tíkurnar og flutti okkur í einum svip til Bagdad; fann ég þá í forðabúrum mínum öll þau auðæfi, sem á skipinu höfðu verið.

En áður en hún skildi við mig, fékk hún mér báðar tíkurnar og mælti: „Í nafni hans, sem drottnar yfir hafinu, skipa ég þér að lemja hvora systur þína um sig hundrað keyrishögg á hverri nóttu, til hegningar fyrir ódáðaverk það, er þær unnu á þér og hinum unga kóngssyni, sem þær drekktu; bregðir þú út af þessu skaltu sæta sömu refsingu og sjálf breytast í tík.“

Var mér nauðugur einn kostur að heita henni hlýðni.

Síðan hef ég þvert á móti skapi minu farið þannig með systur mínar á hverri nótt, sem yðar hátign hefur séð. Sjá þær bezt á tárum mínum, hvað sárnauðugt mér er að hlýðnast svo grimmdarfullri skyldu, og veit ég þér skiljið, að mér er miklu fremur vorkennandi en ámælandi.

Viljið þér vita frekar mér viðvíkjandi, þá getur Amine, systir mín, skýrt frá öllu, sem á vantar.“

Kalífinn hafði hlýtt með undrun á sögu Sobeide og lét nú stórvezír sinn biðja Amíne að segja sér, hvernig hún hefði fengið örin....


86. nótt[breyta]

„Herra!“ mælti Sjerasade við soldán Indíalands, þegar Dínarsade, bráðlát og sólgin í framhaldið, hafði vakið hana. „Amíne sagði kalífanum sögu sína þannig: